Heima er bezt - 01.10.1961, Side 33
að losna við að svara því, sem Svava var að stikla
kringum.
„Því var hún hér ekki lengur fyrst hún var svona
dugleg?“ spurði Svava.
Kemur ein spurningin enn þá, hugsaði Valborg.
„Það var nú svoleiðis að Kristjáni datt í hug að setja
allt á uppboð um haustið og fara burtu, ekki veit ég
hvert. En það seldist ekki nema svo lítið að hann varð
að búa áfram en hún fór áður en selt var. Karlinn,
pabbi hennar, sótti hana. Þeir urðu víst eitthvað ósátt-
ir út af kaupgjaldinu og eru það víst enn þá. Og hér
er ég nú að hella upp á könnuna. Þetta er af mínu kaffi.
Ég hellti ekki á af eigum Kristjáns í þetta skipti,“ sagði
Valborg brosandi. Þá kom Bogga allt í einu í dyrnar.
Þeim þótti báðum vænt um Valborgu og henni. „Þú
kemur mátulega í könnuna, Bogga mín.“
„Nú var áreiðanlega sleginn botninn í samræðurnar,“
hugsaði Svava. Undarlegt hvað allir voru samtaka í
því að segja henni ekki sannleikann í þessu máli.
Kannske áleit Valborg það sjálfsagt að Kristján væri
búinn að tíunda þennan strák fyrir henni og vildi ekki
vera að blaðra um það. Hún var orðvör kona.
Kristján var einhvers staðar utanbæjar allan daginn.
Þegar hann kom loksins inn og kærastan fór að suða
um það hvað hann hefði verið að bjástra í allan dag
var hann stuttur í spuna og sagði að það væri víst til
lítils að ætla þeim manni að hugsa um búskap, sem
ekki hefði heilsu til að vera úti í svona blíðskaparveðri.
Um kvöldið lét hún sem hún svæfi þegar hann fór að
hátta. Hún heyrði það á því hvað hann kastaði fötun-
um harkalega frá sér að hann var í vondu skapi og
ekki kom hann til hennar til að bjóða henni góða nótt
eins og hann var vanur. Hún fann að það var einhver
breyting í aðsigi og kveið komandi dögum. Þangað til
hún gæti flutt burtu úr þessu byggðarlagi.
Það var sama daginn að búið á Grýtubakka var selt
á uppboði og séra Gísli og Rósa með Jón litla stigu
á skipsfjöl og fóru til Reykjavíkur. Allir þóttust vita
hvert erindið væri. Náttúrlega að gifta sig.
Næsta morgun kom Geirlaug gamla upp að Garði
til að biðja Leifa að vera hjá maddömunni þann dag til
að hjálpa til að koma ofan í túnið. Það var lítið eftir
en hún kunni betur við að ljúka því af. Það væri nú
orðið heldur fámennt á Hofi núna.
„Þú sýpur kaffisopa,“ kallaði Gerða fram úr eld-
húsinu.
„Má ómögulega vera að því í þetta skipti,“ sagði
Geirlaug.
„Þau hafa náttúrlega ætlað að fara að láta gifta sig
þessi sem fóru af stað til höfuðstaðarins í gær,“ sagði
Leifi og togaði upp um sig buxurnar.
„Það get ég nú ekki sagt um hvað þau hafa ætlað
sér að vinna,“ sagði Geirlaug utan af hlaðinu.
„Hún er nú ekki alveg eins frí og frjáls og í fyrra
vor, kerlingargreyið. Það var nú meira sparilífið, sem
hún lifði þá,“ gall í Leifa. „Ég verð að fara, eða finnst
þér það ekki?“
„Auðvitað, þú hefur víst ekkert viðbundið í dag.
Strákurinn getur farið með þér. Ég kem kannske ein-
hverja stund, þegar ég er búin að þvo,“ svaraði Gerða.
„Hvað ertu búin að gera við Asgeir?“ spurði Leifi
þegar hann sat við að háma í sig morgunmatinn við
maskínuhúsborðið á Hofi.
„Hann fór fram að Giljum. Þar er verið að drífa í
að girða túnið,“ sagði maddama Karen.
„Það er nú ekki laust við að það sé hlegið að þessu
framfarabrölti í Steini gamla,“ sagði Leifi. „Náttúrlega
er það Ásgeir sem drífur í því. Hann leggur til vírinn
en Ásdís staurana.“
„Þetta er dugnaðarfólk,“sagði Karen. „Ég sagði Ás-
geiri að það væri sjálfsagt að hann fengi frí, það liti
einhver eftir ánum. Mér finnst svona lagað vera virð-
ingarvert. Það er svo mikill munur á því að hafa girt
túnið.“
„Það er margt sem maður heyrir þetta vor. Nú er
Kristján að fara frá Bakka og skilur Hartmann gamla
eftir á jörðinni vegna þess að hann fékk engan á hana.
Það er sagt að hann skilji honum eftir eina kú og
kvígildisærnar. Það voru þó nokkuð margir, sem álitu
að Ásdís flytti til karlsins, en það ætlar hún sér víst
ekki fyrst hún fór að drífa í því að girða,“ sagði Leifi.
„Það getur varla verið satt,“ sagði Karen. „Varla
getur hann hugsað sér að hann geti lifað af því aum-
ingja gamli maðurinn þó hann duglegur sé.“
„Ég ætlaði inn á axjónina í gær en þá var hryssu-
garmurinn nýköstuð, svo það varð ekkert af því ferða-
laginu. Ekki nennti ég að fara gangandi.“
Maddaman var farin fram áður en Leifi var búinn
að tala út. Hann var sá eini, sem minntist á Kristján í
áheyrn hennar. Þegar hún kom inn aftur sagði hún:
„Þér hefðuð víst getað fengið hest hjá mér inn eftir.“
Framhald.
Hvað ungur nemur -
Framhald af bls. 351. -
foldar gróa, sveitirnar fyllast, akrar hylja móa. Brauð
veitir sonum móðurmoldin frjóa, menningin vex í
lundi nýrra skóga.“
Vel getur svo farið að í næstu framtíð breytist sand-
auðnir Þjórsárdals í frjósöm ræktunarlönd, við friðun,
sáningu og vatnsveitu. — Er friðun lands í Þjórsárdal
þegar hafin og „nemur nýr gróður hér land, hægt en
öruggt,“ segir Kristján Eldjárn í ritgerð sinni um rúst-
ir í Þjórsárdal. Og enn segir hann: „Ef vel er að gáð í
bæjarbrekkunni í Stöng, má sjá þar smávaxnar birki-
plöntur, sem gefa fyrirheit um nýja skóga.“
Rætist þessi hugsjón, mun ný kynslóð mynda nýja
sögu í Þjórsárdal, með nýjum ástarævintýrum, en von-
andi fylgir þeim ævintýrum meiri hamingja en ástar-
ævintýri Gauks Trandilssonar og hinnar óþekktu ást-
meyjar hans, — húsfreyjunnar á Steinastöðum.
Stefán Jónsson.
Heima er bezt 361