Heima er bezt - 01.03.1957, Side 13
Söfnin í Chicago.
Engum, sem um Ameríku ferðast, blandast hugur
um, hversu framarlega Bandaríkjamenn standa í öllu,
sem við kemur tækni og verkmenningu á hvaða sviði
sem er. Fer þar saman hugkvæmni, þekking og fjár-
magn til framkvæmda. Menningarstofnanir þeirra njóta
•ekki síður en aðrar stofnanir þjóðfélagsins góðs af tækn-
inni, en ef til vill kemur slíkt hvergi betur fram á því
sviði en í söfnunum. Af öllum mannaverkum, er ég
sá þar vestra, vakti fátt jafnmikla aðdáun mína og
söfnin; var það ekki einungis vegna stærðar þeirra og
fjölbreytni, og alls hins nýja, sem þar bar fyrir augun,
heldur miklu fremur kunnátta sú og tækni, sem stendur
að baki öllu þeirra fyrirkomulagi. Og þó einkum hversu
auðskoðuð þau eru, og hve ljóst hlutimir eru settir fram
fyrir áhorfandann. En vel má hafa það hugfast, að slík
söfn verða ekki reist, nema þar sem ekkert þarf að
spara.
Frá æskuárum mínum hefur mér verið tamt að hugsa
mér söfn, ekki sízt náttúrugripasöfn, sem heldur skugg-
sýna sali, sem ofhlaðnir eru rykföllnum og ef til vill
hálfmölétnum múmíum af dýrum, eða þá upplituðum
eintökum í vínandafylltum glösum. Þótt söfn þau séu
fróðleg að vísu, og nauðsynleg undir mörgum kring-
umstæðum, þá eru þau samt svo fjarri hinni lifandi
náttúru, sem nokkuð getur verið. Oft getur verið erfitt
að átta sig þar, sakir þrengslanna og þess, að oft er sem
sameiginlegt sjónarmið vanti, sem söfnin eru gerð eftir.
Þegar til minjasafnanna kemur, er margt svipað að segja.
En þar finnur maður ekld eins til þess, þótt safnið sé
dálítið fjarlægt lífinu sjálfu. Af þessum sökum hefur
mér ætíð verið dálítið um og ó að eyða miklum tíma
til að skoða söfn. En amerísk náttúrugripa- og þjóð-
fræðasöfn gjörbreyttu þessari skoðun minni á söfnum
almennt, og fékk ég raunar alls ekki skoðað þau eins
og mig lysti. Söfn þessi eru umfram allt Ijós og að-
gengileg. Salakynni þeirra eru björt og háreist, og svo
er þar mikið húsrými víðast hvar, að maður jafnvel
getur fundið til tómleika, og er þó sannarlega margt
að sjá. Dýrum og plöntum er svo fyrir komið, að þau
minna á hina lifandi náttúru. Sýnisviðin eru landslags-
myndir, líkön og málverk með dýrum og gróðri, svo
að sköpuð er mynd af hinu rétta umhverfi. í þjóðfræða-
söfnunum eru sett upp líkön af fólkinu, þar sem það
gengur að störfum sínum, og víða eru gerðar hóp-
myndir af atburðum úr sögu þjóðanna. í iðnfræði-
söfnunum sjást vélarnar sjálfar að verki, ýmist í fullri
stærð, eða smækkuð líkön þeirra. Og alls staðar eru
líkön og myndir til frekari skýringar gripunum sjálf-
um, þar sem þess er þörf. í Cranbrook safninu, sem fyrr
er getið, minnist ég t. d. líkana, sem skýrðu myndun
og þróunarsögu jarðar, og annarrar, er sýndi fóstur-
þróun mannsins frá eggi til fullvaxins einstaklings. í
stuttu máli má segja, að grundvallarregla sú, sem söfnin
eru byggð eftir, sé þróunarkenningin. Öllum hlutum
er raðað eftir þróun þeirra frá hinu frumstæða og ein-
faldasta til hins fullkomnasta. Er þar notuð sama regla
í náttúruvísindum og söguminjasöfnum. Að öðru leyti
Náttúrugripasafnið (Natural History Museum) í Chicago.
rná segja, að náttúrugripasöfnin keppi að því að sýna
dýr og plöntur sem líffræðilegar heildir. Öll smærri
söfn leggja áherzlu á að sýna náttúru umhverfis síns,
jarðfræði, dýralíf og gróður. Þannig gat að sjá í Cran-
brook safninu ágætar sýningar af helztu gróðurlend-
um Michiganríkis ásamt því dýralífi, er þau hýsa hvert
um sig. Þar var strandlengja, sandhólar, engjalönd, gras-
sléttur og skógar. Allt mjög vel gert, en þó ekki jafn-
vel og ég sá síðar í Chicago. En samsvarandi sýnisvið
voru í öllum söfnum, er ég skoðaði. Steina- og bergteg-
undasafnið í Cranbrook var einkarfagurt á að líta, og
þar var myrkraberbergi fyrir þá steina, sem sjálflýs-
andi eru. Mátti segja um Cranbrook safnið í heild, að
það var mjög ljóslifandi og lærdómsríkt; er því sýnilega
skipað niður með þarfir skóla fyrir augum, enda mikið
notað af þeim.
Mikilfenglegust safna þeirra, er ég sá, þóttu mér
söfnin í Chicago. Alunu þau og vera ein hin fullkomn-
ustu sinnar tegundar í Bandaríkjunum, þótt ef til vill
enn meiri fjölbreytni sé í Smithsoniansöfnunum.
í Yale var mér bent á það, að ég skyldi ekki láta
undir höfuð leggjast, að skoða grasasafnið í Chicago,
því að þar væru gerðir undraverðir hlutir um geymslu
plantna. Ég bað því leiðbeinanda minn þar að greiða
götu mína þangað. Var það auðsótt. Vísaði hann mér
á einn helzta ráðamann þeirrar deildar, mr. Sella. En
annars vildi svo til, að sú deild var lokuð gestum um
þessar mundir.
Ég hélt rakleitt til náttúrugripasafnsins, Natural
History Museum. Stendur það í fögrum skemmtigarði,
sem liggur milli höfuðstrætis borgarinnar Michigan
avenue og Michiganvatnsins sjálfs, sem er eins og haf-
sjór yfir að líta. Safnhúsið er bæði að utan og innan
ein hin fegursta bygging, er ég sá þar vestra, og þótt
víðar væri leitað. Er það í grískum musterisstíl, hvítt
að lit. Ég náði brátt tali af mr. Sella. Hann er hæg-
látur maður, ljúfur í viðmóti, en nokkuð við aldur. Ég
bar upp erindi mitt, að fá að sjá, hvernig þeir gengju
frá plöntum í safninu, og var það auðsótt mál. Bauð
hann mér því næst að fylgja sér um salakynni safnsins.
Heima er bezt 97