Heima er bezt - 01.09.1983, Page 33

Heima er bezt - 01.09.1983, Page 33
erst þótti mér við þetta að nú þurfti ég að fara upp á morgnana kl. hálffimm til að gefa þeim og ganga tölu- verðan spöl í myrkrinu að hesthúsinu, sem var ekki alveg hættulaust. Mér var sagt að hafa með mér byssu, því timburúlfarnir voru þéttir þar í kring á nóttunni og gengu uppá þökunum á kofunum. Þeir hafa líklega verið hungr- aðir og fundið matarlyktina út, og ef eitthvað var skilið eftir úti var það rifið og tætt., Til að sýna græðgi þeirra má eins segja hvað skeði skammt frá okkar stað. Bóndi nokkur bjó hér fimm mílur í burtu og hafði 40 kindur í kofa. Eina nótt brutust úlfarnir inn og drápu allar kindurnar. Um líkt leyti réðust þeir á póstmanninn sem keyrði hunda-sleða, og allt sem fannst af því, var sleðinn og aktygin af hundunum, annar handleggur af manninum og nokkur bréf, en þar lágu 10 dauðir úlfar sem maðurinn gat skotið áður en hann var ofurliði borinn. Harður bardagi hefur það verið og ægilegur fyrir einn mann að verjast þessum stóru timburúlfum. Indíáni vann með okkur þarna sem hafði með sér boga og eitur. Hann náði mörgum úlfum, stundaði það í hjá- verkum og hafði talsvert upp úr því. Samkomulag mannanna á staðnum var gott, þó þeir væru mislitir. Þeir styttu sér stundir við spil og flest laugardagskvöld spiluðu menn þar póker, og þá voru hér aðkomnir menn, flestir franskir, og voru með summur af peningum. Matreiðslumenn okkar voru báðir franskir, og þeir létu sig aldrei vanta við spilaborðið. Hvaðan þessir menn komu vissum við ekki, en hafa líklega verið nokkuð langt að. Eina nótt vöknuðum við og einhver hratt upp hurðinni, og þá reið af skot fyrir utan dyrnar. Við brugðum upp vasaljósi og sáum að þetta var annar matreiðslumaðurinn. Hann hafði byssu í hendi sér og lítinn strigapoka á stærð við stóran vettling í henni. Það voru peningar — líklega gull, því við sáum að þeir höfðu mikið af þvi á borðinu þegar þeir spiluðu. I matarskála okkar spiluðu þeir annan hvern laugardag, en hvar þeir spiluðu hinn daginn var okkur hulið. Þetta hefur verið mikið fé sem maðurinn var með, og sýndist hann reiðubúinn til að verja það í síðustu lög. Sá sem var úti kallaði í höstum róm og því var svarað í sama tón, en ekki skildum við neitt af því, því þeir töluðu frönsku. Það var komið undir morgun þegar hann læddist frá hurðinni og út um bakdyrnar, inn í eldhúsið og meir um þetta heyrðist ekki, en hann fór ekki út eftir að farið var að skyggja á kvöldin, og ekki komu þessir póker-menn eftir það á staðinn. Svo leið tíminn og nú er komið í enda marz-mánaðar. Og nú þurfum við að tala við Murray, og segja honum að við færum 1. apríl af stað til Winnipeg, því þar værum við ráðnir við húsamálningu yfir sumarið. Hann varð nú hinn versti og kvaðst ekki skilja að við hefðum neitt betra uppúr því að hætta hjá sér, því nú ætli hann að hækka kaupið við alla þá sem vilji vinna hjá sér til næsta hausts upp í $ 85 á mánuði, en að sækja menn til Winnipeg kosti sig ærið fé og tímatöf og nú eins og stendur sé hann langt á eftir með verkið sem átti að vera klárt á vissum tíma. Og karlskratt- inn viknaði; svo mikið þurfti hann okkar með. Og þegar hann var búinn að tala út varð löng þögn. Þessu höfðum við ekki búist við. Þetta var gott boð og kaupið ágætt á þeim tíma. Og svo er rætt um þetta fram og aftur. Okkur leiddist þarna og vorum vanir borgarlífi en ekki þessu villimannalífi, og ofan á allt þetta bættist að okkur var sagt að þarna væri ólifandi að vorinu fyrir flugnavargi sem æti mann upp lifandi nótt og dag, og það var víst engin lygi. Og útkoman varð sú að allir gengu að þessu boði karlsins nema fimm: við landarnir þrír, einn Skoti og svo maður frá Vancouver B.C., sem hafði verið matreiðslu- maður á þessum stöðum í langan tíma. Nú snýr karl sér að okkur enn á ný, óður og uppvægur, og ætlar sér að vinna okkur, en við stóðum fast við okkar keip, og sögðum að hann gæti séð það sjálfur að við gæíum ekki verið hér og verið ráðnir við okkar iðn, enda væri okkar tími útrunninn sem við hefðum skrifað undir í Winnipeg. Þá segir hann: „Þið getið verið hér einn mánuð lengur.“ Þar sýndi hann krókabrögð sín, því ef við færum ekki af stað strax áður en fór að þiðna, var landið algjörlega ófært, djúpar ár og mýrarfen. Hann hefur búist við að við hefðum ekki athugað þetta. Svo labbar hann frá okkur þungur á svip, og sá að hér gat hann ekki þokað neinu. Svo rann upp sá langþráði, stóri dagur, 1. apríl 1912, sólbjartur og fagur, sama sem frostlaust og blæjalogn. Ekki margt að því að hlaupa apríl í svona góðu veðri með vorið framundan og allt var að lifna, og kasta af sér vetrar- drunganum. Já, svona leit það út þá. Við vorum allir við góða heilsu og kviðum engu, því það var vorgróður í sál okkar og fögnuður yfir því að vera nú frjálsir um stund og lausir við bölvaðan karlinn. Um morguninn er farið snemma á fætur og við göngum til morgunverðar með hinum eins og vant var, ætluðum að borga fyrir matinn ef fram á það yrði farið, en ekki var það nefnt er við stóðum upp frá borðinu. En karlinn kemur inn, heldur þungbúinn á svip. Hann réttir okkur öllum tékka $ 150 dollara hverjum, stilað á banka í Winnipeg. Við biðjum hann að breyta einum tékkanum og láta okkur fá $ 5 dollara hvem svo að við gætum keypt okkur matarbita á leiðinni. Nei, það sagði hann að sér kæmi ekki við hvemig við fengjum mat. „Jæja, þú lætur okkur þá fá mat í nestið.“ „O nei, engan mat meira hjá mér, hvorki hér né á öðrum stöðum á leiðinni.“ Þá fór okkur nú að detta ýmislegt í hug af því sem búið var að segja okkur, og að eitthvað væri satt í öllum sögun- um sem okkur fundust svo ótrúlegar. Dótið okkar tíndum við nú saman sem ekki var mikið: Eitt brekán og lítil taska, sem hver hafði. Enda reyndist það nógur farangur síðar meir. Matreiðslumaðurinn var kunn- ingi okkar og ætlaði að gefa okkur matarbita í nestið um leið og við færum af stað. En karlinn hefur víst grunað það og sat yfir honum þar til við vorum famir. Við göngum nú hratt, því gangfæri var gott. Snjórinn sem eftir var, var harður svo ekki markaði spor. Heimaerbezt 301

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.