Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2008, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 29. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson
hannesgi@hi.is
!
Thor Vilhjálmsson sat eitt sinn
um borð í Gullfossi með þeim
Halldóri Kiljan Laxness og
Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Jón
Trausti barst í tal. Thor rifjaði
upp, þegar Jón Trausti varð
ber að fáfræði í ferðalýsingu.
Jónas frá Hriflu reiddist fyrir
hönd Jóns Trausta. Ég er sammála Jón-
asi. Jón Trausti er vanmetinn rithöf-
undur. Athyglisgáfa og frásagnargleði
þessa sjálfmenntaða manns eru með
ólíkindum. Hann á til dæmis margt í
Laxness og Þórbergi. Hliðstæður eru
milli heiðarbýlissagna hans og Sjálf-
stæðs fólks Laxness, og söguna um
hreindýrið, sem Bjartur í Sumarhúsum
sat, má raunar rekja til einnar smásögu
Jóns Trausta. Sitt hvað í Bréfi til Láru
minnir á aðra smásögu eftir Jón
Trausta, „Séra Keli,“ sem birtist í Eim-
reiðinni 1915 og Þórbergur hefur þá ef-
laust lesið. Það er rétt, að Jón Trausti
skrifaði ekki nógu vandaðan stíl. Sniðið á
sögum hans er ekki fullkomið. En á
sama hátt og hin rússneska þjóðarsál
nítjándu aldar birtist í verkum Dostó-
évskís, eru sögur Jóns Trausta heimildir
um hina íslensku þjóðarsál um aldamótin
1900. Er Jón Trausti ekki Dostóévskí Ís-
lands?
Jón Trausti var frjálslyndur framfara-
maður. Berum saman sögulokin í heið-
arbýlissögunum og Sjálfstæðu fólki.
Halla flyst niður í kaupstaðinn. Hún skil-
ur, að þar er frelsið. Þar getur hún selt
vinnuafl sitt fyrir glóandi krónur. Þar er
hún einstaklingur. Mistök hennar voru
að hrekjast upp í heiðarbýlið forðum. En
Bjartur í Sumarhúsum flýr lengra upp á
heiðina (alveg eins og Ólafur Kárason
gekk upp á jökulinn). Bjartur hverfur út
úr veruleikanum, Halla inn í hann. Heið-
arbýlissögur Jóns Trausta gerast á skil-
um bændaveldisins forna, þar sem hlut-
skipti fátæklinga var ýmist að deyja úr
hor eða tóra sem vinnufólk, og hins ís-
lenska kapítalisma, sem kom til sög-
unnar á nítjándu öld og veitti fólki tæki-
færi til að flytjast í kaupstaðina, ekki síst
til Reykjavíkur, og brjótast til bjargálna.
Ádeila Jóns Trausta á sósíalisma,
Bessi gamli, er auðvitað ekki vel heppn-
uð skáldsaga. Þar er þó snjöll lýsing á
hugsjónum jafnaðarmanna: „Upp með
dalina! Niður með fjöllin!“ En skýrasta
dæmið um stjórnmálaskoðun Jóns
Trausta er í smásögunni „Kappsigling-
unni“. Hún gerist erlendis. Gamall mað-
ur og ung stúlka fylgjast úr stúku með
kappsiglingu, þar sem snekkja keisarans
er lengst af fremst, en síðan siglir minni
skúta hana uppi, og henni stýrir alþýðu-
maður, sonur gamla mannsins og unn-
usti stúlkunnar. Í stúkunni veðja áhorf-
endur um úrslit. Lundúnasláni og
gildvaxinn stórkaupmaður veðja báðir á
keisarasnekkjuna, en Bandaríkjamaður
á skútu alþýðumannsins. Siglingunni
lýkur með sigri alþýðumannsins. Gamli
maðurinn, faðir hans, segir þá við
Bandaríkjamanninn: „Þeir sigra ekki
alltaf, miklu mennirnir, oddborgararnir,
— ekki alltaf. Einokunaröldin er um
garð gengin. Nú er öld samkeppninnar
og hins frjálsa mannjafnaðar.“
Jón Trausti skildi og bjó skáldlegum
búningi, að samkeppni er alþýðu manna í
hag. Það er engin tilviljun, að í þessari
smásögu lætur hann Bandaríkjamann
veðja á skútu alþýðumannsins. Þar
vestra hefur löngum verið land tækifær-
anna. Ísland breyttist í sömu átt með
auknu atvinnufrelsi í lok nítjándu aldar,
þótt nokkur afturkippur yrði síðan með
heimskreppu og haftabúskap. Í lok tutt-
ugustu aldar rættust loks draumar Jóns
Trausta.
