Heima er bezt - 01.08.1959, Síða 18
og þá kom pabbi og sagði við hann, að það ætti ekki
að berja sofandi börn. Pabbi bar mig svo heim og söng
mig í svefn.
Um morguninn fann ég sóleyjar í rúminu mínu, en
vendinum hafði ég aldrei sleppt deginum áður. Pabbi
kom til mín og sagði mér, að huldukonan, vinkona mín,
bæði að heilsa mér. Hún væri nú flutt burtu í stærri
klett, því börnin hefðu verið orðin svo mörg.
Faðir minn var vel hagmæltur, en öll ljóð hans voru
grafin með móður minni eftir ósk hennar.
Eitt vor man ég eftir að ís var landfastur og kornmat
farið að vanta. Ég var svöng og bað um brauð, en það
var ekki til. „Viltu fá mjólk, elskan mín,“ sagði mamma.
„Nei, ég vil brauð,“ sagði ég og fór að gráta. Pabbi
kom og tók mig á hnéð og fór að skýra fyrir mér, af
hverju ég gæti ekki fengið brauð. Það var vegna þess,
sagði hann, að firðirnir væru frosnir og skipin kæmust
ekki að landi. En það varð engu tauti við mig komið
og ég sagði: „Þú átt rekur og járnkarl og við getum
brotið ísinn svo skipin komist að.“ Pabbi tók mig með
sér í húsin og þar gleymdi ég sorgum mínum við að
sjá hann gefa lömbunum. Hann setti mig hka á bakið á
Bleik hennar mömmu, sem gekk með mig um hest-
húsið; fyrst hafði ég haldið að hann myndi éta mig
meðan ég sat í stallinum.
Annað atvik man ég, sem sýnir glöggt, hvað ég var
erfitt barn. Anna systir mín var næstelzt. Þegar hún
var fjórtán ára hafði hún saumað sér kjól á Akureyri.
Ég var mjög skartgjörn og vildi fá eins kjól. Mamma
sagði að það gæti ég ekki fengið fyrr en að vori, þegar
hún væri búin að lita dúkana. Önnu kjóll var hnepptur
að framan, en mínir kjólar aftan á. Ég bað mömmu að
snúa kjólnum mínum við, svo hnapparnir kæmu fram-
an á. Hún sagði að þá kæmu olnbogarnir líka framan
á. En um þetta rellaði ég, þangað til pabbi kom og
rassskellti mig. Þetta var í eina skiptið, sem ég hlaut
þá refsingu; og þó ég fyndi ekki mikið til, öskraði ég
og fór fram í baðstofu til Nunnu gömlu. Hún sneri
strax við fyrir mig kjólnum og fór til pabba og átaldi
hann fyrir að fara svona með barnið! Ég dansaði í
kringum hann sigri hrósandi. Mamma gat ekki á sér
setið að hlæja, en pabbi sagði: „Við verðum að fara var-
lega að þessu stífa barni.“ Honum var víst alvara, því
seinna, þegar Erlendur bróðir mömmu kom og vildi
taka mig heinr með sér, sagði pabbi, að mér með mína
skapsmuni myndi ekki líða vel annars staðar en heima,
og að börn hans færu ekki að heiman meðan sín nyti
við. Erlendur og kona hans höfðu misst tvær dætur og
var kona hans lögzt í rúmið af sorg. Hann hélt að hún
myndi hressast, ef hún fengi barn á líku reki og þær,
að hugsa um.
Það var snemma morguns að sumarlagi, að ég vakn-
að við, að pabbi var að fara á fætur. Eg vildi fara á
fætur, og pabbi Iét það eftir mér og hjálpaði mér að
krækja kjólinn minn og binda skóna. Ég spurði hann,
hvað hann ætlaði að fara að gera, en hann kvaðst ætla
með hest niður í Hriflu, því að Jón gamli ætlaði í
kaupstað og myndi færa sér fisk. Hann lagði síðan
reiðing á hestinn, setti skrínur á og hélt af stað, en bað
mig að vekja smalann, þegar sólin væri komin að hest-
húsveggnum. Ég horfði á eftir pabba, þegar hann reið
ofan túnið og yfir fljótið, en vaðið blasti við bænum.
