Heima er bezt - 01.07.1965, Blaðsíða 17

Heima er bezt - 01.07.1965, Blaðsíða 17
meðan hann var utan, en 1222 var hann svo aftur kosinn lögsögumaður. Eins og áður getur átti Snorri nokkur börn frillubor- in. Einmitt nú þurfti hann á því að halda að auka áhrif sín og þó börn hans væru óskilgetin voru dætur hans það góðir kvenkostir að höfðingjasonum sæmdi. Sama árið sem hann gerði félag við Elallveigu 1224 gifti hann Ingibjörgu dóttur sína Gissuri Þorvaldssyni. Þorvaldur var stórættaður og valdamikill. Saina ár gifti hann Þór- dísi dóttur sína Þorvaldi Vatnsfirðing, sem þá var valda- mestur höfðingi í Vestfjörðum. Hallberu skilgetna dótt- ur sína hafði hann gift Árna óreiðu 1218 áður en hann fór utan. Sama árið og hann var að gifta hinar dætur sínar skildu þau Hallbera og Árni. En 1228 giftir hann Hallberu Kolbeini unga. Talið var að Snorri hafi verið hliðhollur Solveigu Sæmundardóttur þegar búi hennar í Odda var skift og Sturla Þórðarson lætur að því liggja að .Snorri hafi haft augastað á öllu saman Solveigu og arfahluta hennar. En Sturla Sighvatsson varð þar hlutskarpari því 1223 kvænist hann Solveigu. Með mágsemdum sínum hafði Snorri enn fært út áhrif sín og virðist svo sem hann hafi ekki verið árenni- legur andstæðingur ef hann hefði kunnað að hagnýta sér aðstöðuna sem hann hafði nú hlotið. En Snorri sýnist ekki hafa verið glöggskyggn stjórnmálamaður. Honum hafði hlekkst á í utanförinni. Hann hafði ekki haldið sjálfstæði sínu gagnvart Skúla jarli og aðstaða hans gagn- vart löndum sínum varð þessvegna veikari. Hann virð- ist hafa ofmetið sæmdir þær sem hann hlaut í utanlands- förinni. í stað þess að leitast við að styrkja böndin við frændur sína fer hann með áreitni á hendur Sturlu Sig- hvatssyni og eins og áður er vikið að, með undirferli og baktjaldamakki með Þórði bróður sínum tóku þeir Snorr ungagoðorð af Sturlu. Nú bættist það við erfiðleika þá sem Snorri af vanhyggju bjó sér að tengdasonum hans gekk illa að tjónka við dætur hans. Gissur hinn upp- rennandi kraftur skildi við Ingibjörgu og Kolbeinn ungi skilaði Hallberu fárveikri og Þorvaldur Vatnsfirðingur var brenndur inni. Hann hafði í upphafi valdaferils síns glatað tiltrú og samúð Sæmundar í Odda og Oddaverja yfirleitt. Allt varð þetta og fleira til þess að mitt í auð- æfum sínum og veldi einangraðist Snorri og treystist ekki til að hamla gegn ofsa og uppgangi Sturlu Sighvats- sonar og hrökklaðist undan honum úr Borgarfirði. Órækja launsonur Snorra kvæntist Arnbjörgu systur Kolbeins unga 1232. Deila hafði risið milli Kolbeins og Snorra út af skiftunum vegna fráfalls Hallberu. Snorri krafðist helmingaskifta og goðorða í Norðurlandi. Á Alþingi 1232 var Snorri með „átta hundruð manna“ en Kolbeinn með sex hundruð. Kolbeinn var tregur til sátta á grundvelli þess er Snorri krafðist. Þó lauk því svo að Kolbeinn átti að greiða eitthvað fé ef Snorri vildi heimta það. Þá átti Orækja að fá Arnbjörgu eins og áður segir, og sextíu hundruð með henni, en Snorri skyldi leggja Órækju til tvö hundruð hundraða og Stað á Mel og goðorð Hafliðanaut. En Snorri átti að eiga helming þeirra goðorða, sem Kolbeinn átti í Norður- landi. Órækja varð óþægur föður sínum og lá við fullum fjandskap milli þeirra. Á þessu tímabili lék Snorri tveim skjöldum við frænd- ur sína og bræður. Hann vildi vingast við þá þegar hann stóð höllum fæti gagnvart öðrum, en þeir, sérstaklega Sturla tóku ekki tillit til ráðríkis Snorra og fóru sínu fram eftir ástæðum, eins og t. d. í skiftunum við Vatns- firðinga þá bættist það á andstreymi Snorra að Jón murtur sonur hans varð fyrir því að vera særður í fyll- iríisáflogum út í Noregi. Sár þetta varð honum að bana. Gissur Þorvaldsson var þar viðstaddur og tortryggði Snorri hann í sambandi við þennan atburð. Nokkru eftir að Snorri fluttist að Reykholti gerðust þau tíðindi, að norður í Húnaþingi risu deilur og ófrið- ur milli þingmanna Snorra þar nyrðra. Það kom því til kasta hans að setja niður ófrið þann. Snorri fór með nokkra menn þangað og boðaði þá fund og ætlaði að sætta þá. Sáttafundurinn átti að vera á Melstað. Þangað komu deiluaðilar allfjölmennir og sló undir eins í bar- daga milli þeirra. Snorri hét á þá að berjast ekki en þeir sinntu því engu. Þorljótur á Bretalæk sneri sér til Snorra og bað hann ganga á milli, en Snorri taldi sig ekki hafa lið til þess, „við heimsku þeirra ok ákafa.“ Sturla segir að „Þorljót- ur veitti Snorra hörð orð.“ Þorljótur hefur blátt áfram skammað Snorra og brigslað honum um vesælmennsku. Sjálfur safnaði Þorljótur saman hestastóði og rak það milli ófriðaraðilanna og skildi þá þannig. Snorra tókst svo að sætta þá og gerði um mál þeirra. Af þessum at- burði er augljóst að Snorra hefur skort bæði snarræði og karlmennsku til að taka þátt í verulegum átökum. En honum tekst með fortölum að koma á sáttum eftir og Þorljótur frá Bretalæk var búinn með snarræði að rjúfa bardagann. Á þessu tímabili frá því að Snorri kom heim úr utan- landsför sinni og þar til Sturla hrakti hann frá Reyk- holti hefur oltið á ýmsu en ekki verður þess vart að hann hafi gert neitt sem miðaði að því að fá íslendinga til hlýðni við Noregshöfðingja. Hinsvegar hefur Snorri haft alla viðleitni til þess að auka völd sín og auð og gert það sem í hans valdi stóð til að fjölga áhangendum sínum í gegn um mægðirnar. Hér á undan er bent á að árangur þeirrar viðleitni var minni en stofnað var til. Ófriðurinn sem var af Guðmundi biskup góða var í algleymingi á þessu tímabili og varð til þess að erki- biskup fékk tilefni til afskifta af málum íslending-a. Það stóð þá heldur ekki á því að erkibiskup þættist þurfa að hafa tal af höfðingjum á íslandi. Þeim Skúla og Hákoni hefur þá líka verið farið að lengja eftir því að Snorri efndi loforð sín. Þessir þre- menningar í Noregi sendu því orðsendingu til Snorra og ýmsra annara goðorðsmanna um að koma til Nor- egs. Snorri fór því utan 1237 og nokkrir aðrir áhrifa- menn. Framhald. Heima er bezt 253

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.