Heima er bezt - 01.02.1966, Page 33

Heima er bezt - 01.02.1966, Page 33
haldið kyrru fyrir. Hugsa sér að það skyldu eiga að koma krakkar í Kot, — henni var bæði um og ó. — Afi var hættur að svara þó hún spyrði hann einhvers, hann bara taldi tuttugu og einn, tuttugu og tveir, o. s. frv. Ástandið var orðið svo óþolandi, að Hanna María hafði sagt upp samningnum. Þá hafði afi hlegið hátt og dátt. Aldrei skyldi hún láta afa leika svona á sig aftur. „Hvaða ráp er þetta í þér, krakki?“ sagði amma höstug, þegar Hanna María kom inn í baðstofu til að líta á klukkuna, sennilega í tuttugusta sinn eftir að afi fór. Amma hafði lagt sig útaf og ætlað að láta sér líða í brjóst, áður en ófriðurinn hæfist, því hún var eins viss um það og Hanna María, að nú væri rólegheitunum í Koti lokið, að minnsta kosti í bráð. Það lá við að amma hlakkaði til haustsins, og þó var sumarið sama sem nýbyrjað. „Amma, stendur ekki klukkan?“ spurði Hanna María. „Sér er nú hver vizkan,“ hnussaði í ömmu. „Heyr- irðu ekki í klukkunni, barn?“ Hanna María hlustaði, jú, hún heyrði greinilega að klukkan gekk, en hún rétt silaðist við að segja: Tikk-takk, — tikk-takk, eins og ekkert lægi á. Klukkunni og ömmu var alveg sama þó tíminn væri lengi að líða í dag, þær voru bara fegnar að friður og ró ríkti sem lengst. Sonja og Sverrir komu í heimsókn og fengu að hjálpa til að rifja litlu flekkina. Sverrir gerði samt lítið gagn, hann ólmaðist við Neró, lét hann leggj- ast niður og bar á hann hey, unz ekkert sást nema hausinn, en þá stóð Neró upp og hristi sig svo heyið ýrðist í allar áttir. Þá var litla ólátabelgnum skemmt: „Fela Senna og Nóa,“ sagði hann við stelpurnar, og Hanna varð að láta það gott heita, að nýrifjaður flekkurinn væri gerður að einni hrúgu til að hylja þá félaga. „Húrra, þar er afi að koma!“ hrópaði Sonja allt í einu. Flanna þaut á fætur. Jú, þarna var hvíti bát- urinn að koma. Þær leiddu Sverri á milli sín niður í lendinguna. Neró og Harpa komu í humátt á eftir. Hanna leit á fötin sín, hún var í hvítri blússu og stuttbuxum, sem Ninna hafði saumað á hana. Ninna kallaði þetta sólföt. Jú, hún var fín. Að vísu var hárið orðið úfið, og hey í því, en það var eins ástatt með Sonju, svo það gerði ekkert til. Stór og feitur strákur ætlaði að stökkva í Iand úr bátnum, áður en hann stöðvaðist. Afi kallaði til hans að sitja kyrr, en það var of seint, strákurinn stakkst beint á hausinn í sjóinn. Hann rak upp heljarmikið öskur, þegar honum skaut upp aftur, svo Neró gerði sér lítið fyrir og stökk út til hans, hann hélt víst að strákurinn væri að drukkna. Strákurinn æpti heróp að seppa og flýtti sér upp á þurrt land. „Við ljón og tigrisdýr er ég ekki smeykur, en þessa voðaskepnu kann ég ekki rétt vel að meta sem sundfélaga,“ sagði hann og hristi sig allan og stökk í loft upp til að hita sér. „Fífl,“ sagði stelpan með fyrirlitningu. Hún var eins grönn sem hann var feitur, annars voru þau ótrúlega lík. Það kom líka upp úr kafinu, að þau voru tvíburar og tólf ára gömul. Strákurinn heilsaði stelpunum með því að taka svo fast í hendur þeirra að þær æjuðu upp yfir sig. — Þvílíkur fantur! En stelpan kinkaði aðeins kolli og sagði sælar. Henni fannst víst ekki taka því að heilsa Sverri, hvað þá Neró. „Jæja, krakkar mínir, þá er bezt að halda heim í Kot, amma er sjálfsagt búin að hita kakó handa ykk- ur, en fyrst verðið þið að kynna ykkur.“ Þau þögðu öll og horfðu hvert á annað. „Jæja þá, þetta er Hanna María,“ sagði afi, „þetta er hún Sonja úr heimabænum, sem heitir Fellsendi, og þetta er Sverrir bróðir hennar. Þið verðið svo sjálf að segja til nafns, því sannast að segja er ég bú- inn að gleyma, hvað þið sögðust heita.“ „Viktor heiti ég, kallaður Vikki,“ sagði strákur- inn hressilega og klæddi sig úr jakkanum og skyrt- unum. „Viktoría Ólsen heiti ég,“ sagði telpan tilgerðar- lega. „Kölluð Vigga,“ sagði strákurinn. „Ég heiti Viktoría, asninn þinn,“ sagði telpan og bjóst til að berja bróður sinn. En það orðbragð, hugsaði Sonja, hvað ætli mamma segði, ef hún heyrði þetra. Viktoría var auðsjáanlega dauðhrædd við Neró. Hún gaut augunum til hans útundan sér og færði sig undan, fyndist henni hann nálgast sig um of. „Þú ert byrjaður að hjakka, karlinn, kringum kotið þitt,“ sagði Viktor, þegar þau komu heim að bænum, og spýtti hraustlega. Afi leit á hann kíminn: „Já, ég bar út í gær, ég er alltaf vanur að gera það á laugardegi.“ „Ha, barstu út?“ spurði strákur alveg utangátta. Heima er bezt 69

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.