Draumar
Jóns
Trausta Eftir Kristján B. Jónassonkbjonasson@gmail.com
F
yrir aðeins ári síðan náði hug-
myndafræðileg hugarfars-
innræting kapítalískra kaup-
hátta hér á landi táknrænu
hámarki þegar gamla Olíufé-
lagið Esso breyttist í fjöl-
þætta þjónustufyrirtækið N1. Til þess að
syngja innsiglissálm fyrir sambræðing sund-
urleitrar hjarðar smurstaða, bensínsölustaða
og varahlutaverslana voru félagarnir í hljóm-
sveitinni Queen kvaddir til og stafnbúi þeirr-
ar sveitar, Freddie Mercury, tónaði yfir þeim
örfáu Íslendingum sem enn voru ekki „á
þeim tímapunkti“ sannfærðir um að Ísland
væri heimaland hinna ríku, djörfu og mögn-
uðu: „Don’t stop me now! I’m having such a
good time.“ Allur sá heillandi barnaskapur og
bjartsýnisandi sem einkenndi íslenska efna-
hagsundrið skrapp saman í einni línu – anda
tímans. Um þetta leyti, fyrir aðeins einu ári,
hafði skapast nokkurs konar hefð fyrir því að
framfaramenn samfélagsins gæfu tímamótum
í lífi sínu inntak með því að kveða til helstu
stærðir vestrænnar dægurtónlistarsögu. Með
því að stilla þessari hefð upp með mynd-
brotum sem sýndu heilt samfélag á fullri ferð
áfram, sama hvað leið veðri, vindum, fjöllum,
firnindum og öðrum náttúrulegum farar-
tálmum, öðluðust hin séríslensku góð-
ærisgildi – The Icelandic way of doing things
– sína efnislegu mynd. Hérlendir listamenn
höfðu annaðhvort ekki enn vaknað upp til
veruleika tímans eða höfðu ekki nógu skýra
sýn á veruleikann. Þess vegna öðlaðist góð-
ærið ekki varanlega táknmynd í listaverkum
og þess vegna varð það hlutverk auglýsinga-
leikstjóra að orða inntak tímanna til fulln-
ustu: „Don’t stop me now! I’am having such a
good time.“
Miðvikudaginn fyrir páska heyrði ég þetta
stef í útvarpinu, rétt ofan í fréttir af lægða-
gangi efnahagslífsins. Það var í senn þrungið
eftirsjá og nöprum beyg. Þessi sjálfumglaði
fjörkálfasöngur myndi aldrei aftur hljóma á
saklausum forsendum ensku hljómsveitar-
innar Queen og hins burtsofnaða forsöngvara
hennar heldur aðeins minna mann á það
tímabil nýliðinnar sögu að framboð lánsfjár
var umfram eftirspurn. Sú staðreynd að
söngurinn skyldi enn vera sunginn bar merki
einhvers konar hetjulegrar þrákelkni. Stefið í
útvarpinu var heldur ekki hinn hraði hluti
lagsins þar sem Queen-sveitin tónar öll í öfl-
ugum rokksamkór með hetjuróm: „Don’t stop
me now!“, heldur hægi hlutinn, diminuendo-
parturinn, þar sem Queen lætur atkvæðin
fleyta kerlingar á sléttum sjó svo þau skoppa
hnitmiðað út í tómið. Hægagangurinn í
söngnum, það hve andstuttur kórinn er,
dregur fram að aflið sem meinar fjörinu að
halda áfram er of sterkt. Einhver eða eitt-
hvað er grátbeðið um að stöðva ekki ferðina
áfram, vitandi að það er ómögulegt. Í ljósi
þess að refsisverð Sögunnar hafði höggvið að
rótum efnahagslegs sjálfstrausts þjóðarinnar
rétt áður varð hljómurinn í laginu svo sorg-
legur. Það tjáði ekki lengur bjartsýnina og
uppganginn. Það tjáði söknuðinn eftir bjart-
sýninni.
