Morgunblaðið - 07.01.2008, Side 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. JANÚAR 2008 29
nærveru. Það var alltaf hægt að
spjalla við hana. Hún einblíndi á góðu
hliðarnar á lífinu og reyndi að staldra
ekki lengi við erfiðleikana. Það fóru
margir kaffibollar á efstu hæðinni í
Strandaselinu og stutt var í brosið.
Kaffibollaspjallið gat fjallað um allt
og ekkert eins og gengur og gerist en
alltaf var Ása áhugasöm og skemmti-
leg. Enda furðulega lík fiðrildi, alltaf
á ferðinni, flögrandi um ef hún mögu-
lega gat.
Ása bar þá gæfu að eiga Kötu. Hún
talaði um það hvað hún var stolt af
henni Kötu sinni og nefndi líka oft
hvað hún taldi sig heppna að eiga góð-
an vin í dóttur sinni. Ennþá stoltari
og þakklátari varð hún þegar henni
hlotnaðist ömmubarn, hún Elín
Embla. Það var yndislegt að fylgjast
með henni ljóma þegar hún talaði um
þær mæðgur.
Við vildum innilega að hægt væri
að binda í betri texta hugsanir okkar
um hana Ásu. En líklega er okkur
hvorki ætlað að skilja né greina lífið.
Bara þakka fyrir að hafa fengið að
þekkja Ásu og lofa henni að lifa í
hjörtum okkar þar sem hún hefur bú-
ið um sig til frambúðar.
Elsku Kata, Grétar og Elín Embla,
megi Guð og allar góðar vættir vaka
yfir ykkur á þessum erfiða tíma og
um ókomin ár.
Ég veit að
sérhver sólargeisli ber bros þitt
sérhver regndropi koss þinn
sérhvert snjókorn kveðju þína
til okkar.
Ég veit að
þú ætlar ekki langt
og fylgist vel með blómum lífs þíns dafna
sendir þeim ást þína
tveggja heima á milli.
Ég veit að
þú ætlar þér að njóta þessa friðar
og vakir yfir þeim sem sárt þín sakna
strýkur barnsins kinn í ljúfum svefni
og kyssir létt á augun er þau vakna.
Ég bið að heilsa, sæl að sinni
og þakka Guði fyrir okkar kynni.
(A.B.E.)
Hulda Ösp Eyjólfsdóttir,
Auður Brynja Eyjólfsdóttir.
Mig langar með nokkrum orðum að
minnast Áslaugar Ingu Þórisdóttur,
eða Ásu eins og hún var alltaf kölluð,
sem fallin er frá langt um aldur fram.
Ég kynntist Ásu fyrst í stjórnmála-
starfi fyrir Alþýðuflokkinn. Við fyrstu
kynni virtist hún fremur hlédræg en
síðar kom í ljós að Ása var langt í frá
hlédræg heldur einstaklega hress og
skemmtileg kona, sem gaf mikið af
sér. Á þessum tíma vorum við kon-
urnar í Alþýðuflokknum að reyna að
efla kvennastarfið innan flokksins og
tókum upp á ýmsu í þeim tilgangi.
Minnisstæðust er ,,kvennaferðin“
með rútu til Akureyrar, ráðstefnunni
þar og svo skemmtuninni um kvöldið.
Ása var alltaf til í að taka þátt, bæði
að mæta og leggja fram starfskrafta
sína. Hún var í reynd alltaf tilbúin til
þess, bæði fyrir Alþýðuflokkinn og
svo síðar á sama hátt fyrir Samfylk-
inguna. Hún var óþreytandi við að
leggja fólki lið, líka þegar hún var
mjög veik eða nýlega stigin upp af
sóttarsæng, og ég vona að allir sem
notið hafa krafta hennar og hæfileika
minnist hennar nú.
