Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 18. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is W oody Allen er búinn að finna sér nýja konu. Scarlett Joh- ansson hefur leikið aðal- hlutverkið í síðustu tveimur mynd- um hans, Match Point (2005) og Scoop (2006). Sú síðarnefnda er beinlínis skrifuð fyrir hana. Allen tók ástfóstri við stúlkuna við tökur á fyrri myndinni og skal engan undra. Johansson hefur verið líkt við Marilyn Monroe, nema hvað hún hefur leikhæfileika. Í Match Point er Johansson sann- kallað tálkvendi og satt að segja gerólík flestum kvenpersónum sem Allen hefur skrifað enda myndin svolítið sér á parti í höfundarverki hans. En í Scoop er Johansson í hlutverki sem kemur kunnuglega fyrir sjónir. Þar er hún í raun og veru í hlutverki fyrrverandi kvenna Allens, Diane Keaton og þó kannski miklu frekar Miu Farrow. Joh- ansson er með slegið hárið í mynd- inni, stór gleraugu og klæðist víðum kjólum eins og Farrow gerði til dæmis í hlutverki Annie Hall í sam- nefndri mynd – og reyndar í dag- legu lífi einnig. Sondra Pransky er blaðamaður – eða tilvonandi blaðamaður – eins og Keaton í hlutverki Marie Wilkie í Manhattan (1979) en Allen hefur ekki jafn mikinn áhuga á flóknu heilabúi Pranskys og Wilkies. Þeim mun uppteknari er hann af kyn- þokka Johansson því að þótt hann klæði hana mussulega þá býr hann sér tækifæri til þess að afklæða hana líka. Það er ekkert nýtt að Allen fjalli um eigið líf í kvikmyndum sínum og það er ekkert nýtt að hann vísi með einhverjum hætti til kvennanna í lífi sínu en þessar tvær myndir, sem hann hefur gert með Scarlet Joh- ansson, eru óvenjulegar að ýmsu öðru leyti. Tveir möguleikar og báðir jafn slæmir Match Point er tvímælalaust besta kvikmynd Woody Allens um árabil og raunar er hún fyrsta myndin hans sem skilar hagnaði í Banda- ríkjunum í nítján ár. Að minnsta kosti er hún besta mynd eftir hann það sem af er öldinni. Og líklega er hún betri en De- constructing Harry (1997) og betri en Everyone Says I Love You (1996) og Mighty Aphrodite (1995) en þetta eru þó myndir sem hann þarf ekki að skammast sín fyrir en það verður ekki sagt um flestar myndir hans síðustu sex, sjö ár. Annars var tíundi áratugurinn ekki tími stórverka hjá Allen þó að ég sjálfur haldi reyndar talsvert upp á Husbands and Wives (1992). En sú mynd sem er sennilega einna helst hægt að bera Match Point saman við að gæðum er Crimes and Misdemeanors (1989) og hún er reyndar meðal mestu snilldarverka Allens ásamt Hannah and Her Sis- ters (1986), Manhattan (1979) og Annie Hall (1977). Og reyndar má finna þematískan skyldleika með Match Point og Crimes and Misdemeanors. Báðar myndirnar fjalla um mann sem grípur til óyndislegra úrræða þegar hann er á góðri leið með að klúðra hjónabandinu með framhjá- haldi. Í báðum tilfellum komast mennirnir upp með ódæðið. Og báð- ar myndirnar eru eins konar stef við Glæp og refsingu eftir Fjodor Do- stojevskí: Stundum verður að fórna hinum saklausa til þess að ná sínu fram, segir Chris Wilton, hinn kræfi framhjáhaldari undir lok Match Po- int, og vitnar í sögu Dostojevskís sem hann sést lesa fyrr í myndinni. Í lok Crimes and Misdemeanors (nafn myndarinnar er eins konar út- úrsnúningur á bókartitli Dostoj- evskís) segir