Heima er bezt - 01.05.1968, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.05.1968, Blaðsíða 29
Það kom hreyfing á hópinn. Tveir virtust hafa reiðhjól við hendina og lögðu þeir báðir af stað til sýslumannsins. Nú hafði bætzt í hópinn á bryggj- unni, bæði fullorðnir sem börn. Allir virtust jafn undrandi og störðu niður í bátinn til okkar. Ég var dálítið hissa er ég sá ljósbláa „Moska“ sýslumannsins koma niður á bryggjuna. Það var meira hvað strákarnir höfðu verið fljótir til sýslu- mannsins og hann fljótur að átta sig á hlutunum. En viti menn, rétt á eftir yfirvaldinu kom svo enginn annar en rauði Skodinn hans pabba. Fréttin um komu okkar hlaut að hafa farið sem örskot um allan bæinn því að nú streymdi fólk niður á bryggjuna, gangandi, hlaupandi og akandi. Það mátti með sanni segja að koma okkar bræðra hafði vakið mikla at- hygli. Enn sem komið var, vorum við bræður um borð í séttunni ásamt Lóminum náttúrlega, svo og Jóni sem nú kom með hverja spurninguna á fætur annarri, spurði svo hratt að við komumst varla að, að svara. „Drengir, komið þegar hingað upp til mín,“ var skyndilega kallað ofan af bryggjunni. Við bræður gerðum sem okkur var sagt því að við vissum að það var sýslumaðurinn er kallaði. Þegar við svo komum upp á bryggjuna hópaðist forvitinn mannskapurinn utan um okkur, svo þétt að ég var hræddur um að við myndum kremjast til bana. En þá kom sýslumaðurinn okkur til hjálpar og bað fólk- ið að sýna stillingu og hópast ekki svona utan um okkur. Síðan spurði hann okkur um Lóminn. Við sögðum frá honum og sögðum sem var. Sýslumaður- inn horfði fast á okkur, það var sem hann væri að at- huga hvort við segðum satt eða ekki. Honum þótti það nokkuð ótrúlegt að við, tólf ára drengir, skyld- um geta handtekið fullorðinn mann. En við sögðum að þetta væri alveg dagsatt. „Jæja, drengir mínir. Alla vega ætla ég að rann- saka þennan aumingja mann,“ sagði sýslumaður. Því næst kallaði hann á tvo menn er voru þarna skammt frá og bað þá að fara niður í bátinn og koma með fangann. Gerðu þeir það þegar, og leið því ekki á löngu áður en þeir stóðu aftur á bryggjunni með Lóminn á milli sín. Þá fyrst virtist sýslumaðurinn verða undrandi því að hann hrópaði upp yfir sig svo að minnsta kosti ég hrökk í kút: „Nei, detti nú af mér allar dauðar lýs. Þetta er enginn annar en hann Snorri Brynjólfsson. Lögbrota- maðurinn sem var á hvers manns vörum fyrir tveim- ur árum þegar hann strauk frá Litla-Hrauni og hef- ur síðan ekki fundizt þrátt fyrir mikla leit. Já, Snorri minn, manstu ekki eftir mér, við vorum saman í Staðarskóla.“ Lómurinn svaraði ekki, hann var sennilega of reið- ur til þess að geta stunið upp einu einasta orði. En allt í kring kváðu nú við lág undrunaróp. Já, meira að segja við Halli vorum undrandi. Við höfðum nefnilega, sem flestir þarna á bryggjunni, heyrt tal- að um Snorra Brynjólfsson, sem strauk fyrir tveim- ur árum síðan úr einu hegningarhúsi höfuðborgar- innar, og að því er menn töldu, til útlanda. Hafði mikið verið leitað og auglýst eftir honum. En allt kom fyrir ekki, það var sem jörðin hefði gleypt hann. Hann hafði sem sé horfið á mjög undarlegan hátt eins og piparkökurnar úr búrinu heima. Já, þetta hafði þá eftir allt saman verið Snorri Brynjólfsson sem allir höfðu einu sinni talað svo mik- ið um. Að við Halli skyldum ekki þekkja hann, við sem höfðum séð myndir af honum í „Mogganum“. Jæja, annars var það ekki mikið, það var svo langt síðan við höfðum séð myndirnar af honum, svo var hann sennilega einn af þeim sem ekki eru líkir sjálf- um sér á mynd. Allt í einu fann ég að þrifið var í aðra öxl mína, ekki þó harkalega. Svo heyri ég sagt: „Hallur, Óskar, drengirnir mínir.“ Ég sneri mér við og Halli gerði það sama og nú faðmaði mamma okkur að sér og sagði um leið að hún hefði verið svo afskaplega hrædd um okkur. Já, satt að segja hafði hún haldið að við værum horfnir frá henni fyrir fullt og allt. Eiginlega vorum við Halli ekkert hrifnir af faðm- lögum, hvort sem það var mamma eða einhverjar aðrar. En núna kunnum við einhvern veginn ekki við það að gera tilraun til að brjótast úr faðmi mömmu. Við uppgötvuðum að þrátt fyrir allt þætti henni væntum okkur og það var alls ekki leiðinlegt að hugsa til þess, þegar allt kom til alls. Þegar mamma hafði svo faðmað okkur að sér dá- góða stund, sagði hún að nú skyldum við koma heim með henni, höfðum við ekkert á móti því. Þá gekk sýslumaðurinn fram og sagði að hann kæmi heim til okkar eftir rúman klukkutíma því að hann sagðist vilja heyra sögu okkar bræðranna „í réttri röð“ eins og hann orðaði það. Framhald. Heima er bezt 173

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.