Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2007, Blaðsíða 13
»Nú er auðvitað hvorki Þorsteinn né aðrir skyldugir að vera sammála mér, Eysteini Þorvaldssyni né neinum öðrum. Hitt er ófrávíkjanleg krafa til fræðimanna, að þeir kanni hvort eitt- hvað mæli í mót túlkun þeirra, og rökræði hvaða túlkun eigi best við og hvers vegna. Kannski gengur Þorsteini bara kreddufesta til að vanrækja þetta, en e.t.v. er ástæðan sú að hann vilji veg Sigfúsar sem mestan, m.a. sem formbyltingarmanns. fyrra hluta 20. aldar, einkum þó Hel Sigurðar Nordals (1919), Flugum Jóns Thoroddsen (ort 1916) og Úr djúpinu eftir Jakob Smára (birt 1920). Hann viðurkennir að verk Smára séu ljóð, án þess að fara nánar út í hverskonar prósaljóð þau séu, en færir ýmis rök gegn því að það gildi um hin verkin, getur þó ekki afneitað því um allar Flugur. Hann nefnir og þýdd prósaljóð á íslensku allt frá 1884, en fjallar ekk- ert um þau. Varla hafa slík verk heimsfrægra höfunda þó síður haft áhrif en frumort íslensk? Slík prósaljóð birtust fyrst á íslensku 1884, í þýðingu Gests Pálssonar úr Senilia eftir Túrge- nev. Úr sama safni komu verk í þýðingu þjóð- skáldsins Steingríms Thorsteinssonar á fyrsta áratug 20. aldar. Mun meira kveður að prósa- ljóðum upp úr fyrri heimsstyrjöld, mér þykir líklegt að það hafi mjög aukið á vinsældir þessa forms að indverska skáldið Rabindranath Ta- gore fékk Nóbelsverðlaun, 1913. Mikið var skrifað um Tagore og vinsamlega í íslenskum blöðum og tímaritum upp úr því, og 1919 birtist bók hans Ljóðfórnir á íslensku, en 1922 Far- fuglar hans og 2. útgáfa Ljóðfórna, hvort- tveggja í þýðingu Magnúsar Á. Árnasonar. Upp úr því fjölgar prósaljóðum, svo sem talið var hér að ofan, þau voru orðin tíska á Íslandi um 1920, vottar Halldór Laxness 1946 (bls.9). Þorsteinn lýsir prósaljóðum Sigfúsar og fleiri svo (bls. 187-8): Þau eru stutt, afmörkuð heild, búa yfir spennu, óljós um tíma og stað. Þetta síðasta aðgreini þau frá stuttum frásögnum. En þetta á líka við mörg framangreind prósaljóð, enn fremur t.d. Norðmannsins Obstfelder (d.1901) sem birtust sum á íslensku milli stríða, einnig stundum lærisveins hans Jóns Thorodd- sen. Margt fleira mætti telja, t.d. voru tvö dönsk prósaljóð þýdd í fyrsta árgangi tímaritsins Eimreiðarinnar, 1895, til að kynna ílíkisstefn- una (symbólismann), einnig var töluvert um frí- ljóð í útbreiddu tímariti, Óðni, á öðrum áratug 20. aldar, eftir Gunnar Gunnarsson m.a., og svo áfram í ýmsum tímaritum millistríðsáranna, Vöku, Eimreiðinni, Iðunni og Rétti. Þar má telja svo fræg ljóð sem Sorg Jóhanns Sigurjóns- sonar (birt 1926), Söknuð Jóhanns Jónssonar (1928) og kvæði Jóhannesar úr Kötlum 1933, Vér öreigar (Eins og ljóð vort er einfalt og auð- skilið/ og hirðir ekki um rósfjötra rímsins/ né fjólublá faguryrði). Afturhvarf Það er athyglisvert, að á þessum fyrsta þriðj- ungi 20. aldar verða nær engin mótmæli fundin gegn þessum algengu bragnýjungum. En síðar kom bakslag