Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 7 Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Atlanta-sveitin Mastodon hefurum langa hríð verið leiðandi afl í nýbylgjunni í amerísku þungarokki. Stefnan er kölluð NWOAHM (New Wave Of American Heavy Metal) og vísar þannig í bresku nýbylgjuna í þungarokki (NWOBHM, New Wave Of British Heavy Metal) en meðal helstu kyndilbera þar voru sveitir á borð við Iron Maiden, Def Leppard og Saxon. Ameríska stefnan, sem hóf sig á loft við enda tíunda áratugarins, innheldur sveitir eins og Killswitch Engage, Lamb of God og nefnda Mastodon en síðasta plata hennar, Blood Mountain (2006), fór víða og er sveitin m.a. í sérstöku uppáhaldi hjá nýbylgjutónlistarvefritinu Pitchfork. Mastodon-liðar eru nú að leggja drög að næsta ópus og hafa fengið til liðs við sig ofurupptökustjórann Brendan O’Brien (Pearl Jam, Korn, Rage Against The Machine, Bruce Springsteen og næsta AC/DC-plata eru undir hans stjórn).    Leeds-sveitin The Wedding Pre-sent á stóran sess í hjörtum margra nýbylgjuunnenda. Þessi forn- fræga sveit sótti landann meira að segja heim um árið og lék fyrir æsta og grásprengda indíhunda á Grand Rokk. Sveitin er keyrð áfram af Dav- id nokkrum Gedge, og það af mikilli festu, og sveitin er enn spriklandi fjörug en nýútkomin er platan El Rey, áttunda hljóðversplata sveit- arinnar. Kemur hún út í kjölfar Take Fountain sem kom út fyrir þremur árum síðan. Platan ber með sér margar tilvísanir í staði og fyrirbæri í Kaliforníu og Los Angeles en Gedge býr í borginni nú um stundir. Hann hefur áður búið í Bandaríkjunum, en hann dvaldi um skeið í grugghöf- uðborginni Seattle. Platan var tekin upp af Steve Albini, sem vann með Gedge að meistarastykkinu Seamon- sters. Gedge segir að lögin séu mjög gítardrifin og dimm og því hafi Albini verið kjörinn í verkið. Fyrsta smá- skífan er komin út, eingöngu sem nið- urhal og er það í fyrsta skipti sem hin „vínyl“-væna Wedding Present stendur að slíku. Titillinn er ein- staklega Wedding Present-legur, „The Thing I Like Best About Him Is His Girlfriend“.    Mod-faðirinn eins og hann ergjarnan kallaður, Paul Weller, snarar út nýrri hljóðversplötu nú á mánudaginn en hann hefur verið einkar virkur í þeim efnum und- anfarin ár. Platan heitir 22 Dreams og kemur út á geisladiski og tvö- földum vínyl. Margir af læri- sveinum Wellers koma honum til aðstoðar á plöt- unni, þeir Noel Gallagher og Gem Archer úr Oasis, Graham Coxon, fyrrum Blur-liði og svo samstarfs- maður Wellers til margra ára, Steve Cradock úr Ocean Colour Scene. Innihaldið er venju samkvæmt, sál- arríkt bretapopprokk sem þessi fyrr- um leiðtogi hinnar mögnuðu The Jam virðist geta snarað út í svefni. TÓNLIST The Wedding Present Mastodon Paul Weller Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Árið 1987 fór breiðskífa bresku þunga-rokkshljómsveitarinnar Whitesnake,1987, eins og eldur í sinu um heims-byggðina. Glysrokkið var í algleymingi og betri málsvara þeirrar stefnu var varla hægt að hugsa sér. Hárlagningin á heimsmælikvarða og klæðaburðurinn eftir því. Svo kunnu þeir líka gripin, piltarnir. Platan komst hæst í annað sæti Billboard-listans og helsta tromp hennar, of- ursmellurinn Here I Go Again, gerði sér lítið fyrir og settist á topp bandaríska smáskífulistans. Snákverjar böðuðu sig í sviðsljósinu. Það gekk samt ekki þrautalaust að koma 1987 út (platan hét raunar af einhverjum ástæðum Whitesnake í Bandaríkjunum og Serpens Albus í Japan). Upptökur stóðu í rúmt ár og ekki hafði fyrr verið slökkt á græjunum að söngvari og stofnandi Whitesnake, David Coverdale, rak sam- verkamenn sína alla með tölu, gítarleikarann John Sykes, sem samdi flest lögin ásamt söngvaranum; bassaleikarann Neil Murray og trymbilinn Ayns- ley Dunbar. Í þeirra stað kom gítarleikarinn Adri- an Vandenberg, sem tók sólóið í Here I Go Again, og síðar gítarleikarinn Vivian Campbell, bassa- leikarinn Rudy Sarzo og Tommy Aldridge sem lék á trommur. Þannig skipuð birtist sveitin lýðnum í tónlistarmyndböndum við helstu lögin á 1987. Eins og það skipti máli, þokkagyðjan Tawny Kita- en