Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 29. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Hvernig stendur á því að Eirík- ur Fjalar er með kombakk núna? Árið 2007? Hvernig at- vikast það að Gísli á Uppsölum er mættur í sjónvarpsauglýs- ingar einmitt núna? Og hvað er málið með hraunglösin frá iit- tala, voru þau ekki löngu komin úr tísku? Svar: Þetta er árið sem allt fór í mónó aftur. Það er engin önnur skýring og hún hljómar svona: Partíið sem við vorum í og hefur tryllt okkur um árabil með ánægjuvog og væntingavísitölu og heimakokkum og fellihýsum, partíið sem hefur líka verið fjölmiðlasirkús, glamúr og eitt endalaust tal um frelsi, er sprung- ið. Offorsið sprakk framan í okkur – eða í það minnsta – óttinn við að það myndi springa framan í okkur magnaðist svo að við hnipruðum okkur skyndilega saman, ekki ósvipað og gæinn í auglýsingunni sem drepur rómantísku kertaljósin með handslökkvitæki. Við urðum hrædd. Þetta er ekkert skrýtið. Hvernig á lítil þjóð í dreifbýli að höndla allt sem gengið hefur á, og allt sem okkur hefur verið hótað að gæti gengið á? Þeir sem gefa endalaust í, hljóta fyrr en síðar að fara fram af brún. Þegar milljarðamæring- arnir sáu pappírshlutina sína falla, þegar forsætisráðherra fór að vara við húsa- kaupum, þegar Séð&heyrt fór að þynn- ast, leit hver í sinn barm og hugsaði: Þetta er búið. Einungis Geir Ólafsson var bjartsýnn og söng: Þetta er lífið. En við hlustuðum náttúrlega ekki á hann því við fundum að eitthvað var ekki lengur í lagi. Og vegna þess að allt var betra einu sinni, fórum við að horfa í bakspegilinn. Fyrirtæki fengu nöfn eins og Saltfélagið (ekkert meira Group), nýjustu tækni var snúið til upphafsins (Jesús tók upp 3G síma, það var notalegt), Torfusamtökin gengu ljósum logum (að gefnu tilefni) og rithöfundar fóru að rifja upp námsárin á 7. áratugnum og heimilislíf á 9. áratugn- um. Þeir fóru að leita í sögur frá því seint á tuttugustu öld því við erum farin að sakna þeirrar aldar eftir æsinginn í al- damótapartíinu sem hefur staðið í sjö ár. Sjö feit ár. Koma nú sjö mögur ár? Ég veit það ekki, mig hefur ekki dreymt neinar kýr. En talandi um kýr, ævisaga Guðna landbúnaðarráðherra seldist eins og heitar lummur og sú líking er við hæfi, það er frásögn af uppvexti við einhæft mataræði og ást á hinu hnyttna – menn kalla Guðna landbúnaðarráðherra eins og hann sé það enn og hann er aftur kom- inn í tísku því nostalgían heimtar það. Ísland í mónó. Er það bara góð fyr- irsögn? Nja, tökum fleiri dæmi. Þegar Ríkissjónvarpið eykur úrval íslenskrar dagskrárgerðar og ýtir úr vör þremur nýjum þáttum er þeim stýrt af sama fólki og stýrir þeim þáttum sem fyrir eru. Var það fólk ekki í fullu starfi? Eru í alvör- unni bara til fimm góðir fjölmiðlamenn á Íslandi? Auðvitað er ekki öllum gefið að stjórna spurningaleikjum, ekki heldur umræðuþáttum, en það er ekki laust við að fjölbreytnina skorti. Við lifum á tím- um lúmskrar fábreytni. Að vísu sýndi Steingrímur Eyfjörð huldukind í Fen- eyjum og minnti á að hér eru fleiri en við sjáum, að þjóðin er margbrotin og skuggar stjákla að baki. Við erum ekki í mónó á meðan við varðveitum huldufólk- ið. En samt hömumst við ennþá við að gata fjöllin, sprengja klettana, hvað það á eftir að kalla yfir okkur vitum við ekki, það er vandi að vita hvað gerist og af því heimurinn snýst svona hratt höldum við okkur í tekkhúsgögnin sem við höfum ekki tímt að henda, við höngum í sixtís- ljósakrónunum, við vitum ekki hvað ger- ist, en á meðan Eiríkur Fjalar tekur kunnuglegt sóló er eins og allt sé betra, eins og allt verði gott, það er ofboðslega æðislega gaman oft á jólum, syngur Ei- ríkur og það hlýtur að vera satt fyrst hann segir það. Ísland í mónó Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur anna.kristin.jonsdottir@gmail.com M ig minnir að í jólaboðum bernsku minnar hafi ég á hverju ári spurt frænd- systkin mín um hvað þau væru búin að lesa margar jólabækur. Þetta var kannski frekar ósanngjörn spurning á jóla- dag. Samt mátti alveg gera ráð fyrir því að kveldi jóladags að maður væri búinn að lesa svo sem eins og eina bók, jafnvel tvær. Spurningin snerist í raun um það hve lengi maður vakti og heilbrigður metingur gekk út á það að vaka sem lengst. Á gamlársdag var svo gert ráð fyrir því að maður væri langt kominn með þær jólabækur sem höfðu komið í hús það árið. Svona var þetta framundir tví- tugt og líklega aðeins framyfir það. Sjálfgefið að maður læsi fimm til sex bækur yfir hátíð- irnar. Á þessum árum kom ég inn í bókabúð- ir á aðventu, leit yfir borðið, sem svignaði undan bókum ársins, og var þess fullviss að ég myndi lesa lungann af þeim. Það var auð- vitað tálsýn, aldrei las maður nú nema nokkrar skáldsögur og þá það sem kom í pökkum til fjölskyldumeðlimanna. Nú er ég ekki einu sinni viss um að ég komist fram úr þeim bókum sem mér berast sjálfri frá hug- ulsömum gefendum. Það er ekki lengur lagt upp í lestrarmaraþon á jólanótt, en samt er enn spurt í jólaboðunum, nú heldur varfærn- islega „eruð þið byrjuð að lesa eitthvað?