Morgunblaðið - 23.01.2007, Síða 33

Morgunblaðið - 23.01.2007, Síða 33
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 23. JANÚAR 2007 33 rétti, þó orðin bitu misvel, enda skildist ekki alltaf ádeilan. En drýgstu bardagameðulin bruggaði Stulli með gríninu sínu sem var engu líkt. Þar var enginn hugrakkari. Eitt af því síðasta sem hann bað mig um að gera var að klára þýð- inguna á ljóði Högna Stefáns um morgunbrotin. Það er þungt að botna gamlan alþýðuóð, ætlaðan þjóðlagatríói til bardaga sem háður var fyrir þrjátíu árum. En þó þýð- ingin sé ekki lengur kórrétt, þá má notast við lagið. Von mín um lengra líf Stulla rættist ekki, svo hann náði ekki að líta yfir þetta áður en hann fór. Ég vona að hann fyrirgefi mér það. Mærður er morgunn mildur af sólu og síðustu sorgum er sofnuðu í gær. Döggin af drýpur deigvotum stráum, við vonanna víkur vaknaði sær. Morguninn vekur manninn til dáða mikil er vonin í byltingar tíð. Aflið og kraftur ungra fékk ráða, auðgaði lífið listgyðjan blíð. Skrifaði tónlist, skrifaði leikrit, skrifaði ljóðið og myndir í bland. Fullhuga lagðist í framkvæmd og brauðstrit, frumvinnslu úr hafi, nytjaði land. Morgunn í lífi, morgunn í verki morgunn að kveldi, kveðjum hvern dag Drengurinn trausti, drengurinn sterki drenglyndur grínast sitt síðasta lag. Myrkvaðan morgun mildaðu sóla, sefaðu sorgir og svæfðu í sæ. Tárin af tekur, treganum léttir, Guð friðinn gefur enn græt ég og hlæ. Elsku Þóra og börn. Megi æðri máttur gefa ykkur styrk. Björn Þráinn. Kynni okkar Sturlu hófust þegar við urðum kollegar í rekstri fisk- vinnslufyrirtækja. Sturla hafði þá ásamt bróður sín- um Kristni stofnað fyrirtækið Ísfold, sem þeir bræður ráku í fjölda ára, fyrst í Reykjavík en síðan á Eyr- arbakka. Þeir bræður voru ætíð mjög nánir og milli þeirra ríkti djúp vinátta og traust. Við Sturla urðum síðar nánir sam- starfsmenn í félags- og hagsmuna- baráttu okkar í fiskvinnslunni þegar Sturla gekk til liðs við Samtök fisk- vinnslu án útgerðar, SFÁÚ. Þar var hann fljótlega kosinn til trúnaðarstarfa í stjórn samtakanna, þar sem við störfuðum saman í mörg ár. Það samstarf varð farsælt, enda hafði Sturla svo margt gott fram að færa. Hann var vel máli farinn og átti gott með að greina þau atriði sem mestu máli skiptu í hverju umfjöll- unarefni. Hann hafði því ætíð eitt- hvað gott til málanna að leggja. Og þar sem hann hafði þar að auki fal- lega rithönd lá það beint fyrir í huga okkar félaga hans að hann tæki að sér starf ritara í stjórninni. Það starf annaðist hann svo í mörg ár með miklum ágætum. Sturlu var margt vel til lista lagt. Hann var góður söngmaður, var starfandi í karlakór til hins síðasta og lék í hjómsveit á sínum yngri ár- um. Þá var hann vel hagmæltur og ófá- ar urðu þær vísurnar sem við heyrð- um hann kasta fram við hin ýmsu tækifæri, stundum þegar við höfðum beðið hann um það. Aldrei stóð á honum að leysa slíkt verkefni og það gerði hann ætíð með prýði. Og þegar við félagarnir glöddumst saman var Sturla ætíð hrókur alls fagnaðar. Hann var glæsimenni bæði í hátt- um og í útliti og mikill húmoristi með sérstaklega góða frásagnargáfu. Hann kunni manna best þá list að segja gamansögur á þann hátt að þær urðu sérstaklega skemmtilegar í hans frásögn. Við félagarnir í SFÁÚ eigum því margar ánægjuleg- ar minningar frá samverustundum sem við nutum með Sturlu. Enn þær stundir verða því miður ekki fleiri. Fráfall hans, langt um aldur fram, var okkur öllum harma- fregn. Það segir sína sögu bæði um mannkosti Sturlu og meðfædda hæfileika hans, að eftir að hann veiktist alvarlega í haust þá byrjaði hann að mála myndir og hélt mál- verkasýningu nú í byrjun desember. Það seldust allar myndirnar. Í rauninni er óhætt að fullyrða að Sturla var fjölhæfur listamaður, þótt hann veldi sér annan starfsvettvang í lífinu. Og þannig tók