Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Page 5
Hrátt Kjartan og co. staldra þó ekki lengi við. Hann, Jónsi og fleiri eru farnir út í bæ að redda fleiri kassagíturum, eins og það væri ekki nóg af þeim fyrir. Eftir stendur Georg hinn rólegasti og við afráðum því að setjast aðeins niður og spjalla lítið eitt. Tökum okkur sæti úti í sal. „Við erum að rifja upp gömlu lögin, sum höf- um við ekki spilað í tvö ár. Nýju lögin hafa þá lítið verið spiluð, eðli málsins samkvæmt,“ seg- ir hann og bætir við brosandi. „Þú situr þá bara hér og hlærð þegar við byrjum að spila.“ Nýja platan ber hinn óvenjulega – og langa – titil Með suð í eyrum við spilum endalaust. Á þriðjudaginn síðasta var fríu niðurhali af opn- unarlagi plötunnar, „Gobbledigook“, komið fyr- ir á vefsíðunni www.sigurros.com og plötuna verður hægt að panta þaðan frá og með 2. júní. Ef satt skal segja er ekki hægt að líkja þessu lagi, „Gobbledigook“, við neitt það sem Sigur Rós hefur gert áður. Já, fólk á eftir að verða hissa. Hröð vinnsla plötunnar vekur þá líka at- hygli en Sigur Rósar-menn hafa verið þekktir fyrir að dúsa lengi í kringum plötur sínar, „kannski of lengi stundum“, eins og Orri, trym- bill sveitarinnar, hafði á orði í kvikmynd hljóm- sveitarinnar, Heima, sem var frumsýnd í fyrra- haust og fékk einróma lof allra þeirra sem sáu, eins og nánast allt það sem sveitin hefur látið frá sér. Sigur Rós hefur í raun réttri ekki stigið eitt einasta feilspor á merkum ferli sínum sem fyllir fimmtán ár á næsta ári. „Vinnuferlið var mjög hratt, það er alveg rétt,“ segir Georg hugsi. „Hmmm … við byrj- uðum að semja lögin fyrir akkúrat ári. Þá fór- um við úr bænum og leigðum okkur húsnæði á Snæfellsnesi. Dvöldum þar í viku og sömdum slatta af lögum. Bjuggum til hráar prufuupp- tökur, spiluðum bara inn á einn míkrafón. Mörg þessara laga rötuðu síðan á þessa plötu en eru auðvitað búin að ganga í gegnum ein- hverjar breytingar.“ Georg segir að þeir hafi svo farið í hljóðver Orra Jónssonar, sem kenndur er við Slowblow, rétt fyrir jól. „Við héldum aðeins áfram þar. Í ca. tvær vikur. Og svo fórum við til New York í endaðan janúar, vorum þar í tvær vikur og tókum allt upp. Svo komum við heim og þá fóru nokkrir okkar til Kúbu til að taka upp söng.“ Georg gerir nú hlé á máli sínu og brosir lymskulega. „Það var í einhverja þrjá daga … það var svona hálfklaufalegt, tímasetningar gengu ekki alveg upp. En svo fórum við aftur í hljóð- ver, í þetta skiptið í Abbey Road-hljóðverið til að hljóðblanda og tókum upp frekari söng þar. Þetta tók um tvær vikur. Svo fórum við enn og aftur út til Abbey Road til að hljóðblanda þannig að „mixið“ tók um mánuð. Allt í allt voru þetta því tveir mánuðir (en þess má geta að Takk …, síðasta hljóðversplata sveitarinnar sem út kom 2005, tók aðeins tuttugu mánuði í vinnslu).“ Um óvenjulega hratt ferli var því að ræða, og var það markmiðsbundið að sögn Georgs. „Þetta var ákveðið áður en við byrjuðum að taka upp. Okkur langaði til að taka upp, mixa og klára allt klabbið á stuttum tíma. Ekki pæla allt of mikið í hlutunum, þannig.“ Hvíslað er um að platan sé fyrir vikið hrárri, rokkaðri, og fram hefur komið að meiri gítar sé í lögunum. „Hún er hrá á köflum,“ svarar Georg. „Þetta er samt alveg „unnið“. En hérna … það var ýmislegt látið flakka, nokkuð sem við hefðum ekki gert hérna áður fyrr. Þannig að þetta er spurning um ákveðið „attitude“, það er ákveð- inn blær yfir plötunni sem gerir hana meira upplífgandi en áður hefur verið. Lögin eru hraðari og meiri hávaði í gangi.“ (Nú hugsar blaðamaður með sér: Það skyldi þó ekki vera að gamla Smashing Pumpkins- rokkið, sem Sigur Rós gældi við í upphafi fer- ilsins, sé farið að láta á sér kræla á nýjan leik eftir öll þessi ár. Hér sé um stóran heilhring að ræða?) Þessar vangaveltur ná því þó ekki að vella fram úr munni, enda tíminn orðinn naumur, menn eru farnir að hinkra eftir bassaleik- aranum. Engu að síður höldum við áfram að velta fyrir okkur áferð plötunnar. „Þetta er gítarrokk,“ segir Georg, „gítarar eru nokkuð áberandi og við skiptum oftar um grip en nokkru sinni áður!“ Nú skella menn upp úr, en eitt af sérkenn- um Sigur Rósar hafa verið löng, seiðandi og mínimalísk lög þar sem tónar og hljómar ganga vel og lengi. „Ég er mjög bissí á bassanum. Ég held bara að ég hafi aldrei verið svona bissí.“ Minnst af drasli Það er stórfyrirtækið EMI Records sem gefur plötuna út, en samskipti Sigur Rósar við þann gamla og gegna risa hafa verið sérdeilis far- sæl. „Við kláruðum samninginn við Geffen í Bandaríkjunum þegar við gáfum út Takk … og höfðum engan áhuga á að endurnýja samn- inginn. Það er svona fyrirtæki sem virðist breytast á þriggja daga fresti. Allt í einu er kominn nýr forseti, svo kemur annar og það er bara ekki áhugavert að vinna með svona fólki.