Þegar ég kynntist Ásu fyrst þá
hafði ég ekki hugmynd um að þessi
unga, hressa kona væri búin að ganga
í gegnum hjartauppskurð, því Ása lét
aldrei á neinu bera varðandi heilsufar
sitt. Það var bara á útlitinu sem
stundum sást að ekki var allt með
felldu. En Ása hafði gaman af að vera
vel til fara og gjarnan í nýjustu tísku.
Og alltaf með flotta klippingu. Hún
fór líka reglulega að heimsækja
pabba sinn í Flórída og kom þá alltaf
til baka með sérlega fallegan húðlit,
sem við vinkonurnar öfunduðum
hana af. Þannig að jafnvel útlitið plat-
aði okkur þegar kom að því að meta
hvort Ása væri við góða heilsu eða
ekki.
Það var líka alltaf gaman að
skemmta sér með Ásu því hún naut
virkilega lífsins – kannski vegna þess
að hún var búin að fá viðvörun svona
ung. Við, konurnar sem vorum í
kringum hana, vorum samt svolítið
áhyggjufullar yfir því að hún færi
ekki nógu vel með sig. En hún vildi
lifa lífinu eins og hana langaði til –
ekki eins og aðrir vildu að hún lifði
því.
Fjölskyldan var Ásu mjög mikils
virði. Ása átti þessa einu dóttur,
Katrínu, og sambýlismaður hennar,
Björn, einn son. Í gegnum sögur frá
Ásu fylgdumst við með fjölskyldulíf-
inu, ekki síst hversu vel Katrínu gekk
í námi, sem Ása var afar stolt yfir, og
svo þegar hún eignaðist sjálf litla
dóttur. Þá var gleðin mikil og við
samglöddumst Ásu svo innilega að fá
að upplifa það að verða amma, því við
vorum ekkert alltaf vissar um að það
myndi nást. En Ása hafði ekki bara
yndi af lífinu, heldur var hún líka
mjög þrjósk. Hún ætlaði að lifa þrátt
fyrir hjartaáfall, heilaæxli og biluð
nýru. En núna rétt fyrir jólin dugði
ekki einu sinni hennar alþekkta
þrjóska til; hún varð að láta í minni
pokann.
Það er sárt að kveðja svona unga
og lífsglaða konu eins og hana Ásu.
Konu sem hafði svo mikið að lifa fyrir
og mikið að gefa en það er líka skilj-
anlegt að líkamlega var ekki hægt að
leggja mikið meira á hana. Ég kveð
Ásu með söknuði og votta um leið fjöl-
skyldu hennar og aðstandendum
mína innilegustu samúð.
Bryndís Kristjánsdóttir.
Frá fyrstu kynnum höfum við
dáðst að æðruleysi Ásu, félagslífinu,
léttu lundinni, áræðinu, lifa lífinu,
vera með – þótt líkaminn hafi ekki
verið sterkur hin seinni ár þá tók Ása
þátt í öllu. Þú varst svo kát og jákvæð
á allt sem við gerðum, í vinnu, á ferða-
lögum og síðast en ekki síst síðustu
árin að hittast á matstað úti í bæ einu
sinni í mánuði, hvernig sem á stóð. Þú
gekkst meira að segja út af spítalan-
um til að hitta okkur og talaðir aldrei
um veikindi þín, bara að þú værir
„inni“ þá stundina.
Gullmolarnir lifa eins og eitt sinn
þegar búið var að loka bílastæðum
þar sem við vorum komnar á hesta-
mannamót og vörðurinn vildi snúa
okkur frá eins og öðrum, þá svaraði
hún: „Það er svo stuttur í mér þráð-
urinn.“ Þar með var sá björn unninn
og í besta stæði fórum við. Ógleym-
anleg er ferðin í Þórsmörk þar sem
Ása og Fríða léku á als oddi og sungu,
ferðafélaginn var „Guðjón á bak við
tjöldin, Guðjón í sjálfum þér“.
Minningin um þig lifir, okkar kæra
Ása Inga.
Við vottum Katrínu og fjölskyldu
okkar dýpstu samúð.
