Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2008, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2008, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. MAÍ 2008 13 Eftir Robert. C. Morgan S eint á níunda áratugnum, skömmu fyrir hina hörmulegu atburði á Torgi hins himneska friðar, var kínversk samtímalist þegar farin að láta meira til sín taka og hafa víðtækari áhrif, ekki aðeins innan eigin landamæra heldur einnig gagnvart heiminum öllum. Á þeim tíma gátu fáir Vesturlandabúar ímyndað sér eða spáð því að Kína ætti möguleika á að blása nýju lífi í hnignandi stöðu samtímalist- arinnar. Á þessum tíma einbeittu evrópskir og bandarískir listaverkakaupendur sér að stórum nýexpressjónískum málverkum, alls óvitandi um feikilega fjölbreyttan hóp hæfi- leikaríkra listamanna sem spratt upp við mæri Asíu. Þótt alltaf hefði verið markaður fyrir sögulega dýrgripi austan úr Asíu var almennt álitið að flest sú samtímalist sem þaðan kæmi væri einungis ófrumlegt af- sprengi vestrænnar listar og hefði því ekki jafnmikið sögulegt vægi í markaðslegu tilliti. Með tilkomu nýrrar kynslóðar kínverskra málara sem máluðu einkum fígúratíf verk á tímabilinu eftir Maó og voru undir áhrifum frá vestrænu akademísku raunsæi, rúss- neskum sósíalrealisma, japönsku manga og þýskum expressjónisma, tók að þróast óvænt og áberandi grein í stefnu samtímalistar. Ekki var liðinn áratugur þegar sú hugmynd að ekkert nýstárlegt væri að gerast í Asíu snerist algerlega við, einkum fyrir tilverknað og framsýni alþjóðlegra safnstjóra eins og Chang Tsong-zung, Li Xianting, Jean- Hubert Martin og Harald Szeemann. Þessi breytta sýn leiddi af sér að athyglin beindist nú að því kanna að ákveðna „menningu“ upp á nýtt, nokkuð sem virtist í takt við ákveðnar þvermenningarlegar hliðar póstmódernískra fræða. Fram fór mikil opin umræða um þessa nýju og að mestu leyti fígúratífu kín- versku list og spurningar settar fram um mikilvægi hennar. Þessi umræða var meira áberandi í Evrópu og Asíu heldur en í Bandaríkjunum þar sem heimóttarleg við- horf til listaverkasöfnunar og stjórnun safna héldu áfram að fúlna, og umræðan var föst í hugmyndafræðilegum málalengingum um kynþátt, aldur, kynferði og kynferðislegar tilhneigingar. Hvað varðar fjárfestingaræðið í borgum eins og Peking og Sjanghæ á síðustu árum má sjá það bæði í jákvæðu og neikvæðu ljósi. Fjölmiðlar hafa svo sannarlega tekið við sér og í kjölfarið hafa ýmsir spekingar og blogg- arar skellt sér í slaginn með fjöldann allan af greinum og skrifum. Sumir telja að dag- blöðin hafi verið jákvætt afl í því að stuðla að áhuga bæði almennings og fagfólks á kín- verskri list. Aðrir telja að hlutverk fjöl- miðlanna hafi frekar verið leiðandi en nokk- uð annað með því að koma óðagoti á listaverkakaupendur og fjárfesta og halda þeim í uppnámi. Þeir sem þyrstir í nýjustu tískustrauma og ný fyrirbæri láta fjölmiðlana vísa sér veginn og í þessu tilfelli var kín- versk list engin undantekning. Níu kínverskir samtímalistamenn eiga verk á sýningu Listasafns Akureyrar, sem fengin eru úr safni Hollendingsins Fu Ruide. Þetta eru allt listamenn sem leggja fyrst og fremst stund á fígúratífa list. Flestir eru málarar og sumir gera