Heima er bezt - 01.03.1958, Síða 31

Heima er bezt - 01.03.1958, Síða 31
HEIMA___________ BÓKAHILLAN Konunga sögur, I.—III. bindi. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri 1957. Islendingasagnaútgáfan. Ekki má það leika á tveimur tungum, að starfsemi íslendinga- sagnaútgáfunnar er nú fyrir löngu orðin ein hin merkilegasta bókagerð, sem unnin er hér á landi. Vér erum að maklegleikum hreyknir af fornbókmenntum vorum, og heyjum nú baráttu fyrir því, að hin beztu handrit þeirra, sem geymd eru erlendis, verði flutt til heimkynna sinna. í þeirri baráttu er sá styrkur vor mest- ur, að rit þessi eru eign alþjóðar, þau séu hverju mannsbarni kunnug, lesin og þeim unnað um byggð og bæ. En þótt svo sé að vísu um mörg þeirra, hafa samt furðumörg fornrit, og þau ágæt, aldrei verið prentuð á íslandi fyrr en nú, að íslendingasagnaút- gáfan hefur sent þau á markaðinn. Sigurður Kristjánsson vann merkilegt starf á sinni tíð, þótt honum auðnaðist ekki að gera nema lítið brot af hinum miklu fornbókmenntum íslendinga að alþjóðareign. Allt um það vann hann merkilegt afrek, sem seint mun fyrnast. Fornritaútgáfan vinnttr stórmerkt starf, með því að gefa út strangvísindalegar útgáfur fornritanna, en henni miðar hægt, svo að langur tími muni líða, áður en bækur hennar koma allar fyrir almennings sjónir. Islendingasagnaútgáfan hefur hins vegar tekið upp sama þráð- inn og Sigurður Kristjánsson hóf, það er að gera fornritin að- gengileg alþjóð manna á tiltölulega skömmum tíma, og gefa þau út eftir því, sem 'þekkingin er nú á textum þeirra og velja þann, sem beztur er talinn. Skýringum er stillt í hóf, en þó lengstum nægjanlegar, og tvær stórmerkar nýjungar hafa fylgt útgáfu þessari, sem létta lestur þeirra að miklum mun, en það er nafna- skráin við íslendingasögurnar og Eddu-lyklarnir, hvort tveggja ómetanlegt þeim, sem fornritin vill lesa. Ytri búningur er snot- ur og laðar til lesturs, og bindin hóflega stór. Og auk þess er verði svo stillt í hóf, að engum, sem á annað borð getur varið fé til bókakaupa, er um megn að eignast ritin. Og það heimili er sannarlega ekki snautt af menningarverðmætum, sem á allar bækur íslendingasagnaútgáfunnar. Á tiltölulega skömmum tíma er búið að gefa út 42 bindi í nokkrum flokkum, og eru þar allar Islendinga sögur, Eddur, Sturlunga saga, Annálar fomir, Biskupa sögur, Fornaldarsögur Norðurlanda, Þiðreks saga, Karlamagniiss saga og Riddarasögur í sex bindum. Svo vel hefur þjóðin kunnað að meta þessa starfsemi, að margt þessara bóka hefur þegar verið prentað tvisvar eða jafnvel oftar. Síðasti flokkurinn, sem út kom á síðastl. ári, eru Konunga sögur. Er þar upphaf hins geysimikla sagnabálks, sem íslendingar rituðu um Noregskonunga, og flest hefur verið litt kunnugt hér á landi meðal almennings, þegar frá er talin Heimskringla Snorra. Að þessu sinni komu út þrjú bindi, sem flytja sögur Olafs Tryggva- sonar, Ólafs helga, Sverris, Böglunga, Hákonar gamla og Magnúss lagabætis. Sumar þessara sagna haf« aldrei áður verið prentaðar á íslandi, en aðrar er að finna í Flateyjarbók. Dr. Guðni Jónsson býr Konungasögurnar til prentunar og ritar hann greinargóða formála að þeim, en auk þess er hann ritstjóri alls safnsins. Að útgáfu Konunga sagna