Heima er bezt - 01.10.1961, Page 2
Horfðu reiður um öxl.
Fyrri grein.
Á sumri því, sem senn er liðið hefur leikflokkur frá
Þjóðleikhúsinu farið vítt um land og sýnt leikrit með
þessu nafni. Áður hafði það verið sýnt lengi í Reykja-
vík við milda aðsókn og góða dóma. Svo hefur og
verið hvarvetna um land. Leikurinn hefur vakið at-
hygli, bæði sakir ágætrar meðferðar leikenda og ný-
stárlegs efnis, sem þó er engan veginn ókunnugt úr
daglegu lífi. Mætti ef til vill fremur segja, að oss er
þar í skuggsjá leiksviðsins, sýnt inn í sálarlíf ótalmargra
æskumanna, jafnvel fleiri, en oss dettur í hug í fljótu
bragði. Því að leikurinn fjallar um óánægju eða reiði
æskunnar við umhverfi sitt, og þó einkum við eldri
kynslóðina, sem ekkert hafi eftir sig látið í arf, nema
vonleysið og atómsprengjurnar, sem bráðlega muni
þurrka mannkynið út af jarðríki.
Hér er ekki ætlunin að rekja efni leiksins né atburða-
röð, heldur að taka lauslega til meðferðar, það sem að
baki liggur reiði æskunnar. Höfundur þessa leikrits er
ekki einn um hituna í því efni að vera reiður. Hann á
þar skoðanabræður víða um lönd einnig í þjóðfélagi
voru. Það er meira að segja rætt um hina „reiðu höf-
unda“, sem flokk manna, er beri uppi sérstaka bók-
menntastefnu, og margir þeirra njóta aðdáunar og að
minnsta kosti vekja þeir athygli, ekld einungis jafn-
aldra sinna heldur og þeirra, sem eldri eru, og reiðin
snýst gegn. En þá hljótum vér að spyrja, er þessi reiði
réttmæt? og ef svo reynist er hún líkleg til að bæta úr
því, sem miður fer?
Það er vissulega aldagamalt fyrirbæri í heiminum, að
æskan sé óánægð með eldri kynslóðina, þyki hún þröng-
sýn og úrelt í skoðunum, en þeim gömlu þyki æskan
fávís, flasgefin og ósanngjörn. Slík gagnkvæm skipti
tveggja kynslóða eru eðlileg afleiðing þeirrar fram-
vindu heimsins, sem sífellt hefur verið frá því mann-
kynið hófst á legg, en um leið eiga þau rót sína að
rekja til ólíkra lífsviðhorfa, sem breyttar kringum-
stæður tveggja kynslóða skapa. En ef til vill liggur
dýpsta rótin í hinu ólíka viðhorfi æsku og elli til lífs-
ins sjálfs. Æskan, sem á framtíðina fyrir sér, flýtir sér
að leita hamingjunnar og er alltaf að flýta sér. Ellin,
sem farin er að sjá hinzta sólarlagið nálgast, fer sér
hægt og treinir tímann ef unnt er. Hún lítur yfir horf-
inn veg, bæði það sem vel hefur gengið og mistökin.
Hún á að vísu reynsluna, en hættir oft við að gleyma
því, að heimurinn hefur ekki staðið kyrr frá æskuárun-
um, og því er reynsla þeirra sjálfra ekki algild, og æsk-
an verður að glíma við viðfangsefnin upp á eigin
spýtur.
Æska nútímans er ekki einungis óþolinmóð, hún er
reið ef marka má viðhorf unga mannsins í sjónleikn-
um. En því miður verður einnig við það að kannast,
að reiði sú, er hann lætur í ljós er algerlega neikvæð. í
huga hans rúmast ekkert nema reiðin ein. Hann lítur
á sjálfan sig sem píslarvott rangsnúinnar aldar og hefur
ekkert til málanna að leggja nema reiðina við þá kyn-
slóð, sem hefur alið hann. Og hann stendur ekki einn
með þetta viðhorf til lífsins, ef marka má margt það,
sem ritað er á seinni árum. Vér mætum þessu viðhorfi
hvarvetna í daglegu lífi, og heilir stjórnmálaflokkar
kynda undir þessari neikvæðu reiði í þeim tilgangi að
skapa upplausn í þjóðfélaginu, svo að þar megi rísa sú
alda, er skoli þeim til valda. En er þessi reiði æskunnar
réttmæt eins og nú horfir við? Ég held naumast.
Margt má að vísu að samtíð vorri finna, og hvernig
vér hinir eldri og fyrirrennarar vorir hafa á málunum
haldið. En ekki verður því þó með rökum móti mælt,
að aldrei hefur jafn vel verið búið í hendur nokkurri
kynslóð, sem ríkið á að erfa, og þeirri, sem nú er senn
að taka við, ef litið er á allan ytri búnað í hinum
frjálsu þjóðfélögum. Tækniþekking nútímans hefur
gert undraverk, til þess að létta hin daglegu störf og
skapa lífsþægindi. Vér þurfum ekki að hverfa nema
hálfa öld aftur í tímann til að sannfærast um það. Það
er sama hvar gripið er niður í hversdags lífi voru eða
umhverfi, húsakostur, húsbúnaður, vinnutæki, sam-
göngur, samskiptatæki (útvarp, sjónvarp), mataræði,
klæðnaður. Ekkert af þessu nálgaðist, það sem nú er á
morgni þessarar aldar, og margt af því, sem vér nú
teljum sjálfsögðustu lífsþægindi voru þá annaðhvort
fjarlægir draumar, eða alls ekki til í hugmyndaheimi
mannanna. Aldrei hefur leiðin til almennrar menntun-
ar verið greiðari en nú, og aldrei jafnmargar leiðir opn-
ar ungum manni, sem leggur út í lífið til að starfa.
Aldrei hefur lengra náðst í baráttu við sjúkdóma oo-
heilsubrest, aldrei slík umhyggja sýnd þeim, sem sjúkir
eru og farlama af elli eða öðrum sökum. Og síðast en
ekki sízt. Aldrei fyrr í sögu mannkynsins hefur nokk-
urt dæmi verið gefið um jafnstórfellda hjálp heilum
þjóðum til handa og þá, sem Bandaríkjamenn hafa átt
frumkvæði að og forgöngu og fengið aðra til að fylgja
því fordæmi sínu. Getur þetta gefið tilefni til reiði við
þá kynslóð, sem slíkt hefur unnið? \Tarla mun nokkur
telja það réttmætt.
En einhver mun segja sem svo, að þau gæði og verð-
mæti, sem nútíminn hefur skapað hverfi í skuggann af
330 Heima er bezt