Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 9
Haraldur prins í minna húsi. Stórt tjald fyrir veisluhöld var á flötinni hjá Geysi, ekki langt frá sjálfum skálarbarminum. Daginn eftir, eða 4. ágúst, gaus Geysir loks fyr- ir konung eftir að hundrað pund af Marseille- sápu höfðu verið sett í hann og þótti hinum er- lendu gestum það tignarleg sjón. Eftir gosið flutti Þorvaldur Thoroddsen fyrirlestur um hin ýmsu náttúruundur Íslands. Klukkan eitt þennan sama dag var blásið til brottferðar að Gullfossi og haldið af stað á góðum spretti. Eftir rúma klukkustundarferð kom kon- ungsfylgdin að fossinum enda stutt leið frá Geysi að Gullfossi. Vegurinn að fossinum var aðeins mjóir troðningar eftir hesta og farið var yfir Tungufljót á bráðabirgðabrú. Eftir að hafa skoðað Gullfoss lá leiðin aftur að Geysi. Þar áttu menn að hvíla sig vel áður en lagt væri í langt ferðalag næsta dag suður á bóginn að Þjórsárbrú. Búfjársýning við Þjórsárbrú Þegar konungur var að kveðja hverasvæðið að morgni 5. ágúst gaus Strokkur skyndilega eftir 11 ára dvala og þóttu mönnum það mjög merki- leg tíðindi. Leiðin lá yfir nýja brú á Hvítá og eftir eystri bakka árinnar um nýruddan veg meðfram hæða- drögum. Frá Geysi að Þjórsárbrú átti að fara á einum degi, lengsta áfanga ferðalagsins. Frá Þjórsárbrú liggur síðan þjóðbraut vestur til Reykjavíkur en þá leið skyldi konungsfylgdin fara síðasta dag ferðarinnar. Á leiðinni átti að skoða sveitabæi og kynnast búskaparháttum bænda við akuryrkju og kvik- fjárrækt á einu mesta landbúnaðarsvæði Íslands. Bærinn Skipholt var meðal annars skoðaður en hann var nýtísku sveitabær með reisulegum timburhúsum. Heldur þótti hinum erlendu ferða- mönnum íslenskur landbúnaður skammt á veg kominn. Sömuleiðis þótti sérstakt í meira lagi að plógar, herfi, rakstrarvélar og önnur álíka hjálp- artæki voru óþekkt hugtök í kolli ýmissa bænda. Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungs- fund og jafnframt til að skoða búfjársýningu sem halda átti næsta dag. Á sýningunni fékk kon- ungur að skoða sauðfé, nautpening og hesta auk þess sem íslensk smjörframleiðsla var kynnt fyr- ir honum. Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í far- arbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykja- víkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli. Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII. ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Ís- lendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Kon- ungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“. Aftur í Reykjavík Reykvíkingar tóku vel á móti konungi og föru- neyti hans þegar hann kom aftur til bæjarins miðvikudaginn 7. ágúst eftir viku ferðalag um landið. Sægur karla og kvenna á hestbaki slóst í för með konungsfylgdinni síðasta spölinn. Það má segja að ferðamennirnir hafi litið út eins og flakkaralýður því sumir þeirra voru að nokkru leyti óþekkjanlegir af völdum ryks og óhreininda eftir langa reið. Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fór kon- ungur í skoðunarferð í dómkirkjuna, ýmsa spítala bæjarins og hegningarhúsið. Á síðastnefnda staðnum náðaði hann unga stúlku, Jónu Ágústu Jónsdóttur, sem hafði fyrirfarið barni sínu og átti að fara að afplána 4 ára betrunarvist. Að lokum var farið í heimsókn til elsta íbúa Reykjavíkur, Páls Melsteð, 95 ára að aldri. Gladdi þessi virð- ingarvottur gamla manninn svo mjög að hann kyssti hönd konungs hvað eftir annað. Dansveislan í barnaskólahúsinu um kvöldið var aðalviðburður dagsins. Ungu stúlkurnar í Reykjavík höfðu hlakkað til hennar mánuðum saman svo og allir þeir sem gátu ekki á annan hátt komist í námunda við hans hátign. Þegar konungur kom til fagnaðarins í fylgd með Har- aldi prinsi var fyrir í veglegum veislusal mikil þröng af kvenfólki í skrautlegum þjóðbúningum og karlmönnum í kjólfötum eða einkennisbún- ingi. Loks rann upp síðasti dagur Reykjavík- urdvalar konungs, föstudagurinn 9. ágúst. Í síð- asta veislufagnaðinum áður en Friðrik VIII. yf- irgaf bæinn hélt hann ræðu þar sem hann bað viðstadda að minnast þingmannafararinnar árið áður. Með henni hefðu myndast meiri tengsl milli Íslendinga og Dana en mörg undanfarin ár hefðu megnað að skapa. Konungur sagði einnig: Að svo tókst til um betri kynni, þakka ég þrem- ur merkisatburðum, en það eru alþing- ismannaförin til Danmerkur, lagning sæsímans