Heima er bezt - 01.05.1978, Qupperneq 27
hæna nálgaðist þá stundum og sýndi með tilburðum sín-
um, að einnig hún hafði áhuga á að fylgjast með þeim.
Svo var það einn daginn, þegar ég fór til fjárins með Lúpu,
að hvolparnir hættu óvenju fljótt að barma sér. Fóru þá
dætur okkar og sonur að skyggnast eftir því, hver ástæðan
gæti verið. Þeim flaug í hug, að líklega hefði Lúpa ekki
farið með mér, en það var óvanalegt. Þau fóru því ósköp
hljóðlega og urðu öll jafn undrandi yfir því, sem fyrir
augu bar. Og án þess að valda neinum hávaða, hlupu þau
inn til móður sinnar, og sögðu henni fréttirnar, svo hún
gæti einnig borið vitni um þetta uppátæki hænunnar.
Liggur þá hænan á hvolpunum og breiðir sig yfir þá. Hún
sýnir aftur á móti óumdeilanlega varnarstöðu, með til-
heyrandi hljóði, ef nokkurt þeirra ætlar að verða of nær-
göngult að dómi nýju fóstrunnar. Þannig byrjaði hin
órjúfandi ást hænunnar, sem entist á meðan hún gat
nokkuð ráðið við þá.“
Þegar ég heyrði þessa sögu Ólafs, birtist í huga mínum
drengurinn, sem ólst upp meðal úlfanna, og einhver rödd
mælti:
„Það voru angistaróp ósjálfbjarga barns, sem vakti
móðurást fóstru hans, á sama hátt og eymdarhljóð
hvolpanna vöktu hana í brjósti hænunnar, sem ekki hafði
fengið að liggja á eggjunum sínum. Var það ekki líka
sennilegast, að úlfamóðirin hafi misst afkvæmi sín?“
Þetta svar þóttist ég nú skilja vel. En hvernig brást þá
hin vængjaða fóstra við móður hvolpanna, þegar hún
vitjaði þeirra? Það fékk ég síðar að heyra hjá börnum
þeirra Ólafs og Aðalheiðar. Þau hrifust strax af þessari
stórfurðulegu stjúpu hvolpanna. Ég styðst því alveg við
ummæli þeirra:
Þegar Lúpa vitjaði hvolpa sinna, þennan umrædda dag,
kom hún til þeirra af talsverðu kasti, eins og venjulega, en
snarstansaði og rak upp stór augu, af eðlilegum ástæðum.
Svo sannarlega sá hún nú, að kominn var þarna köttur í
ból bjarnar. Þó réðist hún ekki á hænuna, því þær þekkt-
ust vel og virtust mestu mátar, enda áttu þær aldrei í
illdeilum, svo orð væri á gerandi. Samt bjóst nú hænan til
varnar og leyndi sér þá ekki vandræðasvipurinn á Lúpu.
Hún velti vöngum og skáblíndi á þessa frekjudós, sem
virtist þess albúin að varna henni að komast til afkvæma
sinna. Hún hafði kynnst því, að hænur hafa býsna hvöss
nef og klær, og einnig ónota vænghnúa, þegar þær vildu
beita þessum vopnum, einkum á augu og trýni.Það gat
verið býsna óþægilegt. Lúpa hikaði því við að beita
hnefaréttinum, en færði sig þó nær, staðráðin í að láta til
skarar skríða, ef hænan léti ekki í minni pokann eftir litla
stund. Þetta virtist hænan skilja, því augnaráð Lúpu var
óvenju biturt, enda var henni það vel ljóst, hver endirinn
yrði, ef til alvörunnar kæmi. Hún vék því með hægð af
hvolpunum, sem virtust skynja, á augabragði, návist
móður sinnar, er lagðist óðara hjá þeim, og voru þeir þá
fljótir að góma spenana, sem þeir höfðu leitað að á hæn-
unni án árangurs.Nú stóð hún þögul skammt frá og horfði
á þessar aðfarir þeirra. Svo hvarf hún til stallsystra sinna.
Hún virtist hafa áttað sig á því, að það væri ekki á hennar
færi að veita þessum blessuðu litlu bobbum þá þjónustu.
Þessa ágcetu teikningu gerði Brynjar Halldórsson, bóndi á
Gilhaga í Öxarfirði, sömu sveit ogþessi óvenjulegi atburður
gerðist, fyrir nœstum 45 árum. Það leynir sér ekki undrun-
arsvipurinn á uppliti hvolpanna og sömuleiðis einbeitni
hœnunnar — í háttum sínum — að verja þá.
sem þeir gátu ekki án verið. En fallegir voru þeir og svo
undursamlega mjúkir og heitir.
Þannig hélt þessi samvinna áfram. Hænan fylgdist vel
með því, þegar Lúpa yfirgaf hvolpana. Þá var hún óðara
komin til þeirra og hjúfraði sig yfir þá. Brást þá ekki að
þeir þögnuðu, en hænan lýsti ánægju sinni með lágum,
róandi dekurhljóðum. Þau virtust hafa svipuð áhrif og
ósvikin svefnlyf á hvolpana.
Á þennan hátt fullnægði hænan móðurást sinni, sem
hélst þar til hún réð ekkert við þá, fyrir ærslum og galsa-
gangi. Þá átti hún þess einn kost að flýja frá þeim og forða
sér upp á prik eða slá, þar sem þeir náðu ekki til hennar.
Þar sat hún stundum lengi og horfði, alveg steinhissa á
þessa fjörkálfa, sem ætluðu að troða hana undir fótum og
höfðu líka til að glefsa í hana og beita því vopninu, sem
henni var verst við, og við köllum kjaft. Eftir nokkrar
vikur varð því óttinn við þessi fósturbörn ástinni yfir-
sterkari, þegar hún fann að einhver vígahugur virtist grípa
þá, einkum þegar hún beitti vængjunum. Aftur á móti var
þeim meinilla við nefið, og þó allra verst þegar hún greip
um trýnið á þeim með klónum. Þá áttu þeir til að hætta
skyndilega, hörfa frá henni og glápa á hana. Þeir áttuðu
sig sýnilega ekkert á því, hvernig á því stóð að þessi und-
urmjúki ylgjafi þeirra var orðinn þeim svo fráhverfur, þvi
eigin breyskleiki var þeim með öllu hulinn.
Sumardaginn fyrsta 1978.
Heima er bezl 171