Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2007, Blaðsíða 16
Á SÝNINGUNNI má sjá groddalega næfa bleikmálaða plastskúlptúra sem sýna hluta fóta í yfirstærð, þar sem misjafnt er hvort og hversu margar tær vantar. Stökum tám úr sama efni er raðað upp í hringlaga form á vegg svo minnir á geislandi baug. Tvö myndbandsverk eru á sýningunni sem sýna sama gjörning frá tveimur hliðum, þar sést nærmynd af lista- manninum með fagurlagaða fætur upp að andlitinu lesa upp sögu úr Þór- arins þætti Nefjólfssonar. Sagan sem Magnús Pálsson les upp fjallar um veðmál hins óvenjulega limaljóta Þór- arins Nefjólfssonar við Noregskon- ung um hvort ljótari væri fótur hans með fimm ferlegum tám eða hinn, sá sem vantaði á stórutána. Athugulir áhorfendur taka eftir að eina raun- verulega tá vantar á annan fallega fót- inn á myndbandinu og geta velt þessu ágreiningsefni fyrir sér með öfugum formerkjum. Í viðtali Rögnu Sigurðardóttur við listamanninn Magnús Pálsson í Morgunblaðinu segir hann að verkið sé djúp fagurfræðileg stúdía. Ég hélt að þetta væri grín, því listamaðurinn er þekktur fyrir húmor og gaman- sama útúrsnúninga, en skipti um skoðun þegar ég sá sýninguna. Þrátt fyrir gamansemina í fram- kvæmd verksins er í því að finna graf- alvarlega fagurfræðilega pælingu þar sem gamalt álitamál í fornsögunum á fullt erindi við samtímann. Verkið fjallar því um fagurfræðilega dóma og forsendur þeirra og sem slíkt vísar það ekki bara til útlits líkamans held- ur einnig til listarinnar. Spurningin um hvort vöntun á hinu sjálfgefna, sbr. fimm tær, sé skárri en ella ef tærnar eru óvenjulega ljótar er spurning sem má heimfæra upp á mörg önnur svið lífsins. Þarna skar- ast hugmyndir um hið eðlilega, full- komna eða óskaddaða við hugmynd- ina um að afskurður eða vöntun sé illskárri. Báðar hugmyndirnar eiga upp á pallborðið í menningu okkar og krist- allast sterkast í umræðu um fegrun- arlækningar. Það sem stendur upp úr er þó hugmyndin um að hægt sé að dæma endanlega um hvað er ljótt eða fallegt á rökfræðilegum forsendum sem þessum en konungurinn vann auðvitað veðmálið í krafti stöðu sinn- ar og staðhæfingarinnar um að „fimm tær ferligar“ væru ljótari en fjórar. Smekkur manna og vald til að dæma hvað sé fallegt eða ljótt, gott eða vont, er í beinu samhengi við menningarlegt forræði, hvort heldur sem er í dægurmenningunni eða list- um. Hægt er að lesa sýningu Magnúsar Pálssonar á ýmsa vegu enda er að finna í henni mörg lög af menningar- legum og fagurfræðilegum tilvísun- um. Sjónrænt er hún afar vel heppn- uð, falleg samkvæmt ákveðnum listrænum mælikvarða en ljót sam- kvæmt öðrum. Skilaboðin eru skýr: Hvað varðar fagurfræðilega dóma verður hver að dæma fyrir sjálfan sig um leið og dregið er í efa gildi slíkra dóma. Tær fegurð, tær ljótleiki Magnús Pálsson Groddalegir næfir bleikmálaðir plastskúlptúrar sem sýna hluta fóta í yfirstærð. MYNDLIST I8, Klapparstíg 33 Sýningin stendur til 18. ágúst. Opið þriðjudaga til föstudaga kl. 11-17, laug- ardaga kl. 13-17 og eftir samkomulagi. Magnús Pálsson – Minning Þórarins Nefj- ólfssonar Þóra Þórisdóttir Morgunblaðið/Frikki 16 LAUGARDAGUR 21. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók UMRÆÐAN um umhverfismál hefur eflst mjög á Íslandi á allra síðustu árum, enda ekki vanþörf á. Ein birtingarmynd þessarar þróunar – og hugsanlega einnig orsakavaldur, upp að einhverju marki – er aukinn áhugi hug- og fé- lagsvísindamanna á umhverfismálum sem fræðilegu og pólitísku viðfangsefni. Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og lektor við Kenn- araháskóla Íslands, hefur farið framarlega í þeim flokki og er mikill fengur í nýútkominni bók hans, Náttúra, vald og verðmæti, þar sem safnað hefur verið saman því helsta sem Ólafur Páll hefur samið um þessi mál í ræðu eða riti á síðustu þremur til fjórum árum. Það má jafn- framt teljast tímanna tákn að bókin er gefin út í glænýrri ritröð sem ber heitið Umhverfisrit Bókmenntafélagsins og er hin fyrsta í þeirri röð. Í bókinni glímir Ólafur Páll við „ýmsar grund- vallarspurningar um samband manns og nátt- úru, meðferð valds í lýðræðissamfélagi og rætur þeirra verðmæta sem gefa mannlegri tilveru gildi“, eins og segir á bókarkápu. Bókinni er skipt í fjóra hluta og fjallar sá fyrsti einkum um skilning okkar á náttúrunni og forsendur nátt- úruverndar, annar hlutinn um mat á verðmæti náttúrunnar og um eignarrétt og sá þriðji um lýðræði, bæði sem hugmynd eða hugsjón og sem pólitískan veruleika í samtímanum. Fjórði hlut- inn er mun minni að vöxtum en hinir og sam- anstendur af tveimur stuttum greinum eða hug- leiðingum af persónulegri toga en flest annað efni í bókinni. Í fyrstu þremur hlutum bókarinn- ar skiptast á langir, fræðilegir kaflar sem byggja að mestu á áður útgefnum tímaritsgrein- um eða bókarköflum og styttri, léttari kaflar sem margir hverjir byggja á fyrirlestrum eða blaðagreinum. Höfundurinn hefur endurskoðað alla útgefna texta fyrir þessa nýju útgáfu, m.a. í því augnamiði að gera þá aðgengilegri fyrir al- menna lesendur, og einnig frumsamið hluta þess efnis sem þar er birt. Ólafur Páll kemur víða við í bókinni og tekur á mörgum málum sem sum hver eru býsna marg- slungin. Það er því ógerningur að draga efni hennar saman í fáeinum orðum en þó má segja að spurningin „hvernig ætti ég að hugsa um náttúruna og umhverfismálin?“ sé sá rauði þráð- ur sem tengir alla kafla hennar saman. Höfund- ur lýsir aðferð sinni, þ.e. heimspekilegri grein- ingu eða rökræðu, í formála bókarinnar en þar segir: „Markmið slíkrar rannsóknar er ekki að verja tiltekinn málstað heldur að reyna að skilja eigin afstöðu betur, að reyna að skilja samhengi tilverunnar með því að skoða hana í ljósi hug- taka og hugsjóna […] en einnig að afhjúpa rök- leysur og mótsagnir.“ (s. 12.) Um gildi þess að beita slíkri aðferð á umhverfismálin segir jafn- framt: „Heimspekingur sem fjallar um náttúr- una getur ekki verið afstöðulaus gagnvart um- byltingu hennar. Náttúra sem viðfangsefni heimspekilegrar hugsunar innifelur manninn sjálfan, líf hans og þann vettvang sem hann finn- ur lífi sínu. Hér liggja rætur siðferðis – hvað það er að lifa góðu lífi – og hér vakna einnig spurn- ingar um þekkingu og innsta eðli tilverunnar.“ (s. 11.) Beiting slíkrar aðferðar er engan veginn vandalaus, einkum og sér í lagi þegar tekist er á við „nokkur helstu átaka- og álitamál samtím- ans“, svo aftur sé vitnað í bókarkápu. Þar skiptir e.t.v. ekki meginmáli að höfundur sé fundvís á bestu rök og/eða lunkinn við að afhjúpa rökleys- ur og mótsagnir andmælenda sinna, heldur að hann sé samkvæmur sjálfum sér og missi ekki sjónar á því meginmarkmiði að skilja betur eigin afstöðu og annarra. Ólafur Páll er greinilega meðvitaður um þennan vanda og tekst m.a. á við hann með því að fara ekki í grafgötur um afstöðu sína gagnvart þeim einstöku málefnum sem hann tekur til umfjöllunar. Með því að leitast við að kryfja eigin hugsun um náttúruna varpar hann fram áskorun til annarra um að gera slíkt hið sama. Þar með er ekki fyrst og fremst spurt um hinstu rök heldur fremur leitast við að leggja grunn að ferli rökræðunnar: „Rök eru […] aldr- ei endir á rökræðu eins og sumir halda. Rök eru upphaf og þau eru forsenda þess að yfirleitt sé hægt að rökræða.