Heima er bezt - 01.10.1961, Blaðsíða 13

Heima er bezt - 01.10.1961, Blaðsíða 13
endis ókleift að ná til læknis, þótt bráðnauðsynlegt væri. Næstu læknar voru lengi vel í Nesi við Seltjörn eða á Austfjörðum, urðu menn því langoftast að vera án hjálpar þeirra. Árið 1799 var stofnað læknishérað er náði yfir Suðurland, þ. e. Skaftafells-, Rangár- og Árnessýslur ásamt Vestmannaeyjum. Það var að vísu stórt skref til úrbóta því vandræðaástandi, sem í þess- um málum hafði ríkt. Fyrsti læknirinn í þessu nýja héraði var Sveinn Pálsson. Bjó hann að Kotmúla í Fljótshlíð og síðar og lengst í Vík í Mýrdal. Á fyrsta embættisári sínu kom hann til Vestmannaeyja til þess að rannsaka ginklofann og almennt heilbrigðisástand eyjarskeggja. Enda þótt læknir væri kominn í Vík breyttist mjög lítið til batnaðar með ginklofann. Þvert á móti virðist veikin hafa ágerzt fyrstu tugi 19. aldarinnar. Vafalaust hefur lítið verið um læknisvitjanir til lands, eða lækn- arnir ekki getað gefið ný ráð gegn veikinni, nema þau að breyta um drykkjarvatn, bæta hreinlæti og aðbúnað í híbýlum manna o. s. frv. Árið 1800 gefa prestar Eyjanna skýrslu um barna- dauða á tímabilinu 1790—1799. Á þessum árum hafa 80 börn, af 113 fæddum, látizt úr ginklofa. Alls konar athugunum var haldið áfram, og ýmsar ráðleggingar gefnar, en allt jafn gagnslaust og ráð fólksins sjálfs í ráðaleysinu. Fyrirskipan kom frá stjórninni, þar sem brýnt var fyrir sýslumanninum, að *hann skoraði á kon- ur að hafa börnin á brjósti. Var þá talið líklegt, að sjúkdómurinn stafaði af því, að konur gæfu börnunum óblandaða kúamjólk. Annað virðist naumast hafa verið gert gegn þessum vágesti um árabil, og fór vitanlega árangurinn eftir því. Árið 1820 hófust eyjarskeggjar loks handa undir for- ystu Magnúsar Bergmanns, verzlunarstjóra. Sendu þeir stiftamtmanni bréf og beiðni um fyrirgreiðslu til kon- ungs, að hann vildi náðarsamlegast hjálpa eyjarskeggj- um í þessum voða, og senda þeim duglegan lækni, sem hefði í höndum lyf og læknistæki, og skyldi hann dveljast að minnsta kosti 3 ár í Eyjum. Hétu Eyjamenn að taka þátt í kostnaði þeim, sem af þessu leiddi eftir getu sinni. Landlæknir og amtmaður voru þessu mjög fylgjandi og skrifuðu þeir hvatningarbréf til stjórnar- innar um þetta nauðsynjamál í ágúst og september 1820. Árangur þessara skrifa varð sá, að ákveðið var með konungsúrskurði 28. marz 1821, að kostnaður af þessu skyldi greiðast í bili af landfógeta, en síðar úr Jarða- bókarsjóði. Fór þá að koma skriður á málið. Fyrsti læknirinn sem sendur var til Eyja frá Kaup- mannahöfn var íslendingur, Ólafur Thorarensen, var hann þá nýútskrifaður frá Hafnarháskóla. Hann kom til Eyja 1821. Dvaldist hann þar aðeins stuttan tíma, en þó var talið að honum hefði orðið nokkuð ágengt til varnar veikinni, svo að sagt var að ekki hafi nema 8. eða 9. hvert barn veikzt af þeim, er fæddust þann tíma, sem hann var í Eyjum. Mun hjálp hans vafalaust hafa verið fólgin í auknu hreinlæti og góðu eftirliti með sængurkonu og barni. Vatnsbólið forna, „Vilpa“. En Ólafur hvarf á brott úr Eyjum, og aftur sótti í sama horfið með ginklofann, og enn urðu Eyjamenn að sækja mál sitt til æðri staða. Sóttu þeir nú málið enn fastar en áður og nutu þar við góðs stuðnings Jóns Thorsteivsens, landlæknis. Sókn þessi bar þann árang- ur, að ný konungleg tilskipan var gefin út 1827, um sérstakt læknishérað í Vestmannaeyjum, en þó aðeins til sex ára. Hugðu ráðamenn, að þá mundi niðurlögum veikinnar ráðið að fullu, og heilbrigðisástand eyjabúa komið í viðunanlegt horf. Hinn fyrsti skipaði Eyjalæknir kom þangað 1828. Hann var danskur og hét Carl Ferdinand Lund, lagði stjórnin honum til nokkuð af lækningatækjum og lyfj- um. Lund varð brátt mjög vel kynntur og vinsæll í Eyj- um, en því miður naut hans skamma stund við. Hann lézt hér 7. des. 1831 eftir tæpra þriggja ára dvöl. Ekki virðist honum hafa orðið nokkuð ágengt með að lækna ginklofann. Að minnsta kosti geisaði hann eftir sem áður eftir dauða hans. Enn kom til kasta stjórnarinnar um málið. Sá hún sér ekki annað fært en að framlengja úrskurðinn um læknissetu í Eyjum og senda þangað annan lækni til næstu sex ára. Hét sá Carl H. U. Bolbroe frá Kaup- mannahöfn. Hann var hér tilskilinn tíma, 6 ár, 1832— 1839, og barðist gegn veikinni með nokkrum árangri. Abel sýslumaður telur honum hafa orðið nokkuð ágengt, og ástandið hafi batnað mikið síðan læknar urðu búsettir í Eyjum. Hefur sýslumanni að sjálfsögðu verið vel kunnugt um þetta. Þegar lokið var tilskildum tíma Bolbroes læknis fór hann aftur utan, en veikin var landlæg sem fyrr, og ósigruð að mestu, öllum til sárra vonbrigða. Stjórnin ákvað því enn, að læknir skyldi sendur til Eyja. Munu meðmæli sýslumanns einkum hafa ráðið þar úrslitum, því að nú gerðist það merkilega, að bæði landlæknir og stiftamtmaður lögðust á móti. Töldu þeir kostnaðinn við læknissetu í Eyjum of mikinn, þegar tekið væri tillit til hins litla árangurs, sem orðið hefði við læknissetuna þar. Heima er bezt 341

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.