Morgunblaðið - 05.07.2008, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 2008 13
FRÉTTIR
Eftir Guðna Einarsson
gudni@mbl.is
GRÍÐARMIKLAR steypu-
skemmdir komu í ljós þegar múr-
húðinni var flett af framhlið Hall-
grímskirkjuturns vegna viðgerðar.
Steypan reyndist mjög sprungin og
morkin á köflum. Nú skín í bera
járngrindina á stórum flötum þar
sem ónýt steypa hefur verið fjar-
lægð. Stöplarnir utan á turninum
eru svo illa farnir að þeir verða
brotnir niður og nýir steyptir í
þeirra stað. Næsta sumar verður
gert við hinar þrjár hliðar turnsins
og vonast til að þá takist að ljúka
verkinu. Upphafleg áætlun gerði
ráð fyrir að viðgerðin myndi kosta
230 milljónir króna. Vegna
skemmdanna sem nú hafa komið í
ljós þykir líklegt að viðgerð-
arkostnaðurinn fari talsvert fram
úr áætlun.
Ístak tók að sér viðgerðina og
hóf að setja upp vinnupalla eftir
páska í vor. Vinnupallarnir einir og
sér eru mikið mannvirki og tók
uppsetningin þeirra og vinnulyftu
5-6 vikur. Í næstu viku bætast við
vinnupallar utan um sjálfa turn-
spíruna.
Byrjað var á viðgerðinni efst í
turninum, undir spírunni. Laus
múrhúð var fjarlægð og veggirnir
háþrýstiþvegnir. Á köflum er búið
að brjóta allt að 10-12 sentímetra
af ónýtum múr utan af veggjunum
og inn fyrir ytri járnbindinguna.
Að sögn starfsmanna Ístaks var
steypan á köflum eins og mylsna.
Steypumót eru síðan sett utan á
veggina og steypt að nýju. Hæð
vinnustaðarins og umfang verksins
veldur því að flytja þarf steypuna
efst í turninn á hjólbörum. Þær
fara með vinnulyftunni upp á
vinnupallana og er síðan ausið í
mótin með fötum.
Veðrið ræður
framkvæmdahraða
Tómas Tómasson verkfræðingur
hjá Ístaki taldi viðbúið að skemmd-
irnar geti náð hringinn í kringum
turninn. Hann segir að aðallega sé
um að ræða frostskemmdir. Turn-
inn stendur hátt og mikið álag á
hann af völdum veðurs. Vatn smýg-
ur inn um sprungur og þegar kem-
ur frost þenst það út og sprengir
steypuna. Steypuskemmdirnar
hafa reynst vera lagskiptar og er
talið að það skýrist m.a. af því hvað
byggingartíminn var langur og að
mismunandi steypa kann að hafa
verið notuð.
Guðmann Ingjaldsson verkstjóri
sagði að veður muni ráða miklu um
framkvæmdahraðann. Dragist
verkið fram á haustið verður ekki
hægt að setja yfirborðshúðina á
veggina því það verk verður ekki
unnið í kulda. Utan á veggina verð-
ur notuð múrblanda sem þróuð var
hér á landi. Hún verður í sama lit
og kirkjan er nú og á að verja turn-
inn fyrir vatni og veðrum.
Ný kostnaðaráætlun
verður gerð
Jóhannes Pálmason, formaður
sóknarnefndar Hallgrímskirkju,
sagði að VST hafi gert áætlun í
fyrra um viðgerð kirkjuturnsins.
Þá var áætlað að viðgerðarkostn-
aðurinn yrði 230 milljónir. Jóhann-
es sagði að þótt áætlunin hafi
byggt á bestu manna vitund á sín-
um tíma óttist þeir nú að verkefnið
hafi verið verulega vanáætlað.
Unnið er að nýrri skýrslu þar sem
skemmdirnar eru endurmetnar og
eins viðgerðarkostnaðurinn.
„Það var löngu tímabært að fara
í þessa viðgerð,“ sagði Jóhannes.
