Vikan


Vikan - 29.06.1939, Blaðsíða 11

Vikan - 29.06.1939, Blaðsíða 11
Nr. 26, 1939 VIKAN 11 I LITLANESI. Framh. af bls. 5. mæðiveikina. Segir hann, að hún fari um allt og allar girðingar séu ónýtar, enda sé sama, hvort féð fari í pestina eða í kostn- að við haldlausar girðingar. Það virðist liggja í landi í Litlanesi, að þar búi skáld. Nokkru áður en Júlíus kom þangað bjó þar Brynjólfur Björnsson, maður prýðilega greindur og hagmæltur vel, en ekki búmaður að sama skapi. Brynjólfur virðist hafa búið á mörgum jörðum í Múlasveit, svo sem Skálmardal, Múla, Litlanesi og ef til vill víðar. Ég kynntist Brynjólfi lítið eitt, síðustu árin, sem hann lifði. Hann var minnugur og fróður, og sagði vel frá. Kunni líka frá mörgu að segja, því víða um landið hafði hann farið: Upp ég runninn vestra var, við sárþunnan forðan. Er nú kunnur allsstaðar, austan, sunnan, norðan, sagði hann einhverntíma. Því veitti ég sérstaka athygli, hversu léttlyndur og gamansamur Brynjólfur gat verið, þrátt fyrir háan aldur og að ýmsu leyti misheppnaða æfi, því svo virtist, sem hann hefði ekki verið á réttri hillu í líf- inu. Gaman hafði hann af því, meðan heils- an entist, að lyfta sér upp og finna kunn- ingjana, og allsstaðar var hann auðfúsu gestur, því þar var ekki þagað, sem Bryn- jólfur var, og lífsleiði og ógleði viku frá þá stundina. — Og kannske fylgir sú góða náttúra Litlanesi, að allir, sem þar búa, verði léttlyndir og taki með jafnaðargeði því, sem að höndum ber, og bætir það þá fyrir mörg gæði, sem á kann að skorta þar í nesinu. Ef til vill verður búið í Litlanesi nokkra áratugi enn þá. Ef til vill um aldur og æfi. Enginn veit, hver koppa- köst mannlífið kann að taka á næstu ár- um. En leggist Litlanes í eyði, verður Kirkjubóli hætt, þó betri jörð sé. — Þannig eyðist byggðin í sveitunum, þær blása upp. Afskekktu smájarðirnar falla fyrst úr ábúð, síðan jarðirnar, sem næstar eru, því það kemur þá í þeirra hlut, að vera á jaðri og útundan. Þetta er einn þátturinn í landbúnaðar- sögu íslendinga á 20. öldinni. Gerir ekkert til, segja spámenn vorra tíma. Fólkið fær- ir sig bara saman, flytur í góðsveitirnar, þar sem lífsþægindin eru meiri — vegir, brýr, bí'íar. — En skyldi ekki reynslan stangast óþægilega við slíka kenningu? Fólkið í dreifbýlinu á ótvírætt sinn rétt og sínar kröfur á þjóðfélagið um hags- bætur allar. En af mikilli skammsýni hef- ir málum þess ekki verið sinnt svo sem skyldi. Að bæta þess kjör, býður þeirra manna, sem takmarka ekki hugsun sína við einstakar sveitir eða bletti á landinu, heldur landið allt, og sjá hólmann allan. RUBEN NILSON: Til kökusalans á horninu. Þú bíður við gluggann, er brunar í straumum hjá búð þinni fólkið, er haustglætan deyr, og veltir í huga þér hálfgleymdum draumum um hetjur úr steini og konur úr leir. Þig dreymdi, að það biði þín auður og æra, í æsku, á listanna hnjótótta teig. En svo varstu í kökugerð sendur að læra, og sykur varð marmarinn, leirinn varð deig. En tíminn gat kælt, svo að kveldi ekki sárið, og kökubúð þín varð hin frægasta um síð. Þú lagðir á banka, fékkst hærur í hárið, — og hnoðaðir styttur, úr sykrungi, í gríð. Nú bakar þú tertur til afmælisyndis, með allskonar flúri, sem veitir þér hrós, og málar af hrifningu listamannslyndis úr leka af vínhlaupi fegurstu rós. Og eins þér við brúðkaup tekst gleðina að glæða. Af gotneskum anda þín skrautkaka rís, þeim meistaradraumi, er sig hefur til hæða, í hveiti og sykrungi, rjóma og ís. Víst dreymir ei frúrnar, hve drjúgum þær bryðja af dómkirkjusúlum frá Reims þessi kveld. Og heildsalar mjóturnum Miklagarðs ryðja í munn sér og tyggja, — unz höll þín er felld. Þú matar þinn krók, og í makindahögum að myndlist sem bakstri þú glottir í ró, er virtur og dáður af mannsbarna mögum, sem munar í sætleikans stundlegu fró. En þegar á Borginni þjórarðu á kvöldin og þreyttur í skinnsófann hallarðu þér, fær máski einhver þykkja og þunglyndi völdin, og þyrnir í sálinni rífur og sker. En áfengið hugsvalar hjartanu auma, og heim snýrðu reikandi, er þolirðu ei meir, og aftur þú heillast til hálfgleymdra drauma um hetjur úr steini og konur úr leir. Magnús Ásgeirsson þýddi.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.