Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2008, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2008, Page 6
Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com E ins og frægt er orðið hefur myndin farið í gegnum fjöl- mörg handrit, sem öllum var hafnað á einn eða annan hátt þar til hin heilaga þrenning – Lucas, Spielberg og Ford – voru allir saman á eitt sáttir. Myndin hefur hlotið svo marga titla, höfunda og sögusvið að ómögulegt hefur verið að greina á milli sann- leika og uppspuna. Satt best að segja var ég fyrir löngu búinn að missa trúna á því að röðin yrði að fjórleik og búinn að loka á allt nýjasta Indy-slúðrið. Það er í raun tiltölulega stutt síðan ég uppgötvaði að Indy 4 væri raunveru- lega á leiðinni, eða nánar tiltekið þegar stiklan birtist á vefnum fyrr á árinu. Ég veit ekki mikið meira um myndina nú heldur en þá, sem hlýtur að teljast merkilegt. Framleiðslufyr- irtækið og allir sem að myndinni standa hafa farið svo leynt með efnið að lítið sem ekkert hefur lekið út. Jafnvel í tilvikum þar sem efnið hefur kom- ist í hendur rangra aðila hafa umsjónarmenn stóru vefsíðanna klagað í lögguna og stutt leynimakk Spielbergs og félaga. Það er orðið frægt dæmi þegar brotist var inn í skrifstofur leikstjórans og skjölum og ljósmyndum stolið, sem síðar var reynt að selja á netið. Löggan setti upp svikamyllu í samráði við ónefndan vefstjóra og þrjótinum var fleygt á bak við lás og slá. Það er greinilega borin mikil virðing fyrir listrænni sýn heilagrar þrenningar. Önn- ur fræg saga tengist aukaleikaranum Tyler Nelson sem kjaftaði í heimabæjardagblaðið sitt síðastliðið haust. Fréttin tók strax að berast út en var fljótt þögguð niður og aumingja Nelson fundinn sekur um að hafa brotið samningsbundna þagnarskyldu (og þar með rústað mannorði sínu innan leikara- stéttarinnar). Spielberg mun hafa íhugað að klippa út senuna með honum í refsingarskyni en hvort hann gerði það veit ég ekki. Hafið augun opin í kreditlistanum. Það litla sem vitað er um myndina er að hetjan okkar er að leita að hinni dularfullu kristalhauskúpu frá Akator ásamt Ray Win- stone og Shia LeBouf. Karen Allen birtist aft- ur í hlutverki Marion Ravenwood (úr fyrstu myndinni) og ferðinni er heitið til Perú þar sem Indy þarf að kljást við sovéska herinn um kristalkúpuna. Cate Blanchett leikur útsend- arann Irinu Spalko, meginandstæðing Indy í nýjasta kapphlaupinu, sem vill nýta krafta hauskúpunnar til að ná yfirhöndinni í kalda stríðinu. Mikið hefur verið lagt undir til að láta myndina komast sem næst þeim gömlu í útliti og stemningu. Tölvutækni er haldið í lág- marki og hasarsenur framkvæmdar á gamla mátann. Samkvæmt ráðamönnum hefur til- ætlun leikstjórans gengið upp og myndin ku vera nægilega keimlík forverum sínum til að skapa þá tálsýn að hún hafi verið kláruð í beinu framhaldi af þeirri seinustu. Reyndar hafa leikararnir elst nokkuð, en Ford hefur þó furðulítið breyst á þessum tíma (og segist jafnvel vera í enn betra formi nú en þá). Það er kannski leitt að Sean Connery hafi ekki verið með en til stóð að plata hann í smáhlut- verk þrátt fyrir að jálkurinn hafi lýst því yfir fyrir nokkru að hafa lokið störfum í kvikmynd- um alfarið. Engu að síður lét hann hafa eftir sér að ef hann gerði undantekningu, þá hefði það verið fyrir Indy 4. Þá er eins gott að hann standi við orð sín og leiki aldrei framar. Ég get ekki annað en játað hér með að ég hef ekki verið jafnspenntur að fara í bíó í mörg ár. Það gerist æ sjaldnar að ég hlakki til að fara í bíó, þar sem ég er dottinn ofan í þann gír að vilja frekar sjá myndir sem mér þykja áhugaverðar heima í stofu. Sumar myndir eru hins vegar af þeim toga að nauð- synlegt er að sjá þær í bíó til að fá fulla upp- lifun. En það eru gjarnan helþunnar has- armyndir sem ég tími varla að blæða þúsara fyrir. Indy er allt annað mál. Ég man þegar ég sá gömlu myndirnar í fyrsta sinn sem strákur, en ég sá þær aldrei í bíó. Eftirvænt- ingin er því gríðarmikil