Vikan


Vikan - 09.05.1946, Page 7

Vikan - 09.05.1946, Page 7
VIKAN, nr. 19, 1946 7 Sér grefur gröf, þótt grafi. Smásaga eftir Gísla J. Ástþórsson. Reykjavík, 24. júní 1943. Etr. skurðgreftrarstjóri: Eins og yður mun enn í fersku minni, fóluð þér mér þann 13. þ. m. að grafa skurð milli húsanna nr. 7 og 10 við Stanga- mel. Þar sem verk þetta hefir til þessa verið ýmsum erfiðleikum bundið, og kostað mig margskonar óþægindi og leiðindi, og mér algerlega ókleift að ná tali af yður á skrifstofu yðar, leyfi ég mér, að skrifa yður bréf þetta, í þeirri von, að þér gangið þannig frá þessu, að mér verði mögulegt að ljúka skurðgreftinum, án þeirra marg- víslegu aðkasta og jafnvel líkamlegra árása, sem ég hefi orðið fyrir að undan- förnu. Mun ég því í eftirfarandi orðum leitast við að lýsa því helzta, sem á daga mína hefir drifið í sambandi við þetta óhappaverk, og byrja þá á upphafinu. Daginn eftir að þér höfðuð falið mér verkið, tók ég haka minn og skóflu og var kominn á vinnustað klukkan tæplega sjö um morguninn. Ég mældi vegalengdina milli húsanna — en þau eru, eins og yður mun kunnugt, sitt hvoru megin við um- ræddan Stangamel •— og reyndist hún 12.37 m. Merkti ég síðan fyrir skurðinum — beina línu milli húsanna nr. 7 og 10 — og byrjaði að grafa við nr. 7. Ekki var ég fyr byrjaður á vinnu minni en lætin hófust. Yður mun ekki ókunnugt um, að beint framan við húsið nr. 7 við Stangamel stend- ur hár stafli af steyptum hellum, sem mun eiga að nota í væntanlegar gangstéttir þarna, þegar byrjað verður að ganga endanlega frá götunni. Þar sem hellurnar lágu á leið þeirri, sem skurðurinn átti að vera, tók ég til að flytja þær og hugðist koma þeim fyrir undir húsvegg hinum megin við götuna. Hér byrjuðu erfiðleik- arnir. Ég hafði flutt um helming hellnanna, þegar kemur til mín maður á brúnum nankinsjakka og spyr hvern andskotann ég haldi ég sé að gera. Ég segi eins og er, að hér eigi að grafa skurð og hellurnar séu í veginum. Hann segist ekkert vita um það, en honum hafi verið falið að hafa umsjá með hellunum og enginn fari að flytja þær til, sem hann sé lifandi maður. „Þú lætur þær vera,“ segir hann. „O, þú skalt nú tala við skurðgreftrar- stjóra um það,“ segi ég. „Held ég fari nú ekki að arka lengst austur í bæ,“ segir hann. „Hvað meinarðu maður?“ segi ég. „Hann hefir skrifstofur í vesturbænum." „Jæja, held ég fari þá ekki að arka lengst vestur í bæ,“ segir hann. Nú, við stöndum þarna og þjörkum um þetta í góðan klukkutíma og hann gefur sig ekki. Svo ég sé að engu tauti verður við hann komið og læt undan („Sá vægir, sem vitið hefir meira“). Var þetta þó stór- bagalegt fyrir mig, því ég þurfti að grafa í kringum hellurnar, og varð ég að þessu allt til kvölds. Næsta dag byrja ég svo vinnu mína klukkan sjö, og gengur nú allt vel til há- degis. En skömmu eftir þrjú, þegar ég er kominn góðan meter út í götuna, byrja lætin á nýjan leik. Kemur þarna bíll ak- andi með kol og eiga þau að fara í Stranga- mel 9. Þeir, sem á bílnum eru, sjá auðvitað strax, að þeir muni ekki geta ekið upp að húsinu, því skurðurinn er fyrir. Bílstjór- inn stöðvar þess vegna bílinn, stígur út og gengur að mér, þar sem ég stend í skurð- inum. „Hvað meinarðu með því, að grafa hér út í miðja götu, mannmeri,“ segir hann, „svo ómögulegt er að komast ferða sinna?“ „Mér þætti nú gaman að sjá, hvað væri uppistandandi af henni Reykjavík," segi ég, „ef einhver ósköp af skurðum hefðu ekki verið grafnir hérna.“ „Grófu þeir í Austurstræti ?“ segir hann. „Já,“ segi ég. „Grófu þeir í Bankastræti?" „Já“. „Grófu þeir í Öldugötu?