“ EMI Records er hins vegar mjög stöðugt að mati Georgs. „Þetta er svolítið merkilegt. Miðað við allar þessar sögur sem maður les um samskipti hinna og þessa við fyrirtækið, Radiohead t.a.m. Hljómsveitir eru hræddar við hvað sé að ger- ast. Ég skil ekki af hverju hljómsveitirnar ættu að vera hræddar? Staðan í dag er einmitt þann- ig að útgáfufyrirtækin neyðast til að sparka í rassinn á sjálfum sér og koma til móts við lista- mennina, því annars fara þeir bara í burtu. Í dag blasa því við gullin tækifæri til að vera hjá svona fyrirtækjum eins og EMI, þvert á það sem allir halda. Við höfum a.m.k. ekkert nema gott um það að segja, og við fáum að gera ná- kvæmlega það sem okkur sýnist.“ Þegar Georg er spurður um titil plötunnar kemur smáþögn. Svo segir hann einfaldlega: „Af hverju ekki?“ og kímir. „Það var kominn texti við eitt lag, og ein setningin þar er „með suð í eyrum“,“ heldur hann svo áfram. „Svo er annað lag þar sem setningin „við spilum endalaust“ kemur fyrir. Okkur fannst þetta skemmtileg samsetning. Við vissum allan tímann að við myndum fá tit- ilinn úr einhverjum texta og nú kemur hann úr tveimur. Það voru margir titlar sem flugu um herbergið þegar við vorum að ákveða þetta.“ Á umslagi plötunnar, sem er eftir bandaríska listamanninn Ryan McGinley, má sjá fjórar naktar mannverur á hlaupum. Er einhver djúp táknfræði í gangi? „Hehe … það er meira að segja ein leyni- manneskja þarna inni,“ segir Georg og hlær. „Ég held að þær séu fimm. Það sést ekki í eina … hún lítur út eins og pungur á einum sem er að hlaupa hahaha … en nei, okkur langaði til að gera eitthvað allt annað en við erum vanir að gera með þetta umslag. Það er líka dálítil hug- myndafræði í gangi sem tengist því hvernig fólk verður sér úti um tónlist í dag. Það fer út í búð, kaupir sér disk, setur hann í tölvuna og inn á iPodinn og svo liggur diskurinn úti í horni eða týnist jafnvel. Þannig að við ákváðum að skilja eftir okkur sem minnst af drasli. Myndin er líka meðvitað á skjön við það sem við höfum gert áð- ur. Við vorum að skoða myndir eftir þennan gaur á netinu og vorum hrifnir. Fórum svo að grínast eitthvað með þetta og vorum að leika okkur að því að búa til umslög úr myndunum. Allt í einu var komin hugmynd að umslagi. Og þetta mjög einfalt umslag – sem er liður í því að skilja lítið eftir af rusli.“ Georg segir að til að þjóna þeim sem enn halda upp á plötur sem eign komi út seinna á árinu sérstök útgáfa af plötunni sem verður „al- veg súper vegleg“ eins og hann orðar það. „Það verður alveg magnað stöff.“ Ferskt Sú nýlunda var höfð við upptökur á þessari plötu að hún var tekin upp úti um hvippinn og hvappinn, og þá mest í útlöndum. London, New York, Havana, Reykjavík, Mosfellsbær. „Það var gaman að flakka svona um,“ segir Georg. „Við vorum t.d. innilokaðir í New York, fórum vart úr húsi og gátum virkilega einbeitt okkur. Það var gott að koma á glænýja staði – það var ferskt einhvern veginn.“ Meðupptökustjóri að plötunni er Flood, merkur upptökustjórnandi sem hefur unnið með stórsveitum eins og U2, Smashing Pumpk- ins, Nick Cave og Depeche Mode. Samstarfið gekk vonum framar að mati Georgs. „Það var kannski aðeins í byrjun þegar við vorum að kynnast honum, þá vorum við ekki al- veg vissir hvar við höfðum hann – og hann var ekki viss um hvernig við vildum vinna. En svo varð þetta bara tóm snilld, hlutirnir æxluðust mjög vel og þetta varð ekkert mál. Toppmaður. Það besta við þetta vinnuferli allt saman var nefnilega það, að Flood er alveg súpernæs gaur.“ Nú er kallað eftir bassaleikaranum og Goggi rýkur upp á svið. Jónsi og Kjarri eru komnir úr gítarsendiförinni og mál til komið að æfa sig að- eins. Það er magnað hversu mikið niðri á jörðinni þeir félagar eru með þetta allt saman. Frægðin virðist ekki hafa stigið þeim til höfuðs á nokk- urn hátt. Miðað við allt sem á undan er gengið verður þetta eiginlega að teljast sem nokkurs konar „árangur“. Og þetta er alvöru, það er ekki verið að rembast við að vera alþýðlegur. Það er engin gervimennska í gangi, ekkert plat. Líkt og þegar blaðamaður og ljósmyndari hinkruðu fyrir utan æfingastaðinn, leitandi að inngönguleið. Kemur þá ekki Jónsi sjálfur – á hjóli. Og það er ekkert verið að heilsast form- lega með handabandi eða fara yfir það sem er að fara í gang. Nei, einhverra hluta vegna hefja hann og blaðamaður heitar umræður um allt annað og mikilvægara. Nefnilega síðustu plötu Brain Police … m með litla bæn Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.