bæði málverk og skúlptúra. Þessi blanda er ef til vill ekki eins óvenjuleg í Kína og á Vesturlöndum, en þó ekki alveg. Yue Minjun, sem hóf að mála þekkt málverk sín af brosandi mönnum á tí- unda áratugnum, hefur þróast í athygl- isverða átt og nú leika risastórar almenn- ingsstyttur stórt hlutverk í list hans. Þótt verk Chen Qingqing séu ekki eins þekkt og verk Yue Minjun og Fang Lijun, virðast þau þó öllu persónulegri og eiga meira skylt við samsetta hluti en málverk. Nálgun Chens, bæði hvöss og tilfinningarík, gæti verið inn- blásin af dadaískum aðferðum. Skúlptúrar þessara listamanna eru af mörgu tagi og sér- lega ólíkir innbyrðis, sem bendir til sjálf- stæðs ferlis að niðurstöðu þar sem hafnað er ríkjandi fylgispekt við staðla Tvíæringsins en þess í stað valin langdrægari sýn á veru- leikann – sýn sem getur staðfest sjálfa sig innan ýmiss konar sýningasamhengis. Það var óhjákvæmilegt að skúlptúrinn myndi að lokum halda innreið sína í kín- verska samtímalist, þegar litið er til þeirrar hefðar sem til er í Kína í útskurði og steypt- um hlutum, og hvað efniviðurinn er til- tölulega ódýr. Þrátt fyrir það, með nokkrum mikilvægum undantekningum þar sem eru listamenn sem búa utan Kína (Huang Yong Ping, Zhang Huan, Xu Bing og Gu Wenda), hafa beittustu og frumlegustu tímamótaverk samtímalistar á árunum eftir atburðina á Torgi hins himneska friðar orðið til í málara- listinni. Hér er ekki horft framhjá þeim lista- mönnum sem vinna með perfomatífa list, ljósmyndun, rýmisverk, rithandarlist eða nýja miðla, en þeir eru fjölmargir í dag. Hér er aðeins bent á að þeir listamenn sem náðu að fanga í upphafi þann skriðþunga sem fylgdi hinum menningarlegu og sögulegu breytingum voru málarar. Þrír þeir mik- ilvægustu voru Zhang Xiaogang, Yue Minjun og Fang Lijun en allir eiga þeir verk á þess- ari sýningu. Nýleg verk Zhang Xiaogang frá síðustu tíu árum, sem kalla mætti fjölskylduportrett, búa yfir staðfastri samkvæmni í stíl þar sem stingandi og þungbúið augnaráð persónanna í verkum hans er dregið enn sterkar fram með því að mýkja andlitsdrættina. Auk þessa er fljótandi gegnsæ litaslikja til hliðar við andlitin eins og í Comrade (1999) og Father and Daughter (2006-7) sem gæti vísað á fé- lagslegt eða erfðafræðilegt mark. Þótt efni þessara mynda gæti mögulega hafa sprottið úr málverkum af syrgjendum snemma á tí- unda áratugnum virðast þau í dag búa yfir ákveðnum bjarma, eru næstum eins og verndargripir kínverskrar sjálfsmyndar með- an á miklu umbrotatímabili stóð. Með því að kafa djúpt inn í sjálfan sig verður listamað- urinn alþjóðlegur. Það er kraftur hins leit- andi sjálfs í gegnum það sem Freud kallar „göfgun“ sem gerir þessi einstöku portrett eftir Zhang Xiaogang svo áhrifarík á mildan hátt. Þau virðast ná til heimsins alls með til- tölulega lítilli fyrirhöfn. Sams konar óbrigðul samkvæmni er einnig fyrir hendi í verkum Yue Minjun og Fang Lijun en á nokkuð árásargjarnari hátt. Ýkt bros og lokuð augu persónanna í verkum Yue Minjun vísa á eins konar tryllta útrás eða lausn frá ágengni heimsvæðingarinnar sem hefur lagst á Kína á síðustu tveimur áratugum. Margir vilja ef til vill ekki líta svo á að þessi hlæjandi portrett hafi sína myrku