Áslaug, Theódóra,
Elfa, Ingibjörg, Ingunn,
Ólöf og Sigríður.
Áslaug Inga Þórisdóttir lést 17.
desember síðastliðinn eftir hetjulega
baráttu við illvígan sjúkdóm.
Mér er ljúft að minnast Áslaugar,
hressrar og áhugasamrar konu í
hverju, sem hún gekk að.
Áhugi hennar var smitandi og það
var alltaf gaman að starfa með henni.
Þrátt fyrr miklar annir á skrifstofu
Tollstjórans, þar sem hún starfaði um
árabil, svo og við heimilisstörf, hafði
hún ávallt tíma til að sinna áhugamáli
sínu, þ.e. starfi að þjóðmálum.
Áhugi hennar á þjóðmálum beind-
ist að starfi fyrir jafnaðarstefnuna.
Ég minnist Áslaugar fyrst þegar
við unnum saman að málefnum Al-
þýðuflokksins í Reykjavík á síðasta
áratug síðustu aldar með mikilli virð-
ingu og þakklæti fyrir óeigingjarnt
starf.
Áslaug var kosin í stjórn fulltrúa-
ráðs Alþýðuflokksfélaganna í
Reykjavík 1996 og sat einnig í stjórn
Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur um
árabil.
Áslaug var mikil baráttukona fyrir
auknu jafnrétti kynjanna og réttindi
kvenna voru henni baráttumál.
Þrátt fyrir uppgang Kvennalistans
á sínum tíma taldi hún baráttunni fyr-
ir réttindum kvenna og jafnrétti
kynjanna betur borgið innan jafnað-
armannaflokks, en innan sérstaks
stjórnmálaafls.
Þegar svo Samfylkingin var stofn-
uð gekk hún að heilum hug til liðs við
hana og starfaði þar mikið.
Áslaug var skoðanaföst kona og
hafði mikinn samfæringarkraft og
hafði þannig áhrif á þá sem umgeng-
ust hana.
Í veikindum sínum var hún mikil
hetja og kvartaði ekki, þótt stundum
sæist að henni liði ekki vel.
Að loknu þessu jarðlífi viljum við,
gamlir félagar hennar, sem störfuð-
um með henni í Alþýðuflokksfélagi
Reykjavíkur, þakka henni fyrir allt
og allt og sendum fjölskyldu hennar
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Pétur Jónsson, formaður Al-
þýðuflokksfélags Reykjavíkur
og fyrrverandi borgarfulltrúi.
Á sunnudagseftirmiðdegi hringdi
hún og boðaði sig í mat eins og svo oft
áður. Að loknum kvöldverði þakkaði
hún sérstaklega vel fyrir matinn og
hafði á orði að þetta hefði verið alveg
sérstaklega gott, alveg special a la
Elli og Hlín. Við fengum okkur ís með
bláberjum og rjóma og vorum glaðar,
við vorum svo oft glaðar og þótti svo
undurvænt hvorri um aðra. Í morgun
var ég að huga að því að pakka niður
fyrir ferðina sem stórfjölskyldan ætl-
ar í um jól og áramót. Þá hringir sím-
inn og hún er farin yfir í hitt landið
handan við móðuna miklu, þangað
sem við förum öll að lokum. Það eina
góða við þetta allt saman er að hún
sofnaði sæl og glöð í sínu rúmi. Henni
var bara ekki ætlað að lifa lengur.
Enginn ræður sínum næturstað.
Það er með ólíkum hætti sem fólk
kynnist. Við kynntumst fyrst á kosn-
ingaskrifstofu við Hverfisgötuna. Ég
gamalgróinn eðalkrati, sumir kalla
það demantskrata, hún nýgengin í
flokkinn, blaut á bak við eyrun í þeim
efnum. Við höfðum svipaða sýn á lífið
og trúðum á frelsi, jafnrétti og
bræðralag. Svo það var ekki erfitt að
verða vinir, enda myndaðist þarna
sönn vinátta sem aldrei bar skugga á.