á fjórða áratug aldarinnar, lýð- skrum fasista og stalínista leiddi til íhaldssemi í menningarmálum, alþjóðlega og á Íslandi. Þar kom til gamla krafan um að bókmenntaverk skyldu hafa „boðskap“, en þá urðu þau að vera auðskilin, þ.e.a.s. hefðbundin, til að ná til al- mennings og hafa áhrif á hann. Margir helstu nýjungamenn bókmennta á Íslandi voru í sam- tökum sem lutu leiðsögn stalínista, Félagi bylt- ingarsinnaðra rithöfunda, sem stofnað var haustið 1933, og þeir snerust með um miðjan 4. áratug aldarinnar, til að ná bandalagi við þjóð- lega menntamenn, svo sem ég rakti í Rauðu pennarnir (bls. 125 og 165 o.áfr.). Hérlendis töldust svo nokkrir ungir menn hafa fundið upp „frjálst ljóðform“ á fimmta áratugnum, gleymt virtist þá margt frá því fyrir stríð. Og nú mætti frjálst ljóðform hatrammri andstöðu, e.t.v. vegna þjóðernisstefnunnar sem blossaði upp undir hernámi og við lýðveldisstofnun, enda voru nú flestir fyrri málsvarar menningarnýj- unga orðnir íhaldssamir á því sviði, svo sem fyrr greinir. Halldór Laxness hæddist að rímáráttu Íslendinga á árinu 1932, en aðeins sjö árum síð- ar hamaðist hann gegn ljóðum í óbundnu máli (Rauðu pennarnir, bls. 126-7). Einnig var ljóðmálið miklu róttækari nýjung um miðjan þriðja áratuginn en varð hjá at- ómskáldunum eftir 1945. Einkum má nefna fá- ein ljóð sem Halldór Laxness birti 1927. Ég tel þau súrrealísk, vegna þess að þar er ósamrým- anlegum orðum skipað saman í orðasambönd, sem verða því óskiljanleg röklega. Þar má nefna að líkja sálinni við tiltekna mannveru: „Önd mín er frjáls eins og útlendur prestur“ (Vorkvæði 2,3), eða hluta hennar við nýtækni [þá] í sam- göngum: „samviskulaus eins og bifreiðaumferð í aprílmánuði“ (Nótt 6,2). Einnig er sömu árstíð líkt við dýr: „Apríllinn fnæsir sem fælinn hest- ur/ falinn í kálgörðum Hörpu“ (Vorkvæði 2,1-2). Stórt er sett á miklu smærra og persónugert í mótsögn: „á sælum vörum sorgarinnar/ sofa turnar borgarinnar“ (Nótt 1, 11-12). Hjá Hall- dóri eru aðrar líkingar enn óskiljanlegri: „Heimur vor er ljóðdjásn frá lungunum til nefs- ins./ Lofgerð vor er úthverfa grískra sjúkdóms- nafna.“ (Nótt 1,3-4). Enn lengra gengur þessi tvinnaða líking: „þú græddir upp ljóðastraums gullmörk/ með göllum á freraslóð“ (Borodin 1-2). Ekki sé ég jafn róttækt ljóðmál á íslensku síðan fyrr en Tíminn og vatnið eftir Stein Stein- arr birtist á seinni hluta 5. áratugarins, en það verk einkennist mikið af sams konar súrreal- isma, ósamrýmanlegt er sameinað. Þorsteinn segir m.a. (bls. 90) að skilgreining mín á módernisma sé „fjarskalega þröng, mun þrengra en enska hugtakið modernism, og hæf- ir varla öðrum ljóðum en þeim sem eiga ættir að rekja til súrrealisma, og í minna mæli express- jónisma“. Þetta er ósatt, auk þess að ræða ex- pressjónisma á fimmtán blaðsíðum (Kóralfor- spil, bls. 43-57), og hvernig megineinkenni hans greinist frá áberandi einkennum súrrealisma, ræði ég líka ensk módern ljóð þar sem tilefni gafst til, nefnilega Eyðiland Eliots í sambandi við Hannes Sigfússon (bls. 104 o.