Fréttablaðið - 29.10.2009, Side 24
24 29. október 2009 FIMMTUDAGUR
UMRÆÐAN
Indriði H. Þorláksson skrifar
um stóriðju
Staðhæfingar án raka öðlast stundum vægi umfram inntak
þeirra. Tvær slíkar staðhæfingar í
umræðu um orku- og stóriðjuver eru
sérstaklega varhugaverðar. Annars
vegar að slíkar framkvæmdir séu
nauðsynlegar, séu jafnvel leiðin út
úr „kreppunni“, og hins vegar að
framtíð íslensks efnahagslífs sé best
tryggð með nýtingu orkuauðlinda
fyrir stóriðju. Önnur þeirra horfir
til skamms tíma en hin lengra fram
á veg en báðar eru vafasamar, lík-
lega rangar og jafnvel skaðlegar.
Efnahagsleg áhrif stórfram-
kvæmda verður að meta með hlið-
sjón af efnahagsstefnu til skemmri
og lengri tíma. Til skamms tíma,
segjum 3 til 5 ára, er markmiðið að
koma atvinnulífinu í gang. Til lengri
tíma litið er markmiðið að stuðla að
vexti hagkerfisins með þeim hætti
að það veiti þegnunum sem mest
lífsgæði. Til þess þarf atvinnulíf-
ið að skila sem mestum virðisauka
til þjóðarinnar fyrir vinnuframlag,
fjármagn og auðlindir.
Áhrif til skamms tíma
Til skamms tíma hefur helst verið
horft til áhrifa stóriðjuframkvæmda
á vinnumarkað og aukinnar bygg-
ingarstarfsemi og atvinnusköp-
unar sem henni tengjast. Ekki má
vanmeta þau áhrif en hafa
ber í huga að þau eru að
mestu leyti til skamms
tíma. Áhrif hverrar stór-
framkvæmdar um sig
geta verið nokkur hundr-
uð eða fá þúsund ársverka
um tveggja til þriggja ára
skeið en eins og reynsl-
an sýnir og sjá má í þeim
hagspám sem gera ráð
fyrir stórframkvæmdum
á næstu árum fjara þau áhrif út.
Áhrif stórframkvæmda, sem
fjármagnaðar eru með erlendu fé, á
gjaldeyrismál til skamms tíma eru
óljós. Til mjög skamms tíma litið
gætu þær styrkt stöðu krónunn-
ar en líklegt er að neikvæð áhrif
sem varað geta um tíma komi fljót-
lega í ljós. Fyrst kæmi erlent láns-
fé inn í landið en endurgreiðslur og
vextir næstu ár á eftir yrðu líklega
hærri en tekjur í erlendri mynt. Þá
má benda á að lán innlendra aðila
til orkuframkvæmda verða vænt-
anlega dýr næstu árin. Þannig eru
stóriðjuframkvæmdir ekki líklegar
til að bæta gjaldeyrisstöðu eða auka
fjármálastöðugleika til skamms eða
meðallangs tíma litið.
Skammtímaáhrif orku- og stór-
iðjuframkvæmda á ríkisfjármál eru
ekki mikil. Tímabundið má reikna
með auknum tekjum og minni bóta-
greiðslum sem fjara út að uppbygg-
ingartíma liðnum en þá koma tekj-
ur af þessum þáttum í eðlilegum
rekstri. Vegna afskrifta á fjárfest-
ingum verður t.d. ekki um
teljandi aukningu á skatt-
greiðslum fyrirtækisins að
ræða fyrstu 5 til 8 árin eftir
miklar framkvæmdir eins
og sjá má af reikningum
íslensku álfyrirtækja.
Áhrif til lengri tíma
Til lengri tíma litið þarf
einkum að meta gildi stóriðju
með hliðsjón af varanlegum
efnahagslegum áhrifum og saman-
burði við aðra kosti á nýtingu mann-
afls, fjármagns og náttúruauðlinda.
Almennt er viðurkennt að skynsam-
legt sé að láta frjálsan markað ráða
sem mestu um hvað er framleitt,
hvar og hvernig. Til þess að mark-
aðurinn virki og skili hagkvæmum
lausnum þurfa þó ákveðin skilyrði
að vera uppfyllt, svo sem að verð-
lagning á nýtingu náttúruauðlinda
sé eðlileg og að neikvæð úthrif, t.d.
mengun, séu verðlögð og komi fram
í kostnaði við framleiðsluna. Gagn-
sæi í þessum atriðum er forsenda
skynsamlegra ákvarðana.