Ég hugsaði oft um það hvernig hún
var þegar hún hafði fulla heilsu og
þrótt. Lífið breytist þegar heilsan er
tekin, og hún hafði ekki níu líf eins og
kötturinn, heldur 99, hvílíkt þrek, hví-
líkt skap. Nú sit ég hér við tölvuna
með jólapakkann þinn á hinum enda
borðsins. Í honum er bók ásamt
fleiru. Bókin sem þig langaði svo í og
ég ætlaði að lesa fyrir þig og hafa það
svo gaman með þér þegar ég kæmi
heim úr ferðinni. Ég ætla nú samt að
lesa hana fyrir okkur báðar, ég verð
bara hér og þú þar.
Nú eru jólin liðin og ég er komin
heim og finn hvað ég sakna þín óskap-
lega. Sá sem eitthvað hefur átt, hann
saknar. Stóllinn þinn tómur, ekki
kveikt á lampanum þínum, teppið þitt
liggur samanbrotið á sófanum, allt er
einhvern veginn ekki eins og það á að
vera, verður það sennilega aldrei.
Elsku Kata, við Erlingur sendum
þér og þínu fólki innilegar samúðar-
kveðjur og biðjum þann sem öllu ræð-
ur að vera með ykkur í sorginni.
Farðu í friði, elsku vina, ég mun alltaf
muna hlátur þinn. Þín vinkona.
Hlín Daníelsdóttir.
Hún Áslaug Inga Þórisdóttir, eða
Ása eins og hún var oftast kölluð, var
alltaf til staðar þegar eitthvað þurfti
að gera. Leiðir okkar lágu fyrst sam-
an í starfi fyrir Reykjavíkurlistann og
stuttu síðar í Alþýðuflokknum fyrir
ríflega 10 árum. Ég man eiginlega
ekki eftir neinu starfi þar eða í Sam-
fylkingunni án þess að hún hafi verið
einhvers staðar nærri. Hún var alltaf
boðin og búin, hvort sem um var að
ræða minni eða stærri fundi, próf-
kjörsvinnu, kosningavinnu, ferðalög
eða landsfundarundirbúning. Alltaf
var kallað í hana, eða hún bauð fram
aðstoð, án þess að ætlast til þess að
hún nyti einhvers sjálf af sínu fram-
lagi.
Hún hafði greinilega gaman af
þessu stússi. Þegar hún tók til máls
var á hana hlustað, enda hafði hún
góðan raddstyrk og góða tilfinningu
fyrir því sem var að gerast – og svo
var oft stutt í hláturinn. Það var þægi-
legt að umgangast hana. Hún var
mjög ráðagóð án þess að vera að
þröngva einverjum skoðunum á
mann. Ég man ekki eftir öðru en já-
kvæðni og jafnaðargeði. Hún starfaði
í stjórn Samfylkingarfélagins í
Reykjavík og þegar Samfylkingin
stofnaði hverfafélag í Breiðholti var
hún sjálfgefinn fyrsti kostur í stjórn-
ina og var þar með frá upphafi til
loka, enda búin að vinna margt og
mikið fyrir sína flokka í hverfinu.
Undir lokin var starfsorkan af skorn-
um skammti eftir að heilsan fór að
bila – en hún var samt alltaf til staðar
og á vaktinni. Einhvern veginn þótti
það sjálfsagt.
Návist hennar var svo sjálfsögð að
það gerði jafnvel enginn athugasemd
þótt hún mætti óvart á lokaðan nefnd-
arfund á vegum borgarinnar. Það var
reyndar mér að kenna að hún mætti
fyrir misskilning á fund í hverfis-
ráðinu í Breiðholti í tíð síðasta meiri-
hluta, án þess að vera þar kjörinn
fulltrúi af borgarstjórn. Með hnút í
maganum sá ég mig knúinn til þess að
tilkynna á fundinum, formsins vegna,
að vegna misskilnings væri mættur
ólögmætur aðili á fundinn. En mikið
var ég feginn þegar hinir fundar-
mennirnir töldu slíkar ábendingar al-
gjörlega óþarfar. Ása væri velkomin
og hún sæti þarna áfram og tæki þátt
í fundarstörfunum, enda held ég að
fulltrúum meirihlutans hafi þótt
meira varið í að hlusta á hana en kjör-
inn fulltrúa minnihlutans.
