Heima er bezt - 01.10.1958, Qupperneq 30
Rósa hvíslaði að Laugu: „Svona lætur hann allan
daginn, þessi leiðinlegi karl. Heldurðu að það sé ánægju-
legt að hafa þetta á heimilinu? Mér heyrist Kristján
vera hálfergilegur yfir honum, og hvað þá um mig. En
það er náttúrlega ágætt. Þá dettur honum ekki í hug að
þau hangi hér Iengi.“
„Er hann svona bágur?“ sagði Lauga.
Þær færðu sig inn í eldhúsdyrnar, meðan þeir þrömm-
uðu inn göngin. Þá flýttu þær sér út.
Rósa ætlaði af gömlum vana að ganga með Laugu
■ suður fyrir túnið.. Bleikur velti sér rétt fyrir neðan
hlaðvarpann. Það var eins og hann ætlaði aldrei að
hætta.
Lauga beið á hlaðinu, meðan Rósa gekk til hans og
klappaði honum. „Hvað á ég að gera við þennan bless-
aðan hest, svo að karlinn sé ekki alltaf á honum?“ sagði
hún, ekki laus við klökkva.
„Eg skal fara með hann suður að Þúfum. Kannske
tollir hann frammi á Beitarhúsatúni hjá hestunum okk-
ar,“ sagði Lauga.
Það fannst Rósu ágæt hugmynd. Þá var bara að koma
honum suður eftir. Lauga hafði ráð undir hverju rifi.
Hún fór inn í smiðjuna, þar sem stúlkurnar voru að
svíða. Það var ólíklegt, að þar væri ekki til snærisspotti
upp í hestinn. Það brást heldur ekki. Geirlaug var með
snæri í vasa sínum. Hún var hjálparhella heimilisins
utan húss og innan.
Nú var hnýtt upp í Bleik og lagt af stað. Lauga
leiddi Rósu við þá hendina, sem ekki hélt í tauminn
á Bleik. Hún kenndi sárt í brjósti um hana. Það var
eitthvað, sem lá henni á hjarta, en sem hún gat ekki
minnzt á við neinn. Gat það verið vegna gömlu hjón-
anna, að hún var svona döpur?
„Manstu, Rósa mín, þegar við vorum að stelast á
milli bæjanna í myrkrinu og sáum stóru, svörtu hrúg-
una hérna í mýrardraginu? Við héldum þetta vera
draug eða jafnvel skrímsli úr sjónum. Við ætluðum að
fara að þjóta til baka, en þá reis þarna allt í einu upp
maður. Þetta var þá bóndinn í Garði. Hann var að hefta
hest þarna, og annar hestur stóð þarna nærri, sem
gerði þetta svona ferlegt í augunum á okkur, og við
gátum hlegið svo lengi að þessu.“
„Jú jú, ég man það, eins og margt annað gott frá þeim
góðu dögum,“ sagði Rósa. „Bara að þeir gætu komið
aftur.“
„Finnst þér ekki eins gaman núna? Það er þó óneitan-
lega skemmtilegt að eiga mann og margar skepnur,“
sagði Lauga. „Karlinn og kerlingin hljóta að fara bráð-
lega, og þá held ég þú verðir glöð og kát, eins og þegar
við vorum krakkar.“
„Já, líklega verð ég það,“ sagði Rósa. Hún sá, að þær
voru komnar að stóru þúfunni, þar sem þær voru
vanar að kveðjast, svo að hún hélt þeim sið, þakkaði
Laugu kærlega fyrir komuna og hljóp svo heimleiðis.
Hún sá, að maður og hestur voru á hlaðinu, þegar hún
nálgaðist bæinn. Ekki vissi hún, hvort hann var búinn
að gera vart við sig, en enginn var kominn út til hans,
enda heyrðist ekki þó barið væri fyrir vaðlinum í karl-
inum, sem alltaf hafði ótæmandi umtalsefni. Hún þótt-
ist þekkja að þetta væri Gunnar hreppstjóri.
Hann gekk á móti henni og heilsaði: „Sæl vertu,
Rósa mín. Ég þóttist þekkja þig og hikaði því við að
gera vart við mig, því erindið var við þig,“ sagði hann.
Hann fékk henni stórt umslag. „Hér er þessi arfshlutur
þinn, góða mín. Svo lét ég fylgja þarna bréf frá móður
þinni til mín. Það er þar orðsending til þín, svo að ég
þykist vita að hún hafi ekki ætlað að skrifa þér fyrr en
seinna. Náttúrlega eru þeir búnir að segja þér það, sem
þeir vita, maðurinn þinn og tengdafaðir." Hún heyrði
að rómur hans varð kaldari, þegar hann minntist á þá.
Hún bauð hreppstjóranum inn en vonaði þó, að hann
tæki ekki því boði. Hún fór nærri um það, hvern hug
Hartmann gamli bæri til hans og líklega Kristján líka.
Gunnar þakkaði fyrir, en sagðist vera á hraðri ferð.
Svo kvaddi hann og teymdi hestinn á eftir sér út tröð-
ina.
Þá mundi Rósa eftir því, að þetta var í fyrsta sinn,
sem hann sá hana, síðan hún giftist, og þó hafði hann
hvorki þakkað henni fyrir boðið né óskað Jienni til
hamingju. Hann hafði sjálfsagt gleymt því. Einkenni-
legt, hvað margir gleymdu því að óska henni til ham-
ingju. Og þó, það áíitu náttúrlega allir, að hún yrði
óánægð í hjónabandinu með syni þessara leiðinlegu
foreldra.
Geirlaug var ein í maskínuhúsinu þegar Rósa kom
inn. Hún spurði, hvort piltarnir hefðu fengið kaffið.
Það hafði beðið þeirra á borðinu.
Geirlaug bjóst við því.
Rósa beið eftir því, að Geirlaug lyki við að þvo pör-
in og láta þau upp í skápinn, svo að hún gæti fengið
lampann inn í skrifstofuna. Þar ætlaði hún að líta á
þetta skjal og grípa svolítið i orgelið til að róa skaps-
munina.
Þegar hún hafði leikið tvö lög, kom Kristján fram.
Hann strauk hlýlega yfir hár hennar og vanga og sagði:
„Ertu þá sezt við orgelið, vina mín. Ég skil ekki, hvað
þú ert að gera allt kvöldið frammi í bæ. Þú sést varla,
fyrr en ég er háttaður og sofnaður. Við erum að verða
ókunnug hvort öðru.“
„Ég get heldur ekki skilið í því, hvað þú ert að þeyt-
ast út um mýrar og móa og kemur sjaldan heim fyrr en
í myrkri,“ sagði hún stutt í spuna.
FÍann kyssti hana á kinnina: „Ég skil, að þú ert gröm
út af Bleik þínum, en ég get ekki gert að því, þó karl-
inn sé alltaf á honum. En þetta fer nú að taka enda. Þau
fara núna á miðvikudaginn. Þá kemur skipið.“
„Nú, ertu þá ekki leiður yfir því, að ég vil ekki að
þau setjist hér að?“ sagði hún.
„Nei, það er líklega bezt að svo verði ekki. Ég hélt,
að pabbi væri farinn að stillast, en hann er ennþá sama
óhemjan og hann hefur alltaf verið. Ég sé líka, að það
væri hvergi hægt að láta hann vera annars staðar en þar,
sem mamma er til að snúast í kringum hann. Það tekur
það engin önnur kona í mál. En óneitanlega hefði verið
gaman að hafa hana hérna og láta henni líða vel einu
sinni á ævinni.“
356 Heima er bezt