Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 16
Eftir Guðjón Friðriksson E ftir að verktakar og fjármálamenn komu auga á það að gamli miðbærinn í Reykjavík var orð- inn eftirsóknar- verðasti staðurinn á höfuðborg- arsvæðinu til íbúabyggðar og atvinnurekstrar, einkum á sviði ferðamennsku og afþreyingar, hefur hafist ótrúlegt lóðabrask þar með það fyrir augum að rífa gömul hús og byggja ný. Spekúlantarnir virð- ast ekki skilja að í gömlu húsunum og sögu þeirra felast einmitt þau verðmæti sem gera miðbæinn eft- irsóknarverðan og fjölbreyttan. Lík- lega kemur þeim það ekkert við því að flestir hugsa ekki um annað en að kaupa, byggja og selja. Því miður hefur borgaryfirvöldum ekki tekist að reisa rönd við þessum skamm- tímasjónarmiðum eða ekki viljað það. Þar er sáralitla fyrirstöðu að finna. Laugavegurinn hefur breyst mik- ið á undanförnum árum og meðal annars í tengslum við stóraukin straum ferðamanna og raunar Reyk- víkinga sjálfra um gamla miðbæinn. Hótel, kaffihús og veitingahús setja æ meiri svip á hann og litlar sér- vöruverslanir og gallerí eru áber- andi, ekki síst í gömlu húsunum. Þau eru yfirleitt eftirsótt til rekstrar, jafnvel frekar en stærri og nýrri rými. Þannig er til dæmis með Laugaveg 7. Þar hefur stórt og ný- tískulegt verslunarrými verið hólfað niður til þess að gera það arðbærara og eru þar nokkrar litlar verslanir í stað einnar stórrar. Þó að timb- urhúsin frá 19. öld og byrjun 20. ald- ar séu sum smá eru þau heppileg fyrir þann rekstur sem best þrífst nú um stundir við Laugaveg ef þeim er vel við haldið. Það gerir meðal ann- ars sjarmi þeirra og saga. Húsið að Laugavegi 4 var upp- haflega einlyft hús á háum kjallara, reist árið 1890 sem prentsmiðjuhús. Það var Halldór Þórðarson bók- bindari sem stóð fyrir byggingunni og í henni var síðan Félagsprent- smiðjan til húsa í aldarfjórðung. Þar voru prentuð blöð eins og Fjall- konan, Þjóðólfur og Vísir á upphafs- árum sínum. Síðan voru verslanir í húsinu. Hitt húsið, Laugavegur 6, var byggt 1871 af Guðmundi Jónssyni trésmið, föður Stefaníu leikkonu. Fáeinum árum síðar komst það í eigu Biering-ættarinnar sem átti það í meira en hundrað ár og rak þar lengst af verslun. Húsið var eitt af þessum vinalegu einlyftu húsum sem einkenndu Reykjavík 19. aldar. Þau voru með dönskum svip, dyrum fyrir miðri framhlið, nokkrum sex- rúðugluggum báðum megin dyranna og bröttu þaki yfir. Nú má telja orð- ið á fingrum annarrar handar þau hús, sem enn eru eftir í borg- armyndinni með þessu lagi. Ekkert þeirra má í rauninni missa sín. En báðum húsunum, Laugavegi 4 og 6, eða a.m.k. framhliðum þeirra, hefur verið misþyrmt svo í áranna rás, svo að þau eru óþekkjanleg frá fyrstu gerð og í fljótu bragði virðast þau vera ónýt. Ekkert hefur verið gert húsunum til góða í áratugi. Ekki er samt allt sem sýnist í þeim efnum. Sama var sagt um Bern- höfts torfuhúsin á sínum tíma. Þau höfðu líka verið látin drabbast ára- tugum saman og virtust einskis nýt. Eftir að þau voru gerð upp um 1980 eru þau hins vegar sönn borgarprýði og setja mikinn svip á gömlu Reykjavík. Þau hafa öll verið í öruggum, stöðugum og arðbærum rekstri frá þeim tíma og ekki hvarfl- ar að nokkrum manni að rífa þau. Árið 1923 keyptu félögin KFUM og KFUK hús Bernhöfts bakara og húsið Amtmannsstíg 1 ásamt bak- húsum og munu hafa hugsað sér að rífa öll húsin í fyllingu tímans og reisa sér veglegt samkomuhús á lóð- inni. Ýmsir töldu þó að á þessum fal- lega og áberandi stað í hjarta Reykjavíkur ættu fremur að rísa op- inberar byggingar. Þetta varð til þess að þingmenn úr öllum stjórn- málaflokkum báru fram þingsálykt- unartillögu um að ríkisvaldið eign- aðist lóðirnar milli Bankastrætis og Amtmannsstígs. Fyrsti flutnings- maður Benedikt Sveinsson sagði við umræður um málið og átti þá við hús Bernhöfts bakara: „Á hinni nyrstu og stærstu þess- ara lóða standa nú gömul hús sem ekki eru til annars en niðurrifs.