Margt bendir til þess að efnahags-
leg áhrif stóriðju til langs tíma séu
mun minni en almennt hefur verið
talið og að það svari vart kostnaði að
leggja mikið undir með fjárhagsleg-
um ívilnunum eða með því að binda
nýtingu orkuauðlinda langt fram í
tímann. Efnahagslegt gildi stóriðju
ræðst mikið til af því hvernig sá
virðisauki sem hún skapar skiptist
á milli innlendra og erlendra aðila.
Eins og nú háttar má reikna með að
um 2/3 hlutar virðisaukans renni til
erlendra aðila en einungis um 1/3 til
innlendra í formi launa og hagnað-
ar innlendra aðila, sem selja iðjuver-
inu vinnu og þjónustu auk skatta af
hagnaði starfseminnar.
Áætla má að störf og afleidd störf
vegna meðalálvers á Íslandi séu ein-
ungis 0,5 til 0,7% heildarmannafl-
ans. Reikna má með að efnahags-
leg áhrif þessa vinnuafls séu varla
meiri en 0,5% af vergri landsfram-
leiðslu (VLF). Ýmsir telja þó mest-
ar líkur á því að langtímaáhrif ein-
stakra framkvæmda á atvinnustigið
séu engin, þ.e. þær ryðji annarri
atvinnu burt og efnahagsleg áhrif
ráðist af því hvort starfsemin hafi
haft í för með sér almenna fram-
leiðniaukningu í landinu.
Annar hluti efnahagslegra áhrifa
eru skattar sem greiddir eru af
hagnaði. Tekjuskattur meðalálvers
á Íslandi eftir að afskriftatíma er
lokið gæti verið 1-1,5 milljarðar á
ári. Það er um eða innan við 0,1%
af vergri þjóðarframleiðslu. Þriðji
þátturinn er hagnaður af orkusölu
til iðjuversins. Um hann er lítið
vitað með vissu en ljóst er að álver-
in hafa fengið býsna góða samninga
um raforkukaup.
Efnahagsleg langtímaáhrif af
meðalálveri gætu skv. framan-
greindu verið á bilinu 0,1 til 1% af
VLF. Er þó ekki tekið tillit til nei-
kvæðra úthrifa. Með það í huga að
stóriðjuverin nota 75-80% af allri
raforku sem framleidd er í landinu
er sú spurningin áleitin hvort þetta
sé þjóðhagslega hagkvæm nýting
orkuauðlindanna.
Niðurstaða
Efnahagsleg áhrif stóriðjufram-
kvæmda til skamms tíma litið rétt-
læta ekki það vægi sem þeim hefur
verið gefið í umræðu um viðbrögð
við kreppunni. Þær hafa takmörkuð
tímabundin áhrif á vinnumarkað en
engin teljandi jákvæð áhrif á gjald-
eyrismál og ríkisfjármál. Stóriðju-
framkvæmdir eru því lítilvirk tæki
til að komast út úr efnahagslægð.
Engin rök eru fyrir að láta skamm-
tímasjónarmið hafa áhrif á ákvarð-
anir um uppbyggingu stóriðju.
Eins og verðlagningu á nýtingu
náttúruauðlinda, mengunarmálum
og skattlagningu erlendrar stór-
iðju er nú háttað er vafasamt að
efnahagsleg rök mæli með frekari
uppbyggingu hennar. Nýting nátt-
úruauðlindanna í þágu þeirra sem
eiga þær kallar á ítarlega skoðun og
breytingar á þessum atriðum áður
en ákvarðanir eru teknar. Nýting
á náttúruauðlindunum er svo stórt
hagsmunamál fyrir þjóðina að ekki
ætti að koma til álita að taka ákvarð-
anir um hana á grundvelli skamm-
tímasjónarmiða, staðbundinna hags-
muna eða óvissra efnahagslegra
forsenda.
Höfundur er hagfræðingur og
aðstoðarmaður fjármálaráðherra.
Er stóriðja leiðin út úr kreppunni?
UMRÆÐAN
Ólafur Teitur Guðnason skrifar um
orkumál
Spurt er hvort stóriðjufyrirtækin vilji leggja sitt af mörkum til að hjálpa
íslensku samfélagi og þjóðarbúskap á mikl-
um erfiðleikatímum. Tilefnið er gagnrýni
á orku-, umhverfis- og auðlindaskatta sem
boðaðir eru í fjárlagafrumvarpi fyrir árið
2010.