stal senunni – fáklædd og fagurlimuð. Karlpen- ingurinn stóð á öndinni, allt frá Bolungarvík til Bangladesh og ófá hjörtu brustu þegar Kitaen gekk að eiga Coverdale sjálfan skömmu síðar. Því fer fjarri að þetta séu einu mannabreyting- arnar hjá Whitesnake gegnum tíðina. Fljótlegra er að renna gegnum íslensku símaskrána en listann yfir fyrrverandi samreiðarsveina Davids Coverdales. Whitesnake er í grunninn eins manns hljómsveit. Eins og margir vita steig Coverdale fyrst fram á sjónarsviðið sem söngvari Deep Purple, þegar Ian Gillan sagði skilið við þá sveit 1973. Fram að því vann kappinn í herrafatabúð. Here I Go Again var vitaskuld helsta skraut- fjöður 1987 en um er að ræða nýja útsetningu á lagi sem Whitesnake sendi upprunalega frá sér á plötunni Saints & Sinners árið 1982 og naut þá umtalsverðrar hylli líka. Af öðrum eftirminnileg- um lögum á 1987 má nefna hið magnþrungna Still of the Night, Give Me All Your Love og ballöðuna Is This Love. Ástin hefur löngum verið Coverdale hugleikin. Ekki voru þó allir jafn hrifnir og leiðtoginn þurfti enn og aftur að þola óhagstæðan sam- anburð við Pobert Plant, söngvara Led Zeppelin. Sjálfur beit Plant höfuðið af skömminni og kallaði Coverdale aldrei annað en „David Coverversion“ í viðtölum. Öðrum þótti Whitesnake, sem var að senda frá sér sína áttundu breiðskífu á áratug, vera komin býsna langt frá blúsuðum uppruna sínum enda þótt sveitin hafi að líkindum ekki í annan tíma ver- ið þyngri. Whitesnake var nefnilega upprunalega stofnuð til að skapa tónlist en ekki til að gilja glyðrur. Sjálfur hafði Coverdale áhyggjur af því að um- búðirnar væru farnar að bitna á innihaldinu enda þótt hann héldi uppteknum hætti á næstu plötu, Slip of the Tongue (1989). Sumt af efninu á þeirri ágætu skífu hefði sómt sér vel í Júróvisjón. Cover- dale sá líka sæng sína uppreidda. Lagði White- snake í dvala. Áður en það gerðist tróð sveitin þó upp á eftirminnilegum tónleikum í Reiðhöllinni í Víðidal en þá hafði gítarundrið Steve Vai leyst Campbell af hólmi. Coverdale hefur annað veifið dustað rykið af Whitesnake síðan en aðeins gefið út tvær breið- skífur. Sú fyrri, Restless Heart, kom út 1997 en sú síðari, Good to Be Bad, nú í vor. Kappinn er á tón- leikaferð um heiminn þessa dagana til að kynna nýjustu afurðina – með glænýjum mannskap (nema hvað?) – og aftur hyggst hann sækja okkur Íslendinga heim. Whitesnake leikur sem kunnugt er í Laugardalshöllinni 10. júní. Nú er bara að sjá hvort glysið og gúmmelaðimennskan hafa vikið fyrir eðalrokki af gamla skólanum. Gáfa með gúmmelaðibragði POPPKLASSÍK Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is K annski þekkja ekki margir les- endur til bandarísku hljómsveit- arinnar The Decemberists og væntanlega enn færri til leiðtoga hennar, Colin Meloy. Það er þó vel þess virði að kynnast hvoru tveggja og þó að The Decemberists sé í einskonar fríi þá er Colin Meloy iðinn við kolann. The Decemberists hefur nafn sitt af leynifélagi mennta- og hermanna á síðustu öld sem glímdu við Rússakeisara, börðust fyrir lýðræði og enduðu fyr- ir vikið flestir ævina fyrir framan aftökusveit eða í Síberíu. Heiti sveitarinnar gefur nasasjón af því hverslags menningarlegur ugluspegill Meloy er, en sú árátta hans að krydda tónlist sína með menning- ar- og sagnfræðilegum tilvísunum út og suður hef- ur orðið til þess að hann er ekki bara dáður heldur og umdeildur; sumir vilja hafa hlutina klippta og skorna og finnst nóg um tilfinningasemi og prjál. Einn með gítarinn Síðasta breiðskífa The Decemberists, The Crane Wife, kom út fyrir hálfu öðru ári og var þokkalega tekið. Eftir tónleikaferð til að kynna skífuna dró Meloy sig svo úr skarkala heimsins til að njóta sam- vista við eiginkonu sína, en þau eignuðust sitt fyrsta barn á síðasta ári. Hann hætti þó ekki að fást við tónlist, en í stað þess að stofna aðra hljómsveit (hann hefur tekið þrjár slíkar í gegnum tíðina) ákvað hann að vera bara einn með gítarinn og ferðast þannig um Bandaríkin. Colin Meloy hneigðist snemma til tónlistar, en segja má að hann hafi alist upp við sveita- og þjóð- lagatónlist. Fyrsta hljómsveitin varð til á meðan hann var enn í barnaskóla og fyrsta útgáfan kom út um líkt leyti, snælda sem gefin var út í mjög takmörkuðu upplagi, aðeins tvö eintök framleidd. Þessi fyrsta hljómsveit hét The B-Sides til að byrja með, svo Figurehead, Happy Cactus og loks Tarkio. The Decemberists varð svo til 1999 þegar Meloy lauk háskólanámi og fluttist til Portland. Fyrsta stuttskífan, 5 Songs, kom út sama ár og síð- an fyrsta breiðskífan, Castaways and Cutouts, sem kom út 2002. 