Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Síða 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 11
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is
JPV útgáfa sendir nú frá sérnýja spennusögu eftir Ray-
mond Khoury, höfund Must-
erisriddarans sem kom út á síð-
asta ári. Bókin heitir Griðastaður
og sem fyrr
sækir Khoury
efnivið aftur í
aldir og vefur
saman við at-
burði úr nútím-
anum. Bókin
kemur út beint í
kilju og það er
Salka Guð-
mundsdóttir sem
þýðir.
Napólí árið 1750. Í skjóli myrk-
urs ryðjast þrír vopnaðir menn
undir forystu prinsins af San Se-
vero inn í höll eina og krefjast
þess að íbúi hennar ljóstri upp
leyndarmáli sem hann einn þekk-
ir. En hann sleppur og eftir
stendur prinsinn, heltekinn af
trylltri löngun til að komast yfir
leyndarmálið.
Bagdad árið 2003. Í brennandi
eyðimerkurhitanum rekst herfylki
í eftirlitsferð á leynilega rann-
sóknarstofu þar sem tugir karla,
kvenna og barna hafa verið myrtir
á hryllilegan hátt. Vísindamað-
urinn sem ber ábyrgð á voðaverk-
inu kemst undan en skilur eftir
vísbendingu, dularfullt tákn sem
virðist búa yfir ógnarmætti.
Í Berút er fornleifafræðingnum
Evelyn Bishop rænt og Mia dóttir
hennar leggur upp í háskalega
ferð til að finna hana og komast
að leyndarmáli táknsins.
Lífsorð heitir ný ljóðabók eftirSteinþór Jóhannsson. Þetta
er sjöunda ljóðabók höfundar.
Bókin inniheldur 24 ljóð, eina
smásögu og eina örsögu.
Meðal efnis í vorhefti Skírniser grein um hið svokallaða
„stóra málverkafölsunarmál“, hug-
leiðing Páls Skúlasonar um menn-
ingu og markað þar sem Páll
styðst við hugmyndir Sigurðar
Nordals í gagnrýni sinni á þá
taumlausu markaðshyggju, sem
hann telur hafa verið ríkjandi hér-
lendis undanfarin ár. Í Skírni er
þess jafnframt minnst að 100 ár
eru liðin frá fæðingu Steins Stein-
arr og skrifar Kristín Þórarins-
dóttir ítarlega um Tímann og
vatnið, en hún byggist m.a. á
óbirtu efni úr fórum frænku sinn-
ar og ekkju Steins, Ásthildar
Björnsdóttur. Jón Karl Helgason
birtir ritgerð um Vikivaka, sér-
stæðasta verk Gunnars Gunn-
arssonar, og Ásta Kristín Bene-
diktsdóttir skrifar um Dægurvísu
Jakobínu Sigurðardóttur.
Í nýju hefti Tímarits Máls ogmenningar er leitað svara við
eftirfarandi spurningum: Er
menningararfurinn óhollur ef vel
er að gáð? Bjargaði ungur Íslend-
ingur pólitískum
föngum á Spáni
með séríslenskri
fífldirfsku á 6.
áratugnum? Er
Brúðguminn
verkið sem
Tsjekhov ætlaði
sér alltaf að
skrifa? Það kom
út bók handa
börnum um
mannát fyrir síðustu jól. Af
hverju varð ekki allt vitlaust?
Fjórtán hækur eftir Vilborgu
Dagbjartsdóttur, ortar til heiðurs
Helga Hálfdanarsyni, eru birtar í
heftinu en Helgi færði Íslend-
ingum þennan sjarmerandi brag-
arhátt. Önnur ljóð eru eftir Sig-
urð Ingólfsson, Guðrúnu
Hannesdóttur, Ögmund Bjarna-
son, Óttar M. Norðfjörð og Kára
Pál Óskarsson. En smásagan að
þessu sinni er angurvær stemning
eftir Jón Atla Jónasson.
