Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 4. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Sláandi fólk UPPHRÓPUN Eftir Kristján B. Jónasson kbjonasson@gmail.com Á Íslandi eru um þessar mundir starfandi tvær sveitir bylting- armanna. Annars vegar starf- ar hópur stjórnleysingja og andstæðinga alþjóðafyrirtækja að því að knésetja stjóriðju á Íslandi. Hins vegar starfar Samband ungra sjálfstæðismanna að því að við fáum enn meira af því sama: enn meiri launaleynd, enn meiri lækkun skattprósentu og enn minni upplýsingar úr álagningarskrám skattstjóra. Báðir hóparnir nýta sér fjölmiðla markvisst í baráttunni. Uppákomur á borð við „Kringlu- messuna“ og „skattklukkuna“ hafa mikið áróðursgildi en leiða líka óhjákvæmilega til ágengra skoðanaskipta við þá sem eru ósam- mála byltingarmönnum. Eins og jafnan með framvarðarsveitir málstaðarins er að baki þeim fylking samúðarfólks sem þó hrýs hug- ur við öfgum aðgerðarsinna. Það kann að virðast mótsagnakennt, en er þó röklegt, að málflutningur byltingarhópanna miðast alla jafna við þetta samúðarfólk fremur en óvin- ina: „Barátta ykkar skilaði okkur umbótum, hún skilaði okkur mikilvægum vegvísum á leiðinni til sigurs, en hún var ekki sigurinn sjálfur … o.s.frv.“ Framvarðasveitin ætlar sér að starfa í fremsta vegavinnuflokkinum á hraðbraut sögunnar. Hún hefði hins vegar ekki fengið verkið hefði brautin ekki þegar verið lögð af fyrirrennurum. Því þarf hún nú að sýna fram á að enn séu lönd að vinna. Báðar fyrrgreindar byltingarsveitir hafa þannig að markmiði að auka frelsi öllum til handa, en telja um leið að almenningur hafi ekki enn skilið inntak frelsisins. Fámennur hópur verður því að leggja allt í sölurnar fyr- ir málstaðinn. Stjórnleysingjarnir töluðu raunar lengi vel ekki sannfærandi íslenskri röddu. Forvíg- ismaður þeirra kom fram í fréttum og í Kast- ljósi þar sem hann hikstaði á frösunum, sletti ótæpilega og minnti á mann sem festist í unglingastælum og komst ekki þaðan út, eitt- hvað sem hendir oft gamla töffara. En nú bregður svo við að fleiri hafa fengið málið í þessum hópi og þeir eru einbeittari í sinni tjáningu. Nú hljóma í fjölmiðlum ógnvænlegir og um leið alþjóðlega viðurkenndir frasar með tilgerðarlausum íslenskum framburði. Maður þenur hljóðhimnur þegar rætt er um „pólitískar handtökur“ sem beinast jafnt „gegn þeim sem taka þátt í aðgerðunum“ og þeim sem „styðja þær á vettvangi þrátt fyrir að vera ekki beinir gerendur sjálfir“. Og svo stóra bomban: „Til að stöðva stóriðjustefnuna verður að beita jafnt löglegum sem ólögleg- um aðgerðum.“ Hér talar stefnufestan sjálf. Grónir náttúruverndarsinnar og þeir sem ótt- ast að við lendum öll á launaskrá Rio Tinto áður en við getum talið upp að tveimur standa hjá og drepa tittlinga. Þetta fólk getur ekki hugsað sér að klifra upp í krana eða hlaupa öskrandi um götur Reykjavíkur til að bjarga Þjórsárverum en er fyrir vikið orðið að „endurskoðunarsinnum“ eins og það hét hjá kommunum. Í augum byltingarmannsins eru málamiðlanir dauðinn. Á hinum vængnum heldur bylting- arsambandið Samband ungra sjálfstæð- ismanna áfram ódeigri baráttu sinni fyrir framgangi borgaralegra stefnumiða. Stund- um hvarflar að manni að sambandið þjáist af ímyndunarveiki eða kunni ekki á klukku því málflutningurinn tekur jafnan