Heima er bezt - 01.02.1963, Page 18
arblað og fékk ýmsa til þess að rita í blaðið bæði í ljóð-
um og í óbundnu máli. — „Eftir að sr. Arni flutti til
Grenivíkur, kom þann oft „norður í Fjörðuna“ og
stundum með hóp skemmtiferðafólks úr Höfðahverfi.
Það var eins og hann kæmi alltaf með sólskin með sér,“
segir Theodór Friðriksson.
Síðasti prestur á Þönglabakka var sr. Sigurður Jóns-
son, hann kom þangað ungur og nýkvæntur 1893. Kona
hans var bróðurdóttir Hallgríms biskups Sveinssonar.
Þessi hjón komu frá gjörólíku umhverfi og lífsvenjum,
en unnu sér miklar vinsældir. Þau sátu á Þönglabakka
til 1902. Oft bjuggu á Þönglabakka bændur og útgerð-
armenn með prestinum. Einna kunnastur þeirra var
Guðmundur, sonur Hákarla-Jörundar úr Hrísey. En
Jörundur var upprunninn úr Höfðahverfi og hóf það-
an sína frægu sjómennsku, er mikil hamingja og aflasæld
fylgdi. Guðmundur rak um skeið þilskipaútgerð frá
Þönglabakka. Eftir daga sr. Sigurðar á Þönglabakka var
jafnan búið þar af bændum til 1944, að þaðan fluttist
Jóhannes Kristinsson, svo sem síðar mun sagt.
Arnareyri. Skömm leið og greið er yfir nesið miUi
fjarðanna frá Þönglabakka að Arnareyri, sem stendur
við vesturhom Hvalvatnsfjarðar á lágum sjávarbakka.
Eyri var jörðin oftast kölluð. Hvalvatn er eitt hinna
mörgu „hópvatna“ íslenzkra, mishátt eftir því, hvort
brim fyllir í ósinn eða vatnið rífur sig fram. Mikil veiði
af silungi var í vatninu. Selveiði var á Eyri og reki feng-
sæll. Landjörðin þótti heldur rýr, og þó hlunnindi væru
nokkur, jafnaðist Eyri á engan hátt við sævarjarðirnar
í Þorgeirsfirði, Botn og Bakka, enda var hér mildu
verra til útgerðar.
Eyri var eina jörðin í Fjörðum, sem var í bændaeign,
og bjuggu þar margir góðir bændur á 19. öld. Sagt var
um Björn, er þar bjó þá langan aldur, að hann hefði
aldrei skort hey, mat eða eldivið í sínum búskap, og
þótti sjaldgæft á þeim dögum. Síðasti bóndinn á Eyri
var Jónatan Stefánsson, og mun hans síðar getið. Jóna-
tan fluttist frá Eyri árið 1934 og var þá eitt ár í Vík á
Flateyjardal, síðastur bóndi þar, og hvarf síðar til Húsa-
víkur.
Brekka var lítil jörð, suður og upp í hálsinum ofan
við Eyri. Þótti það rýrðarkot sökum mikilla snjóþyngsla.
Frá Brekku er fáar sagnir að herma. Jörðin fór í eyði
árið 1924. Síðasti bóndi þar var Sigurjón Gíslason.
Tindriðastaðir. Áin, sem rennur eftir dal Hvalvatns-
fjarðar, nefnist Austurá. Hún hefur mikið og marg-
greint kvísla-hm um háfjalladali og smá-jökulskálar allt
suður undir brúnir Dalsmynnis. Hún er vatnsmikil með
fullt fang framburðar á vorum. Hún hefur fyllt upp
sunnan við Hvalvatn og gert þar mjög frjóar flæði-
engjar, er hún byltist um í vorflaumum, en liðast síðan
á sumrum lygn og djúp milli gróinna bakka.
Tindriðastaðir standa á hálshjalla yfir þessum engj-
um, utarlega vestan ár; þar er breitt, gróið land að bæj-
arbald, inn á milli tindafjallanna. Þetta var hin fríðasta
jörð, engið undan velli með nautgæfri gulstör, áin og
vatnið fullt af veiði. Skömm og greið leið var þaðan til
sjávarjarðanna, Eyrar, Botns og Bakka og vel fært að
stunda róðra, þótt gist væri heima á nóttum.
Tindriðastaðir voru taldir meðal beztu Fjarðarjarða
og fríðasta jörðin. Undu bændur þar vel og lengi. Fyrir
aldamótin bjó lengi á Tindriðastöðum Ásmundur Sig-
urðsson. Hann var kunnur hagyrðingur og gamansam-
ur. Hann orti bragi um ýmsa viðburði í Fjörðum,
græskulausa og fyndna, svo til gleði varð í sveitinni.
Einn bragur hans náði til allra ungra manna í Grýtu-
bakkahreppi. Ásmundur orti einnig rímur, meðal ann-
ars Finnbogarímur hins ramma.
Aldamótaárið 1900 koma að Tindriðastöðum hjónin
Guðlaugur Jónsson og Hólmfríður Tómasdóttir frá
Knarrareyri á Flateyjardal. Þau bjuggu þar í 44 ár, og
verður þeirra seinna getið. (Framhald.)
Ráðning á jólakrossgátu „Heima er bezt“
Hér sjáið þið rétta ráðningu á jólakrossgátu „Heima er
bezt“ og þeir, sem hlutu verðlaunin eru þessir:
1. verðlaun. Bækur að verðmæti kr. 500.00 hlaut Guð-
mundur Hafsteinsson, Kambsvegi 33, Reykjavík.
2. verðlaun. Bækur að verðmæti kr. 300.00 hlaut Unnur
Þórðardóttir, Miðhópi, Víðidal, V.-Hún.
3. verðlaun. Bækur að verðmæti kr. 200.00 hlaut Sigtrygg-
ur Jónsson, Samkomugerði, Eyjafirði.
Um leið og við óskum sigurvegurunum til hamingju með
verðlaunin, viljum við biðja þá vinsamlegast að velja sér
bækur fyrir tilteknar upphæðir úr bókaskrá „HEB“, sem
fylgdi með nóvemberhefti tímaritsins. Skal þá miðað við
HEB-verð bókanna, sem þið veljið ykkur. Vinsamlegast
sendið blaðinu línu með nöfnum þeirra bóka, sem þið kjós-
ið ykkur.
Við vonum að áskrifendur hafi haft gaman af að glíma við
þessa krossgátu, og að hún hafi veitt mörgum nokkra dægra-
dvöl. Allmargir þeirra, sem sendu ráðningar til blaðsins flösk-
uðu á sama orðinu, þ. e. FJÖLDI, sem átti að vera ÓTILI.
54 Heima er bezt