hlið, en það gæti þó verið þess virði að velta því fyrir sér hvort gretturnar og háðið sem birtist í andlitunum vísi á hættuástand í sam- félaginu. Gæti til dæmis verið að persónur í verkum Yue séu að bíða og sjá hvað setur með fáránlegu látbragði sínu í þeim tilgangi að bægja frá sér hræðilegum sársauka eða hræðslu við að vera að villast af slóð menn- ingarinnar og tapa ósegjanlegum merkjum um stolt? Er lítið eftir hjá manninum í verk- inu Before a Statue (1997) annað en sjón- varp, sígarettur og að þéna næga peninga til að lifa af? Þrátt fyrir hláturinn afhjúpar Yue Minjun ákveðinn þunga í málverkum sínum sem ber með sér þrá eftir einhverju meira en gylliboðum heimsvæðingarinnar. Afar gott og fjölbreytt úrval verka Fang Lijun á þessari sýningu ber með sér svipaða táknsögu. Verk hans eru án titils en ná- kvæmlega dagsett og þar birtist draumsýn um paradís, oft með yndisfögrum blómum og nöktum mönnum sem eru að synda eða sóla sig á grænu grasinu. Einstöku sinnum birtist stór hönd í verkum hans sem heldur á litlu ungbarni uppi í skýjunum yfir snævi þöktum fjallstindum. Liu Ye á hér einnig umtalsverðan fjölda verka sem í þessu tilfelli bera með sér írón- íska hlið sem dulin er með eins konar sak- leysi. Sakleysið vísar til barnslegrar stærðar og útlits persónanna í verkum hans. Oft birt- ast þær sem sjómenn, flugmenn, kerúbar eða jafnvel sem smávaxnar Drakúla-verur eins og í hinu skemmtilega málverki, She Isńt Afraid of Mondrian (1995). Raunar vísar Liu Ye oft til hollenska málarans Mondrian í verkum sínum. Auk módernismans vísar Liu Ye einnig til Dauða Marats eftir nýklassíska málarann Jacques-Louis David í myndinni Romeo (2002). Hér hvílir höfuð engilfagurs barns á öðrum enda borðsins en lítil skamm- byssa liggur á hinum endanum. Þetta sýnir manni að ekki eru allir litlir drengir saklaus- ir og góðir eins og við sjáum líka í Madonna with Naughty Boys – Red (1999) þar sem litlu kerúbarnir eru allir með græn andlit og svört og hvít gleraugu. Húmorinn fylgir ír- óníunni eins og írónían fylgir því fáránlega. Í Big Pigeon (1995), birtist stór fugl fyrir utan glugga listagallerís. Þessi sýn virðist koma skeggjaða eigandanum svo í opna skjöldu að hann fellur um koll, haldandi allan tímann á litlu málverki í vinstri hendi. Áhrif popplistar eru ef til vill sterkari hjá Liu Ye en nokkrum öðrum listamanni á þessari sýningu. Þrátt fyrir það fer fram töluverð rannsókn í þess- um verkum sem fer fram úr hversdagslegum ætlunum flestrar popplistar. Í þessu tilfelli mætti segja að hugmynd Liu Ye sem málara snúist meira um íróníu en kaldhæðni. Annar athyglisverður málari en allsendis ólíkur Liu Ye, er Yang Shaobin. Afskræmdar líkamsmyndir hans eru gegnsýrðar örvænt- ingu og sálrænni ringulreið. Ónefnt málverk frá árinu 2002 sýnir höfuð í expressjónískum stíl öskra meðan tvær hendur pota í nef þess og eyra. Í öðru verki frá árinu 2003 má sjá tvær karlfígúrur glíma og klóra í hvor aðra á meðan önnur glottir framan í áhorfandann sem er vitni að þessum sjokkerandi atburði. Yang hefur greinilega áhuga á ofbeldisfullum áhrifum „skemmtana“iðnaðarins og áhrifum sjónvarpsins sem forritar áhorfandann til að samþykkja þessar ofbeldisfullu og glórulausu