5 Songs var endurútgefin með auka- lagi 2003 og sama ár kom út sú ágæta plata Her Majesty the Decemberists. Sungið um naut Stuttskífan The Tain, sem var með einu lagi, 18 mínútna, og byggði á írskri þjóðsögu um átökin um nautið mikla frá Cuailnge, kom út 2004 og Pic- aresque 2005. Síðasta Decemberists-skífan í bili var svo The Crane Wife sem getið er og kom út í byrjun október 2006. Meðfram starfi í The Decemberists hefur Meloy unnið að sólóverkefnum og fór þannig í tónleikaferð einn með kassagítar 2005 og seldi í ferðinni skemmtilega stuttskífu heimabruggaða, Colin Meloy Sings Morrissey, þar sem hann syngur sex Morrissey-lög af stakri smekkvísi. 2006 lagðist hann aftur í ferðalög með kassagít- arinn, en að þessu sinni með þeim Laura Veirs og Amy Annelle. Enn bauð Meloy upp á heimilisiðnað í ferðinni, að þessu sinni diskinn Colin Meloy Sings Shirley Coll- ins, en á honum syngur hann sex þjóðlög sem Coll- ins útsetti Árið 2006 og lunginn úr 2007 fór annars í að taka upp og kynna The Crane Wife með The December- ists og það að sýsla með soninn nýfæddan, en nú er Meloy kominn af stað að nýju; fyrsta sólóskífa hans kom út í byrjun mánaðarins og hann er kominn af stað í tónleikaferð með glænýtt heimabrugg í far- teskinu, nú er það Colin Meloy Sings Sam Cooke. Gaman til að byrja með Meloy hefur lýst því í viðtölum að það að vera einn á ferð sé mjög þægilegt framan af, hann geti leikið sér með lög að vild, stoppað í miðju kafi, bætt við köflum eftir því sem andinn blæs honum í brjóst og eins getur hann skeytt við lög bútum úr öðrum lög- um og jafnvel lögum annarra. Gott dæmi um það er að finna á skífunni þar sem Dreams með Fleetwood Mac rennur saman við Decemberists-lagið Here I Dreamt I was an Architect og eins þegar California One Youth and Beauty Brigade og Smiths-lagið Ask verða að einu lagi (California One Youth and Beauty Brigade af Castaways and Cutouts er í raun tvö lög og því verða þjú lög að tólf mínútna fléttu). Lögin á sólóskífunni eru annars flest af plötum The Decemberists, sem kemur vart á óvart í ljósi þess að hann semur hvort eð er öll lög og texta á þeim skífum. Eitt lag er af einu smáskífunni sem Tarkio gaf út og svo lög af Castaways and Cutouts, Her Majesty the Decemberists og Picaresque og eitt lag af smáskífunni Picaresqueties. Tvö lög hafa ekki áður komið út, Dracula’s Daughter, sem hann kynnir sem sitt versta lag, og svo tekur hann þjóð- lagið Barbara Allen sem hann söng líka á plötunni Colin Meloy Sings Shirley Collins. Eins og getið er finnst Meloy gaman að vera einn á ferð en hann hefur líka sagt að hann fari fljótlega að sakna ferðafélaga sinna úr The Decemberists og um það bil sem hverri sólóferð ljúki geti hann ekki á heilum sér tekið fyrr en hann er aftur kominn af stað með The Decemberists. Það stendur og fyrir dyrum í næsta mánuði er hann lýkur sinni síðustu söngvaskáldasyrpu í bili, því upptökur hefjast á nýrri Decemberists-skífu í júní og stendur til að ljúka við hana í sumar. Menningarlegur ugluspegill Á meðan rokksveitin dægilega Decemberists er í fríi ferðast höfuðpaur hennar, Colin Meloy, um með kassagítarinn og veltir fyrir sér verkum ann- arra í bland við eigin lög. Um daginn kom út fyrsta sólóskífa hans sem gefur nasasjón af þeim tónleikum þar sem Meloy bregður sér í hlutverk söngvaskálds, en á skífunni rennir hann yfir feril sinn og steypir hann meðal annars saman eigin verkum og lögum frá Smiths, Pink Floyd og REM aukinheldur sem þjóðlagastemmur fljóta með. Ferðalangur Söngvaskáldið og ugluspegillinn Colin Meloy.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.