Döggin var svo mikil á túninu, að þegar smáfuglarn-
ir hlupu eftir því, sáust slóðir þeirra, og ekkert rauf
þögnina nema söngur þeirra og dynur fossins, sem sást
vel að heiman ásamt úðanum, sem bar alla regnbogans
liti. Sunnan í bæjarveggnum átti randafluga bú sitt og
flaug nú milli blómanna og safnaði hunangi. Mig lang-
aði til að líta inn í búið hennar, en þá var hún óðar
komin og suðaði mjög fyrir framan nefið á mér, en
gerði mér þó ekki mein.
Smám saman fór byggðin að vakna, reykinn tók að
leggja upp frá bæjunum, en ég gekk að læknum og
söng „Upp á himins bláum boga“, en það var eina lag-
ið, sem ég kunni. Ég fór að tína blóm, en sofnaði brátt
við lækjarniðinn, og þarna fann pabbi mig sofandi, þeg-
ar hann kom aftur heim.
Mér fannst líkast því, að barnssálin vaknaði þennan
sumarmorgun, þegar ég skynjaði náttúruna í fyrsta
sinni.
Einu sinni sem oftar fór faðir minn í kaupstaðinn.
Hann bað mig að gæta þess, að kýrnar færu ekki í tos-
ið sunnan undir bænum, meðan hann væri í burtu. Ég
gætti þess vel þangað til einn morgun, að ég kom of
seint á fætur og kýrnar voru komnar í tosið, og búnar
að rífa niður hey. Mér þótti þetta slæmt. Pabbi hafði
lofað mér hagldabrauði, þegar hann kæmi, ef ég gætti
tosins vel. Ég fór því og sótti eldhússtól mömmu og
rogaðist með hann út; náði svo í litlu hrífuna mína,
rakaði saman og tróð í holurnar, með því að stíga upp
á stólinn.
Þegar pabbi kom fékk ég kringluna. Hann fór að
girða kringum tosið og kemba það. Ég stóð álengdar,
til að sjá hvernig færi. Allar lausu tuggurnar duttu.
Pabbi kallaði á mig og sagði: „Þú hefur ekki passað tos-
ið vel og áttir ekki skilið kringluna.“
Ég fann að þetta var rétt og hljóp inn eftir henni og
færði pabba. „Hér er hún, ég vil ekki það, sem ég á
ekki skilið,“ sagði ég. „Það er rétt, barnið mitt,“ sagði
pabbi og horfði þó hissa á mig.
Kringluna fékk ég samt seinna.
Einn vordag var pabbi á gangi upp í heiði. Ég var
mcð honum. Ég fylgdi honum víst betur en nokkur
hundur. Við urðum þreytt og settum okkur niður. Við
sáum vítt yfir og þá sá ég Goðafoss í fyrsta sinn. Ég
spurði, hvað þetta hvíta væri, sem breitt væri á móinn.
Hann sagði, að það væri foss í fljótinu. Ég skildi ekki
hvað foss var, en hann sagði, að ég skyldi bara skoða
bununa í bæjarlæknum, fossinn væri aðeins miklu
stærri. Ég spurði af hverju hann héti Goðafoss, og
fékk að vita, að það væri af því, að áður en fólkið hafði
þekkt guð, hefði það dýrkað trémenn, sem kölluð voru
goð, cn seinna hefði öllum goðunum verið fleygt í foss-
inn, af því drægi hann nafn. Ég hugsaði mikið um
fossinn og goðin, sem ég hélt að hefðu verið lifandi
vcrur. Eina nótt dreymdi mig, að ég var komin þangað
274 Heima er bezt