Heima er bezt - 01.10.1961, Blaðsíða 9
urstað. Hann brá vel og göfugmannlega við og bauð
mér fylgd sína norður að Eyhildarholti. Tók Jón síð-
an aktygin af Litla-Rauð og lagði á hann hnakk sinn.
Svo riðum við af stað í húmlýsu næturinnar við glatt
hófaspil á brakandi ísum.
Skjótt hófust viðræður með okkur Jóni, og kom þá
skáldið fljótt upp í honum. Hann sagði mér frá því,
að þá ekki fyrir löngu, þegar ljóðaflokkurinn „Heim-
leiðis“ eftir Stephan G. Stephansson hefði borizt um
byggðir lands, hefði hann sjálfur og fleiri Skagfirðing-
ar, sem unnu vísnagerð, gert sér dátt við bragarhátt-
inn á „Vegtamskviðu" og hafið tilraunir við að stæla
hann. (En hátturinn nefnist margsamhent skamm-
henda.) Hann taldi Jón Pétursson í Eyhildarholti að
líkindum hafa byrjað. En sjálfur kvaðst hann hafa
gamnað sér við háttinn á umliðnum degi, á heimleið-
inni frá Sauðárkróki, og er sá kveðskapur á þessa leið:
Burðahnellinn brokkar Rauður
bezt á svellunum.
Svarar smellið hjarn og hauður
hófaskellunum.
Leikur í taumum, rennur reiðin,
rétt sem straumarnir.
Allt er glaumur, endar leiðin
eins og draumarnir.
Afram líður Litli-Rauður
líkt og þýður blær.
Sleðinn skríður hægt um hauður,
heim um síðir nær.
Ferðin að Eyhildarholti sóttist vel. Við komum þang-
að laust fyrir háttatíma. Jón sneri heimleiðs eftir stutta
dvöl. Ég kvaddi hann með hlýju og þakklæti fyrir
glaðværa skemmtun og góða fylgd. — Ég var nú með
Guðs og góðra manna fylgd kominn í óbrigðult vinar-
skjól og leið vel.
Næsta dag vorum við Jón Pétursson um stund að
raka af hesti sunnanundir bænum. Bjart var yfir sveit-
unr Skagafjarðar og sá vel fram til uppeldisstöðva okk-
ar Jóns. Minn gamli æskuvinur, Mælifellshnjúkur, blasti
nú við á sínum tignarstóli í hvítum feldi með gylltan
hjálm á höfði. Þar í kring um fótstall hans á ég mörg
spor frá fyrri árurn.
Við Jón gerðum nú áætlun um ferð okkar á næst-
unni fram í Lýtingsstaðahrepp, en við þá tilhugsun varð
til þessi vísa hjá Jóni:
Er við skellum skeiðið á,
skulu ellimerkin dvína.
Munu svellin silfurgljá
senda fellum tóna sína.
Talið barst að skammhendugerðinni, og kvaðst Jón
hafa gert nokkrar vísur í tilefni af því, að hann hefði
sent vini sínum Gísla Sigurðssyni, bónda á Víðivöllum,
Jóhann Ii. Jónasson.
kvæðaþulu eina, en skammhendurnar hefði hann látið
fylgja í ofanálag til þess að bæta upp þuluna. Vísur
þessar voru fjórar. Síðustu vísunni hef ég glatað, í
henni var nafn og föðurnafn Jóns bundið á dálítið flók-
inn og sérkennilegan hátt. En þrjár vísurnar, sem hér
fara á eftir, eru á þessa leið:
Finn ég dulinn dvínar kraftur
dags með hulunni.
Heiti að skuli enginn aftur
aftra þulunni.
Það er mitt að vilja verja
verstu pyttina.
Aftur jútt með hlífð að herja
hart á tittina.
Ég vil benda óðarkneri
upp til strandanna,
þó hann lendi á leyniskeri
Ijóðagrandanna.
Eftir þrjá daga í glaðværum vinafagnaði riðum við
Jón af stað frarn í sveitina. Sólskin var og blíðviðri.
Ferðin sóttist vel og riðum við því hóflega. Skaflarnir
bruddu klakann, en losið lék sér og dansaði glaðværan
hestavals allt í kring á sléttum ísnum.
Ferðalag þetta var hið undursamlegasta. Blíðviðri
dag hvern, með frostkælu um nætur.
Framhald á bls. 353.
Heima er bezt 337