Heima er bezt - 01.05.1962, Qupperneq 13
En þetta ferðalag Steenstrups varð þess valdandi, að
dvöl Jónasar í Sórey var lokið að fullu og öllu. Svo
virðist þó, sem það hafi vakað fyrir honum að fara
aftur til Sóreyjar, þegar Steenstrup hefði lokið ferða-
lagi sínu, enda segir hann það berum orðum í áður-
nefndu bréfi til Steenstrups og einnig í bréfi til Páls
Melsteðs, dags. í Khöfn 5. júlí 1844. En af því áformi
varð aldrei. Og einn sólfagran dag í byrjun maí 1844
tekur Jónas Hallgrímsson sér fari með dagvagninum
og heldur aftur til Kaupmannahafnar til rnóts við þau
örlög, sem honum voru þar fyrirbúin. Síðasti sólskins-
bletturinn í lífi hans var að baki og orðinn minning-
in ein.
III.
Enn er nýtt vor runnið við Eyrarsund, vorið 1845.
A'eturinn hefur verið þjáðu og einmana íslenzku skáldi
þyngri í skauti en nokkru sinni fyrr. Stórvirki Jónasar,
Islandslýsingin, er enn ófullgert og allsendis óvíst,
hvort hann hefur þrek né aðstæður til þess að ljúka
því mikla verki nokkurn tíma. Það fellur honum þungt.
Hann hefur gert sér það til afþreyingar stöku sinnum
þennan vetur að yrkja nokkur ljóð á íslenzku, t. d.
Stökur (Enginn grætur íslending), Á nýjársdag 184),
Leiðarljóð tiljóns Sigurðssonar og fleiri, og svo hefur
hann líka lokið við að fága Ferðalok, ljóðið yndislega
um samfylgd hans og ungrar, íslenzkrar stúlku norður
fjöll eitt unaðslegt, löngu liðið vor heima á íslandi. En
nú er líka skammt til hans eigin ferðaloka, þótt hann
viti það ekki sjálfur, eða grunar hann það máske? Til
þess benda margar hendingar í síðustu ljóðum hans.
En hann harmar það ekki, þótt hérvistardvöl hans
kunni að vera senn á enda. Hann hefur gefið þjóð
sinni það dýrmætasta, sem hann átti, og hann hefur
sjálfur reynt, hvað hið sanna og raunverulega langlífi
er og tjáð það með þessum einföldu, en ógleymanlegu
' orðum:
Hvað er langlífi?
Lífsnautnin frjóva,
alefling andans
og athöfn þörf;
margoft tvítugur
meir hefur lifað
svefnugum segg,
er sjötugur hjarði.
Og hann hefur líka sagt að:
Gott er að ganga
geði kvíðlausu
ófarið örstutt
æviskeið.
Það er kominn 21. apríl. Jónas hefur frétt, að skip
sé í þann veginn að leggja af stað heim til íslands.
Hann notar tækifærið og skrifar vini sínum, Þórði
Jónassen, svohljóðandi bréf:
Kaupmannahöfn, 21. apríl 1845.
Elsku-vinur minn góður!
xVIér er sagt, að skip sé að fara heim rétt í þessu, og
flýti ég mér því að þakka þér fyrir tvö ástsamleg bréf,
en ég skal þakka þér bæði betur seinna. Ég er, sem
stendur, staddur hér á skrifstofu fulltrúa vors, og hef
— eins og þú getur nærri — æðinauman tímann. Mér
líður nú loksins, guði sé lof, sæmilega vel til heilsunn-
ar; mér er batnað allra meina minna, nema einhverrar
agnar af Hvpokondri — bringsmalaskottu — eða hvað
það heitir, draugurinn, sem ásækir svo margan íslend-
ing. Ég er sæmilega feitur og þokkaleg skepna, en ntið-
ur klæddur og óburgeislegri, en ég ætti skilið að vera.
Eg hef skilað kveðju þinni til Steenstrups; honum
hður vel, nema hvað blóðið sækir stundum á höfuðið.
Danir eru nú að slokkna, — svo sem eins og ljós, sem
fuðrar upp af því vinnukona hefur gleymt að taka af
því skarið.
Þú haðst um fleiri kvæði; það situr á ykkur, sem
lastið allt, sent ég geri, þegar nafnið mitt stendur ekki
undir því! Ég hef nú samt enn þetta árið gert það
löndum mínum til léttis og þóknunar og skilningsauka
málanna, að setja merki undir þau kvæði mín, sem
koma í Fjölni; þau eru hvorki mörg né mikilvæg. Lægi
alltént vel á mér, gæti ég sjálfsagt ort betur.
„Kong Renés Datter“ eftir Hertz verð ég að senda
þér með einhverju móti, undir eins og það kver kem-
ur úr prentun; þessi leikur (romantisk Drama i 1 Akt)
er það yndislegasta, sem ég veit til hafi oltið upp úr
Dönum.
Heilsaðu, vinur minn! þeim, sem þú heldur taka
vilji kveðju minni.
Ég skrifa betur með seinni skipunum.
Þinn
J. Hallgrímsson.
En Jónas Hallgrímsson skrifaði ekki fleiri bréf heim
til Islands. Fyrír því sá hinn slyngi sláttumaður, sem
svo óvænt og skyndilega vitjaði hans á Friðriksspítala
árla morguns hinn 26. maí 1845, tók hann sér við hönd
og leiddi hann að „þeim dimmu dyrum“. Hvort munu
góðir blómálfar ekki hafa grátið þá í lautu, eigi siður
en við Galtará forðum? En Jónas varð ekki grátinn úr
Helju fremur en Baldur, hinn góði ás. Hann hafði
lokið því ætlunarverki og ævistarfi, sem guðirnir höfðu
fyrirbúið honum að inna af höndum hér á jörð. Og
þótt fleiri bréf hans ættu ekki eftir að berast heim yfir
hafið, hafði hann þá þegar kvatt ísland og íslenzku
þjóðina ógleymanlega hinztu kveðju. Það hafði hann
gert einn fagran vordag í Sórey árið áður með svo-
felldum orðum:
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar rninnar strönd og hlíðum.
Heima er bezt 157