Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2007, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2007, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. DESEMBER 2007 15 Eftir Val Gunnarsson valurgunnars@gmail.com A ð koma til New York-borgar er eins og að taka neðanjarðarlest- ina aftur til 20. aldar. Hún birtist manni ljóslifandi eins og hún hefur gert í ótal bíómyndum, sönglögum og skáldsögum frá þeim tíma þegar hún var höfuðborg heimsins í reynd. Það er næstum eins og að vera staddur í Pompeii, sem sprettur ljóslifandi upp aftur eins og gluggi til þess tíma þegar Miðjarðarhafið stóð undir nafni, að koma til borgar sem minnir á þá daga þegar allt kvarðaðist í kringum Norður- Atlantshaf. Í upphafi 20. aldar var New York borg fram- tíðarinnar. Skýjakljúfar hennar uxu með undra- verðum hraða, Empire State-byggingin, þá hæsta bygging í heimi, var byggð á aðeins 410 dögum. Árið 1925 tók hún við af London sem stærsta borg í heimi. Og þó að verðbréfahrunið á Wall Street fjórum árum síðar hafi verið mikið áfall var það þó áþreifanleg sönnun þess að þeg- ar New York hnerraði fékk heimurinn kvef. Vegur New York jókst svo enn eftir seinni heimsstyrjöld. Eftir að stórborgir Evrópu og Asíu höfðu verið lagðar í rúst var það í New York sem heimurinn kom saman til að greiða úr málum sínum í byggingu Sameinuðu þjóðanna við East River. New York var nú ekki lengur höfuðborg framtíðarinnar, heldur nútímans. Ný amerísk öld? En við upphaf nýrrar aldar breyttist allt. Helstu háhýsi borgarinnar hrundu til grunna, í senn or- sök og táknrænn atburður þess sem koma skyldi, þó að vandræði Bandaríkjanna stafi ekki af hryðjuverkunum sjálfum heldur viðbrögðum þeirra við þeim. Tuttugasta öldin hefur stundum verið kölluð ameríska öldin, og árið 1997 stofnuðu nokkrir af helstu íhaldsmönnum Bandaríkjanna hópinn Project for the New American Century, sem átti að komast að því hvernig viðhalda ætti veldi Bandaríkjanna á nýrri öld. Þrátt fyrir að sumir meðlimir hans, svo sem Dick Cheney, Paul Wolfowitz og Donald Rumsfeld, hafi nokkrum árum síðar orðið valdamiklir innan Bandaríkja- stjórnar, virðist nú stöðugt ólíklegra að 21. öldin verði ný amerísk öld. Flestir myndu líklega frek- ar veðja á Kína. Tími steypu og stáls Fjármagn streymir nú frá Wall Street og til stórborga Austursins, Sjanghæ og Hong Kong, og jafnvel til London, sem hefur betri tengsl við hin rísandi veldi Asíu. Sem dæmi má nefna að árið 2001 voru tólf af tuttugu helstu hlutabré- faútboðum heims með höfuðstöðvar sínar í New York, nú eru aðeins tvö þar eftir samkvæmt fjár- málablaðinu Fortune. Sé gengið um götur New York-borgar fá há- hýsi hennar mann ekki lengur til að hugsa um framtíðina. Þetta eru ekki glerhallir upplýs- ingaaldar, eins og sjá má í hinum nýju bygg- ingum City of London eða jafnvel Stokkhólmi eða Helsinki, sem hafa verið fljótar að aðlagast nýrri tækni. New York er byggð úr steypu og stáli, byggingar hennar minnisvarðar um iðn- byltinguna, um Carnegie og Mellor og Rocke- feller sem öllu réðu fyrir hundrað árum. Blair fer Veldi Bandaríkjanna náði líklega hápunkti sín- um í kjölfar hruns kommúnismans og fyrra Persaflóastríðsins þegar þau stóðu eftir sem eina risaveldi heims og virtust ósigrandi hern- aðarlega jafnt sem efnahagslega og menning- arlega. Og líklega hefur enginn maður í nútíma- sögu fengið