Heima er bezt - 01.03.1958, Síða 15
GAMLIR KUNNINGJAR
Eftir JÓH. ÁSGEIRSSON
(Framhald)
Sagt er, að Látra-Björg hafi átt að gera þessa vísu
við karl, sem henni þótti linur ræðari:
Taktu á betur, kær minn kall,
kenndu ekki í brjóst um sjóinn.
Þó harðara takirðu herðafall,
hann er á morgun gróinn.
(Andvari, 1913.)
Eitt sinn, er Jónasi Jónassyni frá Hofdölum var gefið
í staupinu, kvað hann:
Ylinn gamla alltaf finn
eftir þriðja sopann.
Gjöfull ertu, góði minn.
Guðlaun fyrir dropann.
' •
Og svo þessi:
Löngum er ég orðastaður,
ekki hlýleg svörin mín,
en ég verð eins og annar maður,
ef ég smakka brennivín.
í jan. 1920 dó á Stokkseyri aldraður maður, Magnús
Teitsson að nafni. Hann er víða kunnur fyrir sínar
smellnu vísur.
Magnús átti jarpa reiðhryssu, er honum þótti mjög
vænt um. Eitt sinn lánaði hann Jörp konu að nafni
Gyðu. Hún var ættuð austan úr Skaftafellssýslum, og
fór þangað að finna ættingja sína og vini. En þegar
hún kom aftur með Jörp úr þeirri ferð, var hún svo
meidd, að það varð að slátra henni um haustið.
Magnús gat ekki slegið hana af sjálfur, en lét Ólaf
nokkurn í Móakoti gera það og fá af henni kjöt. Þá
kvað Magnús:
Mig vill stanga mæðan skörp,
mér finnst langur skaðinn.
Ólafur svangur étur Jörp,
ég má ganga í staðinn.
Ólafur í Móakoti átti son, er Grímur hér. Hann
stýrði oft vélbáti, við uppskipun, milli skips og lands.
Helzt vildi Grímur vinna hjá öðrum og láta verkið
ganga hægt, svo að hann hefði sem flesta tíma. Dag
nokkurn sat Grímur á kvartili við stjórnina, en um
fjöruna tók báturinn niðri á skeri á Stokkseyrarfjörum,
en Grímur sat rólegur á kvartilinu og beið þess að
félli undir bátinn aftur og hann flyti upp af skerinu.
Um það kvað Magnús:
Yfir bjartan bárupart
berst með hjarta ólinu.
Grætur vart, þó gangi ei hart,
Grímur á kvartilinu.
(Lesb. MorgunbL, 6. des. 1953.)
Gömul vísa:
Fylgi þér drottinn fram á skarðið Kiða.
Þó hann skilji þar við þig,
það kemur ekki par við mig.
„Griðkona gekk um stræti, og helltist úr mjólkur-
fötu, er hún bar, og varð skáldinu þá þessi staka af
munni:
Rösklega hún gengið gat,
gutlaðist upp úr fötunni; .
aumingjarnir eiga mat
eftir hana á götunni.“
Pétur Ólafsson hattari.
Vonin mér í brjósti býr,
bezti hjartans auður,
vonin aldrei frá mér flýr,
fyrr en ég er dauður.
Páll Ólafsson. (Heimild: Snót.)
Heima er bezt 89