til Seyðisfjarðar og loks heimsókn ríkisþing- manna og mín til Íslands nú í ár. Það er von mín innileg, að þessir samfundir efli möguleika á sam- starfi í sambandslaganefndinni, sem sett var á laggirnar til að ryðja úr vegi hugsanlegum mis- skilningi og búa í haginn fyrir framtíðina. Megi störf sambandslaganefndarinnar verða mínu ást- kæra Íslandi og ríkisheildinni til blessunar. Ís- land lifi! Vestfirðir og norður með landi Íslandsheimsókn konungs var ekki lokið þótt hann yfirgæfi Reykjavík. Á leiðinni heim til Dan- merkur ætlaði hann að koma við á Ísafirði, Ak- ureyri og Seyðisfirði. Konungsskipið Birma, farkostur ríkisþing- manna, Atlanta og fylgdarskipin tvö, Hekla og Geysir, tóku stefnuna á Snæfellsjökul, síðan út yfir Breiðafjörð til Vestfjarðakjálkans. Þegar komið var að Önundarfirði var ákveðið að njóta þar næðis um nóttina. Varpaði konungsflotinn síðan akkerum á góðu skipalægi fyrir framan Flateyrarkauptún. Konung langaði til að skoða þorpið og fór hann í land ásamt Hannesi Hafstein sem fylgdi konungi sem fyrr. Gengu þeir saman um þorpið og skoðuðu meðal annars minjar um hvalveiðar Norðmanna frá staðnum. Konungsflotinn kom til Ísafjarðar fyrri part sunnudagsins 11. ágúst. Ísfirðingar komu til móts við flotann á meira en 80 bátum, nýmáluðum og tandurhreinum með fálkamerki í framstafni og danska fánann aftur á. Þar sem sumrin voru einn mesti annatími sjómanna á Íslandsmiðum þótti hinum tignu gestum sérstaklega vænt um þenn- an virðingarvott. Ísfirðingar tóku konungi með kostum og kynj- um. Á Ísafirði snérist allt um saltfisk og verkun hans og skoðaði konungur m.a. saltfisksverk- unarstöð Ásgeirs Ásgeirssonar. Daginn eftir kvaddi konungur Ísafjörð og skip- in brunuðu norður Grænlandshaf. Eftir að þau höfðu farið hjá Hornbjargi var stefnan tekin í austur til Eyjafjarðar og Akureyrar. Þriðjudaginn 13. ágúst varpaði konungsflotinn akkerum á Akureyrarhöfn og í viðhafnarskyni hleyptu herskipin af fallbyssum sínum. Móttökuhátíðin á Akureyri heppnaðist mjög vel og var sennilega sú allra hátíðlegasta í Ís- landsförinni. Það má segja að ungdómurinn hafi boðið konung velkominn til Akureyrar. Hinir tignu gestir gengu milli raða barna í hvítum bún- ingum sem lagðir voru rauðu eða bláu skrauti. Við innganginn á Góðtemplarahúsinu tóku 20 ungar stúlkur í þjóðbúningi á móti konungi. Eftir móttökuathöfnina var konungi boðið í útreiðartúr inn eftir Eyjafirði. Við Hrafnagil var efnt til há- tíðarsamkomu og voru þar saman komin rúmlega þúsund manns með hesta sína. Þegar konungur og ríkisþingmenn komu til bæjarins að aflokinni Hrafnagilsferð fóru þeir beint á skipsfjöl. Á leiðinni frá Akureyri sigldi konungsflotinn norður fyrir heimskautsbaug og var því fagnað með húrrahrópum og fallbyssuskotum. Stuttu seinna sigldu skipin norður fyrir Melrakkasléttu. Aðeins átti að nota einn dag til heimsókna á Austfjörðum. Hann var nýttur til að fara í land á Seyðisfirði en þangað höfðu Austfirðingar fjöl- mennt að hitta konung. Þar var gestunum gerð höfðingleg móttaka, líkt og á Ísafirði og Ak- ureyri. Fimmtudaginn 15. ágúst fór konungsflotinn frá Seyðisfirði, síðasta viðkomustaðnum á Ís- landi. Nokkrar stundir liðu áður en skipin létu úr höfn. Hannes Hafstein fór síðastur allra Íslend- inga frá borði. Honum fylgdu húrrahróp til heilla sem konungur hóf sjálfur. Síðan sigu skipin af stað út úr firðinum og tóku stefnuna til Dan- merkur. Á leiðinni var þó ákveðið að hafa stutta viðkomu á Sognsæ í Noregi. Meira en tveggja vikna Íslandsheimsókn Frið- riks VIII. Danakonungs var lokið.  Guðjón Friðriksson. Ég elska þig stormur. Ævisaga Hannesar Hafstein. Reykjavík 2005. Helgi Skúli Kjartansson. Ísland á 20. öld. Reykjavík 2002. Kristján Albertsson. Hannes Hafstein. Æfisaga. 2. bindi. Reykja- vík 1985. Svenn Poulsen og Holger Rosenberg. Íslandsferðin. Reykjavík 1958. Örn H. Bjarnason. Konungskoman árið 1907. Heima er bezt 53. árg., 3. tbl., mars 2003, bls. 122-127. http://heimastjorn.is/heimastjornartiminn/thingmannaforin- og-konungskoman/ VIII. Danakonungs árið 1907 til Þingvalla sem skörtuðu sínu fegursta. Þegar konungur reið niður Almannagjá höfðu fylkingar Dana og Íslendinga skipað sér í óslitna röð hægra ftir fylgdi nífalt húrra. Höfundur er sagnfræðingur. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. ÁGÚST 2007 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.