BÆKUR
Eftir Björn Þór Vilhjálmsson
vilhjalmsson@wisc.edu
Nokkuð er um liðið síðan menning-arspekingurinn franski Roland Bart-hes lýsti miðlægri stöðu höfundarinssem helstu tálsýn bókmenntaumræð-
unnar og gekk þannig í stuttri ritgerð af rithöf-
undastéttinni dauðri. Staða höfundarins var nú
reyndar þegar tekin að veikjast mjög á þessum
tíma og mætti því e.t.v. segja að Barthes hafi frek-
ar ýtt við líkinu en drepið höfundinn, og það þá
hrunið ofan í gröf sem þegar var búið að taka. En
höfundurinn hefur átt erfitt uppdráttar á síðustu
áratugum, og bókmenntirnar ekki síður, og mörg-
um hefur þótt heppilegt að tengja víðtækar breyt-
ingar í menningarframleiðslu og neyslu við grein-
argerð Barthes, skrif þessa helsta táknfræðings
samtímans hafa því öðlast miðlægt og afar tákn-
rænt gildi. Hitt er svo annað en ekki óskylt mál að
erfitt er að láta staðar numið þegar búið er að
farga höfundinum og ætla mætti að röðin kæmi
næst að lesandanum. Sú er líka raunin en í bók
sinni Death of the Critic sem kom út nýverið lýsir
Ronan McDonald, bókmenntaprófessor við ensk-
an háskóla, yfir dauða ákveðinnar tegundar af les-
endum, þ.e.a.s. gagnrýnendastéttarinnar.
Þetta gerir McDonald að vísu ekki í meinfýsn-
um tilgangi, ætlunin er að bregða birtu á veika
stöðu gagnrýnandans í samfélaginu en að mati
McDonalds hefur hún komið til vegna þess að há-
skólafræðimenn hafa einangrast. Fræðimenn
mynda grundvöll faglegrar umræðu um listir og
vill McDonald meina að innkoma ‘teóríunnar’ svo-
kölluðu í hugvísindadeildir víða um heim hafi haft
afdrifaríkar afleiðingar. Hér ber að taka fram að
með þessu hugtaki vísar McDonald til heim-
spekiskotinnar listaumræðu sem fór að verða fyr-
irferðarmikil á sjöunda áratug liðinnar aldar og
má segja að gangi út á að spyrja nýrra spurninga.
Ekki var talið nóg að spyrja hvort ljóðið væri gott
og útskýra af hverju svo væri heldur var spurt um
ástæður þess að við spyrjum svona spurninga. Að
mati McDonalds kjarnast vandinn þarna. Ekki er
lengur spurt um gæði, fræðimenn dæma ekki
heldur greina og þegar umræða um gæði, sköp-
unarmátt og dirfsku andans er gerð útlæg missir
gagnýnandinn tilverurétt sinn. Hann er aðeins að
tala við aðra gagnrýnendur. Meðan fræðimenn
eru uppteknir af því að miðla nýjustu kenningunni
til kollega sinna í tímaritum sem fáir lesa myndast
að mati McDonalds tómarúm sem er síðan fyllt af
bloggurum, sem er endanleg niðurlæging menn-
ingarumræðunnar. Gagnrýnandinn talar tungu-
mál sem enginn skilur, til að mynda lakönsku, og
bloggarinn kemur heldur ekki óbrenglaðri setn-
ingu frá sér, en af öðrum ástæðum. Gagnrýnand-
inn er því dauður í þeim skilningi að hinn klassíski
menningarviti sem á var hlustað er horfinn.
Líkt og Nietzsche gerði þegar hann sakaði Evr-
ípídes um að hafa myrt harmleikinn sviðsetur
McDonald menningarlegt morðmál, og sam-
kvæmt honum var gagnrýnandinn myrtur af
menningarfræðingum heimsins. Þetta er ekki ný
niðurstaða, og rökstuðningur McDonalds er að
mörgu leyti kunnuglegur. Ástæðan fyrir því að
bók hans hefur hlotið þá athygli sem raun ber
vitni tengist frekar því að blikur eru á lofti varð-
andi listaumræðu í fjölmiðlum en að meira þurfi
að segja um menningarstríðin. Helstu dagblöð
Bandaríkjanna eiga það til að mynda sameiginlegt
að draga saman seglin í umfjöllun sinni um menn-
ingu, hætt er með bókakálfa og ódýrara er að
kaupa dóma af Reuters en hafa gagnrýnendur í
vinnu. Umfjöllun styttist og stjörnugjöf færist í
aukana. Ég held að í þessu samhengi sé full
ástæða til að hafa áhyggjur af heilsufari gagnrýn-
andans (og listamannsins) en rökvísin sem liggur
þessari þróun að baki tengist póstmódernistum
harla lítið.
Dauði gagnrýnandans
»Ekki er lengur spurt um
gæði, fræðimenn dæma ekki
heldur greina og þegar umræða
um gæði, sköpunarmátt og
dirfsku andans er gerð útlæg
missir gagnýnandinn tilverurétt
sinn. Hann er aðeins að tala við
aðra gagnrýnendur.
