Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2007, Síða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2007, Síða 12
Eftir Aðalstein Ingólfsson adalsteinn@honnunarsafn.is N ú þegar nokkur málverk eftir Magnús heitinn Kjartansson hafa verið leyst úr prísund sinni á Álafossi og færð til sýningar í Grafarvogskirkju, þá læðist að manni næsta undarleg tilhugsun, nefnilega að sérkennilegt og viðkvæmt dómsmálið sem heimtur þeirra höfðu í för með sér og upprunalegar orsakir þess, fólskuleg árás ofstopamanns í prestastétt á listamanninn á vinnustofu hans fyrir nokkr- um árum, séu eðlilegur viðauki við þessi verk, eða eins konar lyktir þeirra, merkingarlega séð. Verkin sem hér um ræðir eru nefnilega enda- hnútur á áralöngu rannsóknarferli, þar sem listamaðurinn velti fyrir sér nærveru og fjar- veru hins andlega í nútímalegu samfélagi, en hluti af því ferli eru myndir í bernskum stíl af pokaprestum í gervi falsspámanna eða skemmtikrafta. Magnús þoldi hvorki lognmollu né þegjandi samþykki, hvort sem er í samskiptum við annað fólk eða á myndlistarsviðinu. Í samræðum gat hann verið bæði hornóttur og beinskeyttur, einkum ef stórt var spurt – honum fannst tímasóun að hugsa smátt – og gat þá komið óþægilega við kaunin á viðmælendum sínum, en þó oftast nær af fyllstu kurteisi. Það var líka ljóst af tali Magnúsar að hann hafði ímigust á þægilegri myndlist. Myndir áttu að vera ögr- andi og fjalla um það sem máli skipti, tilvist manns og heims, jafnvel þannig að áhorfandinn kveinkaði sér undan þeim. Það sem ég er að reyna að segja er að það er einhvern veginn við hæfi að persóna Magnúsar og fimmtán ára gömul myndverk hans skuli enn megna að hreyfa við fólki, jafnvel koma því úr jafnvægi. Aftur til Feneyja Ég held að engum sem sáu þessar myndir Magnúsar í fyrsta sinn á sýningu á Kjarvals- stöðum í janúar 1994 hafi liðið þær úr minni. Enn tala viðmælendur mínir um þessa sýningu sem einn af merkustu listviðburðum tíunda ára- tugarins hér á landi. Helsta undrunarefnið var auðvitað að listamaðurinn, skilgetið afsprengi módernískrar formhyggju sem útilokað hafði allt sem hét frásögn eða táknhyggja, virtist endurfæddur sem endurreisnarmálari frá Fen- eyjum, brjótandi til mergjar hinstu rök mann- legrar tilveru í heimatilbúnum launsögnum, allegoríum. Það sem meira var: ekkert virtist Magnúsi eiginlegra en að fjalla með þessum hætti um eðli og kraftbirtingu hins andlega, einsemd og firringu nútímamannsins og líkamningu þján- ingarinnar. En þótt harmrænn undirtónn þess- ara verka og formgerð þeirra, risastór og raunsæisleg andlit og líkamspartar, virtust býsna frábrugðin því sem menn áttu að venjast frá hendi Magnúsar – flestir voru sjálfsagt með í huga gömul samklipp hans eða lágmyndir af borðbúnaði – hefðu kunnugir eflaust getað séð þessa þróun fyrir. Því ef grannt er skoðað er nánast öll mynd- list Magnúsar eftirgrennslan eftir einhvers konar sannleik handan hins hversdagslega, andlegri fullvissu. Sennilega eru ekki margir sem vita að fyrstu marktæku myndverk Magn- úsar, gerð þegar hann var piltungur, voru í anda ljósmyndalegs súrrealisma, með fyrir- heitum sínum um veruleika utan og ofan við daglegt líf. Og þá má einnig nefna að þegar Magnús undirgekkst formhyggju módernism- ans við upphaf 8. áratugarins valdi hann sér til úrvinnslu líkingaleg eða emblematísk form, ein- faldar, samhverfar einingar sem vísuðu út fyrir sig, til einhvers handan flatarins, fremur en til annars sem var að gerast í myndinni. Löng hefð er fyrir því bæði í sjónlistum og kvikmyndum að nota slíkar einingar sem eins konar sam- nefnara fyrir eitthvað sem nefna mætti æðri til- vist. Upphafning óreiðunnar Síðan fór í hönd tímabil í myndlist Magnúsar sem virðist á skjön við það sem hér hefur verið sagt. Ungæðisleg og sennilega ómeðvituð eftir- grennslan eftir algildum viðmiðum handan hins hlutlæga veruleika vék fyrir upphafningu sjálfrar óreiðunnar. Verk hans urðu vettvangur þar sem allt gat gerst, ýmiss konar afgangar og úrgangur hrannast þar upp og kallast á með ýmsum hætti. Sjálfsagt má skrifa eitthvað af hráum sköp- unarkrafti og ágengni þessara verka á óreiðuna og rótleysið í lífi listamannsins á níunda ára- tugnum. Eftir á að hyggja er samt áberandi hve spurul þessi óþægilegu verk eru, ekki einasta um mörkin milli hins listræna og ólistræna, heldur um ytri mörk skynjunar og sköpunar. Hvar endar vitund okkar og hvar tekur við