Heima er bezt - 01.08.1962, Blaðsíða 29
og át nestið mitt. Svo lagðist ég niður til þess að hvíla
mig, ég var dálítið þreyttur. Eg hef víst sofnað rétt
strax, þá var ekki farið að skyggja. Þegar ég vaknaði,
var líka bjart. Þá fór ég út til þess að litast um, hvort
ég sæi ekki Gvend. Mér datt ekki í hug, að það væri
kominn morgunn. Eg áttaði mig ekki á því, fyrr en
nokkuð eftir, að ég var kominn út. Þá lagði ég strax
af stað ofan af brunanum. En áður en ég fór, hengdi
ég treyjuna mína á krossinn.“
„Farðu nú og seztu á bælið þitt,“ sagði Guðrún, „þú
getur tekið ofan af þessum lagði fyrir mig,“ bætti hún
við og rétti honum heilt ullarreifi.
Rétt á eftir sagði Guðrún svo hátt, að heyra mátti
um alla baðstofuna:
„Ekld veit ég, hvort þú hefur sagt mér satt frá,
Sveinn. En hitt veit ég, að þú hefur nú lýst fyrir mér
Gljúfumeskirkju, eins og hún var. Þar var ég fermd
og þar var ég við kirkju hvern helgan dag frá því að
ég man fyrst eftír mér og þangað til ég var átján ára.
Hún var hvorki mikil né merkileg í samanburði við
kirkjuna á Laugum, þessa stóru og vönduðu timbur-
kirkju. Var það þó ekki af því, að hana vantaði efnin,
sízt átti hún minni rekann. En það vantar allténd mik-
ið, þegar viljann vantar. Og þó var það almannaróm-
ur, að meiri munur væri á prestunum en kirkjunum,
enda reyndist það svo, þegar ósköpin dundu yfir.
Gljúfurnespresturinn forðaði sér í burtu, út á lands-
enda, með allt, sem hann komst með. Hann var ekki
aldeilis að hugsa um sóknarbörnin sín. Það var ekki að
sjá, að hann hefði nokkurn tíma einu sinni litið á mynd-
ina fyrir ofan altarið og horft á þann, sem gaf líf sitt
í dauðann fyrir hjörð sína. Það var kannske dálítið ann-
að en prófasturinn sálugi á Laugum, sem aldrei vék á
burt og aldrei þreyttist á að telja kjark í alla og hjálpa
öllum, sem hann náði til....“
VIII.
Tíminn er fljótur að líða. Það má nú segja! Maður
hefur mikið að gera. Dagurinn úti áður en maður veit.
Vikan líka, mánuðurinn. Jólafastan er gengin í garð.
Það gerði bylgusu upp úr veturnóttum. Fé var smal-
að og hýst tvær vikur. Svo hlánaði aftur. Og enn er
ekki farið að gefa fullorðnu fé né útigangshrossum.
Nú er smiðjan komin upp, sem betur fer. Það er
ekki hægt að búa smiðjulaust. Ekki, þegar svona er
langt til næstu bæja. Það er sök sér að skreppa í smiðju
til nágrannans, ef svo ber undir, þegar nágranninn er
á sama hlaði. En að ríða þingmannaleið til þess að
smíða skeifu, það er ekki hægt.
Húsbóndinn er helztí smiðurinn á bænum. Hann sit-
ur oft í smiðju, er önnur verk kalla ekki að. Hann hef-
ur gaman af að smíða. Á hinn bóginn getur enginn
setið í smiðju og smíðað sér til gamans. Menn smíða
sér til gagns. Eldsneytið er af skornum skammti. Það
verður að spara og spara.
Skógar eru engir á Bökkunum. Aftur á móti er fjar-
an rekasæl. Rekur bæði skíði og stórviði. Skíðin eru
öll klofin í eldinn. Getur það verið allmikið verk og
illt, því skíðin eru kvistótt og viðurinn í þeim ótrúlega
snúinn og undinn og ofinn saman. Enda ekki að undra,
því að svo hafa fróðir menn sagt, að skíðin séu í raun
og veru ekki annað en kvistir og lim af stórum trjám,
sem vaxa einhvers staðar útí í veröldinni, en gjafarinn
allra góðra hluta sendir hér upp á fjörurnar.
Það voru víst engar ýkjur, að Bakkafjara væri einna
rekasælasta fjaran í öllum Miklahrepp. Var það mikið
fjörunni að þakka, hve Brynjólfi hafði gengið vel að
fá spýtur lánaðar í bæinn, upp á það að fá að borga í
sama. Að vísu hafði það gengið eitthvað tregar þann
tíma, er menn efuðust um, að hann fengi Bakkana. En
þó höfðu menn þeir, er hann leitaði til, ekki neitað
honum, heldur sagt sem svo, að hann skyldi borga í
spýtum eða öðru, eftir því, sem á stæði. En jafnskjótt
og það varð hljóðbært um vorið, að hann hefði fengið
Bakkana og fjöruna, komu menn jafnvel og buðu hon-
um timbur, sumir meira að segja sagað. Það var ekki
nema sjálfsagt.
Það var vissulega ekkert smáræði, sem hann skuldaði
af timbri, bóndinn á Bökkunum. En Brynjólfur hafði
ekki neinar áhyggjur af því. Allir skyldu fá sitt timb-
ur aftur. Kannske gæti hann líka, þótt seinna yrði, lát-
ið nokkra fiska í kaupbæti. Því að oft rak mikið af
fiski á Bakkafjöru á útmánuðum.
Þegar á allt er litið, bar mikla nauðsyn til að hafa
vakandi auga með fjörunni og öllum reka, ekki sízt
trjáreka, svo að hann græfist ekki í sandinn eða tæki
aftur út. Þeir stunduðu því fjöruna vel, Brynjólfur og
Steini. Einkum þó í hafátt, eða eftir mikil veður af
hafi. Þá mátti helzt búast við reka, sérstaklega, ef stór-
streymt var. Var þá ekki til setunnar boðið, en riðið
á fjöru með birtu. Ekki var hægt að senda Sveinka á
fjöru, því að ekki var hann svo mikill maður enn sem
komið var, að honum væri trúandi til að bjarga stór-
viði undan brimgarðinum. Enda varla við því að bú-
ast, með því að lítil stund hafði verið á það lögð til
þessa að ala hann.
Annars var nóg að gera handa stráknum. Hann gat
verið mestallan daginn að þvælast í kringum féð. Það
var eins og hann kynni bezt við sig úti á víðavangi,
hlaupandi með hundinn á hælunum, blautur upp fyrir
hné. En er kvöld var komið og dimmt var orðið og
menn seztir upp á pall, lét Gunna ekki á sér standa. Þá
færði hún Sveinka þurra sokka og skó, já og brækur
og buxur, ef með þurftí. Og þegar strákur var búinn
að éta úr askinum sínum og kominn í þurrt, var ekki
annað að sjá, en að hann yndi glaður við sitt.
Sú breyting hafði á orðið upp úr veturnóttum, að
kvenfólkið hafði skipt með sér verkum endanlega,
einkum þjónustunni. Þjónaði Guðrún Steina, Kristín
bóndanum, en Gunna Sveinka, og Gvendi þegar hann
var á Bökkunum. Gunna var myndarstúlka. Og þannig
var hún úr garði gerð, bæði vaxtarlag og fas og andlits-
Heima er bezt 285