mið af þjóð- félagsástandinu árið 1979. Tryllt rík- isafskiptafólk virðist vaða uppi, algerlega blindað í villu sinni. En eftir því sem hin breiða samúðarfylking miðstéttarinnar um- faðmar fleiri markmið aðgerðahópsins og eft- ir því sem „þeirra menn“ eru lengur við völd digna baráttumálin, orðið fáfengilegur kemur æ oftar upp í hugann þegar aðgerðir SUS ber á góma. Hinir bláu varðliðar fá að vísu hvert ár nýtt tækifæri til að sýna í verki and- stöðu sína við birtingu álagningarskráa hjá skattstjóranum í Reykjavík; stundum með líkamlegri (og þá ólöglegri) andspyrnu, stundum með „gagnskráningu“ eins og þeir beita í ár. Ódýr minnisbók hefur verið lögð fram á skattstofunni og á henni stendur „Gestabók fyrir snuðrara“ um leið og bylting- arverðirnir voma á göngum eins og soltnir úlfar og mæna djöfullegu augnaráði á hverja aðvífandi hræðu. Ætlar þessi virkilega að láta undir höfuð leggjast að skrá sig í snuðr- arabókina? Mótsögnin er hins vegar að sjálfsagt hafa engir jafn mikinn áhuga á birtingu þessara upplýsinga og einmitt samflokksmenn SUS- ara af eldri kynslóð sem stytta sér stundirnar með því að rannsaka skrána og líta á það sem sjálfsagða afþreyingu. Sú hugsun að ég rjúki nú af stað, skoði álagningu nágranna minna í Skerjafirðinum og klagi svo í Hr. Skatt er mér og öllum þeim sem ég hef haft kynni af um dagana svo undurfurðuleg að hún stappar nærri sturlun. Þess vegna hefur bakland SUS þrátt fyrir valdasetu á annan áratug líka ekki haft minnsta áhuga á að koma til móts við þetta mikla baráttumál frelsisliðanna. Það myndi nú aldeilis heyrast kurr í félagskaffinu í Valhöll. Slagur Mannlífs og Frjálsrar versl- unar á tekjublaðamarkaðinum sýnir líka að þessar upplýsingar eru verðmæt vara. Vilja bláu varðliðarnir skerða frelsi útgáfufyr- irtækjanna Heims og Birtíngs til að auka tekjur sínar? Og þannig heldur baráttan áfram. Varð- liðar stjórnleysisins berjast áfram vonlítilli baráttu við Vélina miklu. Bláu varðliðarnir halda áfram að færa okkur frjálsar útvarps- stöðvar, sölu fleiri ríkisfyrirtækja og lægri skatta. Fylgist ekki lögreglan áreiðanlega með þessu fólki? Morgunblaðið/ÞÖK Snuðrað? „Sú hugsun að ég rjúki nú af stað, skoði álagningu nágranna minna í Skerjafirðinum og klagi svo í Hr. Skatt er mér og öllum þeim sem ég hef haft kynni af um dagana svo undurfurðuleg að hún stappar nærri sturlun. Þess vegna hefur bakland SUS þrátt fyrir valdasetu á ann- an áratug líka ekki haft minnsta áhuga á að koma til móts við þetta mikla baráttumál frelsisliðanna,“ segir Kristján B. Jónasson. Bláu varðliðarnir » Varðliðar stjórnleysisins berjast áfram vonlítilli bar- áttu við Vélina miklu. Bláu varðliðarnir halda áfram að færa okkur frjálsar útvarps- stöðvar, sölu fleiri ríkisfyr- irtækja og lægri skatta. Fylg- ist ekki lögreglan áreiðanlega með þessu fólki? FJÖLMIÐLAR Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Vinur minn varð nýlega fyrir þeirri nöturlegu reynslu í mið- borginni að vera sleginn í götuna af ókunnum manni. Þetta var á bjartri sumarnóttu, vinurinn hafði nýkvatt vinkonu sína á götuhorni og var á gangi heim með Hlöllabátinn sinn þegar blá- ókunnugt fólk kemur á móti honum og maður kýlir hann af festu í andlitið. Vini mínum – sem er stakt prúðmenni – var hjálpað á fætur af miskunnsömum