Heima er bezt - 01.02.1963, Side 31

Heima er bezt - 01.02.1963, Side 31
Aftur og aftur datt mér Björn í hug. Hann var alltaf nærgætinn, þó hann reyndi að fá mig til að hætta að vorkenna sjálfri mér. Aldrei myndi hann leika sér að því að hræða mig. Nærvera hans hafði róandi áhrif á mig, en Hans æsti allt það versta upp í mér. Hjá hon- um var ég óróleg og ónóg sjálfri mér. Ég átti þó eftir að sjá betur þennan dag, hve ólíkir þeir voru. Það var farið að rökkva, þegar við ókum aftur í áttina til Álftafjarðar. Vegurinn lá í ótal krók- um meðfram sjónum, stundum rétt ofan við flæðar- málið, en annað veifið hátt uppi í brekkunni. Nú var ekki eins hált og fyrr um daginn, enda lét Hans gamm- inn geisa lieim á leið. Þó voru víða blindhæðir og hættu- legar beygjur, en Hans lét aðvaranir mínar sem vind um eyrun þjóta þrátt fyrir loforð sitt og tók ekkert tillit til annarra vegfarenda. Auðvitað endaði þetta með skelfingu, eins og ég hafði fundið á mér. í einni beygjunni komu tveir dreng- ir í ljós. Þeir voru á hjólum og reyndu að víkja, en veg- urinn var háll. Ég vissi aldrei, hvort Hans reyndi að víkja eða ekki. Það skipti engum togum, annar drengj- anna skall framan á bílnum og hentist af hjólinu. Þeg- ar bíllinn loks nam staðar, var bæði drengurinn og hjól- ið spölkorn aftan við hann. Ég reif upp hurðina og ætlaði út, en Hans greip í mig, andlit hans var afskræmt af hræðslu. „Ekki út, nei, ekki út!“ æpti hann. Ég sá að svitinn spratt fram á enni hans og efri vör. „En, það verður að gá að drengnum," sagði ég og var farin að hágráta. „Hann er máske dáinn!“ „Það verður að ná í lækni,“ stamaði Hans. „Ég skal þá fara í bílnum,“ sagði ég. „Nei, nei, ég get ekki séð hann,“ tautaði Hans. „Farðu þá og vertu fljótur,“ æpti ég, eins og væri hann í mílu fjarlægð, en ekki rétt hjá mér. Hann setti í gang bílinn, sem hafði drepið á sér, en tók nú af stað með snöggum rykk. Ég staulaðist til baka á sokkaleistunum, því á skón- um gat ég ekki fótað mig. Minni drengurinn stóð á veginum og hágrét, hinn lá í hnipri út á vegarbrún og hjólið ofan á honum. Ég skildi ekki, hve róleg ég gat verið, en nú var ekki á neinn að treysta nema mig sjálfa. Varlega losaði ég hjólið og færði það til hliðar. Ándlit drengsins var ná- fölt, og blóðið rann úr sári á annarri augnabrúninni. Ég reyndi að gera mér grein fyrir, hvað ég mætti gera, og hvað ekki. Annar fótur drengsins var undarlega snú- inn, hann þorði ég ekki að snerta. Ég fór úr kápunni og breiddi hana ofan á drenginn og reyndi að koma ermunum undir höfuð hans án þess að hreyfa hann mik- ið til, það vissi ég gat verið hættulegt. Minni snáðinn var nú hættur að gráta. Ég spurði hann að heiti og hvar hann ætti heima. Hann sótti skóna mína, og ég reyndi að troða þeim á tilfinningalausa fæturna. Drengirnir voru bræður, sá eldri 12 ára, hinn 10. Hann bauðst til að hlaupa heim að næsta bæ og síma í lækninn, þá yrði hann kannske fljótari. Ég samþykkti það óðar, þó ég sárkviði fyrir að vera ein með slas- aða drengnum. Ég vissi ekki, hve langt væri heim að bænum, og heldur ekki, hve langt yrði þar til Björn kæmi, væri hann annars kominn heim. Mér sjóðhitn- aði af skelfingu af að hugsa um, hve langur tími gæti þá liðið, þar til hann kæmi. Nú var komið svarta myrkur. Örlítil rönd af tungl- inu sendi draugalega skímu yfir umhverfið. Ég var hætt að skjálfa og fannst ég vera að frjósa í hel, sama þótt ég reyndi að ganga um og berja mér. Drengurinn bærði á sér og stundi. Tíminn stóð kyrr. Nú var komin heil eilífð, síðan drengurinn hljóp af stað. Ég lofaði tárunum að renna í friði. Þau voru heit, þótt undarlegt væri, því mér fannst ég vera orðin jafn- köld utan sem innan. „Björn, Björn,“ tautaði ég í sí- fellu. Hann var mín eina björgunarvon. Loks sá ég bílljós örskammt frá, og eftir augnablik var Björn kominn að hlið minni. Hann snaraðist úr úlp- unni og klæddi mig í hana. Mjúk gæran var sjóðandi heit. Svo þreif hann af sér hanzkana og tróð fótunum á mér í þá, þótt ég reyndi að andmæla og benti á dreng- inn. En hann sagði ákveðinn: „Þitt líf er líka dýrmætt!“ Svo greip hann mig í fangið og setti mig inn í bílinn sinn. Bara að ég hefði mátt hjúfra mig upp að honum og láta hann hlýja mér. Eitt augnablik stakk hann and- liti mínu undir vanga sinn, eins og hefði hann lesið hugs- anir mínar. Svo var hann farinn. Ég var svo dofin, að ég vissi ekki almennilega af mér, fyrr en hann var búinn að koma drengnum í sjúkra- körfunni inn í bílinn og lagður af stað heim á leið. Þetta var sendiferðabíll, sem hann hafði útbúið sjálf- ur sem sjúkrabíl. Karfan var í lausu lofti, fest í gorma sem gerðu það að verkum, að sjúklingurinn varð lítið þess var, þótt hratt væri ekið. Og nú var ekið hratt! En mér var alveg sama, ró og öryggi fylgdu þessum grönnu sterku höndum, sem héldu um stýrið. Páll beið í opnum kjallaradyrum sjúkrahússins, og Bjöm ók bílnum beina leið inn. Þeir vom handfljótir að ná út sjúkrabörunum og bera þær upp stigann. Ég kom á eftir, þó ég viti varla, hvernig ég fór að því að ganga á fótum, sem ég fann alls ekki til. Ég rölti inn í eldhúsið og settist fast við miðstöðvarofninn. Þar húkti ég eins og illa gerður hlutur, í alltof stórri karlmanns- úlpu með skinnhanzka á fótunum. Ég lagðist fram á borðið og fann skömmu síðar, að einhver breiddi hlýtt teppi yfir mig og vafði öðru utan um fætuma á mér. Ég sofnaði og vaknaði ekki, fyrr en Björn tók mig í fangið og bar mig niður í bílinn. „Hetjan mín litla,“ sagði hann, þegar hann bar mig aftur inn í hús heima og alla leið inn í herbergi mitt. Þar klæddi hann mig í þykkustu náttfötin, sem hann fann af sjálfum sér og kom auk þess með hitapoka og sull í glasi, sem var hræðilegt á bragðið, en það sjóð- hitaði mér niður í maga, og eftir ofurlitla stund fór blóðið að fossa um æðarnar. (Framhald.) Heima er bezt 67

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.