Svarið er afdráttarlaust já. Þar með er þó
ekki öll sagan sögð, því brýnt er að gera hér
grein fyrir annars vegar áhrifum boðaðra
skatta á stóriðjufyrirtækin og hins vegar
framlagi þeirra til samfélagsins og þjóðar-
búskaparins.
Ljóst er að hinir nýju skattar (séu þeir
löglegir, sem við skulum láta liggja á milli
hluta) koma til með að kosta Alcan á Íslandi
hf. mörg hundruð milljónir króna á næsta
ári, jafnvel upp undir tvo milljarða. Þetta
kann að hljóma ótrúlega með hliðsjón af
hughreystandi yfirlýsingum um að skatt-
arnir verði almennir og leggist jafnt á alla
notendur. Skýringin rennur væntanlega upp
fyrir lesandanum þegar bent er á að álver-
ið í Straumsvík kaupir um 18% af öllu raf-
magni sem selt er á Íslandi, eða hér um bil
fjórum sinnum meira en öll heimili saman-
lagt. Nefnt hefur verið til sögunnar
„lágt auðlindagjald“ sem geti verið
til dæmis 20-30 aurar á kílówatt-
stund og spurt hvort slíkt gjald
væri fyrirtækjunum óbærilegt.
Svarið er að 30 aurar á kílówatt-
stund myndu þýða litlar 900 millj-
ónir króna fyrir álverið í Straums-
vík, enda notar það 3 þúsund
gígawattstundir á ári. Efast má um
að til sé það fyrirtæki hér á landi
sem þætti 900 milljóna króna við-
bótarskattur bærilegur, hvað þá lágur.
Ofan á þetta bætist kolefnisgjaldið sem
boðað er. Ekki liggur fyrir hve miklum
heildartekjum það á að skila í ríkissjóð á
næsta ári en með hliðsjón af rafskauta-
notkun álversins, sem er umtalsverð, má
ætla að það muni kosta fyrirtækið nokk-
ur hundruð milljónir króna á ári til viðbót-
ar við rafmagnsskattinn. Verði alvara gerð
úr hugmyndinni um 14 evrur á hvert tonn
koldíoxíðs, sem nefnd er í greinargerð með
fjárlagafrumvarpinu sem dæmi um mögu-
lega álagningu, þarf Alcan á Íslandi hf. að
greiða yfir 700 milljónir króna á ári.
Slík eru hin lágu, hóflegu og almennu
gjöld sem fyrirtækin hafa leyft sér að gagn-
rýna, og uppskorið fyrir það aðdróttanir
um að þau vilji jafnvel ekki leggja neitt af
mörkum. Víkur þá sögunni að því hvað þau
leggja af mörkum nú þegar.
Nefnum fyrst tekjuskattinn. Alcan
á Íslandi hefur á undanförnum tíu
árum greitt 13 milljarða króna á
núvirði í tekjuskatt, eða að meðaltali
1,3 milljarða á ári (hluta þessa tíma-
bils greiddi fyrirtækið 33% skatt
skv. upphaflegum fjárfestingar-
samningi). Árið 2007 nam tekjuskatt-
ur þessa eina fyrirtækis 1,3 millj-
örðum króna eða um 3% af öllum
tekjusköttum ríkisins af fyrirtækj-
um. Öll fyrirtæki í hótel- og veitingahúsa-
rekstri, hugbúnaðargerð og tengdri ráðgjöf
og lögfræðiþjónustu greiddu lægri tekju-
skatt samanlagt en Alcan á Íslandi þetta ár.
Tekjuskattur fyrirtækisins samsvaraði yfir
fjórðungi af samanlögðum tekjuskatti allra
verslunarfyrirtækja landsins. Það skýtur
skökku við að þurfa að biðjast afsökunar á
þessu. Greiða mörg fyrirtæki hærri skatt?
Álverið í Straumsvík kaupir einnig vörur
og þjónustu af yfir 800 íslenskum aðilum
fyrir yfir 5 milljarða króna á ári. Fyrirtæk-
ið hefur veitt yfir 450 starfsmönnum vel
launaða vinnu í yfir 40 ár samfleytt. Virkj-
unarmannvirkin sem upphaflega voru reist
í Búrfelli til að knýja álverið eru núna full-
afskrifuð og skila eiganda sínum milljarða-
tekjum á ári með sáralitlum tilkostnaði.