Eins og sakir standa geta fjölmiðlar á Ís-
landi ekki með góðri samvisku selt bjartsýni
og uppgang. Það er kreppan sem selur. Grein
í 24 stundum um gamalgróið vandamál,
veggjakrot á Laugavegi, fær fyrirsögnina
„Kreppa á Laugavegi“. Sjónvarpsfréttir RÚV
og útvarpsfréttir Rásar 1 rekja samvisku-
samlega teikn og ummerki hrapsins. En á
engan er hallað þegar sagt er að Morg-
unblaðið hafi haslað sér völl sem helsti sölu-
aðili kreppunnar hérlendis. Þar blasti fyrst
við sú fullkomna eymdarsamfella sem aðrir
fjölmiðlar streða við að búa til. Hvern dag
greiða árvakrir áskrifendur fyrir breiðsíðu
áminninga um tyftun og straff fyrir freklegan
hofmóð fjármagnseigenda og almennings. Og
þótt skilaboðunum hafi verið komið á fram-
færi og besta leiðin til að fá ráðvilltan múg-
inn til að hlusta sé að nefna nafn kreppunnar,
er enn mikið að starfa. Enn dansa bjánarnir
þótt búið sé að skjóta hljómsveitina. For-
herðing þeirra sem keyptu Range Rover eða
pöntuðu sér utanlandsferð þegar búið var að
blása til samdráttar hlýtur að vera steini lík.
Því má nú sjá farandpredikara úr leikmanna-
reglum stjórnmálaflokkanna á stjákli í blogg-
þorpinu með iðrunarólar á lofti í von um að
hitta fleiri krossburðarmenn, hrópandi hátt
um að menn geri nú yfirbót strax svo afstýra
megi enn stærra straffi. Hættið að kaupa!
Er nema von að venjulegt fólk sem búið
hefur við uppgíraða bjartsýnisinnrætingu í
góðan áratug hiki aðeins. Það þætti ekki góð
lexía í tamningu á hrossi að rugla skepnuna
svona. Hætt við að hún glutraði niður gang-
inum eða yrði vitlaus í taumum. Hvað svo
þegar næsta uppsveifla kemur? Þá verður
aftur að kveikja á hreyflunum og opna fyrir
áveitukerfið og aftur að telja sem flestum trú
um að það séu mannréttindi að deila lífsstíl
sínum með efri millistéttum þróaðra iðnríkja
sem eiga sér alvöru gjaldmiðil en ekki skopp-
araboltakrónu: „Don’t stop me now!“
Það er ekki nema ár síðan menningarbylt-
ing bjartsýninnar reis hæst með takmarka-
lausri trú á að engar hindranir væru í vegi
Íslendinga, allra Íslendinga. Hugmyndafræði
efna- og valdastéttanna varð að sameig-
inlegum viðmiðum samfélagsins. Árangur
þeirra var ausinn lofi af sömu fjölmiðlum og
nú stíga varfærin og hikandi skref inn í nýja
kreppuorðræðu sem á köflum minnir á tals-
máta valdastétta 16. og 17. aldar þar sem
áföll samfélagsins og hræringar náttúrunnar
voru talin bein afleiðing yfirskilvitlegrar
ákvarðanatöku. Sú samlíking er langt frá því
út í hött. Enn og aftur er allur almenningur
ávarpaður í nafni hagsmuna sem að síðustu
eru honum huldir. Einhverjir hafa af því hag
að kreppan magnist, annars væri hún ekki
boðuð af jafnmiklu offorsi. Um leið er talað
um kreppuna sem rökrétta afleiðingu þess að
grundvallarlögmálum hafi verið storkað.
„Don’t stop me now!“ er ekki lengur kok-
hraust hróp, heldur klökk bæn: „Don’t stop
me now ...“ í veikri von um að einhver
ókunnug öfl heyri og rjóði dyrastaf okkar
með blóði svo refsiengill kreppunnar gangi
framhjá en rispi ekki kaupleigujeppana.
Næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort
einhver sé að hlusta …
„Don’t stop me now!“
Morgunblaðið/Kristinn
Kreppan selur „Eins og sakir standa geta fjölmiðlar á Íslandi ekki með góðri samvisku selt
bjartsýni og uppgang. Það er kreppan sem selur.“
FJÖLMIÐLAR
»Enn dansa bjánarnir þótt búið sé að skjóta hljómsveitina.
Forherðing þeirra sem keyptu Range Rover eða pöntuðu sér
utanlandsferð þegar búið var að blása til samdráttar hlýtur að
vera steini lík. Því má nú sjá farandpredikara úr leikmanna-
reglum stjórnmálaflokkanna á stjákli í bloggþorpinu með iðr-
unarólar á lofti í von um að hitta fleiri krossburðarmenn, hróp-
andi hátt um að menn geri nú yfirbót strax svo afstýra megi enn
stærra straffi. Hættið að kaupa!
Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs-
ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins