Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Blaðsíða 10
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Steinhöggvarahugsun dróttkvæðanna ríkirekki í ljóðforminu um þessar mundir, einsog Steinunn Sigurðardóttir benti á í síð-ustu grein þessa flokks, og kannski er ástæðan einfaldlega sú að skáldin hafa ekki tíma til þess „að klappa svo harðan ljóðstein“. Sumir yrkja að vísu í ansi knöppu formi og margir í talsvert opnu og breiðu, en við búum ekki við formhyggjuna sem einkenndi fornöldina og reyndar lungann úr þeirri tuttugustu. Reyndar má sjá endurnýjaðan áhuga á formi í ljóðum Nýhilinga en þegar svör við spurningu um ljóðform eru skoðuð (en þau birtust með síðustu grein) er augljóst að form skipar ljóð- skáldum ekki lengur í hópa, eins og það gerði á tutt- ugustu öld. Formglíman er einstaklingsbundin. Sindri Freysson hittir kannski naglann á höfuðið þegar hann segir: „Aðferðin skiptir ekki máli svo lengi sem útkoman gerir það.“ Sveinn Skorri Höskuldsson sagði í bók sinni Ljóðarabb, sem kom út árið 1989, að ljóð væru al- mennt séð „mun hnitaðri en áður – þau eru einfald- lega styttri og samanþjappaðri, snúast einatt um eina mynd, eina meginhugsun, en hin breiða frá- sögn eða lýsing hefur þokað“. Tæpum tuttugu árum seinna er varla hægt að taka undir þetta. Ljóð eru bæði stutt og löng, hnit- uð og orðmörg. Ég lauk síðustu grein með því að minnast á nýj- ustu ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Blysfar- ir (2007). Þar sprengir Sigurbjörg sig út úr fremur knöppu formi í fyrri bókum sínum og yrkir orð- margan flæðandi ljóðabálk fullan af myndmáli og frásögnum. Þetta kraftmikla form endurspeglast í ágengu efni bókarinnar sem er saga um ást, missi og sorg. Sveinn Skorri segir í Ljóðarabbi að efni ljóða og inntak hafi einnig „færst frá hinu ytra og almenna til hins innra og einkalega“. Þetta má heimfæra upp á fjölmörg ljóð um þess- ar mundir, meðal annars Blysfarir. Sennilega merkir orðið „einkaleg“ þó annað nú en fyrir tveim- ur áratugum. Á þessum tíma hefur orðið mikil sam- skipta- og miðlunarbylting með netinu. Blogg hefur til dæmis fært mörk hins einkalega. Svokallaðir raunveruleikaþættir eru einnig til marks um þetta. Einstaklingurinn stendur berskjaldaður í þessum miðlum. Þessi opinberunarmenning hefur teygt sig inn í ljóðlistina, rétt eins og frásagnarbókmenntirnar. Af skáldsögum síðustu ára mætti nefna Vaknað í Brussel eftir Elísabetu Ólafsdóttur sem var raunar kynnt sem fyrsta bloggbókin enda byggð á bloggi. Fyrir stuttu kom út annars konar blogg(ljóða)bók eftir Ármann Jakobsson, Fréttir frá mínu landi (2008), en hún inniheldur ekki einkaleg skrif í þeim skilningi sem hefur þó mátt lesa í ljóðum skálda á borð við Steinar Braga, Kristínu Svövu Tóm- asdóttur, Elísabetu Jökulsdóttur og fleiri. Náttúruljóð Steinunn Sigurðardóttir yrkir breið ljóð í Ást- arljóðum af landi (2007) en þau eru í senn hnitmiðuð – hvert orð er vandlega valið. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bókin um ástina og landið. Það eru einmitt einnig helstu umfjöllunarefni bóka Gerðar Kristnýjar (Höggstaður) og Sigurbjargar Þrast- ardóttur sem fjallað var um í síðustu grein. Stein- unn nálgast efnin þó með öðrum hætti. Ástarljóð Steinunnar eru til að mynda ekki jafn ágeng og ör og hjá Sigurbjörgu. Báðar fjalla þær um ástina sem ástand, Sigurbjörg lýsir henni sem einhvers konar truflun, sem „brenglun á rök- hugsun“ eins og hún orðaði það sjálf í viðtali í Les- bók. Báðar lýsa þær ástinni sem tímabundnu ástandi. Missirinn og sorgin eru, eins og áður sagði, umfjöllunarefni Blysfara. Og Steinunn skoðar ást- ina aldrei