Judah Rosenthal, sem er alveg jafn kræfur framhjáhald- ari, kvikmyndaleikstjóranum Clif- ford Stern, sem Allen leikur, sögu sem myndi henta til kvikmyndunar en plottið er byggt á framhjáhaldi hans sjálfs og afleiðingum þess og er því hið sama og í Crimes and Misdemeanors. Sagan vekur spurn- ingar um val á milli tveggja mögu- leika sem eru báðir slæmir, að leggja gott hjónaband í rúst eða fremja hræðilegan glæp til bjargar þessu hjónabandi, fórna sakleysinu til þess að ná sínu fram. Þegar Stern veltir fyrir sér sorg- legum endalokum slíkrar sögu þá segir Rosenthal að þeir sem vilji sögu með hamingjuríkum endi verði að horfa á Hollywoodmynd. Með Match Point hefur Allen kannski ekki færst nær Hollywood en myndin er nær því að falla í flokk meginstraumsmynda en flestar aðr- ar mynda hans. Og það ekki vegna þess að endirinn er hamingjuríkur – sem hann er ekki – heldur einfald- lega vegna þess að handritið er svo- lítið þesslegt og að auki er Match Point ein fárra mynda Allens þar sem hann leikur ekki sjálfur og er heldur ekki leikinn af einhverjum öðrum. Í þeim myndum sem hann leikur ekki sjálfur hefur hann nefni- lega stundum lagt það fyrir aðal- leikarann að leika karakter sem lík- ist sér. Eftirminnilegastur í því hlutverki er Kenneth Brannagh í Celebrity (1998). Fjarvera Allens í Match Point gerir hana ólíka flestum ef ekki öll- um öðrum myndum hans. Áhorf- andi, sem ekki þekkir þeim mun betur til verka Allens, gæti hæglega horft á myndina til enda án þess að tengja hana við Allen. Án tauga- veiklunar Allens og farsakennds leiks hans verður andrúmið í mynd- inni allt annað en við eigum að venj- ast í Allen-mynd. Það dettur enginn um húsgögnin, það vandræðast eng- inn og stamar í návist fallegs kven- manns, það er enginn hjá sálgrein- anda, það vitnar enginn í Groucho Marx eða Strindberg. Fyrir vikið verður dramatíkin meiri og þyngri. Fyndni Allens og önnur höfund- areinkenni blasa þó við ef vel er að gáð. Og val Allens á leikurum er líka annars eðlis en oft áður, ekki síst hvað varðar Scarlett Johansson. Það er ekki síst hún sem setur svip á myndina. Hún leikur allt öðruvísi konu en Allen er vanur að hafa í myndum sínum. Hún er kannski al- veg jafn þjökuð af komplexum og aðrar konur Allens en nærvera hennar á tjaldinu er svo hlaðin kyn- þokka að annað eins hefur ekki sést. Einn gagnrýnandi sagði um leik hennar að jafnvel þegar hún brysti í móðursýkisköst, sem konur Allens þurfa allar að glíma við, þá heldur Johansson reisn sinni og frumkrafti. Hættur að leika ástsjúka karla? Fyrir tíu árum eða jafnvel fimm ár- um hefði Allen sjálfur leikið hlut- verk Chris Wiltons í Match Point og velt sér um í rúminu með Joh- ansson. Sem betur fer stóðst hann mátið. Myndin hefði ekki gengið upp með Allen, sem var þá nýorðinn sjötugur, í hlutverki tennisleikara sem dregur Johansson á tálar. Og þótt Allen leiki í Scoop þá stenst hann freistinguna þar líka. Hann leikur vissulega á móti Joh- ansson en ekki elskhuga hennar og ekki einu sinni vonbiðil. Hann leikur gamlan töframann sem augljóslega hefur ekkert annað í huga en að hjálpa stúlkunni og er sakleysið uppmálað. Þetta er algerlega ný rulla fyrir Allen og honum ferst hún ágætlega úr hendi. Þessi töframað- ur hefði