Þrátt fyrir að hart hafi verið á dalnum í
áliðnaðinum að undanförnu – og mörg álver
víða um heim hafi ýmist dregið úr starfsemi
eða jafnvel hætt starfsemi – samþykkti fjár-
festingarnefnd Rio Tinto miðvikudaginn 30.
september fjárveitingu til framkvæmda í
Straumsvík sem miða að því að auka fram-
leiðslugetu álversins. Vinnan getur hafist
strax. Gert er ráð fyrir að verkefnið í heild
kalli á um 600 ársverk, sem sparar um einn
milljarð í atvinnuleysisbætur, og það felur í
sér um það bil 13 milljarða innlendan kostn-
að, sem að stórum hluta mun skila sér í vasa
hins opinbera. Kannski er mest um vert að
það treystir rekstur álversins til framtíð-
ar – þar á meðal þær miklu tekjur sem ríkið
hefur af þessari starfsemi bæði beint og
óbeint.
Daginn eftir að fjárfestingarnefndin
veitti þessa heimild var fjárlagafrumvarp-
ið lagt fram með tillögum um skatta sem
vandséð er að muni kosta fyrirtækið undir
eitt þúsund milljónum króna á næsta ári.
Alcan á Íslandi vill svo sannarlega halda
áfram að leggja stóran skerf af mörkum til
íslensks samfélags. Við óttumst hins vegar
að við fáum ekki tækifæri til þess ef vegið
verður með svo alvarlegum hætti að rekstr-
argrundvelli fyrirtækisins.
Höfundur framkvæmdastjóri
samskiptasviðs Alcan á Íslandi hf.
Hver leggur meira af mörkum?
UMRÆÐAN
Magnús Jónsson skrif-
ar um orkumál
Talsverð umræða hefur orðið um þau áform
ríkisstjórnarinnar sem
fram koma í fjárlagafrum-
varpi 2010 að taka hér á
landi upp orku- og auð-
lindaskatta. Hafa marg-
ir orðið til að bregðast ókvæða
við þessum tillögum og sagt þær
atlögu að atvinnulífi landsins.
Þessi viðbrögð eru sérkennileg í
ljósi umræðu og aðgerða á sviði
orku- og skattamála um allan hinn
iðnvædda heim. Eins og oft áður
virðist umræða hér á landi beinast
í sértæka hagsmunagæslu og skot-
grafahernað en ekki málefnalega
umræðu um þessa tegund skatta.
Reynsla Svía
Árið 1991 tóku Svíar upp sk. kol-
efnisskatt á jarðefnaeldsneyti. Þar
er þessi skattur nú um 150$ á hvert
losað tonn kolefnis sem jafngildir
um 7500 kr. á hvert tonn koltví-sýr-
ings. Þetta þýðir m.a. að rúmlega 40
kr. kolefnisskattur er lagður á hvern
lítra bensíns þar í landi. Varðandi
fyrirtækin fóru Svíar þá leið að
hafa skattinn helmingi lægri
á hvert losað tonn CO2. Svo
góð reynsla er af þessu fyr-
irkomulagi, að nú er Svíþjóð
talið forystu- og fyrirmynd-
arland heimsins í umhverfis
málum. Er þar einkum vísað
til þess að síðan 1990 hefur
losun gróður húsa loftteg-
unda minnkað um 9% á
sama tíma og raunhagvöxt-
ur hefur verið um 44%. Full-
yrða Svíar að útblástur á CO2 væri
a.m.k. 20% meiri í landinu ef þessi
skatt lagning hefði ekki komið til.
Ekki er að sjá að atvinnulífið hafi
beðið skaða af þessari skattlagn-
ingu þar sem Svíþjóð er í hópi sam-
keppnishæfustu landa heims.
Innan ESB hefur verið mótuð sú
meginstefna að innleiða viðskipta-
kerfi með losunarheimildir á gróð-
urhúsalofttegundir, sk. ETS-kerfi.
Í því kerfi er nú öll raforkufram-
leiðsla með jarðefnaeldsneyti og
á næstu árum munu væntanlega
stærstu losunaraðilar gróðurhúsa-
lofttegunda innan ESB bætast við
það. Allmörg lönd innan ESB hafa
tekið upp skatta á kolefnisútblást-
ur og eru þar helst Þýskaland, Hol-
land og Danmörk auk Svíþjóðar og
Finnlands sem áður voru nefnd. Sl.
sumar vakti það sérstaka athygli að
Frakkland ákvað að taka upp kol-
efnisskatta strax um næstu áramót.