og óneitanlega er erf- itt að kæfa ótta um vonbrigðin sem fylgdu nýja Stjörnustríðsguðspjalli Lúkasar. Engu að síður hef ég mikla trú á verkefninu og get ekki ímyndað mér annað en að í næstu viku fái ég að þjóta af stað inn í nostalgíutrippið sem framleiðendurnir eru búnir að kynda undir hjá mér og óteljandi öðrum fylgjendum fornleifa- fræðingsins. Fornleifafræðin snýr aftur Kristalhauskúpur – svo mikið er víst. Enn og aft- ur sækir handritið í brunn sögusagna um yf- irnáttúrulega og hálfgoðsögulega dýrgripi mannkynssögunnar. Einnig er víst að nasistar eru fjarri góðu gamni, árið er 1957 og Karen Al- len mætir með sólskinsbrosið. En ekki veit ég mikið meira en það, þrátt fyrir að hafa fylgst ná- ið með allri umfjöllun og lesið nýjasta tölublað Empire blaðanna á milli, þar sem Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull fær ít- arlega umfjöllun og sérblað þess að auki. Aðdá- endur myndaflokksins hafa setið sveittir við ágiskanir í tæplega 20 ár og enn er verið að giska, aðeins nokkrum dögum fyrir heims- frumsýningu. Bravó! Indiana Jones „Ég get ekki annað en játað að ég hef ekki verið jafnspenntur að fara í bíó í mörg ár.“ 6 LAUGARDAGUR 17. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is Clive Owen var lengi orðaður viðhlutverk njósnara hennar há- tignar, James Bond. Af því verður varla úr þessu en hins vegar virðist heilmikill skyld- leiki með Bond og Lois Salinger, lögreglumanni hjá Interpol sem Owen mun leika í sinni næstu mynd, The Int- ernational. Þar þarf Salinger, ásamt saksókn- ara leiknum af hinni áströlsku Naomi Watts, að koma lögum yfir einn stærsta banka veraldar, sem virðist bera ábyrgð á vopnasölu og peningaþvætti auk þess að hafa komið ófáum lýðræð- islega kjörnum ríkisstjórnum frá til þess að vernda eigin hagsmuni. Bar- áttan við bankann rekur þau skötuhjú frá Berlín til Mílanó, Moskvu og Istanbúl. Það er þýski leikstjórinn Tom Tykwer sem sér um að mynda heimsborgirnar.    Kúrdinn Hama Ali varð frægur íÍrak fyrir að leika Súpermann í írösku sjónvarpi en er nú orðinn mið- aldra og ekki sami gljáinn yfir ferl- inum og áður. En síðan hittir hann tyrknesku leikkonuna Ayca Dam- gaci við tökur og á í ástarsambandi við hana sem lýkur ekki þegar bæði halda til síns heima, jafnvel þótt landamærunum á milli Tyrklands og Íraks sé nú lokað vegna Íraksstríðs- ins endalausa. Ali sendir Aycu ást- arbréf í formi myndbanda, þar sem einnig má sjá ástandið í stríðshrjáðu landinu. Þetta verður loks til þess að Ayca ákveður að finna ástmann sinn hvað sem landamæraverðir og Bandaríkjastjórn segir. Með hjálp útsjónarsamra kúrdískra listamanna sem hafa flúið Írak og vörubílstjóra sem fara á milli landamærastöðv- anna tekst henni að finna Ali – og þremur árum síðar fer leikstjórinn Hüseyin Karabey með hana í þetta sama ferðalag og lætur hana leika sjálfa sig í myndinni My Marlon and Brando sem hefur gert ágætis hluti á nýlegum kvikmyndahátíðum.    Ófáir dálksentimetrar hafa veriðfylltir af umfjöllun um næstu mynd Harrison Ford, fjórða æv- intýri fornleifafræðingsins Indiana Jones. Á meðan hafa fæstir tekið eftir að Ford gamli mun einnig birtast í nýrri mynd í lok sum- ars, Crossing Over, með leik- urum á borð við Sean Penn, Ray Liotta, Ashley Judd og Alice Braga. Myndin fjallar um erfiðleika margra innflytjenda í Los Angeles við það að öðlast einhvern lagalegan rétt í nýju landi, sem nýtir sér vinnu- afl þeirra en gefur lítið til baka.    