“ Þetta var mælt árið 1930. Rík- isstjórnin gekk svo til samninga við KFUM og KFUK um makaskipti í samræmi við fyrrnefnda þingsálykt- unartillögu. Varð það úr að félögin höfðu makaskipti við ríkið á þessari eign og Hressingarskálanum í Aust- urstræti 20. Leið svo og beið. Öll húsin á brekkubrúninni milli Banka- strætis og Amtmannsstígs voru látin grotna niður og um 1970 voru þau orðin mjög hrörleg eftir áratuga við- haldsleysi. Þau stóðu þá auð og óupphituð. Ekkert virtist bíða þeirra nema niðurrif enda var þá að mótast sú staðfasta fyrirætlun ríkisvaldsins að þarna skyldi rísa ný stjórnarráðs- bygging. Eru til teikningar að mikl- um og löngum glerkassa á brekku- brúninni milli Stjórnarráðsins og Menntaskólans. Um þetta leyti var hins vegar fjöldi nýrra arkitekta að streyma til landsins og þeir höfðu kynnst hús- verndunarmálum sem voru komin miklu lengra á leið í ýmsum nálæg- um löndum heldur en á Íslandi. Þeir skipuðu sér brátt í fylkingarbrjóst þeirra sem vildu varðveita hús Bern- höfts bakara og húsaröðina sem þau tilheyrðu. Í apríl 1970 gerði síðan stjórn Arkitektafélagsins samþykkt í þá veru. Nú brá svo við að mikil umræða og blaðadeilur hófust um gömlu hús- in í brekkunni. Bréfum með eða á móti rigndi inn á lesendasíður dag- blaðanna. Andstæðingar gömlu húsanna spöruðu þeim ekki háðyrðin og kölluðu þau danskar fúaspýtur, hrófatildur eða hrútakofa. Fyr- irsagnir eins og „rífið kofana“ voru algengar og minna þær óneitanlega á fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins nú 37 árum síðar. Einn bréfritari gekk svo langt að í bréfi til Morg- unblaðsins fór hann fram á að þessi hús „verði brennd hið fyrsta til salla- fínnar ösku og þá vitaskuld undir eftirliti lögreglu og slökkviliðs“. Hinn 7. júlí 1971 sýndi Nób- elsskáldið Halldór Laxness hvern hug hann bar til Bernhöftstorfu. Þann dag birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu sem nefndist „Brauð Reykjavíkur“ og gæti hún eins átt við húsin Laugaveg 2 og 4 eins og þau eru nú. Þar stóð m.a.: „Á Bernhöftstorfunni standa enn fáein heldur lágreist hús. Ef ætti að brúka um þau lýsingarorð dytti manni helst í hug að kalla þau yf- irlætislaus, vinhlý og prúðmann- leg …“ Og enn fremur: „Þegar menn heimta að þessi lát- lausu hús endurminninganna á Bernhöftstorfunni verði afmáð og bera fyrir sig að þau séu úr sér gengin þá er það ónóg röksemd. Þessi gömlu hús eru jafn ófúin og þau hefðu verið reist í gær. Hitt er satt að um viðhald þeirra hefur verið rekin sams konar pólitík og sveita- stúlkur reka þegar þær láta tenn- urnar grotna niður og verða að geifl- um svo að þær geti síðan farið suður og keypt sér falskan góm. Eigandi þessara húsa hefur verið sálarlaus persóna og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um bernskuminjar Reykjavíkur, kannski ættaður að norðan. Aðrir eigendur eru skyldir til, þó ekki væri nema sóma síns vegna, að halda húsum sínum í sæmilegu ástandi til þess að geta lit- ið framan í samborgara sína.