Ekki er gert ráð fyrir aukinni skatt-
heimtu þar í landi heldur á að lækka
aðra skatta á móti. Nú í byrjun okt-
óber lagði fjármálaráðherra Svía,
sem fara með forystu í ESB á þessu
misseri, til að innleiddir yrðu kol-
efnisskattar í öllu ESB. Hefur því
verið vel tekið af hálfu skattyfir-
valda sambandsins.
Og Bandaríkin eru líka komin
af stað í þessa átt. Í Kaliforníu og
Colorado er þegar ákveðið að fara
þessa leið og sama má segja um
ýmis fylki Kanada. Allt bendir til
þess að eitt olíu frekasta ríki heims,
Ástralía, fari inn á braut skattlagn-
ingar á losun CO2. Hvort farin er
leið skattlagningar eða viðskipta-
kerfa eða hvort tveggja skiptir ekki
öllu máli enda fari úthlutun þeirra
takmörkuðu gæða sem til staðar eru
fram á markaðslegum forsendum.
Verð á raforku og eldsneyti
Í ljósi umræðunnar um hugsanlega
skatta á raforku hér er fróðlegt að
skoða raforkuverð í helstu sam-
keppnisríkjum okkar. Meðalverð til
almennra notenda í 27 ríkjum ESB
er nálægt 30 kr./kWh eða frá um
15 kr./kWh í Búlgaríu í um 50 kr./
kWh í Danmörku. Hér á landi eru
sambærilegar tölur um 10 kr./kWh.
Þannig er raforkuverð hér um þriðj-
ungur þess sem það er að jafnaði í
ESB. Enn meiri munur er þegar um
raforku til almennra fyrirtækja er
að ræða.
Í umræðu hér er einnig talað um
ofurskatta á eldsneyti í samgöng-
um. Þegar verð á bensíni er skoðað
í löndum ESB kemur annað í ljós.
Meðalverð er þar um 1.20€ eða um
220 kr/lítra. Er Eistland eina ríkið
innan ESB sem er með lægra bens-
ínverð (um 175 kr/l) en Ísland. Hæst
er það í Hollandi og Noregi um 260
kr/lítra.
Ný skattastefna
Í þeim löndum sem hafa innleitt kol-
efnisskatta hefur markmiðið ekki
verið að auka skatttekjur. Ekkert
samband er því milli þess hvort inn-
leiða á umhverfis- og orkuskatta og
þess hvort auka þarf tekjur ríkis-
ins, eins og þarf væntanlega að gera
tímabundið hér á landi. Loftslags-
breytingar, umhverfispjöll og vax-
andi ofnýting á auðlindum jarðar
er hins vegar svo stórt vandamál
að við því verður að bregðast. Fjöl-
margir heimsþekktir hagfræðing-
ar hafa því hvatt til þess að skatt-
leggja losun kolefnis, mengun og
notkun takmarkaðra auðlinda en
lækka skatta á vinnu. Slíkt myndi
ekki bara hvetja til sjálfbærni held-
ur einnig auka hagræðingu í rekstri
fyrirtækja. Þá bæta slíkir skattar
skil í skattheimtu þar sem þeir eru
einfaldari í álagningu og innheimtu
en margt annað í skattkerfinu.
Íslendingar eru nú þegar mestu
orkuhákar heims og nota um
þrisvar sinnum meiri orku á mann
en t.d. Bandaríkjamenn. Þótt um
80% af þessari orku sé umhverf-
isvæn og fari til stóriðju er það
umhugsunarefni hvort við ætlum að
byggja hagkerfi okkar á enn frek-
ari orkuvinnslu og málmbræðslu.
Það getur varla verið keppikefli
okkar að verða helsta lágverðsríki
og skattaparadís heimsins á orku
sem alls staðar er vaxandi skort-
ur á. Nærtækara er að nýta kol-
efnislausa orku okkar í að fram-
leiða eldsneyti í stað þess sem nú
er flutt inn og verða þannig fyrsta
ríki heims til að verða bæði sjálf-
bært, mengunarlaust, kolefnisjafn-
að og óháð öðrum um alla orku sem
við þurfum. Slík umhverfisleg for-
ysta gæti stórbætt orðspor landsins
á alþjóðavettvangi og skapað meiri
efnahagslegan ávinning fyrir þjóð-
ina en að fjölga enn frekar áleggj-
um í lífskjarakörfu okkar.
Höfundur er veðurfræðingur.
Orku- og umhverfisskattar
MAGNÚS
JÓNSSON
INDRIÐI H.
ÞORLÁKSSON
ÓLAFUR TEITUR
GUÐNASON