þessara er góður fengur, og munu þar fleiri á eftir fara, unz tæmt verður að mestu það, sem íslendingar rituðu um norræna konunga og sögu Norðurlanda. Enda þótt efni þessara sagna hafi meira gildi fyrir hinar norrænu þjóðirnar en oss íslendinga, þá er þetta íslenzk frásögn. íslenzk list og ís- lenzk vísindi hafa unnið verkið, og vel má minnast þess, að margt í sögum þessum er meðal hins skemmtilegasta, sem ritað var af forfeðrum vorum. Þá er þess að vænta, að Islendingasagnaútgáfan sjái sér fært að gefa út með tíð og tíma sem mest af hinum mikla auði fornra rita, frutnsaminna og þýddra, sem ekki heyrir til hinni eiginlegu sagnagerð. Eins og getið var, hefur útgáfu þessari verið tekið vel og það að maklegleikum. Ekki munu Konunga sögur draga úr vinsældum útgáfunnar. Útgáfa þessi er í senn menningar- og þjóðræknisstarf. Enginn íslendingur getur látið það undir höfuð leggjast að vita nokkur skil á fornritum vorum. Þessi útgáfa gerir það létt verk. Hún opnar lesandanum heim, sem hann yfirgefur ekki svo fús- lega, þegar hann á annað borð er byrjaður að kanna hann. Og það er einkenni islenzkra fornsagna, að þær eru lesandanum allt- af jafnferskar, hversu oft sem hann les þær. Hjörtur Gíslason: Vökurím. Akureyri 1957. Enda þótt höf. hafi fyllt fimmta áratuginn, hefur hann ekki sent fyrr frá sér ljóðabók, nema fáein barnakvæði, Prinssessan í Portúgal, fyrir nokkrum árum. Hitt vissu margir, sem honum voru kunnugir, að hann kunni vel að kasta fram lausavísum. Þetta sýnir, að hann hefur hugsað sig um, áður en hann tryði prent- svertunni fyrir ljóðum sínum. En Hjörtur þarf engan kinnroða að bera fyrir kverið. Þótt ekki sé um neinn stórskáldskap að ræða, er laglega og smekklega með efnið farið. Hagmælskan er ágæt, og margar lausavísur snjallar. En kvæðin eru líka góð og mörg svo, að margir þeir ljóðasmiðir, sem hærra er hossað, mættu telja'sig fullsæmda a£ þeim. Þannig er t. d. fyrsta kvæðið, Vökurxm, einkar hugljúft kvæði, en þar rifjar höf. upp minningar frá kvöldvökun- um í baðstofunni í bernsku hans. Myndirnar eru skýrar og vel dregnar, en kvæðið hefði verið betra, ef nokkrum síðustu vísunum hefði verið sleppt. Annars syndgar höf. vfirleitt ekki á því að hafa kvæðin of löng. Til þess er hann of þjálfaður frá ferskeytl- unni. Til Lilju er gott kvæði, og Við græðum hittir ágætlega í mark. Og loks er síðasta kvæði bókarinnar, Ég sjálfur, ósvikinn skáldskapur. Og allt er kverið læsilegt og betur út gefið en ekki. Þórarinn Grímsson Víkingur: Mannamál. Reykjavík 1957. Norðri. Höfundur er þegar fyrir löngu kunnur sem ágætur sagnamað- ur. í bók þessari birtir hann sagnir af ýmsum atburðum, fyrir- burðum, og rekur minningaþætti sína um menn og málefni, allt læsilegt efni og greinargott. Merkasti þátturinn er tvímælalaust Sólborgarþátturinn, bæði fyrir þá sök,. að þar er af nærfærni og skilningi sagt frá miklum harmleik mannlegs lífs, en jafnframt er hann dulúðgur og gefur oss sýn inn yfir tjaldið mikla. Vel sagður er og þátturinn á heljarslóðum, og marga fleiri mætti telja. Huldufólks- og sjóskrímslasögurnar sýna, að enn lifa þessir þættir þjóðarinnar góðu lífi meðal vor, hvað sem þar er að baki. Heima er bezt 105

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.