öðruvísi en í ljósi tímans, í ljósi byrjunar- innar, hins nýja og dagdraumanna þar sem í ljós kemur að „hjartað er skynlaus tímavörður/ þrælmeyr vöðvi upp úr saltpæklinum –//tilbúinn þó að dæla í ofboði á ný“. Í Ljóðum úr ljósaskiptum er ort um síðustu ástina sem er útilokuð „alls staðar nema í draumum og ljóði“ og „líka í draumum og ljóði“. En þótt tíminn líði og maðurinn sakni og syrgi glataðar stundir og ástir sem farið var á mis við þá breytir tíminn engu um hamingjuna ef ástin ratar til manns að endingu. Og Steinunn yrkir um Ástina á tímum ástarjátninga: „Þegar ástarjátning- arnar fara loksins að koma. Er/yfirleitt liðið langt á ágústmánuð og jafnvel þó nokkuð/á ævina.“ Og um haustástir og þarfir ungs manns og eldri konu en bæði þurfa meira en einn elskanda. Annar ljóða- bálkur bókarinnar heitir Framlengdur sumardans fyrir austan fjall og er eins konar tengiliður á milli ástarþemans, tímans og náttúruþemans sem þriðji bálkurinn fjallar um, Einu-sinni-var-landið, en þar er sagt frá einsetumanninum írska sem sá landið fyrstur og snýr síðan aftur til þess að finna Eyði- landið sem gjörðir nútímamanna hafa leitt af sér. Náttúran er einnig umfjöllunarefni Sjóns í bók- inni Söngur steinasafnarans (2007) en með allt öðr- um hætti. Náttúruljóð (i) hljómar þannig: með hljóðlátri sveiflu kveðja frá vetrarbrautinni Náttúruljóðin eru sex í bókinni. Guðni Elísson segir í formála að væntanlegu ljóðasafni Sjóns (Bjartur) að ljóðin einkennist af yfirvegun og myndi fullkomna andstæðu við þá súrrealísku ólgu sem einkenndi myndmál fyrstu ljóðabóka Sjóns. Hann segir að nánast megi skilgreina ljóðin sem tveggja línu hækur, „smíðaðar fyrir norræn talfæri“. En Sjón er eigi að síður súrrealisti í hugsun eins og sjá má á ljóðum eins og Það sem stúlkurnar geyma og Heimilislíf þar sem maður gengur fram á hreindýr sem liggur undir sófaborðinu og jórtrar, maðurinn eltir hreindýrið um íbúðina og sér það sameinast hjörðinni undir hjónarúminu. Söngur steinasafnarans er einstaklega fínofinn skáldskapur. Náttúruljóðin fjalla kannski ekki síst um þennan fíngerða skáldskap, hljóðláta sveifluna, sem talað er um í því fyrsta, annað ljóðið er svona: „nýsaumaður silkihanski/bláberjablátt stjörnu- blik“. Ljóðin gætu líka verið „rauðfjaðraður flæk- ingur“ (iii) og „tilfinningalega vafasamur/teinréttur regnbogi“ (iv) og „hunangsvot fluga“ (v). Tilfinn- ingin sem þau miðla er „úr svo ljósu efni/að fer ónefnd um borgina“ (vi). Á óljósum tímum eru ljóð tilraunastofa um nefnanleg efni. Tilraunastofa um ónefnanleg efni Morgunblaðið/Kristinn Steinunn Yrkir hnitmiðuð ljóð – hvert orð er vandlega valið. Einstaklingsbundin formglíma, opinber- unarmenningin, náttúruljóð, súrrealismi og önnur ónefnd efni. Morgunblaðið/Kristinn Sjóns Söngur steinasafnarans er einstaklega fínofinn skáldskapur. 10 LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók| bókmenntir á tímum hins óljósa Óskar Árni Óskarsson Ljóð geta bæði rifið kjaft og hvíslað ást- arorðum. Sum ljóð kunna meira að segja belgísku og eru með BA í heimspeki. Ingibjörg Haraldsdóttir Marína Tsvetajeva skrifaði fyrir margt löngu um tungumál ljóðsins. Hún sagði að ljóð væru alltaf þýðing. Þegar skáldið setur ljóð á blað er hún að þýða það á við- komandi tungumál, hvort sem það er þýska, franska, rússneska eða eitthvað annað. Skáldið sem slíkt á sér ekkert móðurmál. Mér finnst þetta skemmtileg hugsun, og skil hana þannig að inni í hverju skáldi gutli eða ómi einhvers konar skáldamál (suttungamjöður?) og skáldið vinni úr því og þýði á tungumál sem aðrir geta skilið. Maður getur svo bætt við þetta áhyggj- um af því