Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2007, Blaðsíða 13
kennara og annarra tónlistarmanna batnað til muna, þau höfðu fengið spennandi verkefni og leið vel í landinu, höfðu skapað sér tilveru hér á landi. Hér er hæfileg þensla og spenna í þjóð- félaginu, sem gerir það ákjósanlegan bústað fyrir þau. Peter líkti sambandinu við Ísland, eða frekar veru sinni í landinu, við hjónaband. Mað- ur þarf á einhverjum tímapunkti að taka ákvörðun um að maður ætli að lifa lífinu á ein- hvern hátt, að vera í hjónabandi; búa í ókunnu landi. Núna er Peter kennari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hann hefur auk þess verið meðlimur í ýmsum kamm- erhópum, en þar ber helst að telja Tríó Reykja- víkur sem auk hans er skipað Guðnýju Guð- mundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara frá árinu 1995 og Tríó Romance ásamt Martial Nardeau og Guðrúnu Birg- isdóttur, hann hefur spilað einleik með Sinfón- íuhljómsveitinni og er nú meðal okkar virtustu píanóleikara og kennara. Lenka hefur í mín eyru verið kölluð eitt best geymda tónlistarleyndarmál þjóðarinnar; þar sem hún hefur unnið störf sín með hægð, verið organisti og kórstjóri, en nú hefur hróður henn- ar breiðst út hægt og rólega og fleiri vita nú að hún er fyrsta flokks organisti. Antonia Hevesi – kom frá Ungverjalandi Antonía Hevesi kom stuttu síðar eða árið 1992 og ætlaði upphaflega bara að vera hér í eitt ár. Hún hafði ráðið sig til kennslu í Finnlandi sem átti að hefjast árið 1994 og hafði verið á finnsku– námskeiði; reyndar tekið finnskupróf daginn áður en hún kom til Íslands. Kunningjar hennar voru á Íslandi og þekktu til á Siglufirði og báðu hana að sækja um starf þar og kenna þennan tíma sem hún beið eftir að halda til Finnlands. Stuttu áður en hún ætlaði að halda til baka heyrði hún ungan mann syngja úti á torgi. Hann var að syngja eitthvert rokklag, en röddin var þvílík að Antonía ákvað að þessi drengur yrði að komast í nám. Hún hætti við að fara til Finn- lands og lagði sitt af mörkum til að draga dreng- inn í söngtíma. Þetta var Hlöðver Sigurðsson sem nú er í framhaldsnámi á Ítalíu hjá Kristjáni Jóhannssyni. Um það bil ári eftir að hún hafði útskrifað Hlöðver og komið honum til Lundúna í framhaldsnám flutti hún til Hafnarfjarðar, hún sá auglýst þar spennandi starf og langaði til að komast í hringiðu tónlistarlífsins í landinu. Það hefur henni tekist; hún er æfingapíanisti í Ís- lensku óperunni og listrænn stjórnandi og pí- anóleikari með hádegistónleikaröð Hafn- arborgar og hefur með því skapað sjálfri sér skemmtilegan starfsvettvang. Agnieszka Malgorzata Panasiuk – kom frá Póllandi Agnieszka Malgorzata Panasiuk píanóleikari er yngst þeirra sem ég ræddi við. Pólskir tónlistar- kennarar sem höfðu verið á Akureyri um nokkra hríð settu upp auglýsingu í Tónlistarhá- skólanum í Gdansk þar sem Agnieszka var við nám og sennilega hefur blundað í henni einhver ævintýraþrá – henni þótti Ísland framandi og spennandi og sótti um starfið. Hún kom hingað til lands ásamt manni sínum Pawel sem er selló- leikari, stuttu eftir að hún lauk mastersnámi ár- ið 1999 og settist að á Akureyri. Hún hafði starf- að sem píanóleikari við Johann Srauss hljómsveitina í Varsjá og kennt börnum og ung- lingum á aldrinum 7-19 ára í heimalandi sínu um fjögurra ára skeið áður en hún kom hingað, en samt telur hún að hér hafi hún orðið fullorðin. Í Póllandi er fjölskyldan og ræturnar, en hér hef- ur hún búið flest sín fullorðinsár og hér finnst henni tónlistarlífið og -umhverfið frjótt og spennandi. Þeim hjónum líður vel hér og þess vegna hafa þau ákveðið að vera hér áfram. Sem dæmi um það hversu vel þeim líður hér á landi má geta þess að héðan fór Agnieszka til London árið 2003 og stundaði framhaldsnám við Royal Academy of Music í eitt ár og lauk þaðan post- graduate námi. Henni gekk reyndar það vel strax á inntökuprófinu að hún fékk styrk til námsins, svokallaðan Krein-scholarship. Hún naut mikillar velgengni í Englandi, spilaði með mörgum einleikurum og kammerhópum, og hélt m.a. hádegistónleika í St.