ab- sólút veruleiki, það sem á tilvist í sjálfu sér? Hér er engu líkara en Magnús gefi sig á vald glundroðanum til að grennslast fyrir um and- hverfu hans. Þessi aðferðafræði fékk á sig tilvistarlegt yfirbragð þegar Magnús gerðist sjálfur hluti af glundroðanum, m.a. með því að velta sér nakinn á ljósnæmu plasti sem hann síðan framkallaði á stórar pappírsarkir og notaði sem myndgrunn. Í þessum myndum birtist listamaðurinn eins og kumlbúi á röntgenmynd, við það að leysast upp og verða að dufti. Það er trúa mín að í þessum tilvistarlegu pælingum Magnúsar sé að finna kím sýningar- innar 1994. Til dæmis er það hans eigin líkami sem birtist í myndum sem snúast um pínu Krists, og ýmsar formyndir og skissur sýna fram á að hann prófaði á sjálfum sér ýmsar uppstillingar og svipbrigði sem koma fyrir í stærri myndunum. Ég hef líka grun um að aðstæður í íslensku myndlistarlífi hafi auðveldað Magnúsi að mála þessar myndir. Við upphaf tíunda áratugarins mátti æ oftar merkja af tali hans að hann taldi sig hafa einangrast í myndlistarlífinu, hann væri orðinn einfari sem ætti fátt sammerkt með starfsbræðrum sínum. Þetta var ekki helber sjálfsvorkunn; staðreyndin er sú að Magnús og nokkrir aðrir listamenn, t.d. Sigurður Örlygs- son, Ómar Skúlason, Örn Þorsteinsson, Eyjólf- ur Einarsson og Hallsteinn Sigurðsson, stóðu að mestu leyti utan við helstu hræringar í ís- lenskri myndlist á árunum 1970-90, fyrst og fremst vegna þess að þeir vildu halda áfram að þróa myndlistina á forsendum módernismans, en ekki ganga á hönd konseptlist eða annarri róttækri myndlist. Við þetta má segja að þeir hafi dottið út úr myndlistarumræðunni um margra ára skeið. Magnúsi þótti þetta ástand vissulega önugt, en um leið er engu líkara en að það hafi orðið hon- um hvati til að fara út á ystu nöf myndlistar- legrar og heimspekilegrar sannfæringar sinn- ar. Eða eins og söngvaskáldið söng: When you ain’t got nothing, you got nothing to lose. Er það svo ímyndun mín, eða er vott af samkennd að finna í myndum Magnúsar af píslarvætti Jesú? Um hjálpræðið Í stórum dráttum má segja að umræddar myndir Magnúsar séu hugleiðingar um tvö grundvallarfyrirbæri, veru og neind, þau tvö öfl í vitundinni og tímanum sem gera okkur kleift að samræma hugmyndirnar um æðri tilvist og veruleika duftsins, það er hinnar holdlegu upp- lausnar. Allar eru myndirnar í formi retórískra spurninga fremur en staðhæfinga um kosti eða ókosti kristindómsins. Veigamest er sennilega spurningin um það hvort boðskapur Krists sé manninum það hjálpræði sem honum hefur ver- ið lofað. Nær tilhugsunin um eilíft líf nokkurn tímann að sætta okkur við þjáningu, dauða og upplausn holdsins? Hvers konar fyrirbæri er svo bænin, er hún eintal sálar út í ljósvakann, skilaboð upp á von og óvon eins og SMS eða tæki til tjáskipta við æðri öfl? Spurningin er meðal annars í formi krossmarks sem hangir neðan í símalínu og meðfylgjandi símtóli. Var einhver að segja: Við erum hér, hvar ert þú? Þegar öllu er á botninn hvolft er niðurstaða listamannsins sennilega sú að okkur sé ekki við- bjargandi. Svo mikil er einsemd, umkomuleysi og sálarkröm þess fólks sem birtist í myndum hans. Okkur er einfaldlega uppálagt að mæta örlögum okkar með tilhlýðilegri reisn, án þess að gera okkur vonir um íhlutun æðri afla. Veruleiki duftsins Hjálpræði? Nær tilhugsunin um eilíft líf nokkurn tímann að sætta okkur við þjáningu, dauða og upplausn holdsins? Er boðskapur Krists það hjálpræði sem manninum hefur verið lofað? Á sunnudaginn var opnuð sýning á málverk- um eftir Magnús Kjartansson myndlistar- mann í Grafarvogskirkju. Verkin hafa verið í eins konar prísund í vinnustofu hans í Álafoss- húsinu um langan tíma og sjást því í fyrsta sinn á opinberum vettvangi nú. Hér er fjallað um list Magnúsar og þessi verk sem mörkuðu endalokin á áralöngu rannsóknarferli, þar sem listamaðurinn velti fyrir sér nærveru og fjarveru hins andlega í nútímalegu samfélagi. Höfundur er listfræðingur. »Ungæðisleg og sennilega ómeðvituð eftirgrennslan eftir algildum viðmiðum hand- an hins hlutlæga veruleika vék fyrir upphafningu sjálfrar óreiðunnar. Verk hans urðu vettvangur þar sem allt gat gerst, ýmiss konar afgangar og úrgangur hrannast þar upp og kallast á með ýmsum hætti. Morgunblaðið/EggertRetórískar spurningar Myndirnar fjalla um kosti og ókosti kristindómsins. 12 LAUGARDAGUR 27. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.