“ (s. 12.) Í þessu tilliti er það einnig mikill styrkur bókarinnar að þar skrifar höfundur ekki einungis á fræðilegum nótum heldur er ófeiminn við að veita lesendum hlut- deild í þeirri persónulegu sýn sem liggur fræði- legum viðfangsefnum hans – og þar með einnig þessum bókarskrifum – til grundvallar. Að ofansögðu ætti að vera ljóst að greining Ólafs Páls snýr ekki aðeins að sambandi manns og náttúru eins og það birtist í einstökum, af- mörkuðum álitamálum heldur einnig – og raun- ar enn frekar – að ýmsum dýpri, undirliggjandi þáttum eins og hugtökunum sem við notum til að umlykja og miðla skilningi okkar á nátt- úrunni, hvernig við skynjum og skilgreinum verðmæti (eða verðleysi) hennar, því hvaða rök eru talin gild í umræðum um náttúruvernd og hver ekki, og hvernig stjórnvöld skilja og fara með það vald sem þeim er treyst fyrir. Svo nokkur dæmi séu nefnd, þá tekur höfundur sér fyrir hendur í greininni „Undir hælum athafna- manna“ að kryfja þá grunnhugmynd um nátt- úruvernd sem birst hefur í stefnum og aðgerð- um stjórnvalda hérlendis á undanförnum árum og áratugum. Í „Staður, náttúra, umhverfi“ beinir hann sjónum sínum að náttúruhugtakinu og hvernig skilgreining þess hefur áhrif á það hvaða verðmæti við sjáum í náttúrunni og hvernig við metum þau. Í „Eignaréttur“ leitast hann við að greina hugmyndir um eignarrétt, m.a. eins og þær snúa að náttúruauðlindum. Í þremur viðamiklum greinum í þriðja kafla bók- arinnar fjallar Ólafur Páll síðan um ólíkar grunnhugmyndir um lýðræði og ræðir m.a. þann (van)skilning á lýðræði sem hann telur hafa sett mark sitt á ákvarðanaferli og aðgerðir stjórnvalda í Kárahnjúkadeilunni og fleiri um- deildum náttúruverndarmálum. Bókin er vel skrifuð og ætti að mestu leyti að vera vel aðgengileg leikum sem lærðum. Hún er mikilvægt innlegg í fræðilega jafnt sem pólitíska umræðu um umhverfismál hér á landi og jafn- framt órækur vitnisburður þess að umhverfis- heimspeki og náttúrusiðfræði hafi skotið föstum rótum í íslenskum fræðaheimi. Ólafur Páll er vissulega gagnrýninn á margt sem gert hefur verið hérlendis í nafni náttúrunýtingar, jafnt sem náttúruverndar. Það eru ekki síst stjórn- völd sem verða fyrir gagnrýni hans, enda er þeim treyst fyrir miklu valdi í þessum mála- flokkum og það er þeirra hlutverk að gæta hags- muna náttúrunnar engu síður en hagsmuna mannsins. Vera kann að einhverjum svíði slík gagnrýni en hún er þó málefnaleg í alla staði og undirbyggð skýrum rökum og traustri fræði- legri greiningu. Áskoruninni hefur verið varpað fram og þeim sem kunna að vera ósammála ein- stökum rökum eða niðurstöðum höfundar býðst nú kjörið tækifæri til að svara honum í sömu mynt – þeirra er næsti leikur í rökræðunni. Heimspekileg viðspyrna á gullöld náttúrupíningar BÆKUR Ólafur Páll Jónsson Hið íslenska bókmenntafélag Reykjavík, 2007 Náttúra, vald og verðmæti Þorvarður Árnason Heimspekingurinn Ólafur Páll Jónsson. Morgunblaðið/Ómar

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.