Heima er bezt - 01.02.1965, Síða 15

Heima er bezt - 01.02.1965, Síða 15
una við Sesseljuvík, þar sem útræði og tjaldstaður þeirra Húsafellsmanna er. Við reisum tjald okkar í skyndi, grípum einhvern smábita í okkur og nú er tveggja stunda hvíld. Morguninn við Arnarvatn er ein þessara stunda á öræfum, sem seint gleymast, og hvergi finnast nema í öræfum Islands, sambland af fegurð og andstæðum. Norðurundan skóf upp kolsvarta hríðarklakka, en til suðurs var glaðasólskin, sem stafaði á spegilslétt vötn og tjarnir. Við Ingvi göngum upp á hæðirnar, til að fá yfirsýn um landið og leggja áætlanir um ferðir kom- andi daga, Kristleifur fer að vitja neta sinna, en Björn tekur að fikta með silungastöng út með vatninu. Að liðnu hádegi erum við ferðbúnir að nýju. Élja- bakkarnir úr norðri eru nú komnir ískyggilega nærri, en samt stafar enn sól á Arnarvatn, þegar það hverfur okkur sýn. Það er tekið að hvína ískyggilega í brúnum Eiríksjökuls, og þokukúfar þjóta um skalla hans. Það er rétt tekið að halla suður af Svartarhæð, þegar hríð- in skellur yfir. Norðanhríð að nýliðinni Jónsmessu, frostvæg að vísu, en með drjúgri fannkomu. Heimferð- in er því harðla ólík norðurferðinni í skini nætursól- arinnar. Krap og snjór í götuslóðunum tefur ferðina. Hvað eftir annað verðum við að ýta á jeppann, til þess að koma honum yfir verstu höftin, og það eru þreyttir menn, sem koma um kvöldið niður að Húsafelli, en þreytan gleymist skjótt. Heiðarnar hafa heillað okkur einu sinni enn, þrátt fyrir duttlunga veðursins, og skammt er nú til þess, að ný ferð verði hafin. Amarvatnsheiði að nýju. Fyrsta bækistöð okkar er í Vopnalág, sem er grasi gróin laut, er liggur í löngum sveig í jaðri Hallmundarhrauns uppi undir Þorvalds- hálsi. Lágin er sýnilega gamall árfarvegur, Norðlinga- fljót, eða kvísl úr því hefur einhvern tíma runnið þarna. Nú er Vopnalág vingjarnlegur og skjólgóður áfanga- staður. Annars er hún tekin að spillast síðan bílaferðir hófust um þessar slóðir. Ekið er eftir henni endilangri, enda sléttasti kaflinn á löngu svæði. En fjallagróðurinn er viðkvæmur og þolir ekki mikið hnjask. Flag er því tekið að myndast eftir endilangri láginni. Hér í Vopnalág hefur verið áfanga- og áningarstaður síðan í fornöld. Vegurinn norðan úr Húnaþingi og Skagafirði liggur hér um. Hér hafa menn riðið um í ferðum til Alþingis. Skyggnt auga kynni vafalítið að sjá óslitna flokka á ferð aftan frá söguöld og til vorra daga. Menn í Alþingisreið, herflokka, friðsamt og illa búið kaupafólk, langar skreiðarlestir, glaða skólasveina, og hver veit hvað. Allir hafa þessir hópar áð í Vopna- lág, og oft hafa þar vissulega verið stórar tjaldborgir. Stundum kátt á hjalla, en oft hefur líka uggur og ótti verið með í ferðum. Og hvað mundi Jón biskup Ara- son hafa hugsað, er hann reið hér um sumarið sáma og Ögmundur starfsbróðir hans var höndum tekinn. Senni- lega hefur þá verið þungt yfir Hólakarlinum. En þegar Grasaskoðun. hina sönnu sögn þrýtur, sækir þjóðsagan á hugann. Hér í Vopnalág segir hún, að HeÍlismenn hafi hvílt sig og haft náttstað að lokinni smalamennsku um heiðarn- ar. Hefur þeim þótt þar bjartari náttstaður en í hellin- um Surt. Óg hér voru þeir sviknir og felldir. Hér kvað við hrópið: „Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki“. Við, sem liggjum hér nú, erum vissulega engir Fjögramakar, þótt strákarnir séu röskir og láti sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, eins og betur sézt síðar, en meiri er okkur nú þörf olíustakka og plastúlpna en valnastakka, enda eigum við lítt sökótt við byggðamenn, en þurfum að brynja okkur gegn veðurduttlungum heiðanna. En á næstu grösum við okkur er Hallmundarhraun. Vafasamt er hvort nokk- urt íslenzkt hraun býr yfir meiri hulduheimum en það. Á ytra borðinu er það meinleysislegt, víðast greiðfært, mosagróið eða sums staðar sandorpið. En undir skorp- unni leynast furðuheimar. Lengi hefur Surtshellir ver- ið kunnur landsmönnum, en nýir hellar hafa verið að finnast þar fram á síðustu ár, að vísu ekki eins stór- fenglegir og Surtshellir, en ef til vill enn ævintýralegri, þótt engar sagnir fylgi þeim. Og hver veit, hvað enn kann að finnast. Eitt kvöldið bregðum við okkur nið- ur í hellana. Skoðum rangala Stefánshellis og sumir strákanna fá ekki stillt sig um að líta inn í Surtshelli á eftir, þótt búnir séu þeir að ganga allan daginn og komið langt fram á kvöld. Niðri í Stefánshelli hendir það óhapp, að einn strákanna dettur á steinnybbu og heggur svo sundur á sér hnéð, að okkur þykir ekki annað fært en fara með hann til byggða, og koma hon- um undir læknis hendi. Við sem fylgjum honum kom- um ekki upp í Vopnalág fyrr en löngu eftir miðnætti. Þá er komin hellirigning, og satt að segja vorum við hálffegnir því, að næsta dag var ekki vinnuveður. Dagarnir á Arnarvatnsheiði líða fyrr en varir. Frá Vopnalág flytjum við bækistöð okkar upp í Álfta- krók, sem liggur skammt fyrir norðan Norðlingafljót. Þarna gisti ég eina nótt fyrir mörgum árum. Þá var gististaðurinn gamall leitarmannaskáli úr torfi, myrkur Heima er bezt 59

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.