ERINDI
Eftir Björn Þór Vilhjálmsson
vilhjalmsson@wisc.edu
B
andaríski sakamálahöfundurinn
Patricia Cornwell er þekkt fyrir
bókaröð sína um réttarmeina-
fræðinginn Kay Scarpetta en
fyrstu fjórar bækurnar hafa kom-
ið út á íslensku. Nú nýverið bætt-
ist sú fimmta við, Dauðrabýlið (The Body Farm), í
þýðingu Atla Magnússonar.
Ýmislegt við Cornwell vekur athygli og á köfl-
um er sem lífshlaup hennar eigi sitthvað sameig-
inlegt með skáldskapnum. Þannig blandaðist hún
fyrir nokkrum árum inn í alvarlegt glæpamál þar
sem starfsmaður Alríkislögreglunnar var ákærð-
ur fyrir að leggja á ráðin um mannrán. Fyr-
irhugað fórnarlamb var eiginkona alríkislögreglu-
mannsins og var hann að lokum dæmdur í ríflega
20 ára fangelsi. Þegar nánar var grafist fyrir um
málavöxtu kom í ljós að eiginkonan hafði átt í ást-
arsambandi við Cornwell, og eiginmaðurinn
tryllst af afbrýðisemi. Þessu máli var mikið haldið
á lofti í fjölmiðlum á sínum tíma og Cornwell var
stundum framsett sem eins konar tálkvendi,
hættulegt femme fatale, og er því óhætt að segja
að höfundarímynd hennar hafi tekið ýmsum
breytingum í gegnum tíðina. Árið 2002 sendi hún
svo frá sér bók um Jack the Ripper, eða Kobba
kviðristu, þar sem viðruð er ný kenning um hver
morðinginn hafi í raun verið. Cornwell bendir á
myndlistarmanninn Walter Sickert en bókinni var
almennt fálega tekið.
Við lifum á gervihnattaöld
Fimmta Scarpetta-bókin er sem sagt komin út á
íslensku en segja má að þýðing sjálfrar seríunnar
sé langt á eftir áætlun. Cornwell er duglegur rit-
höfundur og nýjasta Scarpetta-bókin kom út í
fyrra. Dauðrabýlið er hins vegar frá 1994 og síðan
þá hafa tíu bækur bæst við. Undir venjulegum
kringumstæðum ætti tímamismunurinn milli út-
gáfu og íslenskrar þýðingar ekki að skipta neinu
máli, bókmenntir eldast jú furðu vel. Skáldsögur
Cornwell falla þó ekki í flokk tímaheldinna skáld-
verka og er þar að nokkru leyti um að kenna því
sem sumir vilja meina að sé helsti styrkleiki höf-
undar, tækniþekkingin. Cornwell byggir saka-
málasögur sínar á grunni tæknilegrar úrvinnslu
sakamála, aðalpersónan er vísindamaður og
„nýju“ bókinni, Dauðrabýlinu, er einkar umhugað
um tölvukerfi Alríkislögreglunnar bandarísku. Í
ljósi þess að um er að ræða bók sem rituð er fyrir
14 árum, og tölvur og tölvukerfi úreldast hratt, er
viðbúið að lesandi þýðingarinnar velti stundum
vöngum yfir því hvernig notkun nútímalegrar
upplýsingatækni sem valdtækis hefur tekið
stakkaskiptum á liðnum árum. Á tímum Bush og
hans kumpána er tölvukerfið sem hér er kynnt til
sögunnar hreinn og klár forngripur. Þegar að sér-
sviði aðalpersónunnar, réttarmeinafræðingsins
Scarpetta, kemur á bókin vafalaust við samskonar
vandamál að stríða. Í því tilviki hef ég hins vegar
hvorki þekkingu né áhuga á raunveruleikaeftirlík-
ingunni til að dæma um útkomuna. Þó er málið
ekki útkljáð með því að segja að Cornwell sé
óskáldlegt skáld. Samkvæmt nýjustu bókinni á
hún að vísu erfitt með að skrifa sennilegar sam-
ræður milli fólks og því nánara sem fólkið á að
vera þeim mun ósennilegri verða samræðurnar.
Þá gengur henni illa að skapa spennu, eða áhuga,
á söguþræðinum og enn ver gengur henni að búa
til persónur sem ekki orka fjandsamlega á les-
anda. Höfundur nær flugi þegar fjallað er um
tæknilegt umhverfi atburða og glæpa en, eins og
áður segir, er skáldverkið á íslensku tæpum
tveimur áratugum á eftir kúrfunni á því sviði.
