Heima er bezt - 01.09.1957, Side 5
•of sjaldgæft á skólaöld vorri. Allt of margir unglingar
sækja nám meira með það fyrir augum, að hljóta af því
fjárhagslegan ávinning en af menntaþorsta einum saman.
Þótt pyngjan væri létt, réðst Magnús samt í skólanám
og vann fyrir sér á sumrum utan heimilis, til að afla
nokkurs fjár til skólagöngu. Gekk hann í Gagnfræða-
skólann á Akureyri í tvo vetur, 1908—10, en þá voru
fararefni þrotin, og hugðist hann Iesa þriðja veturinn
heima og taka gagnfræðapróf utanskóla. En hafísar og
samgönguerfiðleikar, sem af þeim leiddu vorið 1911,
tálmuðu ferð hans norður í tæka tíð, svo að það fórst
fyrir. Ekki varð þannig meira úr skólagöngu Magnúsar,
en skóladvalarinnar minnist hann af hlýju og telur hana
hafa orðið sér að góðu gagni. En þótt skóladvölin væri
stutt, hefur Magnús ekki lagt árar í bát um að auka á
þekkingu sína. Hann hefur lesið allt, sem kostur hefur
verið á, góðra bóka og komið sér upp myndarlegu og
vel völdu bókasafni, einkum þó um sögu íslands, þjóð-
fræði og mannfræði, en þar hefur hugur hans löngum
dvalið við. En fara má nærri um það, að margar fómir
hefur það kostað efnalítinn bónda, að koma fótum undir
gott bókasafn, en það sýnir gjörla, að Magnús hefur
verið trúr hugsjón og menntaþrá bernskuára sinna.
Arið 1917 kvæntist Magnús Jóhönnu Albertsdóttur
frá Neðstabæ í Norðurárdal. Hófu þau búskap sama
ár á Syðra-Hóli, fyrst á hálflendunni, en síðar á jörð-
inni allri, sem þau eignuðust smám saman. Hafa þau
hjón bætt jörð sína í hvívetna, hýst hana að nýju og
ræktað myndarlegt tún. Bú hefur Magnús aldrei haft
stórt en ómegð allmikla, því að sex börn eignuðust þau
hjón, og komust fimm þeirra til fullorðinsára.
Eins og títt er í sveitum landsins þegar um starfhæfa
menn er að ræða, hafa mörg opinber störf hlaðizt á
Magnús. En hann maður félagslyndur og ætíð kunnað
að leggja góð ráð, hvort sem um var að ræða sveitarmál
eða innan einstakra félagasamtaka. iMun hann hafa verið
kvaddur til flestra þeirra félagsmálastarfa, sem til fallast
innan sveitarfélaga, og gegnt þeim flestum lengi og við
góðan orðstír. Þannig hefur hann verið hreppsnefndar-
oddviti, hreppstjóri, sýslunefndarmaður, endurskoðandi
kaupfélagsreikninga, formaður búnaðarfélags um lang-
an aldur o. fl. Sýnir upptalning þessi, hvert traust sveit-
ungar hans hafa til hans borið, því að lítt hefur hann
sótzt eftir vegtyllum þessum. Á æskuárum sínum var
hann einn af forvígismönnum ungmennafélagshreyfing-
arinnar í sveit sinni, og hefur hann stutt þann félagsskap
með ráðum og dáð, þótt aldur færðist yfir. Það mun öll-
um Ijóst, að öll slík félagsmálastörf eru furðu tímafrek,
og virðist því svo, sem einyrltjabóndi hefði ekki mikið
tóm til annarra aukastarfa frá búskapnum. En Magnús
á Syðra-Hóli hefur haft fleiri járn í eldi án þess að
brynnu. Og þótt ég efist ekki um, að sveitungar hans
muni lengi minnast hans og starfa hans í þágu byggðar
sinnar, þá munu þó önnur tómstundastörf hans lengur
geymast og fleirum verða kunn.
