Heima er bezt - 01.01.1980, Page 38

Heima er bezt - 01.01.1980, Page 38
29. KAFLI Kvöldstund í litlu baðstofunni Bjössi og Úlla áttu dóttur sem hét Birna Ragnhildur, eftir afa sínum og ömmu. Hún var á þriðja árinu og þá var von á öðru barni. Þá skrifaði Bjössi frænkum sínum í Þrándarholti og sagðist vera í kvenmannshraki. Tegndamóðir hans var orðin heilsulítil og Ásthildur farin að heiman. Hann sagði að það væri enga manneskju að fá í Hamradal og þó víðar væri leitað. Hann langaði þau lifandi ósköp til að Dóra kæmi og yrði hjá sér, þó ekki væri nema mánaðartíma. Þetta var um haust, sláturstörfum að mestu lokið. Guðbjörg vildi endilega að Dóra reyndi að fara. Dóru langaði til að gera þetta, en aftók að fara nema stúlka fengist á meðan hún væri í burtu. Ég fór niður í Beruvík og krækti í fimmtán ára stelpu, sem var kölluð Kata. Mamma hennar sagðist vita, að hvergi færi betur um hana en hjá Guðbjörgu í Þrándar- holti, sín vegna mætti hún vera þar eins lengi og hún vildi. Nokkrum dögum seinna flutti ég Dóru til skips, nú ætlaði hún að kanna ókunna stigu. Svo liðu dagarnir og voru hver öðrum líkir. Allir söknuðu Dóru þó enginn talaði um það. Kata litla var dugleg og viljug og bar ekki á að henni leiddist. Hún svaf í rúminu hennar Dóru. Mánuði eftir að Dóra fór, fékk Kata að fara heim til sín og vera þar um helgi. Á laugardag reiddi ég hana niður í Víkina og kom heim með bréf frá Dóru til Guðbjargar. Hún tók við því og fór með það inn til sín. Þegar búið var að borða kvöldmatinn kom hún inn í húsið til mín og sagði: „Trúirðu því, að öll þessi ár sem ég er búin að vera í litlu baðstofunni, hef ég aldrei verið ein um nótt — ekki eina einustu nótt? Þegar Dóra fór suður, sællar minningar, þá var Bjössi hjá mér.“ „Kvíðirðu fyrir að vera ein í nótt?“ spurði ég. „Það liggur við,“ svaraði hún. „Kannski þú viljir vera héma inni hjá mér?“ spurði ég. „Æ.nei, ég held að ég kunni ekki við mig hérna, en mér þætti gott ef þú vildir vera frammi hjá mér,“ sagði Guð- björg. „Það skal ég gera með ánægju,“ sagði ég, „því sannast sagt þá hef ég hvergi kunnað eins vel við mig og í litlu baðstofunni." Svo fór ég fram með rúmfötin mín og bjó um mig í rúminu hennar Dóru og settist á rúmstokkinn og las | blöðin sem ég kom með um daginn. Svo leið að háttatíma, Guðbjörg kom þá inn og sagðist vera búin að öllum kvöldverkum. Hún tók bréfið frá Dóru upp úr kommóðuskúffu og bað mig að lesa það fyrir sig. „Ég las það að vísu áðan en sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Gleraugun þreyta mig og ég hef aldrei verið dug- leg að lesa skrift. En það er nú gott að lesa skriftina hennar," ságði Guðbjörg. Ég byrjaði að lesa: Úlfsstöðum í Hamradal 19. nóv. 19 - - Elsku Guðbjörg frænka mín. Ég vona að þið verðið öll frísk og glöð, þegar þú færð þetta bréf. Ykkur hefur líklega verið farið að lengja eftir bréfi frá mér, en ég var nú að bíða eftir því að geta sagt miklar fréttir. Hér fæddist sonur fyrir tveimur dögum, stór og myndarlegur. Móður og barni heilast vel og gleðin er mikil. Bjössi segir að ég megi ekki fara fyrr en eftir áramót, því það á að skíra litla manninn á jólunum. En ég get nú sagt ykkur hvað hann á að heita: Hann á að heita Sigurður Gunnar, eftir Sigurði okkar frá Víðigerði og Gunnari sáluga bróður Bjössa. Pabbi hans segist vona að hann erfi dugnaðinn og mannkostina hans Sigurðar og fríðleikann og gáfurnar hans Gunnars. Hann hefur brún augu, erfir þau frá móður sinni. Birna amma hans er orðin nokkuð frísk, hún er ósköp góð við mig, eins og allir hérna. Mig langar ósköp mikið að vera hér um jólin og helst lengur, því hér kann ég vel við mig. Mér finnst Hamradalurinn yndislegur. Þegar ég kom hingað var svo ósköp gott veður og alveg snjólaust, ég gleymi því aldrei, hvað mér fannst dalurinn hlýlegur og vinalegur. Nú hefég séð hann í vetrarbúningu. Annars hefur verið ósköp góð tíð hér, fjöllin eru tignarleg í hvíta möttlinum, en hvernig ætli þau séu í vor og sumarskrúða? Það liggur við að mig langi til að vera hér til vors, en það er nú líklega of mikil eigingirni af mér að vilja vera svona lengi. Eg vona að Kata reynist vel, mér líst vel á hana. Það er vetrarmaður hér, hann er utan frá sjó. Rögn- valdur bóndi er bara hress. Bjössi kemur heim um helgar, stundum oftar. Ég fór til kirkjunnar um daginn og sá þá konu sem minnti mig svo mikið á Erlend Valdimarsson. Bjössi sagði mér að hún væri systir hans og héti Jóhanna og væri indæl manneskja. Hann sagði að Geiri hlyti að muna eftir henni. Ég ætti nú víst að skammast mín fyrir að kalla Ásbjörn Guðmundsson Bjössa, þegar hann er orðinn kennari á þeim virðulega stað Hvoli í Hamradal, en konan hans kallar hann Bjössa, þá geri ég það líka. Mér finnst nú reyndar að Bjössi og Geiri og ég séum eins og systkin. Bjössi biður mig að skila kveðju til ykkar allra. Hann sagði: „Gaman væri nú ef fólkið á Tungufelli og Þrándarholti gæti komið hingað á jólunum. En það þýðir nú lítið að hugsa um það.“ En einhverntíma fáið þið að sjá þau litlu systkinin. Birna litla er fallegt barn, hún er lík pabba sínum. Ég fer nú að hætta þessu rugli. Gaman þætti mér að fá línu frá ykkur við tækifæri. Skilaðu voðalega góðri kveðju til allra á bænum og líka til hjónanna á Tungufelli ef þú hittir þau. Guð veri með ykkur öllum. Þín frænka Halldóra Steinþórsdóttir. 30 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.