Ferill Heather Graham hefur ver-ið á hraðri niðurleið síðan hún renndi sér léttklædd á hjólaskautum í Boogie Nights. En það eru vonir bundnar við að Ex–Terminators breyti því, sér- staklega þar sem leikstjórinn er John Inwood, einn af lyk- ilmönnunum á bak við spít- alagamanþættina Scrubs, en þar hefur Graham farið með stórt gesta- hlutverk. Ex–Terminators fjallar um hóp kvenna sem hittast á námskeiði í því að hafa stjórn á skapi sínu og ákveða að stofna fyrirtæki saman, fyrirtæki sem beinir spjótum sínum að svikulum elskhugum, sbr. titilinn Ex–Terminators. KVIKMYNDIR Harrison Ford Clive Owen Heather Graham Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com Um síðustu helgi sat ég í Skjaldborg-arbíói á opnunarkvöldi hátíðar ís-lenskra heimildarmynda á Patreks-firði og hlustaði á einn þekktasta og virtasta leikstjóra bransans ræða sinn feril og sínar myndir og svara spurningum á sviðinu. Albert Maysles heitir hann, sérlegur heið- ursgestur hátíðarinnar, en sýnd voru valin verk frá rúmlega hálfrar aldar ferli, þ. á m. víð- fræg mynd sem hann gerði um Rolling Stones og Altamont árið 1970. Albert hafði frá ýmsu að segja, eins og við er að búast af manni sem hefur unnið með ótal viðfangsefnum í sínum myndum, m.a. Bítlunum, Marlon Brando, Truman Capote og Orson Welles, svo eitthvað sé nefnt. Dagskrá Skjaldborgarhátíðarinnar í ár sam- anstóð af um 30 íslenskum heimildarmyndum og stór hluti þeirra leikstjóra voru viðstaddir yfir helgina. Ég get því gróflega ályktað að fjölmargir heimildarmyndagerðarmenn, ný- græðingar jafnt sem lengra komnir, hafi setið og hlustað á Maysles ræða málin. Þeim hlýtur því öllum að hafa brugðið þegar hann lýsti því yfir að hann væri í stökustu vandræðum að koma draumamyndinni sinni í verk vegna þess að hann skorti fjármagn. Það var ákveðið raun- veruleikasjokk að heyra rúmlega áttræðan manninn, sem er jafnframt einn frægasti leik- stjóri á sínu sviði, játa þetta. Eftir allt sem hann hefur gert, þarf hann ennþá að ströggla til að gera myndir. Og ef Albert Maysles þarf enn að berjast fyrir sinni list, þá þýðir lítið fyr- ir okkur hin að kvarta. Þá veltir maður kannski fyrir sér hvort hann geri ekki lengur nægilega spennandi myndir og lifi á fornri frægð, en svo er vissulega ekki. Myndin sem hann dreymir um að klára og hefur verið að reyna að koma í vinnslu í meira en áratug fjallar um lestarferðir. Maysles vill fara í lestir víða um heim og grípa mannlegar sögur frá farþegum til að sýna hversu nátengd við erum hvert öðru, landamæralaust. Þetta gæti hljómað eins og skrítið umfjöllunarefni, en sá dularfulli kraftur fylgir Maysles að hann þefar uppi mannlegt drama hvert sem hann fer. Þegar hann gerði prufu fyrir myndina fór hann í lest í Bandaríkjunum og sá konu sem virtist vera eitthvað stressuð. Hann kynnti sig, spurði út í ferðalagið og bað um að fá að fylgja henni eftir með vélina. Í ljós kom að konan var á leið að hitta móður sína í fyrsta sinn, en hún hafið verið tekin frá henni sem ungbarn. Al- bert fylgdi alla leið á stöðina og náði endur- fundunum á filmu. Í öðru tilviki var hann að ferðast í Rússlandi og bankaði upp á í lest- arvagni þar sem honum virtist fjölskylda vera saman komin – móðir, faðir og tvö börn. Um leið og hann gekk þar inn rétti annað barnið honum ljósmynd. Svo kom í ljós að þetta voru ekki foreldrar þeirra, heldur frændfólk sem var að sækja börnin vegna þess að faðir þeirra var nýbúinn að myrða móður þeirra. Ljós- myndin var af börnunum við líkkistuna. Þá er ekki annað hægt en spyrja sig hvernig Albert fari að því að næla alltaf í svona áhuga- vert efni. Er hann bara heppinn, eða býr hann yfir sjötta skilningarviti heimildarmyndagerð- arsnillingsins? Þetta er vafalaust góð blanda af hvoru tveggja. Það fer a.m.k. ekki framhjá neinum sem sér myndirnar hans að Albert kann að lesa mannfólk. Ég gæti ekki hugsað mér betri mann til að halda af stað í lestarferð um heiminn og finna allt það áhugaverða fólk sem leynist í hverjum krók og kima. Þá er bara að vona að einhver sjái sér fært að veita honum fjármagn til að klára þau verk sem hann vill gera, því við ættum að fagna því að hann sé ennþá á fullu að vinna myndir og hlakka til þess sem koma skal, því hann á greinilega nóg eftir. Magískur Maysles SJÓNARHORN »Eftir allt sem hann hefur gert, þarf hann ennþá að ströggla til að gera myndir. Og ef Albert Maysles þarf enn að berjast fyrir sinni list, þá þýðir lítið fyrir okkur hin að kvarta.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.