Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2008, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2008, Blaðsíða 16
Eftir Hermann Stefánsson hermannstefansson@yahoo.com Á myndinni er ekki bara uppnám heldur ójafnvægi. Ekki er ljóst hver afstaða fólksins er gagn- vart konunni, hvar hún stendur og hvert þau eru að horfa. Á myndfletinum takast á tvö form, tveir helmingar, og vinstri helmingurinn hefur betur í ofgnótt sinni: Rass og fótleggir fylla upp í rammann en fólkið hægra megin bíð- ur ósigur. Konan hefur gert innrás í einka- svæði þeirra, hún stendur of nálægt, gnæfir yf- ir þeim og vanhelgar þau. Litur myndarinnar er brúnn: Hörundslitur mannsins er mitt á milli litarins á sokkabuxnaklæddum lærunum og brúna litarins í bakgrunni. Blái jakkinn hans stingur í stúf við umhverfið en hvítt andlit og handleggur konunnar kallast á við mjóhrygg- inn á dansaranum. Hverju lýsir svipur kon- unnar? Skelfingu, hneykslun, leiða, vorkunn? Hlutfallslega virðast þau eiginlega aðeins of lít- il, eins og þau sitji í raun spottakorn frá eða til- heyri öðrum heimi þar sem þau hitta ekki fyrir neinn klúran rass. Fyrir aftan parið er brúnt tóm með áferð sem minnir á veggfóður frá átt- unda áratugnum. Konan gæti verið úr kvik- mynd frá sjöunda áratugnum, kjóllinn er klass- ískur en einkum er hárgreiðslan gamaldags. Þau hefðu eins getað setið bara sisvona í grandaleysi á kaffihúsi og spjallað saman þeg- ar kvenmaður í netsokkabuxum kom allt í einu aðvífandi og byrjaði að skaka framan í þau rassinum. Þeim hefur brugðið í brún við þetta áreiti. Æ, eigum við ekki að fara eitthvað ann- að? Maðurinn horfir á rassinn en konan fremur á fótleggina, það er jafnvel eins og hún horfi fremur eitthvað út úr myndinni. Sambandið á milli parsins leynir sér ekki, líkamleg nálægð segir að þau eigi sér einkalíf (kannski haldast þau í hendur), og þótt þau horfi ekki einu sinni hvort á annað er eins og þau standi í einhverju leynimakki. Þau minna á gamlar svart-hvítar glæpamyndir og gætu eins verið að bræða með sér að drepa konuna í netsokkabuxunum. Eig- um við að drepa hana? Hvernig gætum við komist upp með það? En þau sitja auðvitað ekki á kaffihúsi og skipuleggja morð og það er ekki einu sinni víst að þau sitji. Tilefnið er mislukkuð endurkoma söngkonunnar Britney Spears á MTV- verðlaunahátíð á síðasta ári. Myndin er á vef fréttastofunnar Reuters, sögð vera frá atburð- inum og merkt ein af myndum ársins 2007. Hvers vegna? Vegna þess hve hún segir mikið. Þetta er mynd um það að horfa: Við horfum á fólkið horfa á rassinn. Fatnaðurinn er búning- urinn sem Britney klæddist við þetta tækifæri og sé litið á upptöku af viðburðinum má sjá að það er eins líklegt að fólkið sitji ekki og horfi upp á senuna heldur sé hluti af stórum hópi dansara sem fór lostafullum höndum um Brit- ney á sviðinu í atriðinu. Sé þátttakendur en ekki vitni. Ef það er rétt má kannski segja það sama um okkur sem horfum á fólkið horfa á rassinn, við erum ekki saklausir áhorfendur heldur þátttakendur í sögu sem ber yfirskrift- ina „Drepum Britney Spears“. Augnaráðið sem vestrænir fjölmiðlar og þar með lesendur hafa beint að Britney Spears er í senn kynferðislegs eðlis og þrá eftir að drepa hana. Britney er viðfang einæðings: Hún birt- ist í öllum íslensku blöðunum flesta daga vik- unnar og er alltaf undir liðnum „Mest lesið“ í vefmiðlunum. Við höfum fylgst með henni vesl- ast upp og fitna, sökkva í eiturlyfjafen, hóta sjálfsmorði, skilja, eignast börn og missa for- ræði yfir þeim, raka sig sköllótta, tapa geð- heilsunni og leggjast