sem hlýtur að týnast í þýðing- unni og reynt að ímynda sér hvernig frummynd ljóðsins hafi verið, þessi sem enginn þekkir nema skáldið sjálft. Jóhann Hjálmarsson Það fer eftir lesandanum eins og svo margt. Hann kann muninn á ljóði og prósa. Það er hann sem sker úr hvort texti er ljóð eða ekki. Steinar Bragi Ljóð eru epísk og groddaleg eða lýrísk og fínleg. Sérkenni ljóðlistarinnar liggur ekki í sjálfri beitingu orðanna eða þema- tískum áherslum, heldur líklega fyrst í stríðri afstöðu hennar til tungumálsins – þ.e. að vilja ýmist leysa það upp í mark- lausa hrynjandi eða afbyggja, eða á hinn bóginn að upphefja, greypa í stein og þykjast heilagasti vörður þess. Róm- antísk ást er mótsögn í því að manneskja vill hverfa brennandi inn í viðfang ástar sinnar, en á hinn bóginn að eigna sér það. Og ljóðlist á í svipaðri afstöðu til tungu- málsins. Eiríkur Örn Norðdahl Ljóðið er tungumálið og tungumálið ljóð- ið. Með stórum l-um og t-um. Raunar er ákveðinn orðaforði sem ís- lensk ljóðskáld hafa gerst leiðitöm í til- raun til falskrar upphafningar og heima- tilbúins hátíðleika. Hvergi annars staðar er önnur hver kona sprund og þriðja hver sól sunna ef ekki hreinlega röðull – m.a.s. afslappaðri ljóð eiga þetta til. Þá eru stóru vísanaorðin í náttúru og sálar- líf auðvitað á hverju strái. Ljóðskáld eru heldur upptekin af því að klæða mál sitt Ljóð með BA í heimspeki sparifötum, sparifatanna vegna. Semí-heimspekilegur talandi er einnig gríðarvinsæll – mál þess sem veit dýpra en aðrir. Þetta er í raun afskaplega grunnhyggið trix úr stílbókum Laos Tse, og ekki nema fyrir óvana og lítt inn- blásna lesendur að falla fyrir því. Að síðustu eru ákveðnar þematískar myndmálsparanir líka í móð – þar sem tveimur myndheimum er skipulega stillt upp hlið við hlið og svo eru þræðirnir prjónaðir saman í dálitla búta-epík. Tungumál ljóðlistarinnar á ekki að vera fyrirsjáanlegt, en er það alltof oft, sem helgast af tilhneigingu ljóðlist- arinnar til að herma eftir sjálfri sér. Matthías Johannessen Já ljóðið á sitt tungumál en það hefur breyst eins og annað, því miður ekki endilega til hins betra. Sindri Freysson Flest ljóðskáld spara við sig orð. Sum eru með textaræpu. Önnur öskra sig hás. Hráefnið getur verið blóð og drulla, en það skiptir engu ef hræran harðnar í ljóð. Eða með öðrum orðum: Aðferðin skiptir ekki máli svo lengi sem útkoman gerir það. Steinunn Sigurðardóttir Ljóðið á mörg tungumál, líka í bók- staflegri merkingu. Og tungumálið býð- ur því að sumu leyti heim hvaða ljóð verða til á því. Ef við tökum tvö nærtæk heimsmál, spænsku og ensku. Og svo tvö höfuðskáld á þessum málum. Að hugsa sér hvað hið myrka mjúka mjúka tungu- mál Garcia Lorca væri ósambærilegt við ljósan fullyrðingastíllinn hjá Walt Whit- man. Ég held að það væri óhugsandi að yrkja á ensku eins og Garcia Lorca gerir. Og mér finnst ljóðin hans alls ekki njóta sín í enskri þýðingu. Það er leynd- ardómur sem ég skil ekki að það hefur tekist að þýða eitthvað af þeim á ís- lensku, svo um munar. Mér dettur í hug Magnús Ásgeirsson, sem skáldaði upp á nýtt, og Jón Hallur Stefánsson, sem var trúr frumtextanum. Makalaust að báðar þær gjörólíku tilraunir skyldu takast. Kringum ljóðmálið er það líka spenn- andi að sama skáld getur haft ólíkt tungutak í ljóðum sínum, þótt röddin sé þekkjanleg. Eða er ekki langur vegur á milli Gunnarshólma hjá Jónasi og Fyrr var oft í koti kátt? Kristín Svava Tómasdóttir Nei, hlutverk þess er að fokka í tungu- málinu. Greinarhöfundur spurði nokkur skáld hvort ljóðið ætti sérstakt tungumál. Svörin fara hér.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.