sam- borgurum, þeir útveguðu lín og þurrkuðu framan úr honum blóðið sem fossaði. Dag- ana á eftir var vinur minn ekki bara mar- inn, heldur miður sín. Árásin á vin minn kom ekki í blöðunum, þótt hann hafi kært hana til lögreglu. Til- efnislausar árásir á fólk í miðbæ Reykja- víkur eru orðnar svo algengar að það er eiginlega ekki lengur fréttaefni ef slíkt gerist, nema helst ef höggþolinn er nafn- kunnur (Eiður Smári) eða nýstárlegum að- ferðum er beitt (stúlka bitin í eyra). Samt er það svo að eitt bylmingshögg í höfuð getur leitt til dauða, eins og minnisstæð dæmi bæði úr Mosfellsbæ og Keflavík sýna. Hnefahögg í andlitið er líkamsárás. Það var ekki fyrr en ég lýsti óförum vin- ar míns í mötuneyti vinnunnar, að það sló mig (afsakið orðalagið) hvað atvikið var lít- ið fréttnæmt. Í ljós kom að nær allir við- staddir höfðu orðið fyrir því sama. “Já, ég var slegin í andlitið fyrir utan Caruso,“ sagði stelpan á móti mér, á næsta borði sagði maður frá því þegar hann var kýldur í götuna fyrir að hafa beðið fólk um að fara aftast í biðröð, ein stelpan hafði verið sleg- in á flugvelli – á öllum borðum var fólk að segja frá því þegar það var barið af ókunnugum. Þetta voru nánast orðnar skemmtisögur og ég hugsaði: Hér er eitt- hvað ekki í lagi. Að ekki sé hægt að hætta sér milli húsa í sinni eigin borg, þar sem þó er fullt af fólki til vitnis, það er ekki í lagi. Að maður sé öruggari um sig í erlendum millj- ónaborgum en í þorpinu Reykjavík, það er ekki alveg í lagi. Eftir hádegismatinn hélt einn kolleginn áfram með ofbeldissögur, þær tengdust allar börnum sem eru beinlínis „lamin í klessu“ í skólanum. Einu sinni var krökk- um í besta falli strítt, sagði hann, þau upp- nefnd eða í þau kastað snjóboltum með steinum; í dag væri eineltið miklu harka- legra, sum börn hefðu verið slösuð svo af skólafélögum sínum með barsmíðum að þau þyrðu ekki lengur út úr húsi. Svo sagði hann sögur af foreldrum sem í örvæntingu hafa gripið til ofbeldis gagnvart foreldrum gerendanna þegar hvorki lögregla né skólayfirvöld hafa fengist til að stöðva meiðingar barnanna. Ég starði forviða á manninn, ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta væri svona slæmt. Ofbeldi sem altæk lausn. Um leið rifjaðist upp fyrir mér frasinn „það var lamið mig í gær“ sem gjarnan er notaður sem dæmi um hina svonefndu nýju þol- mynd í íslensku. Börn segja víst ekki „ég var laminn“ heldur „það var lamið mig“. Eins áhugaverð og þróunin hlýtur að vera fyrir málfræðinga er inntakið enn meira sláandi. Setningin er nefnilega ekki búin til á skrifstofum, hún er tekin úr daglegu máli íslenskra barna. Og að engum finnist hún stinga í augu, nema fyrir málfræðisakir, segir allt um það hversu ónæm við erum orðin fyrir barsmíðum á förnum vegi. En af hverju er þetta orðið svona? Vissulega er hægt að upphefja gömlu romsuna um tölvuleiki og ofbeldismyndir, en lóðið getur ekki legið þar. Þetta hefur að gera með siðferði, virðingu, borg- aralegar skyldur, uppeldi, manngildi og önnur hátíðleg orð sem þykja víst hallær- isleg – en ættu að hafa merkingu. Það er ekki nema í samfélögum þar sem slíkum gildum hefur hnignað, að ofbeldisfullir tölvuleikir og blóðbíó ná hylli. Þetta er ekki afþreyingariðnaðinum að kenna, heldur okkur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.