Morgunblaðið - 07.01.2008, Síða 14

Morgunblaðið - 07.01.2008, Síða 14
14 MÁNUDAGUR 7. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ VESTURLAND Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur vala@simenntun.is Akranes | Fyrir fimmtíu og fimm árum fæddist lítil stúlka á Godda- stöðum í Laxárdal í Dölum. Hún var yngsta barn og einkadóttir hjónanna Þórðar Eyjólfssonar og Fanneyjar Guðmundsdóttur. Stúlk- an, sem fékk nafnið Erla, var sex- tán merkur þegar hún fæddist en fljótlega kom í ljós að hún dafnaði ekki sem skyldi. Sex mánaða gömul var hún orðin mikið veik og ekki nema þrettán merkur. Þá var hún send suður á barnadeildina á Landakoti þar sem hún var næstu árin og vart hugað líf. En Erla lifði af og er í dag búsett á Akranesi ásamt Guðmundi Gunnarssyni eig- inmanni sínum og tveimur börnum. Hún sagði fréttaritara frá því hvernig var að alast upp sem lang- veikt barn á þessum árum. ,,Þegar mamma fór með mig á barnadeildina var ég að veslast upp, orðin glær og tær, hélt engu niðri. Ég var strax lögð inn en reyndar þurfti að skíra mig fyrst því nafnlausa var ekki hægt að skrá mig á sjúkrahúsið. Nafnið Erla var alveg út í bláinn en fengið úr ljóðinu Erla, góða Erla. Litla stúlkan fékk ekki að fara heim aft- ur heldur var stanslaust á sjúkra- húsinu næstu þrjú árin og undir læknishendi til 6-7 ára aldurs. ,,Og ég hef reyndar alla tíð verið undir læknishendi. Ég er ekki enn búin að fá skýringu á því hvað var að mér, þetta er eitthvað í melting- unni. Ég var látin liggja mikið því ef á mér var haldið rann úr mér, bæði að ofan og neðan. Læknarnir ætluðu aldrei að finna réttan mat handa mér og ég var látin smakka ýmislegt, t.d. látin prófa að drekka bæði geitamjólk og kaplamjólk. Kristbjörn Tryggvason, sem var læknirinn minn, pantaði fyrir mig mat frá Danmörku og alltaf var verið að prófa eitthvað nýtt. Hélt að læknirinn væri pabbi sinn Erla var hjá nunnunum á Landa- koti og hún segir að sóðaskapurinn hafi verið mikill og um tíma gróf í öllum líkama hennar. ,,Mér er sagt að ég hafi verið eitt graftarkýli og voru læknarnir hræddir um að sýk- ingin næði inn í líffærin. Þarna hef ég verið rétt innan við þriggja ára og ég tapaði öllu hárinu um tíma.“ Erla var oft mikið veik og sett í einangrun og þegar mamma henn- ar kom í heimsókn mátti hún ekki taka hana upp, heldur horfa á hana í gegnum gler. ,,Ég var orðin svo mikill vesalingur að mér var ekki hugað líf, það var vakað yfir mér dag og nótt og það er kraftaverk hvað ég hef náð mér.“ Erla segist muna ýmislegt frá þessum tíma en annað hefur hún aflað sér upplýsinga um, m.a. frá mágkonu móður sinnar, Jóhönnu Sigþórsdóttur. Hún segir erfitt að rifja þetta upp og spyr ættingja sína og leitar upplýsinga á spítöl- unum. ,,Ég fékk blaðið Umhyggju með Morgunblaðinu og þar var grein um barnadeildina og mynd af lækninum mínum góða og mig grunar að þarna sé líka mynd af mér. Ég fór svo seint af stað að leita upplýsinga og margir eru dán- ir eða orðnir mjög gamlir sem ég hefði getað spurt. Mig langar að púsla í brotin í uppeldi mínu þarna. Ég var hjá nunnunum og alltaf rúmliggjandi. Ég kallaði Kristbjörn lækni pabba því ég hélt að hann væri pabbi minn sem sýnir hversu vel hann hefur umvafið mig enda barðist hann fyrir því að halda mér á lífi.“ Fyrstu minningar Erlu eru því ekki frá Goddastöðum, en þegar hún fékk að fara þangað í fyrsta skiptið yfir helgi segist hún hafa verið því fegnust að komast til baka inn á spítalann. ,,Það voru viðbrigðin og svo var spítalinn heimili mitt. En það var gríðarlega sárt fyrir mömmu og pabba að vera í sífelldri óvissu um það hvort ég myndi lifa af. Mamma vissi ekki hvort hún þyrfti að koma suður, ég gat dáið þá og þegar. Ég held að sjúkrahúsvistin hafi ekki háð mér gagnvart mömmu en það var lengi veggur gagnvart pabba. Ég man ekki eftir því að hann hafi komi á til mín á spítalann og ég átti lengi erfitt með að kalla hann pabba þótt ég yrði mikil pabbas- telpa síðar.“ Erla fór ekki að ganga fyrr en að verða fimm ára, en hún segir að vegna næringarskorts hafi hún fengið beinkröm. ,,Það var hægt að taka hendur og fætur á mér og beygja eins og gúmmí.“ Strauk í Landakotskirkju Þegar Erla var þriggja ára fékk hún í fyrsta skiptið að skreppa að- eins út og vera einn dag með mömmu sinni í Reykjavík. ,,Ég varð þá strax veik, ég þoldi ekki neitt og aldrei hægt að vita hvernig gengi með mig. Öll melting fór úr skorðum um leið og ég fór í annað umhverfi, líka vegna hreyfingar og viðbrigðanna. Ég varð allt önnur um leið og ég kom aftur á spít- alann og lék þá als oddi. Starfsfólk spítalans fór líka stundum með mig út til prufu og ég man að Krist- björn læknir fór einhverju sinni með mig heim til sín.