inn á geðsjúkrahús – missa tökin í öllum skilningi og á nákvæmlega sama hátt og þegar fólk deyr og fær fullnæg- ingu. Við erum að ríða Britney Spears til dauða. Britney hefur verið í kastljósinu frá því hún var táningur og lýsti því yfir að hún hygð- ist ekki missa meydóminn fyrr en hún hefði gift sig. Fjölmiðlar gripu hana á lofti tóku að segja framhaldssögu þar sem Britney missti mey- dóminn, giftist, eignaðist börn og skildi og stefndi niður á við í samfelldri hnignun. Þannig áfram smáfrétt eftir smáfrétt, skandala á skandala ofan, þar til kom að þessari hörmu- legu endurkomu á MTV-hátíð. Hún söng lagið „Gimmie More“ af nýjasta diski sínum, Blacko- ut, og var klámfengnari en nokkru sinni. En klám og klúrheit voru ekki ástæðan fyrir at- hyglinni sem viðburðurinn vakti og það hefur ekki merkingu að tala um „klámvæðingu“ í þessu samhengi: Orðið „klámvæðing“ birtist fyrst sem fyrirsögn í íslensku dagblaði, DV, við hliðina á símavændisauglýsingum: Blaðið höfð- aði til siðferðisvitundar góðborgara og vildi skera upp herör gegn því sem best birtist á síð- um þess. Hnýsnin um helga dóma Britney (þessi óseðjandi þorsti eftir einkalífi annarra, einhverju einkalífi) er ekki aðeins til marks um framrás gulu pressunnar og klámsins heldur einnig (og ekki annað en) nýgerving af hneyksl- unargirni smáborgaralegra kellinga í vest- urbænum sem hafa á öllum tímum þefað uppi hneykslunarhellur, smjattað og undrast og fengið útrás í lesendadálkum virðulegustu blaða. Eftirlætis uppákoma fjölmiðla með Brit- ney er ekki kynlífsmyndband heldur hátíð- arútsending af MTV-hátíð. Og það var ekki klám sem vakti athygli heldur sú staðreynd að hún dansaði klunnalega og var of feit, klunna- leg kona með slappa magavöðva. Loksins var Britney Spears komin að leiðarlokum. Dómur fjölmiðla var einróma, þetta var búið, Britney var útriðin og steindauð. Nákvæmlega eins og margar aðrar, frá Marilyn Monroe til Díönu prinsessu. Allir höfðu fengið leiða á sögunni en hún heldur samt áfram sem nokkurs konar eft- irmáli – líf að loknum ósigri, drög að útför. Áhugi fjölmiðla á Britney er sjúklegri en nokkru sinni því hann er af sama toga og fýsn náriðils. Sagði ég fjölmiðla? Það dugir ekki að ásaka þá því þeir vísa á almenning: Það sé ekki fjallað um hlutina nema vegna þess að almenn- ingur hafi áhuga á þeim, meðvitað eða ómeð- vitað. Papparassa að nafni Nick Stern blöskr- aði reyndar ágengnin og sagði upp störfum hjá dagblaði nýlega og lýsti því, vel að merkja í fjölmiðlum, að honum hafi ofboðið: 20-30 bílar elta Britney á röndum alla daga og ekki sætir tíðindum að ekið sé á 100 á öfugum vegarhelm- ingi til að ná góðri mynd. Stern hefur áhyggjur af því að gengið verði af Britney dauðri. Fjöl- miðlar sýndu honum mildan áhuga í fáeina daga en Nick Stern var ekki að segja ný tíðindi þegar hann greindi frá aðförunum við aftök- una. Allir fjölmiðlar vissu fyrir að það er verið er að drepa Britney. Bandaríska fréttastofan Associated Press er tilbúin með minning- argrein um hana, það sætir ekki tíðindum, til eru ógrynni af eftirmælum um lifandi fólk þótt flest sé það eldra en 26 ára. Það eina sem hægt er að ásaka fréttastofuna um er ótímabært sáð- lát. Það er beðið eftir dauða eða upprisu. Fyrir fáeinum dögum kom út nýtt vídeó við lag úr Britney, það er teiknimynd þar sem söngkonan er gerð að ofurhetju – fjarri öllum veruleika (allir vita að á sama tíma er manneskjan sjálf á leið veg allrar veraldar). Markaðsvélin hefur séð alfarið um framleiðsluna og búið til kyn- táknið án kynverunnar. Vafalaust er ástæðan sú