Heima er bezt - 01.07.1973, Blaðsíða 22
oft átti Björn í stríði við prentara sína, sem sumir voru
drykkfelldari en góðu hófi gegndi, en hann sjálfur ein-
dreginn bindindismaður, sem víða má sjá á blaðinu.
Áskriftargjöld heimtust illa, og varð stundum að senda
prentarana eða aðra út um nærsveitirnar í innheimtu-
ferðir, og gekk þó misjafnlega. Tók hann þó á móti
gjaldinu í hverskonar varningi, ull, prjónlesi, smjöri,
sláturafurðum og fiski. Hefir sennilega enginn íslenzk-
ur blaðaútgefandi átt við jafn margþætta örðugleika að
stríða, en ekkert af þessu bugaði þrautseigju og áhuga
Björns. Segir hann margt af þessu stríði í dagbókum
sínum, sem geymdar eru í Landsbókasafni, og eru gagn-
merk heimild um sögu Akureyrar og Björns sjálfs.
Löngum er talið, að Norðanfari væri áhrifalítið blað.
Björn var frjálslyndur framfaramaður, og fylgdi ótrauð-
ur þeim flokki stjórnmálanna, sem bezt héldu fram
rétti íslands, en þessa gætir furðulítið í blaðinu. Hann
var ekki mikill rithöfundur, og þekkti vel þær takmark-
anir sínar. Skrifaði hann því lítið í blaðið, enda mörgu
öðru að sinna. Hinsvegar veitti hann viðtöku greinum
hvaðanæva, án tillits til skoðana höfunda, og voru oft
háðar harðar deilur um stjórnmál í því, t. d. milli Jóns
alþingismanns á Gautlöndum og síra Arnljóts á Bægisá.
En ekki lét Björn samt bjóða sér allt í þeim efnum.
Svo segir Skafti Jósefsson í áðurnefndri grein: „ ... að
hann hafi vitað til þess, að hann neitaði, jafnvel beztu
vinum sínum, um upptöku á greinum, ef honum þóttu
þær of afturhaldssamar.“
Stjórnmálin fylla raunar lítið rúm í Norðanfara, svo
að ef mælt er á þeirra kvarða einan saman, varð hann
áhrifalítill í þeirri baráttu, sem þá var háð. En hann
flutti greinar um ótalmörg önnur efni, er til þjóðþrifa
heyrðu, að ógleymdum fræðiritgerðum um málfræði,
sögu, náttúrufræði o. fl. En það sem gerir Norðanfara
óefað merkastan og ómetanlega heimild um samtíð sína
eru fréttabréfin úr öllum landshlutum að kalla má. Þótt
Björn skrifaði ekki mikið í blaðið, var hann óþreytandi
að halda uppi bréfaskriftum við kaupendur þess og vel-
unnara víðsvegar á landinu, og þeir launuðu með löng-
um bréfum um ástand og viðburði sveitar sinnar. Um
þenna þátt segir Þorvaldur Thoroddsen í formála að
Árferði á íslandi: „Það blað (Nf) er sönn gullnáma fyrir
menningarsögu íslands á 19. öld, þar er hinn mesti grúi
af fréttabréfum og greinastúfum úr öllum héröðum
landsins, bæði um árferði og veðráttufar einstakra hér-
aða, um atvinnu manna og bjargræði, sveitamál og
menntamál og allskonar fróðleikur annar, sem hlýtur
að verða að miklum notum, þegar farið verður að rita
ýtarlega sögu hinnar 19. aldar.“ Kunni Thoroddsen
manna bezt að finna hvar feitt var á stykkinu í þeim
efnum, og því óhætt að treysta dómi hans. í líkan streng
taka Bogi Th. Melsted í Ársriti Fræðafélagsins og Hall-
dór Hermannsson í Islandica.
Hins er og vert að geta, að margir greinarhöfundar
og bréfritarar voru lítt ritfærir, eru bréfin mörg því
harðla óaðgengileg aflestrar, og mál á mörgum þeirra
og aðsendum greinum, hvergi nærri svo vandað sem
skyldi. Nokkuð flutti Norðanfari af sögum og var
safn þeirra sérprentað síðar. Þá voru og ýmsar fræði-
greinar neðanmáls. Þegar öllu er á botninn hvolft, er
efnisfjölbreytni ótrúlega mikil, en öllu ægir saman, illu
og góðu, og þar við bætist að niðurskipan í blaðinu var
mjög ruglingsleg, og fyrirsagnir oft engar. Til þessa
benda vísur þær, er birtust í Þjóðólfi:
Þegar ég les þetta blað,
sem þykist koma norðanað,
rekur mig í rogastanz
á ruslakistu Norðurlands.
Öllu saman ægir hér,
illu og góðu sýnist mér,
rekur mig í rogastanz
á ruslakistu Norðurlands.
Trúarsnauðum veitir vörn,
í villu leiðir Drottins börn,
rekur mig í rogastanz
á ruslakistu Norðurlands.
Loddi ruslakistunafnið við Norðanfara lengi síðan,
og átti sinn þátt í, að hann hefir ekki notið þeirrar
virðingar né sannmælis, er honum bar. En sannast sagna
mun það, að Norðanfari gefur b'etri mynd af íslenzku
þjóðlífi og áhugaefnum almennings, en nokkurt annað
samtímablað hans.
238 Heima er bezt