-Martin-in-the-Fields, á St.Johńs Smith Square og í Senat House Blo- ombsbury. Árið 2004 keppti hún svo til úrslita í tónlistarkeppninni Delius Prize. Samt tók hún þá ákvörðun eftir árið í London að snúa “heim til Íslands. Það sem Agnieszka nefndi að sér fyndist fyrst og fremst sérstakt við Ísland er hversu tónlistarástundun er útbreidd í þjóðfélaginu. Stór hluti þjóðarinnar syngur í kórum, og þar finnst fólk á öllum aldri; allt frá kornungum börnum til ellilífeyrisþega. Stór hluti barna lær- ir einhvern tímann á hljóðfæri, mörg þeirra eru í lúðrasveitum eða í bílskúrsböndum – allir eru í tónlist! Og gæðin eru mikil, fólk stundar tónlist- ina af heilum hug. Þetta finnst Agnieszku sér- staklega heillandi við þjóðina, ellilífeyrisþegar í kór, er nokkuð sem henni finnst fallegt og hér vill hún starfa. Hljómsveitarstjórar og aðrar flökkukindur Margir mikilhæfir hljómsveitarstjórar hafa unnið á Íslandi – sumir þeirra í nokkur ár – og síðan hafa þeir snúið sér að öðrum hljóm- sveitum annars staðar í veröldinni. Fæstir þeirra hafa haft hér fasta búsetu, þannig að ekki hefur verið minnst á þá sérstaklega fyrr en hér í lokin. Hér má telja upp marga, Olaf Kielland, Hermann Hildebrandt, Bohdan Wodiczko, Alf- red Walter, Jean-Pierre Jacquillat, Karsten Andersen, Paul Zukovsky, Petri Sakari, Osmo Vänskä, Rico Saccani, Rumon Gamba … Og svo margir aðrir … Það er erfitt að segja skilið við efni af þessu tagi og sífellt koma ný nöfn upp í hugann; hvað með Alinu Dubik þá stórkostlegu söngkonu, hvað með Gerrit Schuil píanista, Richard Simm pían- ista sem kom fram á Listahátíð í fyrra og þeir sem þekkja til vita að er frábær tónlistarmaður, hvað með þá Steef van Oosterhout, Frank Aarnink og Jorge Rene Lópes slagverksleikara, hvað með Kurt Kopecky tónlistarstjóra Óp- erunnar, hvað með … Lokaorð Ef hægt er að draga einhverja niðurstöðu af þessum greinaflokki um erlenda tónlistarmenn á Íslandi er hún helst sú að þetta fólk hafi gert það mögulegt að halda uppi öflugu tónlistarlífi á landinu, sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar. Það setti ný viðmið, kenndi Íslendingum bæði að leika tónlist og njóta hennar. Tungumál tón- listarinnar er alþjóðlegt og tónlistarmenn hafa alltaf verið á faraldsfæti, þeir fara þangað sem vinnu er að hafa og fólk vill hlusta. Þessu höfum við notið góðs af og meira en það, þetta fólk var ásamt nokkrum vel menntuðum heimamönnum forsendan fyrir því sem ég vil kalla tónlistar- sprenginguna miklu hér á landi á 20. öld, en öld- um saman hafði íslenskt tónlistarlíf verið mjög fábreytt. Þegar tók að líða á öldina fjölgaði Ís- lendingum sem fóru í langt tónlistarnám til ann- arra landa. Þetta fólk skilaði sér flest aftur heim og hefur nú tekið við hlutverkinu sem helstu burðarásar innlends tónlistarlífs; en sem betur fer er tónlistin alþjóðleg í eðli sínu og flæði fólks á milli landa því mögulegt. Þetta er samkvæmt aldagamalli hefð tónlistarmanna. Það sem er merkilegast við þessa sögu sam- skipta Íslendinga og erlendra tónlistarmanna sem settust hér að er hversu farsæl þau hafa verið; það hversu móttækilegir Íslendingar voru fyrir evrópskum hákúltúr annars vegar og hins vegar hversu vel útlendingarnir aðlöguðust þessu einangraða þjóðfélagi. Það hversu margir ílentust hér þótt þeir ætluðu bara að stoppa stutt er í raun merkilegast. Og hvernig liti myndin út ef þessi straumur hefði ekki legið hingað? Ég sé fyrir mér að auð- vitað hefðu spurnir borist hingað fyrr eða síðar af fiðlum, píanóum og jafnvel sinfóníuhljóm- sveitum, menn hefðu reynt að potast í þessu sjálfir, og núna væri hér kannski lítil áhuga- mannahljómsveit sem spilaði jafnvel tvisvar á ári … En auðvitað eru svona vangaveltur út í hött. Ísland hefur þrátt fyrir allt aldrei verið ein- angrað frá umheiminum og svo aðeins sé rifjað upp frá fyrstu greininni, þá hefur margt í sjálf- um rímunum, sem okkur finnst vera það þjóð- legasta af öllu þjóðlegu, verið rakið til Evrópu á miðöldum, bæði bragurinn og tónlistin. Stemm- urnar eru líklega einhver samsuða úr því sem fyrir var og erlendum áhrifum, og það er íslensk tónlistarsaga í hnotskurn.  Bjarki Bjarnason: Tónlist og tónlistarmenn á Íslandi, Sin- fóníuhljómsveit Íslands, Saga og stéttatal, Reykjavík: Sögu- steinn 2000 Einkaviðtöl við: Agnieszku Malgorzata Panasiuk Antoniu Hevesi Peter Máté samspil Morgunblaðið/ÞÖK Antonia Hevesi Hún heyrði ungan Íslending syngja úti á torgi og ákvað að koma honum til mennta. Hún er hér enn. Höfundur lauk prófi í tónlistarfræði við LHÍ vorið 2005 og starfar á Ríkisútvarpinu. Morgunblaðið/Brynjar Gauti Peter Máté Á einhverjum tímapunkti þarf að taka ákvörðun um að lifa lífinu á einhvern hátt, að vera í hjónabandi; búa í ókunnu landi. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2007 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.