áfr.), enn- fremur í grein sem ég sendi Þorsteini fyrir tveimur árum og hann þá hafði orð um: Upp- sprettur Tímans og vatnsins (Andvara 2005, einkum bls. 139 o.áfr.). Meginniðurstaða mín var, að sameiginlegt einkenni ýmiskonar módernisma, í ljóðum og lausu máli sé sundruð framsetning, andstæðu- full. En innan þessa meginstraums módernisma megi telja það áberandi einkenni margra súr- realískra verka að tengja ósamrýmanleg fyr- irbæri, svo að setning verði röklega óskiljanleg. Í expressjónískum verkum hef ég hinsvegar ekki rekist á það, heldur andstæður milli skilj- anlegra málsgreina eða kafla, svo að heild- armyndin verður sundruð, rúmar andstæður. Það á augljóslega líka við um Eyðiland Eliots, og fleiri ljóð hans, svo og annarra módernra skálda. Við þennan skilning verð ég að standa, því ekki hefur hann verið hrakinn, og síst af Þorsteini, sem sniðgengur allt sem mælt gæti gegn hans gamalgrónu skoðunum. Nú er auðvitað hvorki Þorsteinn né aðrir skyldugir að vera sammála mér, Eysteini Þor- valdssyni né neinum öðrum. Hitt er ófrávíkj- anleg krafa til fræðimanna, að þeir kanni hvort eitthvað mæli í mót túlkun þeirra, og rökræði hvaða túlkun eigi best við og hvers vegna. Kannski gengur Þorsteini bara kreddufesta til að vanrækja þetta, en e.t.v. er ástæðan sú að hann vilji veg Sigfúsar sem mestan, m.a. sem formbyltingarmanns. En þá sýnist mér þetta vanhugsað. Við Sigfús sátum einu sinni sem oft- ar á spjalli á Mokka, og ég hélt því fram að lík- lega hefðu margir Íslendingar verið of íhalds- samir til að vilja lesa íslenskar framúrstefnubókmenntir á millistríðsárunum. En Sigfús mótmælti, og sagði að á þeim árum hefði fólk lesið allt, enda hefði framboðið ekki verið svo mikið. Enn efast ég um að þetta hafi gilt almennt, en hitt er vafalaust að það gilti um Sigfús. Hann var unglingsárin heimagangur hjá einum fremsta bókmenntafræðingi þjóð- arinnar, Kristni E. Andréssyni, sem hafði hneykslast á þröngsýni þeirra sem ekki vildu viðurkenna órímað ljóð 1926. Það væri að gera lítið úr Sigfúsi að ímynda sér að hann hafi ekki gjörþekkt þær íslensku framúrstefnubók- menntir sem komu fram á fyrra hluta 20. aldar. Sama held ég gildi um hin atómskáldin upp úr seinni heimsstyrjöld.  Eysteinn Þorvaldsson: Atómskáldin 1980. Halldór Laxness: Formáli að Nokkrum sögum. Þættir 1954 Lars Nylander: Prosadikt och modernitet Stockholm 1990. Þorsteinn Þorsteinsson: Ljóðhús. JPV 2007. Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir 1990?. Örn Ólafsson: Kóralforspil hafsins 1992?. Örn Ólafsson: Uppsprettur Tímans og vatnsins. Andvari 2005, bls. 119-154?. Örn Ólafsson: Gömul prósaljóð og fríljóð. Són 4, 2006, bls. 123-139. fræði Morgunblaðið/ÞÖK Þorsteinn Þorsteinsson Hann er allt annað en talhlýðinn, segir Örn. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. ÁGÚST 2007 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.