hann veikindum sínum af miklu æðruleysi og karl- mennsku, eins og hans var von og vísa og stóð sig sem hetja til hins síð- asta. Við félagarnir í SFÁÚ kveðjum Sturlu Erlendsson með miklum söknuði. Við munum ætíð minnast þessa góða drengs með virðingu og þakklæti í huga. Fyrir mína hönd og félaga í SFÁÚ sendi ég eiginkonu Sturlu, Þóru, börnum hans, systkinum og fjöl- skyldu allri okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Minningin um góðan dreng mun ætíð lifa í hugum okkar. Guð blessi minningu Sturlu Er- lendssonar. Óskar Þór Karlsson. Ég sé þig fyrir mér hávaxinn, grannan og glæsilegan með ljósa hárið niður á axlir. Cortínueiganda með meiru sem stormaðir inn í líf minnar kæru vinkonu, einn logn- molludag, fullur af væntingum og ástfanginn upp fyrir haus. Þú komst ekki einn, heldur fremstur í flokki frábærra félaga sem allir lumuðu á einstökum húmor og skrautlegum uppátækjum sem krydduðu lífið og tilveruna. Ekki óraði mig fyrir því þá að þú, þessi langi sláni, ættir eftir að verða einn af mínum albestu og tryggustu vinum. Við Þóra vorum bara 15 ára, ung- ar og saklausar með allt lífið fram- undan. Eftir örstutt kynni við þenn- an hávaxna húmorista hvarflaði að vinkonu minni að það væri ekki tímabært að sökkva sér of djúpt í há- alvarlegt samband svona ung að ár- um, svo það runnu á hana tvær grím- ur. „En hann á Cortinu!…“ varð mér þá að orði. Ekki grunaði mig þá að þessi orð mín ættu eftir að fylgja mér næstu áratugina, réttara sagt var ég rækilega minnt á það með reglulegu millibili að ég væri að ei- lífu ábyrg fyrir þessu hjónabandi. Alltaf í góðlátlegu gríni sagt en á fimmtugsafmæli Þóru hélst þú tölu þar sem þú þakkaðir „Helgfríði Ís- landssól“ fyrir hversu hamingjuríkt þetta hjónaband hefði verið. Ham- ingjuna skópuð þið ykkur sjálf, ég varð aðeins þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með henni í gegnum árin. Hugurinn hvarflar til baka. Land- eyjarnar, Hjarðarhaginn, Skorra- dalurinn, Sigtún og svo mætti lengi telja. Þar fyrir utan fjölmargar eft- irminnilegar ferðir í sumarhús eða útilegur hér og hvar, þar sem þú komst vopnaður gítarnum og svo voru raddböndin þanin til hins ýtr- asta. Þess á milli hlegið og hlegið enn meira! Þér tókst ævinlega að sjá spaugilegu hliðar tilverunnar og að gera hversdagslega hluti að þvílík- um gamansögum að allir veltust um af hlátri. Hvernig var það ekki með þau Höllu og Fjalla-Eyvind í sinni háskaferð yfir hálendið? Þar naut sín hvað best húmorinn og stráksskapurinn í fari þínu. Fyrir okkur hjónin eru þetta dýrmætar stundir og óneitanlega er sárt til þess að hugsa að þær marki nú liðna tíð. Um leið eru þær mikill gleðigjafi í safn minninganna. Þú varst mörgum mannkostum gæddur, afburðagreindur, með ein- staka kímnigáfu, einlægur, hreinn og beinn, sannkallað tryggðatröll með hlýtt hjarta. Félagslyndur, vinamargur og listamaður af guðs náð. Mátti þar einu gilda hvort um var að ræða ljóðlist, sönglist eða myndlist, allt var þetta þér leikur einn. Þú varst líka sjálfum þér sam- kvæmur og barst höfuðið hátt þegar erfiðir tímar gengu í garð. Andinn var hugumstór, fullur af lífsvilja og baráttuþreki sem kom ekki síst fram í kjarki þínum við að halda myndlist- arsýningu á Ægissíðunni í byrjun desember. Sú reisn sem þú bjóst yfir á þessum erfiðu tímum kom einnig berlega í ljós í þeirri kímni sem þú skrifaðir á blogginu og var orðið partur af daglegri athöfn að opna og lesa. Með því sýndir þú okkur þann kjark sem er okkur öllum til verð- ugrar eftirbreytni. Þær fregnir sem við fengum ný- verið komu því sem þruma úr heið- skíru lofti. Við hittumst um áramótin og kvöddumst með kossi og bros á vör, ákveðin í að hafa bjartsýnina að leiðarljósi. Þú stefndir að því að munda pensilinn til enn frekari verka. Aldrei hvarflaði að mér þá að þetta yrði í síðasta sinn sem