jafn mikil völd upp í hendurnar og Bush yngri í kjölfar árasanna 11. september, þegar allur heimurinn flykkti sér að baki honum. Hann hélt hinsvegar illa á spilum sínum, repú- blíkanar guldu afhroð í þingkosningunum í Bandaríkjunum árið 2006 og flestir spá því að þeir muni tapa næstu forsetakosningum. Bush er nú orðinn það sem landar hans kalla „lame duck president“, forseti sem fáir taka mark á. Af helstu stuðningsmönnum hans var Rumsfeld neyddur til að segja af sér sem hermála- ráðherra, Wolfowitz þurfti að segja af sér sem framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, og Cheney, sem þó enn heldur sínu starfi, hlaut slæma út- reið í fjölmiðlum þegar hann skaut lögfræðing sinn með haglabyssu í veiðiferð. Í Bretlandi hef- ur helsti erlendi stuðningsmaður stjórnarinnar, Tony Blair, sagt upp störfum, og má rekja vin- sældamissi hans beint til stríðsins í Írak. Sigur Írana? Fáir eru nú reiðubúnir til að verja innrásirnar í Írak og Afganistan, hvorki í Bandaríkjunum né annars staðar og er umræðunni að mestu leyti lokið þó stríðið haldi áfram. En hvað gerist næst? Líklegast er að Bandaríkjaher byrji að draga lið sitt til baka fyrir eða eftir forsetakosning- arnar 2008, spurningin er varla lengur hvort heldur hvenær. Borgarastríðið mun þá að öllum líkindum halda áfram, eins og það gerði í Víet- nam og í Afganistan eftir brotthvarf Sovétríkj- anna, þar til einhver vinnur. Líklega verða það þeir sem eru fjölmennastir, í þessu tilfelli shítar, og bandamenn þeirra í Íran verða þá þeir sem helst munu hagnast á öllu mannfallinu. Bandaríkin munu standa eftir sem eitt af stórveldum heims, en langt í frá jafn allsráðandi og þau voru á 10. áratugnum. Engin þeirra þjóða sem nú eru að stíga fram á sjónarsviðið, Kína, Indland eða Rússland, eru þó líkleg til að taka við risaveldishlutverkinu í bráð. Það verða því fleiri pólar sem munu takast á, hver með sína hagsmuni. Ekki er líklegt að heimurinn verði friðsamari fyrir því. Hin nýju heimsveldi Vissulega hafa Bandaríkin margoft misnotað vald sitt með stuðningi við herforingjastjórnir í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku, með stríðs- rekstri í Víetnam og í Mið-Austurlöndum. Og það eru margir í Suður-Ameríku sem fagna dvínandi veldi þeirra, nýlega hafa vinstrisinn- aðar stjórnir komist til valda í Venesúela, Úrú- gvæ, Brasilíu, Paragvæ og Síle án afskipta Bandaríkjanna. En þó að Bandaríkin hafi margt á samvisk- unni er ekki þar með sagt að hin nýju stórveldi muni beita valdi sínu á siðferðislegri hátt. Kín- verjar hafa til dæmis verið reiðubúnir til að stunda viðskipti við Súdan, sem ríkisstjórnir Vesturlanda hafa hafnað af siðferðisástæðum, og Rússar eiga náin samskipti við einræðis- stjórnir í Hvíta-Rússlandi og Túrkmenistan, svo dæmi séu tekin. Eftir endalok kalda stríðsins voru vonir til þess að hægt yrði að byggja upp friðsamari heim, þar sem ráðamenn í Washington og Moskvu kepptust ekki lengur um að senda vopn til stríðandi aðila, en þær vonir fóru brátt fyrir lítið. Og þó að líkurnar séu litlar á því að Banda- ríkin ráðist inn í fleiri ríki að ósekju í bráð eru einnig minni líkur á að þau leiði alþjóða- samfélagið í hjálparstarfsemi eins og átti sér stað í Sómalíu árið 1993. Bandaríkin sem menningarhöfuðborg Og hvað verður þá af New York, höfuðborg 20. aldar? Þó að Frelsisturninn rísi þar sem