“ „Já“. „Nú hvers vegna í skrattanum tudd- astu ekki til að hjálpa þeim til að moka ofan í aftur?“ segir hann. Jæja, við stöndum þarna og rífumst í einar tvær klukkustundir, og ég sé að þeir eru staðráðnir í að gefa sig ekki, svo ég segi, að ég geti þá kippt þessum poka- ræflum inn fyrir þá. Geri ég það síðan, og tók það mig tæpan klukkutíma, svo lítið varð úr meiri vinnu þann daginn. Daginn eftir gekk þó allt sæmilega. Þó tafði það mig nokkuð, að strákar einhverj- ir höfðu mokað moldinni ofan í part af skurðinum, en mér miðaði bærilega um daginn og var kominn út í götuna miðja, þegar ég hætti vinnu klukkan sex um kvöldið. En ekki stóð friðurinn lengi. Ég var varla fyr kominn til vinnu minnar daginn eftir, en frúin í húsinu nr. 17 við götuna ræðst á mig með þvílíkum ódæmis skömm- um, að ég hefi sjaldan heyrt annað eins um ævina. Hún segist vera á heimleið kvöldið áður, þegar hún viti ekki fyrri til en hún styngist á höfuðið ofan í skurðinn. „Hvað meinarðu með því, marinskratti,“ segir hún, „að hafa ekki ljós við þessa skotgröf þína?“ „Það eru nú engin lagafyrirmæli til um þess háttar efni,“ segi ég. „Sérðu þetta grjót?“ segir hún. „Já“, segi ég. „Ég held á því í hendinni." „Jú“. „Og nú halla ég hendinni.“ >»Já“. „Og það eru engin lagafyrirmæli til, sem segja að ég megi ekki halla hendinni, svo grjótið að tarna falli á tæmar á þér — svona!“ Jæja, ég vil auðvitað ekki eiga í orða- sennu þama úti á miðri götu, og það því fremur, að allir gluggar eru orðnir troð- fullir af fólki, og mig dauðverkjar í tærn- ar og frúin byrjuð að kasta í mig moldar- hnausum í þokkabót. Svo ég fer heim og kem ekki til vinnu fyr en eftir hádegi, og gengur allt þolanlega til sex. Og svo kemur laugardagurinn, lokadag- urinn hvað mér viðvíkur, og meginorsök þess, að ég hefi ekki séð mér aðra vegi færa en rita yður, hr. skurðgreftrarstjóri, bréf þetta. Að venju hóf ég vinnu klukkan sjö. Var töluverður hugur í mér, þar sem ég þóttist nú vera farinn að sjá fyrir endann á þessu leiða verki. Vann ég af kappi allan morg- uninn, eða allt til klukkan 11, og náði þá skurðurinn næstum yfir götuna, nánar til- tekið að bifreið, sem stóð fyrir utan húsið nr. 10. Þegar ég kem að bílnum, bíð ég í nokkrar mínútur, en nenni svo ekki þessu hangsi, opna bílhurðina og þrýsti á bíl- flautuna. Þegar tæpt kortér er liðið — og ég hefi þeytt flautuna látlaust allan tím- ann — kemur borðalagður maður hlaup- andi, víkur sér að mér og grípur heljar- tökum um hálsinn á mér. „Vott ðe devil dú jú mín?“ segir hann. „Jú not íslandik?“ segi ég. „Nó“, segir hann. „Vell . . .“ byrja ég, en kemst ekki lengra, því áður en ég hefi hugmynd um, hefir sá einkennisbúni rétt mér kjafts- högg, og ég ligg endilangur í skurðinum. Og þannig standa málin núna. Ég er útslitinn og sárþreyttur maður, og ef þér, hr. skurðgreftrarstjóri, getið ekki séð svo um, að vinnufriður fáist mér til handa á Strangamel, hlýt ég að fara þess á leit við yður, að þér leysið mig frá þessu verki. Yðar einlægur, Mársveigur Magnússon. SKRIFSTOFA SKURÐGREFTRARSTJÓRA. Reykjavík, 27. júní, 1943. Hr. Mársveigur Magnússon: Ég hefi móttekið bréf yðar, dagsett 24. júní, og er það mér óblandin ánægja, að leysa yður frá starfi yðar. Ástæðunnar er ekki að leita í hinum leiðu atvikum, sem hent hafa yður undanfarna daga, heldur hinu, að samkvæmt skýrslum mínum kem- ur í ljós, að skurður sá, sem yður var falið að grafa, átti ekki að vera milli húsanna nr. 7 og 10 við Strangamel, heldur milli sömu götunúmera við Rangamel, hér í bæ. Virðingarfyllst, Skurðgreftrarstjóri.

x

Vikan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.