Heima er bezt - 01.02.1966, Qupperneq 30
kemur honum vel fyrir á herðatré inni í fataskáp sín-
um. Þar skal hann geymast ósnertur. Aldrei skal önnur
kona en Nanna klæðast honum. Síðan leggst Snorri fyrir
í legubekknum og reynir að hugsa skýrt þrátt fyrir
eldheitan sársaukann, sem svellur í vitund hans. Og
tíminn líður....
Erla kemur heim úr vinnu sinni klukkan rúmlega
sex, en að þessu sinni á hún erindi upp í herbergi sitt
og ætlar að ljúka því, áður en hún mætti til starfa með
móður sinni í eldhúsinu, en það er nú orðinn fastur
vani, síðan Nanna fór, að Erla gangi strax í húsverkin,
þegar hún kemur heim úr vinnu sinni á kvöldin.
Erla hefir enga hugmynd um heimkomu bróður síns,
en hún hefir þráð mjög að hitta hann eftir hina óvæntu
brottför Nönnu, og hefir alltaf verið að vonast eftir
honum á hverjum degi.
Erla ber djúpa sorg í huga vegna stallsystur sinnar.
Tvívegis hefir hún farið heim til hennar í þeim tilgangi
að finna hana, en árangurslaust. í fyrra skiptið kom
kona til dyra og sagði henni ósköp góðlátlega, er hún
spurði um Nönnu, að hún væri ekki heima. Og þegar
hún vonsvikin spurði hvenær Nanna myndi þá koma
heim, svaraði konan á sama hátt og áður, að því miður
gæti hún ekki sagt henni neitt um það.
Næsta kvöld fór svo Erla enn á ný í sömu erinda-
gerðum, og að því sinni kom ungur maður til dyra.
Hún spurði hann um Nönnu og fékk sama svarið og
kvöldið áður. Nanna var enn ekki heima. En í fyrsta
skipti ævinnar fann Erla til einkennilegrar feimni, er
hún stóð frammi fyrir þessum unga ókunna manni og
vissi augu hans hvíla á sér, svo að hún spurði hann
einkis frekar og fór sína leið. En hún ákvað þegar að
gera brátt eina tilraunina enn og reyna að ná fundi
stallsystur sinnar, hvernig sem það færi. Og í kvöld er
Erla staðráðin í því að reyna það.
Nú hefir hún lokið erindinu uppi í einkaherbergi
sínu og snýr aftur ofan af loftinu, en leið hennar liggur
þá fram hjá herbergisdyrum Snorra. Hurðin er lokuð,
en henni heyrist hún heyra eitthvert hljóð eða hreyf-
ingu þar inni. Erla nemur staðar og hlustar og heyrir
nú greinilega, að marrar í legubekknum þar inni. Snorri
bróðir skyldi þó ekki vera kominn heim! Hún gengur
fast að dyrunum og drepur létt á hurðina.
— Kom inn! heyrir hún sagt inni fyrir, en hún kann-
ast naumast við röddina. Þar er þó varla um aðra en
Snorra að ræða. Hún opnar dyrnar með hægð og lítur
inn í herbergið. Henni bregður þegar óþægilega við, er
hún sér bróður sinn liggja þar á legubekknum, náfölan
í andliti og með svitadropa á enni, eins og fárveikur
maður. Og henni dettur það líka strax í hug að svo sé.
Hún gengur hægt að bekknum og lýtur yfir bróður
sinn.
— Sæll, Snorri minn. Velkominn heim, segir hún
blíðlega.
— Sæl, Erla mín. Hann vefur handleggjunum um
háls systur sinnar og heilsar henni með innilegum kossi,
en felur svo andlit sitt undir vanga hennar eins og lítill
drengur. Erla finnur að vangi hans verður votur. Hún
þrýstir sér enn þéttar að honum, og síðan er þögn um
stund.
En svo sleppir Snorri systur sinni snögglega og býð-
ur henni að setjast á legubekkinn hjá sér. Erla sezt var-
lega niður og spyr svo lágt.
— Ertu lasinn, Snorri minn?
— Nei, það er ég ekki.
— Jæja, það er ágætt. Ég þakka þér innilega fyrir
fallega kjólinn, sem þú sendir mér um daginn.
— Ekkert að þakka, Erla mín. Ég vona að þú hafir
getað notað hann.
— Það efast ég ekkert um að ég geti, en ég er ekki
farin að máta hann á mig ennþá. Þetta var um kvöldið,
daginn sem Nanna fór héðan, sem mamma lét mig fá
sendinguna frá þér. Og ég hefi verið eitthvað svo leið
síðan, og ekki einu sinni haft sinnu á því að fara í nýja
kjólinn minn. En hann er dásamlega fallegur eins og
allt annað, sem þú hefir valið handa mér að gjöf, elsku
bróðir minn.
— Jæja, Erla mín. Svo að mér skilst þá, að það hafi
verið sama daginn, sem ég kom hingað heim, sem
Nanna fór héðan.
— Já, Snorri. Og ég er tvívegis búin að fara í heim-
sókn til Nönnu, síðan hún fór héðan, en í hvorugt
skiptið hefir hún verið heima. Og nú er ég fastráðin
í því að gera þriðju tilraunina í kvöld og reyna að ná
fundi hennar, þegar ég hefi lokið við að hjálpa mömmu
í eldhúsinu. Kemur þú kannski með mér, Snorri minn?
Snorri andvarpar sársaukafullt: — Það er tilgangs-
laust, Erla mín. Ég er búinn að fara heim til Nönnu
í dag. Hún er ekki hér á landi.
— Ekki hér á landi? — Hvar þá?
— Það er leyndarmál, sem Nanna sjálf hefir beðið
um að þögnin geymi.
— Hvernig getur staðið á þessu?
— Já, það er nú stóra spurningin. Veizt þú nokkuð
sérstakt í sambandi við brottför Nönnu héðan?
— Nei. Mamma sagði okkur pabba aðeins, þegar við
komum heim frá vinnunni um kvöldið, að það hefði
orðið samkomulag hjá þeim Nönnu og henni, að Nanna
fengi sig lausa úr vistinni þennan dag, og annað veit
ég ekki.
— Svo að Nanna kvaddi þig þá ekki?
— Nei, hún nefndi það ekkert, þegar ég var heima
um hádegið umræddan dag, að hún ætlaði að fara héð-
an. En þegar ég kom inn í herbergið okkar um kvöldið,
lá sending frá Nönnu til mín á náttborðinu mínu. Og
nú langar mig til að sýna þér strax, hvað það var, sem
hún gaf mér.
— Já, blessuð, gerðu það.
— Erla rís á fætur og gengur hljóðlega inn í herbergi
sitt og sækir Nýja-Testamentið frá Nönnu. Síðan sezt
hún aftur hjá bróður sínum og réttir honum bókina.
66 Heima er bezt