Heima er bezt - 01.02.1963, Page 2

Heima er bezt - 01.02.1963, Page 2
Vié Iandamærin. Undanfarna mánuði hafa deilur allmiklar staðið um sálarrannsóknir, miðlafyrirbæri og andlegar lækningar, og hafa þær vakið athygli margra, sem venjulega sinna lítt þessum málum. Bergmál þeirra kvað hafa borizt út yfir pollinn, og orðið þar blaðamatur, og jafnvel ís- lenzkir menn notað þessar umræður, til að bregða upp skoplegri mynd af Islendingum og trúarlífi þeirra og menningu. En er nokkuð skoplegt eða aumkunarvert við það, þótt menn leitist við að finna svar við spurningunni um, hvað sé hinum megin tjaldsins? Er það ekki fremur aumkunarvert að til séu menn, sem neita því að vilja spyrja um þá hluti. Umræður þær, sem fyrr var getið, hafa naumast leitt nokkuð nýtt í ljós í þessum efnum. Þeir, sem við hafa átzt, hafa annaðhvort fyrirfram verið sannfærðir um framlíf manna, eða neitað öllu, og þegar svo er háttað verður naumast um jákvæðar úrlausnir að ræða. Hins vegar er betur farið en ekki, að umræður þessar hóf- ust. Þær sýna að mál þessi eiga djúpar rætur með þjóð- inni, og mikill hluti hennar vill leita, unz svar er feng- ið, og allt er betra en þögnin og tómlætið, þegar um alvörumál er að ræða. Fáir eru þeir menn, sem neita með öllu tilveru yfir- skilvitlegra fyrirbrigða, nema haldnir séu ofstækisfullri andúð á þeim. Slík fyrirbæri hafa gerzt fleiri en tölu verði á komið víða um lönd, og mörg þeirra verið sönn- uð svo traustum vitnisburðum, að eigi verða brigður á bornar. Má þar nefna fjarskyggni, svipsýnir, forspár, drauma o. fl. Margir hinna ágætustu vísindamanna hafa fjallað um þau mál, t. d. í Sálarrannsóknafélaginu brezka og viðurkennt raunveruleik fyrirbrigðanna. Til þeirra má og telja andlegar lækningar. Því verður trauðlega neitað, að þær hafi átt sér stað, af hverju sem þær hafa stafað. Annað mál er svo, hvernig menn hafa viljað skýra mörg þessara fyrirbæra, og má þar fyrst og fremst telja miðlafyrirbærin. Margir eru þeir, sem telja sig hafa fengið ótvíræðar sannanir þess, að þar séu fram- liðnir menn að verki. Aðrir telja hins vegar, að þær sannanir séu ekki fullnægjandi, heldur sé hér um að ræða einhver öfl, sem búi í manninum sjálfum, og er þá löngum gripið til undirvitundar og fjarhrifa. En fjarhrif eru fullsönnuð. Menn geta sent hvor öðrum hugskeyti um óravegu, og jafnvel geta svipir þeirra birzt eða raddir þeirra heyrzt. Ef vér lítum á viðhorfin til framlífs manna eftir dauð- ann, má segja að-þau séu þrjú. í fyrsta lagi eru þeir, sem neita algerlega að um framlíf geti verið að ræða, og neita einnig að kanna það mál. í öðru lagi eru þeir, sem að vísu geta trúað á annað líf en telja ókleift, eða synd- samlegt að leita sér nokkurrar vitneskju um það. í þriðja lagi eru svo þeir, sem telja sig hafa fengið óyggj- andi sannanir fyrir framlífi mannsins, eða að minnsta kosti nokkrar líkur og vilja stöðugt halda áfram að leita. Því verður ekki neitað að samkvæmt hinni efnislegu þekkingu vorri er margt, sem mælir gegn framlífi mannsins. Vér eigum erfitt með að hugsa oss líf án þess efnis, sem vér getum vegið og mælt, en þegar vér hins vegar lítum á þau yfirskilvitlegu fyrirbæri, sem ekki verða vefengd, skýtur upp spurningunni, hvaða öfl séu þar að verki, og hvort með oss leynist eitthvert afl eða eiginleikar, sem enn hafi ekki verið vegnir né mældir, og þá um leið í hverju þeir séu fólgnir. Og aðeins eitt heiðarlegt svar er til í því efni, að rannsaka málið eftir þeim leiðum öllum, sem oss eru tiltækar. Það eitt fær leyst gátuna. Vér getum gengið að leitinni með hvaða trú, sem vér viljum, en hvorki trúin ein né vantrúin fær gefið oss það svar, sem vér æskjum. Hinir einu menn, sem ótrauðir hafa leitað þessa svars eru sálarrannsóknamennirnir. Þeir hafa lagt stund á þá leit í meira en heila öld víða um lönd. Þúsundir og aft- ur þúsundir manna hafa tjáð sig fengið fullvissu og sannanir fyrir framhaldslífi. Sú fullvissa hefur veitt ótölulegum fjölda manna sálarfrið og sefað sársauka þeirra og sorgir. Og jafnvel þótt einhver veila væri í sönnunum, er mér spurn, getur það verið syndsamlegt eða hættulegt mannkyninu, að sefa sársaukann, létta byrði harmanna og gefa þeim, sem eru að örmagnast trú á lífið og kærleikann? Eg minntist á veilur í sönnunum. Það eru margir, sem gagnrýna allt, sem frá sálarrannsóknunum hefur komið, og telja engar sannanir fullgildar, og í hæsta lagi sé um að ræða sterkar líkur. Heiðarlega gagnrýni er sízt að lasta í máli sem þessu. Eina leiðin til sambands við annan heim hefur verið með aðstoð miðla. Vitað er, að þar hafa fram komið margar vitleysur, og vísvitandi blekkingar. En hversu mörg mistök hefur maðurinn ekki gert í leit sinni að þekkingu, og hversu margar mis- heppnaðar tilraunir hafa ekki verið framkvæmdar áður en vér fengum þá þekkingu á efnisheiminum, sem vér nú teljum óyggjandi. Þurfum vér þá að kippa oss upp við, þótt eitthvað hafi farið úrskeiðis í rannsókn hinna dularfullu fyrirbrigða. 38 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.