“ Einu sinni hringdi gömul kona, sem hafði unnið á Landakoti, í Erlu og það fyrsta sem hún spurði var: ,,Ertu lifandi ennþá, Erla?“ því hún bjóst ekki við að hún hefði náð full- orðinsárum. ,,Þessi kona sagðist hafa farið með mig einu sinni með sér út í kerru eftir að ég fór að fara stöku sinnum út. Fjögurra ára var mér gefinn dúkkuvagn og það varð til þess að ég fór að ganga. Ég fékk að leika mér úti á lóð á Landakoti og einu sinni strauk ég yfir götuna og fór inn í kirkjuna. Mikið var gaman að keyra dúkku- vagninn um kirkjugólfið.“ Erla eignaðist dúkkustrákinn Kára, sem sat í dúkkuvagninum. ,,Önnur mágkona hennar mömmu, sem var kölluð Didda, pantaði hann frá Danmörku, það var svo lítið til af leikföngum hér. Hún sagði mér að ef ég myndi lifa, mætti ég eiga hann. Kári er fjórum árum eldri en ég, hann er með taubúk og fylltur með hálmi. Einu sinni slitnaði búk- urinn og mamma saumaði hann upp og fyllti með nýjum hálmi. Þá stækkaði Kári aðeins eins og ég. Hann er minn uppáhaldsgripur og hefur fylgt mér alla ævi. Í kringum hann lærði ég mikið og nafnið kom til vegna þess hversu stormasamt var í mínu lífi.“ Erla var undir miklu eftirliti áfram þótt hún væri útskrifuð 6-7 ára gömul af spítalanum og fór al- farin vestur í Dali. Þegar hún hóf skólagöngu var ekki um annað að ræða en Laugar í Sælingsdal sem var heimavistarskóli og hún var þar mánuð í senn. ,,Ég var látin í eldhúsið til að borða því hinir krakkarnir máttu ekki sjá að ég væri á sérfæði, ég mátti heldur ekki matast með þeim.“ Kraftaverk að hafa náð tvítugsaldri ,,Það var alltaf verið að passa mig, hvað ég mætti borða, hvað ég þyldi og ég var alltaf svöng. Svo kom fyrir að ég borðaði yfir mig og varð þá veik. Í stuttu máli má segja að það eina sem ég þoldi að borða var þurrt brauð og drekka vatn. Síðar komst ég upp á lag með að drekka te og svo kaffi á seinni árum. Ég þoli að borða kartöflur og fisk, kjúklinga núorðið, en allt grænmeti misjafnlega. Ég þoli enga fitu í mat og verð sífellt að passa mig. Eitthvað nýtt í magann veldur alltaf niðurgangi og ég hef aldrei fitnað. Heilsan hefur aldrei verið góð, ég þarf að borða miklu oftar en allir aðrir, en merkilegt nokk var ég alltaf heilsubetri á meðgöngu, það var eins og ég þyldi þá meira.“ Fyrsta barnið eignaðist Erla þegar hún var tvítug og þau eru alls sjö. Barnabörnin eru átta og tvö viðbótarbarnabörn. Árið 1983 hringdi Kristbjörn læknir í Erlu og óskaði eftir því að sjá hana. Þá var hún búin að eignast fimm börn og það hafði borist hon- um til eyrna. ,,Honum fannst kraftaverk að ég skyldi hafa náð því að verða tvítug og hvað þá að eignast börn. Það var ekki talið líklegt að beinin mín og skrokkurinn gætu þolað með- göngu. Því miður varð ekkert úr því að við sæjumst aftur, því hann dó ekki löngu síðar og ég get aldrei fyrirgefið sjálfri mér að hafa ekki farið og hitt hann.“ Ennþá er ekki vitað hvers konar sjúkdómur eða óþol hrjáir Erlu en fyrir þremur árum veiktist hún og var lögð inn á spítala. ,,Þá byrjaði allt upp á nýtt, verið að láta mann prófa þetta eða hitt, magi, ristill og garnir, þetta var allt myndað og læknarnir héldu helst að ég væri með glutenóþol. Þá ætti ég ekki að þola hveiti en ég hef alltaf getað borðað hveitibrauð. Ég satt best að segja kvíði því ell- inni þegar fólk fer að segja við mann að það sé vitleysa að maður megi ekki borða þetta og hitt. Nú lifi ég best á kaffi, brauði, rúsínum og döðlum og líður alltaf best heima hjá mér. En ég hugsa að ef öllu yrði safnað saman um veikindi mín og hvað var prófað, yrði það mjög stór bók, ef ekki ein sú stærsta sinnar tegundar.“ „Ertu lifandi ennþá, Erla?“ Morgunblaðið/Guðrún Vala Uppáhaldið Erla Þórðardóttir með Kára sinn og kjól af sér, sem mamma hennar saumaði. Erla Þórðardóttir var langveikt barn með óþekktan meltingar- sjúkdóm. Hún dvaldi fyrstu árin sín á Landakotsspítala. Fyrstu skrefin Erlu hjálpað við að stíga sín fyrstu spor með nunnu fyr- ir framan Landakotspítalann. Skyggnst um öxl Erla ber saman myndir af sér og myndina í Umhyggju.  „Ég var orðin svo mikill vesalingur að mér var ekki hugað líf, það var vakað yfir mér dag og nótt“  Það eina sem hún þoldi var þurrt brauð og vatn. Börnin urðu þó sjö og barnabörnin eru enn fleiri

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.