World Trade Center stóð áður verður það ekki endi- lega til marks um leiðandi hlutverk Bandaríkj- anna á ný. Þegar er verið að byggja hærri bygg- ingar í Dubai, Guangzhou og Moskvu. Turnarnir, eins og pólarnir, eru orðnir margfalt fleiri. En New York mun þó enn halda áfram að vera miðpunktur heimsins hvað sumt varðar. Í blaðinu The New Yorker var nýlega fjallað um bókina The Warhol Economy eftir Eliza- beth Currid. Segir í blaðinu: „New York hefur enga raunverulega samkeppni í heiminum um leiðandi hlutverk sitt í menningargeiranum … ef maður myndi ýkja aðeins mætti segja að ef New York myndi skyndilega hverfa myndu hlutabréfamarkaðir halda áfram að starfa, en við myndum ekki geta klætt okkur eða fundið listaverk til að hengja á vegginn.“ Er borgin þar talin leiðandi í tísku, listum og tónlist jafnt sem skemmtanalífi, og að stjórnmálamenn ættu að beina sjónum sínum að SoHo og Chelsea frem- ur en Wall Street. Hasarmyndirnar og rokkið Þó að Bandaríkin séu dvínandi hernaðar- og efnahagsveldi er þó ólíklegt að nokkur taki við hlutverki þeirra sem menningarstórveldi í bráð. Ekki er hægt að segja líklegt að kírellískt letur eða kínverskt taki við af ensku sem internetmál, og margir Indverjar notast þegar við enskuna. Rétt eins og þjóðir Austursins hafa að mörgu leyti tileinkað sér efnahagsstefnu og hern- aðartækni Vesturlanda er líklegt að rokkið og hasarmyndirnar verði enn hin ráðandi listform í nánustu framtíð, jafnvel þó að þeir sem leggja stund á slíkar listir munu ekki endilega hafa ensku sem móðurmál. Og hvað Bandaríkin sjálf varðar gáfu þau ekki 20. öldinni aðeins Nagasaki og napalm- sprengjur, heldur einnig John Steinbeck, Mart- in Scorsese, Bob Dylan og fleiri frumkvöðla list- arinnar. Og það getur vel verið að hið hnígandi heimsveldi eigi enn eftir að ganga í gegnum blómatíma sem menningarveldi. Herinn er farinn héðan og bandarísk hern- aðarhyggja hefur beðið algert skipbrot, við sem höfum byggt stjórnmálaskoðanir okkar á miklu leyti á andúð við bandaríska heimsvaldastefnu höfum loksins fengið það sem við viljum. En harmleikur seinni hluta 20. aldar og fyrsta ára- tugar þess 21. felst ekki fyrst og fremst í því að Bandaríkin skuli hafa fengið svo mikil völd upp í hendurnar, heldur hversu illa þeim völdum var beitt. Það er kannski ekki kominn tími til að fyr- irgefa Bandaríkjunum enn, en það líður að því að maður geti farið að sakna þeirra. Reuters Höfuðborg menningar? Hvað verður um New York í þeim pólskiptum sem eru að eiga sér stað í heiminum? Hún var höfuðborg heimsins. Höf- uðborg viðskipta og verslunar. Nú þegar miðstöð viðskipta og verslunar flyst til Austurlanda verður New York kannski miðstöð menningar. Getum við elskað Bandaríkin á ný? „ÞAÐ er kannski ekki kominn tími til að fyr- irgefa Bandaríkjunum enn, en það líður að því að maður geti farið að sakna þeirra,“ seg- ir greinarhöfundur sem veltir fyrir sér stöðu Bandaríkjanna í samfélagi þjóðanna og bend- ir á nýtt hlutverk New York-borgar. »Bandaríkin munu standa eft- ir sem eitt af stórveldum heims, en langt í frá jafn allsráð- andi og þau voru á 10. áratugn- um. Engin þeirra þjóða sem nú eru að stíga fram á sjónarsviðið, Kína, Indland eða Rússland, eru þó líkleg til að taka við risaveld- ishlutverkinu í bráð. Höfundur er rithöfundur og blaðamaður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.