Þegar á unga aldri tók Magnús að leggja við hlustir,
ef rætt var um mannfræði og ættir. Tók hann brátt, er
honum óx fiskur um hrygg, að safna þeim fróðleik, er
hann náði til um slík efni, of afrita handrit, er honum
bárust í hendur. Eins og geta má nærri, voru það eink-
um ættir og héraðssaga Húnvetninga, sem hann fékkst
við, enda það eitt ærið verkefni, þótt ekki væri lengra
seilzt. Hefur hann haldið þessu starfi áfram alla ævi og
unnizt furðumikið, þegar þess er gætt, að fjærri var
hann söfnum öllum og átti þess ekki kost að komast til
Reykjavíkur og kynna sér heimildir í söfnum, fyrr en
hann var nær fimmtugur að aldri. Hefur hann brugðið
sér þangað nokkrum sinnum síðan, og hefur þá ekki
verið slegið slöku við um fræðastörfin. Árið 1938 var
hann með öðrum forgöngumaður þess, að stofna Sögu-
félagið Húnvetning, og hefur lagt drjúgan slterf til rita
þess síðan. Sýndu Húnvetningar í Reykjavík það dreng-
skaparbragð af sér að bjóða Magnúsi til dvalar þar syðra
í mánaðartíma, er hann fór þangað fyrsta sinn. Nokkum
fræðimannastyrk hefur Magnús hlotið hin síðari árin,
og er það að maklegleikum.
Ekld er mér kunnugt, hversu mikið það muni vera,
sem Magnús á í handriti, en nokkrar heimildir hef ég
fyrir því, að drjúgt sé það að vöxtum, og ef dæmt skal
eftir því, sem birzt hefur, þá ekki síðra að gæðum. Það,
sem út hefur komið eftir iMagnús, er ekki ýkja mikið
að fyrirferð. I öllum þeim heftum, sem Húnvetningafé-
lagið hefur gefið út, á hann nokkum skerf, og nú fyrir
skemmstu kom út bókin Mannaferðir og fornar slóðir.
En rit þau, sem frá hans hendi hafa komið, era öll með
því handbragði, sem endast mun honum til varanlegs
orðstírs, meðan þeir eru nokkrir, sem íslenzkum fræð-
um unna og kunna að meta mannlýsingar og lýsingar
af lífsbaráttu þjóðarinnar á liðnum tímum. Vitanlega
eru söguefni Magnúsar misjöfn að gæðum, en ætíð er
með þau farið af högum höndum. Og hann er ótrúlega
snjall að draga upp mynd, þótt efniviðurinn hafi verið
lítill. Hann kann bæði að lýsa stórbrotnum körlum og
konum, sem styr hefur staðið um og mikils hefur þótt
um vert af samtíð sinni, en hann kann ekki síður að lýsa
smælingjunum, sem úti verða á hjami mannlífsins, og
það gerir hann af þeirri samúð og skilningi, sem fágætt
er. En sá skilningur, ásamt vandvirkni um heimildir allar
er það, sem mér finnst mest um vert í söguþáttum
Magnúsar. Lesandinn finnur þar alltaf hjartað, sem að
baki slær.
Ég vil ljúka þessum fáu orðum með ummælum sjálfs
hans, er hann stóð á sextugu:
„Á basláranum, þegar ég varð að bæla niður lestrar-
löngun og þrá eftir bókum, flögraði oft að mér sú hugs-
un, að mjög hefði mér yfirsézt, að reyna ekki að brjótast
menntaveginn og verða sagnfræðingur og rithöfundur.
Og nú spyr ég sextugur maður: Hefði ég verið betur
kominn nú, ef mér hefði tekizt að ná því marki? Og
hefði ég orðið betri þjóðfélagsþegn en ég hef verið í
starfi mínu, bóndi í sveit? Ég veit það ekld, en efast.“
Um eitt þarf þó ekki að efast: íslenzk sagnvísindi hafa
misst góðan liðstyrk við það, að Magnúsi Björnssyni
auðnaðist ekki að gera þau vísindi að lífsstarfi sínu.
Steindór Steindórsson
frá Hlöðum.
Heima er bezt 293