Miklu sniðugra væri að þýða nýjustu bækurnar
fyrst, sýnist mér, og bíða með gömlu innslögin þar
til síðast.
Hetjan og höfundurinn
Myrkur vetur eftir breska rithöfundinn Andy
McNab sem nýlega kom út í þýðingu Brynjars
Arnarsonar á það svo sameiginlegt með Dauðra-
býlinu að vera umhugað mjög um nútímalega
tækni, möguleikana sem felast í henni og ógnina.
Hér segir frá sérsveitarmanninum Nick Stone
sem fær það hlutverk ásamt samstarfskonu að
koma í veg fyrir hryðjuverkaárás en illmenni bók-
arinnar hyggjast hleypa af stað sjúkdómsfaraldri
í London með því að dreifa lungnabólgubakteríu.
Nick Stone er harðsvíraður leigumorðingi á veg-
um ríkisins en inn í frásögnina blandast persónu-
leg vandamál og bókin kemur stundum á óvart
hvað tilþrif á þessu síðara sviði varðar. Höfundur
leitast við að skapa spennu með því að stilla upp
togstreitu milli persónulegrar ábyrgðar aðal-
persónunnar á ungum skjólstæðingi sínum og
nauðsyn þess að hugsa um stóra samfélags-
samhengið. Leynilegt starf Stones þvælist með
öðrum orðum fyrir skyldum hans í einkalífinu.
Þetta er ekki frumleg uppstilling en McNab setur
hana ágætlega fram í fyrstu, eða fram á bls. 63.
Þar leikur McNab af sér með slíkum stæl að
ómögulegt reynist í framhaldinu að hafa samúð
eða áhuga á Stone, og þar með missir bókin flugið.
Athyglisvert er að kynna sér bakgrunn höfund-
arins. Andy McNab er kynntur til leiks eins og
hann sé sögupersóna úr einni af bókunum sínum.
Á Wikipedia-síðu tileinkaðri honum kemur m.a.
fram að McNab sé fyrrum sérsveitarmaður og
hafi verið heiðraður fyrir störf sín í ríkari mæli en
dæmi eru um. Þá er McNab dulnefni og enginn
veit hvað höfundurinn í raun heitir. Því er lýst
hvernig McNab komi ávallt fram skyggður í sjón-
varpsviðtölum, svo ekki sé hægt að greina andlits-
drætti. Ástæðan er sú að fjölmörg hryðjuverka-
samtök vilja hann feigan. Þekking hans á
innviðum leyniþjónustuheimsins á einnig að vera
slík að varnarmálaráðuneytið í Bretlandi krefst
þess að fá að sjá allt sem hann skrifar áður en það
er gefið út svo hægt sé að ganga úr skugga um að
ekki sé óvart verið að ljóstra upp ríkisleynd-
armálum. Á síðunni er herþjónustu McNabs einn-
ig lýst með miklum tilþrifum. Allt er þetta hluti af
ímyndarsköpun og miðast við að gefa fjarstæðu-
kenndum skáldskapnum veruleikatryggingu,
Andy veit um hvað hann talar þegar hann skrifar
sínar síð-Bond sögur. Jafnvel er hægt að ímynda
sér að þegar Nick Stone setjist í helgan stein taki
hann upp þá iðju að skrifa skáldsögur. Og þær
verði þá ansi líkar þeim sem McNab skrifar.
Einnig er ljóst að Stone mun þurfa að taka sér
dulnefni sem myndi þá vafalaust svipa eitthvað til
nafnsins Andy McNab, o.s.frv. Hér er sem sagt
skemmtilega langt gengið í því að búa til sniðuga
höfundarímynd og hægt er að bera virðingu fyrir
því hversu vel hefur tekist til, þótt ætla megi að
afrekaskráin hér að ofan sé verulega orðum auk-
in.
Í kröppum dansi
Tvær spennusögur hafa komið út nýverið,
Dauðrabýlið eftir Patricia Cornwell og Myrkur
vetur eftir Andy McNab, sem báðar fjalla um
möguleika og ógnir nútímalegrar tækni. Þetta
eru bækur sem leitast við að skemmta lesendum
en athyglisvert er að þegar að viðtökum þeirra
kemur er persóna höfundarins í báðum tilvikum
fyrirferðarmikil.
Andy McNab Hylur andlit sitt því að fjölmörg
hryðjuverkasamtök vilja hann feigan.
Patricia Cornwell „Höfundur nær flugi þegar
fjallað er um tæknilegt umhverfi atburða.“