þó alveg mátt missa sín í myndinni, hann er þar líklega bara vegna þess að Allen langaði til að leika á móti Johansson. Myndin hefst með mjög allen- ískum hætti. Þekktur blaðamaður, Joe Strombel, er nýlátinn og siglir yfir fljótið Styx til undirheima. Á bát Karons ferjumanns hittir hann konu sem segist hafa verið byrlað eitur vegna þess að hún komst að því hver fjöldamorðinginn væri sem hefði herjað á Lundúnabúa. Blaða- maðurinn ákveður að stökkva fyrir borð og synda aftur til baka yfir fljótið til þess að ná þessu síðasta skúbbi sínu. En hann þarf aðstoð. Og þar kemur töframaðurinn Sid Waterman (leikinn af Allen) til skjalanna. Og Sondra Pransky nemi í blaðamennsku. Hún lætur hafa sig út í það að taka þátt í atriði á skemmtun Watermans þar sem hann lætur hana hverfa inni í skáp. Á meðan hún stendur inni í skápn- um birtist afturgangan Strombel og segir henni frá skúbbinu. Morðing- inn er nefnilega enginn jón jónsson heldur Peter Lyman sem er mynd- arlegur og moldríkur sonur Lymans nokkurs lávarðar. Síðan hverfur Strombel og Pransky, sem langar mikið til þess að verða góður blaða- maður, tekur til við að rannsaka málið með hjálp taugaveiklaðs töframannsins. Þetta er auðvitað ekki merkilegur söguþráður en gengur upp. Allen kann vel til verka við að segja ein- mitt svona sögur á hvíta tjaldinu, sögur sem verða eiginlega bara til vegna þess að hann getur ekki verið án þess að segja sögur. Það er þó fyrst og fremst Joh- ansson sem heldur myndinni uppi. Hún er í mynd svo að segja allan sýningartímann – og ekkert að því! Líklega er Allen nú hættur að leika ástsjúka karla sem eru á eftir yngri konum en í þeim efnum er þó engu að treysta. Aðdáendur Allens hljóta þó að vonast til þess að næstu myndir hans verði meira í ætt við Match Point en Scoop. Woody og Scarlett Scarlett Johansson er nýja konan í kvikmyndalífi Woody Allens. Tvær nýjustu myndir hans, Match Point og Scoop, skarta þessari stúlku sem líkt hefur verið við Marilyn Monroe. Það er ekkert nýtt að All- en taki ástfóstri við ungar leik- konur en myndirnar tvær marka ákveðin þáttaskil í ferli hans. Scarlett í Match Point „Hún leikur allt öðruvísi konu en Allen er vanur að hafa í myndum sínum. Hún er kannski alveg jafn þjökuð af komplexum og aðr- ar konur Allens en nærvera hennar á tjaldinu er svo hlaðin kynþokka að annað eins hefur ekki sést.“ Hér er Scarlett ásamt Jonathan Rhys Meyers. Woody og Scarlett í Scoop Woody lítur eftir stúlkunni eins og hann væri pabbi hennar. Það er þroskaskref hjá leikstjóranum. Í HNOTSKURN »Match Point er fyrsta mynd Allens sem tekin er að öllu leyti í Bret-landi. »Match Point er lengsta mynd Allens til þessa, 124 mínútur. »Kate Winslet átti upphaflega að leika hlutverk Nolu Rice í Match Po-int en hún hætti við til þess að eyða tíma með fjölskyldu sinni. »Sid Waterman, leikinn af Allen, endurtekur þessi orð í sífellu í Scoop:„I love you, really. With all due respect, you’re a beautiful person. You’re a credit to your race.“ »Um sjálfan sig segir Waterman: „I was born of the hebrew persua-sion, but converted to narcissism.“ »Og Allen er samur við sig þegar Waterman segir: „I don’t need towork out. My anxiety acts as aerobics.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.