“ Hinn 1. desember 1972 var hald- inn útifundur framan við Bernhöfts- torfuna til að berjast fyrir varðveislu hennar. Að þeim fundi stóðu öll félög innan Bandalags íslenskra lista- manna, öll félög ungra stjórnmála- manna og fjöldi einstaklinga. Á ann- að þúsund manna sóttu fundinn en að honum loknum var gengið í blys- för að Sigtúni við Austurvöll þar sem Torfusamtökin voru stofnuð fyrir troðfullu húsi. Næstu ár þokaðist lítt að fá Bern- höftstorfuhúsin friðuð. Vorið 1973 gerðist þó atburður sem átti eftir að breyta afstöðu margra Reykvíkinga. Eldsnemma um morgun í maí safn- aðist hópur manna og kvenna fyrir framan húsin með stiga og málning- arfötur og hóf að mála húsin í leyf- isleysi. Við það fríkkuðu þau talsvert og augu marga opnuðust fyrir því hversu mikil bæjarprýði gæti verið að þessum gömlu húsum ef þeim væri sómasamlega við haldið. Ný ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar tók við völdum sum- arið 1978. Þó að forsætisráðherrann væri andvígur friðun húsanna var vitað að Ragnar Arnalds mennta- málaráðherra og fleiri ráðherrar voru hlynntir henni. Eftir mikinn þrýsting úr ýmsum áttum sendi menntamálaráðherra loks frá sér eftirfarandi bréf 7. ágúst 1979: „Að fengnum tillögum húsfrið- unarnefndar og borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkir ráðuneytið hér með friðun svonefndrar „Bern- höftstorfu“ í Reykjavík …“ Með þessum gjörningi var hálfur sigur unninn. Nú var eftir að fá eig- andann til að gera húsin upp. Nokkr- um vikum síðar fór stjórn Ólafs Jó- hannessonar frá völdum en við tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins. Eitt af fyrstu verkum Vilmundar Gylfasonar, menntamálaráðherra í þeirri stjórn, en hann var hlynntur málstað húsfriðunarfólks, var að beita sér fyrir því að Torfusamtökin fengju húsin á lóðunum Bankastræti 2 (þ.e. hús Bernhöfts bakara) og Amtmannsstíg 1 á leigu til tólf ára. Er skemmst frá því að Torfu- samtökin fengu síðan fjármagn úr ýmsum áttum til að gera upp og end- urbyggja húsin og var það gert á ár- unum 1980 til 1981. Nokkurt fjár- magn fékkst frá ríkinu og Reykjavíkurborg en annað varð að fá með fyrirframgreiðslum vænt- anlegra leiguhafa og bankalánum. Þetta var mikill áfangi í sögu hús- friðunar á Íslandi og tímamótaat- burður. Margir héldu að eftirleik- urinn yrði auðveldur í húsfriðunarmálum í Reykjavík. Annað kom þó á daginn. Enginn vogar sér að vísu lengur að tala um „danskar fúaspýtur“ á Bernhöftstorfunni en þær eru hins vegar allt í einu komnar upp um all- an Laugaveg, niður um Skugga- hverfi og vestur á Vesturgötu. Á sama hátt og Bernhöftstorfu- húsin voru gerð upp, eftir að hafa verið vanrækt í meira en hálfa öld, er eins hægt að gera upp húsin Laugaveg 2 og 4 í samræmi við upp- haflega gerð þessara húsa og koma þeim í góðan rekstur. Það væri hið eina skynsamlega í stöðunni. Skipulagsyfirvöld eiga að hlúa að gömlu húsunum í Reykjavík í stað þess að leyfa niðurrif þeirra í stórum stíl eins og nú er gert. Þeim ber skylda til að sýna sögu og arfleifð okkar Reykvíkinga fulla virðingu. „Kúluna á kofana“ MÁNUDAGINN 13. ágúst 2007 birtist leiðari í Fréttablaðinu með fyrirsögninni “Kúluna á kofana“. Fyrir þá sem lengi eru búnir að berjast fyrir húsvernd í Reykjavík var eins og að hverfa marga ára- tugi aftur í tímann að lesa þessa ruddalegu fyrirsögn, hverfa aftur til áranna í kringum 1970 þegar sams konar viðhorf voru uppi gagn- vart Bernhöftstorfunni og öðrum gömlum húsum og húsfriðunarbar- átta í árdaga. Erum við þá ekki lengra á veg komin? Laugavegur 4-6 Ef húsin yrðu lagfærð á sem einfaldastan hátt, skúrabyggingar fjarlægðar til að rýma fyrir nýbyggingu og auk þessgert ráð fyrir því að hægt sé að byggja stærri byggingu á auðu lóðinni fyrir aftan, ekki ósvipuð hugmynd og uppi hefur verið umLækjargötu 2. Höfundur er sagnfræðingur. Nýja húsið Útlit nýja hússins frá Laugavegi séð, teikningarnar hafa verið afgreiddar frá Skipulagsráði og bíða þess að Byggingarfulltrúi setji stimpilinn á þær. 16 LAUGARDAGUR 18. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.