við hitt- umst yfir góðu spjalli. Með dyggum stuðningi þinna nánustu varst þú bú- inn að heyja harða baráttu og umvaf- inn hlýju þeirra, hvarfst þú á braut. Við sjáum þig standa syngjandi í stefninu á Sigurvoninni og erum sannfærð um að þaðan lítur þú til okkar, glaðbeittur og glettinn. Alltaf flottur, stór og stæðilegur. Þannig viljum við minnast þín, þakklát fyrir að hafa fengið að eiga svona dýr- mætan vin. Ég lít út um gluggann og lygni svo aftur augum í mildu skini mánans sé þá fyrir hugskotssjónum svipmyndir birtast og endurspila allar mínar uppáhalds senur Þú í essinu þínu dansandi flottur og fágaður geislandi af húmor og hlátrasköllum stjarna meðal stjarna það er minning mín um þig Þú sem sigldir gegnum lífsins stríðu strauma þér var að lokum vaggað í svefn af blíðri báru sem bar þig í aðra veröld – ofar skýjum Svo opna ég augun og horfi á mánann – hálfan – háleitan – og glottandi út í annað hann er að hlæja með þér og mig langar svo að vita – hjartans vinur hvað þú varst að spauga – einmitt núna (Þorgerður Mattía.) Elsku Þóra, Sara, Sölvi, Björk og aðrir ástvinir. Einlægar samúðar- kveðjur til ykkar allra. Vonandi eiga minningarnar um góðu stundirnar eftir að ylja ykkur og sefa um leið sárustu sorgina. Helga, Ásgeir og börn. ✝ Elskulegur bróðir okkar, EYJÓLFUR MAGNÚS JÓMUNDSSON, Örnólfsdal, Þverárhlíð, lést miðvikudaginn 17. janúar. Útförin fer fram frá Akraneskirkju fimmtudaginn 25. janúar kl. 14.00. Ketill Jómundsson, Guðrún Jómundsdóttir, Margrét Jómundsdóttir, Örnólfur Hlíðar Jómundsson, Kristinn Rafn Jómundsson, Iðunn Jómundsdóttir. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÁRNI KRISTMUNDSSON, lést á Landspítalanum við Hringbraut sunnudaginn 21. janúar. Fyrir hönd aðstandenda, Juanita Balani Kristmundsson, Ragnhildur C.J. Árnadóttir, Valborg C.J. Árnadóttir, Lárus S. Árnason, Valborg F. Níelsdóttir, Kristmundur Árnason, Ragnhildur Jónsdóttir, Úlfar Árnason, Ágústa Rut Sigurgeirsdóttir. ✝ Elskulegur bróðir okkar, mágur og frændi, SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, Logafold 113, Reykjavík, lést í London sunnudaginn 21. janúar. Jarðarförin auglýst síðar. Fyrir hönd aðstandenda, Tómas Guðmundsson, Sigurbjörg Ásta Magnúsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Sigurður Skúlason. ✝ Elskulegur sonur minn, bróðir og mágur, VALÞÓR SIGFINNSSON, Stórulág, Hornafirði, lést á Landspítala Fossvogi sunnudaginn 21. janúar. Jarðarförin auglýst síðar. Sigurbjörg Eiríksdóttir, Eiríkur Sigfinnsson, Sigurður Sigfinnsson, Jóhanna S. Gísladóttir, Páll Sigfinnsson. ✝ Okkar ástkæri faðir, stjúpfaðir, tengdafaðir, bróðir, afi og langafi, SVEINN HAUKUR VALDIMARSSON hæstaréttarlögmaður, andaðist á Roðasölum sunnudaginn 21. janúar. Jarðarför auglýst síðar. Valdimar Sveinsson, Herdís Sveinsdóttir, Sveinn Andri Sveinsson, Erla Árnadóttir, Finnbogi Rútur Arnarson, Þórunn Hreggviðsdóttir, Kolbrún Valdimarsdóttir, Grímur Valdimarsson, afabörn og langafabörn. ✝ Maðurinn minn og faðir okkar, HANNES BJÖRN KRISTINSSON efnaverkfræðingur frá Akureyri, lést á heimili sínu í New Jersey mánudaginn 1. janúar. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Fyrir hönd annarra aðstandenda, Jóhanna Hermannsdóttir, Helgi Hermann Hannesson, Jón Kristinn Hannesson, Herdís Hannesdóttir, Agnes Hannesdóttir. ✝ Eiginkona, móðir, fósturdóttir, systir og mágkona, KOLBRÚN HAFSTEINSDÓTTIR, lést á heimili sínu laugardaginn 20. janúar. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju mánudaginn 29. janúar kl. 13.00. Blóm eru afþökkuð, en þeir sem vilja minnast hinnar látnu eru beðnir um að láta SOS Barnaþorpin njóta þess. Magnús Gunnar Baldvinsson, Tinna Ýr Ingólfsdóttir, Stefán Yngvi Finnbogason, Hólmfríður Árnadóttir, Leifur Stefánsson, Tone Marit Torgeirsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.