„Við fórum ekki af stað fyrr en við
höfðum fengið fjármagn til verks-
ins. Söfnuðurinn hér getur ekki
staðið einn undir viðhaldi kirkj-
unnar. Við fengum því stuðning úr
ríkissjóði, borgarsjóði og frá Þjóð-
kirkjunni sem gerði okkur kleift að
láta vinna verkið hratt. Það er ekki
hægt að hafa þetta kennileiti borg-
ar og lands í viðgerð árum saman.“
Flett utan af turninum
Steypan í turni
Hallgrímskirkju
reyndist mikið
skemmd
Viðgerðin verð-
ur mun viðameiri
en talið var
Morgunblaðið/Ómar
Steypa Nú skín í bera járnagrind veggjanna á stórum flötum. Nýtt lag af steypu er sett utan á veggina. Vegna hæð-
ar vinnustaðarins þarf að flytja steypuna upp í hjólbörum.
Niðurbrot Stöplarnir utan á kirkjuturninum eru svo
illa farnir að þeir verða brotnir niður og byggðir upp.
Viðgerð Tómas Tómasson verkfræðingur og Guðmann
Ingjaldsson verkstjóri virða fyrir sér viðgerð.
1961 Jarðvinna við und-
irstöður Hallgrímskirkjuturns
hófst.
1965 Í ágúst var lokið við að
steypa hliðarálmurnar ásamt
hliðarsúlum upp í 17 metra
hæð.
1966 Í ágúst þetta ár var
miðhluti turnsins kominn í 23,5
metra hæð.
1970 Uppsteypu turnsins lok-
ið. Turninn er 73 metra hár.
1973 Múrhúðun turnsins lok-
ið. Hún var gerð með sérstakri
blöndu úr lituðu sementi, Mur-
cem og granítmulningi.
1983 Sprungumyndanir í
turnspíru orðnar áberandi og
einnig í stöplum við turnhliðar.
Láréttum steypuflötum lokað
með teygjanlegri húð til að
hægja á skemmdum.
1986 Hallgrímskirkja vígð 26.
október.
1988 Hafist handa við við-
gerð turnspírunnar. Stóð hún í
tvö ár og reyndist miklu erfiðari
og dýrari en ráð var fyrir gert.
Þurfti að brjóta ofan af og end-
ursteypa 338 af 468 stöplum
spírunnar.
1991-92 gert við norðurálm-
una.
1994-95 gert við suðurálm-
una.
2008 Viðgerð hafin á fram-
hlið Hallgrímskirkjuturns.
2009 Áætlað að laga norður-,
austur- og suðurhliðar turnsins.
Eftir Sigurð Boga Sævarsson
ÁÆTLAÐ er að brú yfir Mjóafjörð í Ísafjarð-
ardjúpi verði tekin í notkun fyrir árslok.
Bygging hennar er hluti af umfangsmiklum
framkvæmdum við Djúpveg, þar sem lagður
er nýr 27 km. langur vegur um Eyrarhlíð í
botni Ísafjarðar í Reykjanes og að Hörtná við
utanverðan Mjóafjörð.
Brúin nýja er 130 metra löng stálbogabrú
en auk þess eru byggðar tvær aðrar brýr á
leiðinni, 60 og 10 metra langar, þ.e. yfir
Reykjafjörð og Vatnsfjarðarós.
Vestfirskir verktakar ehf. á Ísafirði byggja
brýrnar nýju í samvinnu við KNH ehf. á Ísa-
firði, en síðarnefnda fyrirtækið hefur verið
aðalverktaki í þessari framkvæmd sem unnin
er í þremur áföngum. „Verkinu miðar vel og
er á áætlun, segir Hreinn Haraldsson vega-
málastjóri. Umferð yfir Eyrarfjall mun vænt-
anlega leggjast af með brúnni yfir Mjóafjörð
en sé sú leið farin styttist leiðin um Djúp
óverulega með nýjum vegi. Eyrarfjallsvegur
teppist hins vegar strax í fyrstu snjóum og sé
horft til þess verður leiðin um Djúp 34 km.
styttri þegar vegurinn nýi er komin í gagnið.
Brúin yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi verður tekin í notkun fyrir áramót ef áætlanir standast
Ljósmynd/Sigurður Bogi
Þverun Framkvæmdir í fullum gangi í brúarsmíði yfir Mjóafjörð við Ísafjarðardjúp. Nýtt vegarstæði mun stytta verulega leiðina um Djúpið.
Djúpvegur
styttist