“ Jú, flestir eru byrjaðir að kíkja í eitthvað. Enn hef ég engan hitt, sem ekki fékk bók í jóla- gjöf, en flestir þeir eldri játa að þeir séu ekki nema rétt byrjaðir að líta í þær. Sumir eiga enn eftir að lesa eitthvað sem kom í hús í fyrra, jafnvel hitteðfyrra, en það kemur áreiðanlega að því, einhvern tíma. Saga Þór- arins Eldjárns um Hvítárvallabaróninn var búin að vera í hillunni fyrir ofan rúmið mitt í tæplega þrjú ár þegar ég loksins las hana og hún var ekkert verri fyrir það. Ég kepptist alveg jafnmikið við að segja fólki frá því að ég væri búin með hana í vetur eins og ég hamaðist við að segja frændfólki mínu frá því forðum daga að ég væri búin að lesa allar bækurnar, sem ég hafði fengið í jólagjöf. Á aðventunni styrkja Íslendingar sjálfs- mynd sína af bókaþjóðinni þar sem allir eru fluglæsir. Þetta gerist yfirleitt í samfellu frá því um miðjan nóvember í aðdraganda Dags íslenskrar tungu og lýkur svo á Þorláks- messukvöld. Þá lítur maður inn í troðfulla bókabúð, þumlungast þar meðfram stöflunum og kaupir síðustu jólagjafirnar rétt fyrir ell- efu. Bókaþjóðin lét það ekkert trufla sig að ráði, þegar sagt var frá því snemma í desem- ber að íslenskir grunnskólanemendur hefðu ekki komið neitt sérstaklega vel út í Pisakönnuninni alræmdu. Lesskilningi hafði víst hrakað frá því fyrir sjö árum og það voru menntamálaráðherra vonbrigði. Sjálf- styrking bókaþjóðarinnar heldur samt áfram þrátt fyrir þessa hnökra og ekki væri það heldur ráðlegt að við hættum bara öll að lesa bækur við þessar fréttir. Sjálfstyrkingin fer að miklu leyti fram í bókabúðunum á aðventunni en ekki síður með því að fletta bókatíðindunum og lesa, horfa og hlusta á eitthvað af öllu því sem sagt er í fjölmiðlum um nýju bækurnar. Þar er allt fullt af umsögnum og bókadómum og svo ágætum viðtölum við höfunda nýútkom- inna bóka, að ógleymdum auglýsingunum. Auglýsingaslagurinn er harður og lýsing- arorðin lítt spöruð sem von er, það þarf jú að selja þessar bækur. Þeim er ætlað að sann- færa okkur, ekki bara sem væntanlega les- endur, heldur ekki síður sem gjafakaup- endur, um að bókin sem við horfum á sé magnþrungin, seiðmögnuð, kraumandi fynd- in, æsispennandi, falleg, einlæg, nýstárleg, gráglettin, hrífandi og áhrifarík. Hún muni gleðja eða hræra hvern þann sem les. Oft hefur maður nú býsnast yfir þessu áhlaupi. Væri ekki betra að hafa þetta minna og jafn- ara er tautað, en meina menn það nokkuð? Höfum við ekki flest sætt okkur við það fyrir löngu að þennan þátt þjóðlífsins tökum við með trukki og dýfu í örfáar vikur á ári hverju? Og það var ekki laust við að ég væri bara ánægð með auglýsingaflóðið, þegar ég rakst á útlendan kunningja í bókabúð rétt fyrir jól. Sá hefur búið á landinu í nokkur ár. Hann sagðist reyndar enn furða sig á því þegar sjónvarpsauglýsingar um bækur færu að birtast fyrir jólin, því ætti hann ekki að venjast úr heimahögunum. Þó að honum hefði í fyrstu þótt svolítið kyndugt að sjá bók birtast á skjánum undir dramatískum lestri, þá sýndi það bara hvað bækur væru Íslend- ingum mikilvægar. Auglýsingarnar hefðu líka haft sín áhrif og maðurinn var kominn inn í búðina til að kaupa bók handa konunni sinni í jólagjöf. Ég er bara búin að lesa eina af jólabók- unum sem komu í hús á aðfangadagskvöld. Hvað ertu búin að lesa margar jólabækur? Að selja bækur „Þar er allt fullt af umsögnum og bókadómum og svo ágætum viðtölum við höfunda nýútkominna bóka, að ógleymdum auglýs- ingunum. Auglýsingaslagurinn er harður og lýsingarorðin lítt spöruð sem von er, það þarf jú að selja þessar bækur.“ FJÖLMIÐLAR » Sjálfstyrkingin fer að miklu leyti fram í bókabúðunum á aðventunni en ekki síður með því að fletta bókatíðindunum og lesa, horfa og hlusta á eitt- hvað af öllu því sem sagt er í fjölmiðlum um nýju bækurnar. Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.