Fyrir fáeinum misserum síðan
lagði hún til á fundi hverfafélags
Samfylkingarinnar í Breiðholti að við
myndum vinna að því að gerð yrði
stytta af verkalýðsforingjanum og
Breiðholtsfrumbyggjanum Guð-
mundi J. Guðmundssyni. Við komum
þessari hugmynd áfram og henni var
víða vel tekið. Auðvitað þarf að hefja á
loft minningu þeirra sem staðið hafa í
fylkingarbrjósti og sem rekið hafa
smiðshöggið í hinni pólitísku baráttu.
En það þarf ekkert síður að minnast
allra hinna sem gera starfið mögulegt
með miklu og óeigingjörnu vinnu-
framlagi, fólks á borð við Ásu, sem í
raun stendur undir hinni pólitísku
baráttu og lyftir foringjunum á stall.
Það eru auðvitað þeir einstaklingar
sem skipta mestu máli þegar á heild-
ina er litið og þeirra er vert að minn-
ast.
Ég vil þakka Ásu fyrir samfylgdina
og votta ættingjum hennar og vinum
samúð.
Stefán Jóhann Stefánsson,
fyrrverandi formaður Samfylk-
ingarfélagsins í Reykjavík.
✝ Suzanne Joretfæddist 18. febr-
úar 1904. Hún lést á
heimili sínu í Binic á
Bretagne í Frakk-
landi í árslok, 104 ára
að aldri. Hún var
fyrrverandi bæjar-
fulltrúi og bæjar-
stjóri í Binic um langt
árabil. Er hún lést
var hún „doyenne“
þ.e. elst allra borgar-
stjóra Frakklands og
útnefnd sem heiðurs-
borgarstjóri landsins.
Suzanne Joret var afkomandi
eigenda Carfantan-Verry útgerð-
arfélagsins, sem á seglskipatím-
anum sendi á hverju
ári tugi þorsk-
veiðiskipa og
hundruð franskra
fiskimanna á
Íslandsmið. Var þá
um langt árabil í
viðskiptum og sam-
bandi við Ólaf Jó-
hannesson á Vatn-
eyri við
Patreksfjörð. Var
hún þannig tengd
Íslandi og bar
taugar til landsins
þótt tími frönsku
fiskimannanna væri liðinn.
Suzanne Joret verður sungin
sálumessa í Binic í dag.
Þegar ég heimsótti Suzanne Jo-
ret síðast haustið 2004 bjó hún ein í
stóra ættarhúsinu við Place de
Pammelec, torgið upp af höfninni.
Sagðist enn muna eftir því er þær
systur horfðu á eftir skútum fjöl-
skyldurnar þegar þær lögðu úr
höfn annan sunnudaginn í febrúar,
til þorskveiða við Ísland, um 10
talsins, eftir að biskupinn frá Saint
Brieuc hafði blessað hverja og eina
og sjómennirnir veifuðu skipsfán-
anum úr reiðanum er skipin sigldu
út seglum þöndum. Suzanne var
hin hressasta. Henni var á morgn-
ana hjálpað á fætur og kom sér fyr-
ir í hægindastól þar sem hún gat
náð í allt sem hún þurfti, síma, út-
varp og hvaðeina. Á hliðarborði
voru vínflöskur til að bjóða gestum,
sem líka var boðið upp á að kveikja
undir kaffikönnunni í eldhúsinu.
Hún hafði þó ekki treyst því að ég
fyndi húsið, svo hún var komin út á
tröppur.
Ég hafði komið nokkrum sinnum
til hennar áratug fyrr þegar ég var
að leita upplýsinga um Íslandsút-
gerðina. Systirin sem þá bjó með
henni var nú látin.
Einkum sagði hún mér þá frá
formóður sinni, útgerðarkonunni
Maríu Carfantan, sem kölluð var
„la foudroyante“ eða þruman af því
hve mikið stólpakvendi hún var,
eða þá gullþorskurinn af því hve út-
gerð hennar blómstraði. Hún var
ríkasta konan á Bretagne, enda rak
hún fleiri fyrirtæki.
Suzanne Joret fór þá með mig
upp í kirkjugarðinn til að sýna mér
grafhýsið með
neðanjarðarhvelfingu, sem hún
opnaði með lykli, og gat bent mér á
kistur þessara Íslandsútgerðar-
manna. Þarna verður hún nú sjálf
lögð til hinstu hvílu í dag, 7. janúar,
kl. 2.30. Það á vel við, enda er
áletrunin utan á grafhýsinu: „Hvíld
er góð þeim sem vel hafa unnið.“
Og Suzanne Joret hefur vissulega
átt langa og starfsama ævi.
Frásögn hennar varð mér ómet-
anleg. Enda er hún birt í bók minni
um frönsku fiskimennina Fransí
Biskví, sem nú er út gefin í
franskri þýðingu hjá frönsku út-
gáfufyrirtæki og dreift, m.a. á vefn-
um gegnum Amazon.com. Ekki
verður nú af því að ég færi henni
formlega þessa útgáfu bókarinnar í
vor, eins og áformað var.
Til viðbótar kom skeyti um að
síðdegis klukkan fimm yrði boðið í
opið hús í stóra virðulega ættar-
húsinu hennar við Place de
Pammelec, þar sem yrðu veitingar í
mat og drykk, sem hún hafði sjálf
séð fyrir. Suzanne Joret hafði sýni-
lega stjórn á hlutunum fram yfir
andlátið af sama höfðingsskap og
hún hafði í meira en hundrað ár.
Um leið og Suzanne Joret er
kvödd verður mér hugsað til ann-
ars borgarstjóra í Frakklandi með
tengsl gegnum frönsku fiskimenn-
ina, sem lést í fyrra 102 ára gamall,
Alberts Denvers borgarstjóra í
bænum Gravellines í franska
Flandern. Varla er algengt að mað-
ur heimsæki í Frakklandsferðum
tvo 100 ára gamla fyrrverandi
borgarstjóra með slík tengsl við Ís-
land. Albert Denvers var ekki að-
eins í áratugi og fram undir nírætt
borgarstjóri og formaður sam-
bands stórborganna í Norðurhér-
uðunum, heldur líka þingmaður í
franska þinginu og frá byrjun ná-
inn samstarfsmaður Mitterrands
forseta. Svo mikinn áhuga hafði
hann á þessum tengslum bæjar
síns við Ísland að 1988 kom hann
um fríhelgi og tók leiguvél til að
koma á vinabæjartengslum við Fá-
skrúðfjörð. Er ég hafði til borðs
ungan borgarstjóra í stórborginni
Rennes á árinu 2004 og kvaðst vera
að koma frá heimsókn til Alberts
Denvers og á leið til Suzanne Jo-
rets, sem bæði væru yfir 100 ára
gömul, og bætti við að ég hefði allt-
af haldið að borgarstjórastarfið
væri erfiðara en svo að þeir entust
svo lengi, kvaðst hann geta full-
vissað mig um að borgarstjóra-
starfið væri erfitt og hló svo mikið
að aðrir viðstaddir litu upp forviða.
Nú eru báðir þessir öldnu Ís-
landsvinir semsagt horfnir á vit
feðra sinna og ástæða til að minn-
ast þeirra og samskipta þeirra við
Ísland.
Elín Pálmadóttir.
Suzanne Joret