augljósasta, að Britney Spears sé vant við látin, hafi jafnvel dregið sig í hlé eins og dýr gera þegar þau finna dauðann nálgast. Það er til fólk sem hefur meiri trú á markaðsvélinni en raunveruleikanum og talar um brellur þegar eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis. En línu- dans virkar best ef það er ekkert öryggisnet. Oftrú á markaðsvélum gengur ekki upp: Þegar hlutirnir virðast ætla úr böndunum er það vegna þess að þeir eru að fara úr böndunum: Ágengni fjölmiðla er að ganga af Britney dauðri. Að horfa er að drepa. Og rétt eins og fólkið á myndinni sem á erfitt með að horfa á neitt nema það sem gnæfir yfir því er erfitt að komast hjá því að horfa. Síðasta myndband með Britney sjálfri er árás á glápið. „You want a piece of me“ syngur Britney í laginu „Piece Of Me“ sem er af síð- asta diski hennar – á ég að þýða það „Ykkur langar í bita af mér“ eða er smekklegra að tala um sneið? Í byrjun lags heyrast vélrænar full- nægingarstunur – hljóðgervill er notaður á röddina – og þær rjúfa líka taktinn í laginu og kallast á við textann. Þetta er grípandi popplag og textinn er svar til papparassanna, sjálfs- ævisögulegur spuni þar sem Britney gengur nærri sjálfri sér og talar frá hjartanu. Hún seg- ist hafa verið ameríski draumurinn frá því hún var sautján ára og það skín í sjálfa örvænt- inguna, hið innsta sjálf, í textanum. Nei, það er ekki þannig. Lagið er ekki eftir hana sjálfa, né heldur textinn, og það skín ekki í neitt. Britney léði laginu rödd sína, söng nokkrar nótur við aðfenginn texta og hefur ekki verið staldrað lengi við í stúdíóinu. Röddin er beygluð af fag- mönnum svo að glitti í sálina sjálfa. „Langar þig í bita af mér?“ spyr Britney, greinilega al- veg búin að missa það, hún endurtekur setn- inguna, langar þig í bita af mér? og lostafans- inn umhverfis hana engist um í dauðadansi og svo koma stunurnar – eða er það kjökur? Brit- ney snýr setningunni við í lok lags: „Ertu viss um að þú viljir bita af mér?“ Raunar er ég ekki viss. Það gæti meira en verið að fólkið sé ekki dansarar heldur sitji við eitt af borðunum úti í sal – því á upptökunni sést að upp á hvert borð í salnum steig súlud- ansmey í svipuðum fötum og Britney, ótal tví- farar mitt á meðal okkar. Fólkið er eftir allt saman bara vitni, ekki þátttakendur. Britney Spears er ekki einu sinni á myndinni. Þar er ekkert nema klúrheit og innrás, bara rass af ónefndri konu sem er ráðin í það hlutverk að troðast óforvarendis upp á fólkið og búa til óþægilega nálægð, rétt eins og þá sem skapast í öllum fréttunum af einkalífi Britney. Þegar upp er staðið er meginmerking myndarinnar á henni sjálfri: Innrásin í einkarými fólksins. All- ar þessar smáfréttir af Britney Spears eru sama eðlis, sönnun þess að fjölmiðlar bera enga virðingu fyrir almenningi, þeir líta svo á að fólk sé fávitar. Það er líka alveg rétt hjá þeim. Mað- urinn og konan eru að hugsa um hvort þau eigi að fá sér bita eða fara eitthvað annað. Ætlarðu ekki að fara að drepast, Britney? Reuters Drepum Britney Spears Bera fjölmiðlar enga virðingu fyrir Britney Spears? Bera þeir enga virðingu fyrir al- menningi? Hvers vegna ráðast þeir svona inn í einkarými okkar? Þetta er þriðja grein í flokki höfundar um fréttaljósmyndir. Höfundur er rithöfundur. » Augnaráðið sem vest- rænir fjölmiðlar og þar með lesendur hafa beint að Britney Spears er í senn kynferðislegs eðlis og þrá eftir að drepa hana. 16 LAUGARDAGUR 29. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók|Myndin af heiminum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.