ímyndir sem hann horfir firrtur á. Ef eitt- hvað er þá gefur expressjónískur kraftur Yangs en þó hófsemi þessum verkum slag- kraft sem sjónvarpið nær sjaldan. Wei Dong er eitt af stóru nöfnunum af yngri kynslóðinni í kínverskri samtímalist. Hann starfar yfirleitt á vinnustofu sinni skammt fyrir utan New York-borg. Í mál- verkum sínum skoðar hann Rauðu varðliðana á tímum menningarbyltingar Maó Zedong. Verk hans á þessari sýningu eru Comrade (2000), The Red Game (2005) og Girl with Sheep (2007). Hvert og eitt er afbygging á íkonísku myndmáli sem tengt er þessu tíma- bili í sögu Kína. Til að ná fram markmiðum sínum nýtir Wei Dong sér bæði klassíska vestræna og austræna hefð í málaralist. Sjá má áhrif frá Ingres, Vermeer og Caravaggio í vestrænum stíl hans en austræna hefðin kemur frá landslagsmálverkum frá síðari hluta Ming-tímabilsins og fyrri hluta Qing- tímabilsins. Þriðji þátturinn sem hann notar eru ímyndir sem koma úr amerískum tíma- ritum, bæði auglýsingar og klám. Í flóknum samsetningum hans má sjá yfirleitt asískar konur með rakað höfuð. Iðulega er hyrnd geit eða kind eina viðfangið í málverkinu sem mætir auga áhorfandans. Taumlaust svallið í mörgum málverkum hans er fullt með táknlegum vísunum til bæði austurs og vesturs og þá iðulega stillt upp stríðandi ímyndum úr hvorri átt. Ætlun hans virðist ekki aðeins snúast um að afbyggja fortíð Kína heldur einnig að benda á leið út úr óreiðu framtíðarinnar þar sem yfirþyrmandi flæði upplýsinganna rekst alltaf á við getu- leysi fólksins til að meðtaka samskiptin og endurstilla langanir sínar með algerlega skýrum hætti, hvort sem er félagslega, menningarlega eða pólitískt. Það er vel þess virði að gefa skilaboðum Wei Dong gaum á leið okkar inn í tuttugustu og fyrstu öldina, með þann skilning í farteskinu að við höfum ef til vill ekki stjórn á öllu því sem fram fer. Svo virðist sem hlutverk listamannsins sé ekki aðeins að benda á leið sem er laus við predikun eða þvingun heldur afhjúpar ákveð- inn sannleika sem gerir heiminum kleift að virka og líf okkar sömuleiðis innan ferlis reglu og óreiðu. Steinunn Haraldsdóttir þýddi. Girl with Sheep (2007) Wei Dong er eitt af stóru nöfnunum af yngri kynslóðinni í kínverskri samtímalist. Í verkum sínum skoðar hann Rauðu varðliðana á tímum menningarbyltingar Maó. Í leit að ásýnd Kína Níu kínverskir samtímalistamenn eiga verk á sýningu Listasafns Akureyrar, sem fengin eru úr safni Hollendingsins Fu Ruide. Þetta eru allt listamenn sem leggja fyrst og fremst stund á fígúratífa list. Flestir eru málarar og sumir gera bæði málverk og skúlptúra. Hér er rýnt í nokkur þessara verka. » Sumir telja að dagblöðin hafi verið jákvætt afl í því að stuðla að áhuga bæði al- mennings og fagfólks á kín- verskri list. Aðrir telja að hlut- verk fjölmiðlanna hafi frekar verið leiðandi en nokkuð annað með því að koma óðagoti á listaverkakaupendur og fjár- festa og halda þeim í uppnámi. Robert C. Morgan er alþjóðlegur gagnrýnandi, listamaður, safnstjóri og fyrirlesari sem býr og starfar að mestu í New York borg. Prófessor Morgan kennir í dag við Pratt stofnunina og The School of Visual Arts í New York.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.