Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1985, Page 10

Heima er bezt - 01.03.1985, Page 10
ur kom upp, að stúlkur einhverjar, væru að senda Sigurjóni ljóðabréf. Var það ýkt svo mjög, að Lofti ætti að þykja ljóðabunkinn til þrengsla í baðstofunni. Nú orðið man ég ekki nema eina heila vísu úr þeim brag og brot úr öðrum. Vísan er svona: Loftur þetta líður ei, Ijóðin út vill bera. Sigurjón þá segir nei sit og lát þau vera. Síðustu vísuorðin voru: — ber út l/óðabaggann minn best sem fljóðin yrkja. Nú ganga vinnumennirnir niður Keldunúpsbrekkurnar og hverfa aftur til sinna daglegu starfa. Það er kominn 30. júlí þetta sama merkis sumar. Fyrirfólkið úr Þing- vallaförinni, útlent og innlent, er komið til síns heima. Læknishjónin á Breiðabólstað hafa fært öllu heima- fólki sínu gjafir og sagt sögur frá há- tíðahöldunum. Allar fóru þær frá- sagnir gjörsamlega inn um annað eyrað og út um hitt, nema ein. Einn maður var þess verður að nafn hans festist í minni óafmáanlega. Sá maður hafði gengið um Þingvöll klæddur fommannabúningi, litklæðum, með hjálm á höfði og með atgeir á lofti. Það var Oddur Sigurgeirsson hinn sterki af Skaganum. Heyskapur hafði víst gengið bæri- lega fram undir þetta. Túnaslætti er lokið og farið að slá á engjum. Þó hafði verið þurrklítið undanfarna daga og fyrirsjáanlegt var að enginn heyþurrkur að gagni yrði þennan dag. Þó var stillt og gott veður. Það lá svo sem ekkert á að slá meira, ef heyið ætti bara að hrekjast á engjunum. Menn rétt silast við orfið, gefa sér góðan tíma til að brýna, tylla sér jafnvel á þúfu og rifja upp gamla vísu. Ef fer sem nú horfir munu síðari kyn- slóðir varla skilja merkingu hennar af eigin reynslu: Niður setja má eg mig meðan hvet eg Ijáinn, svo skal hetjan hermannlig honum etja á stráin. Það er liðið nær um hádegi, og þá allt í einu verður breyting á öllu. Það kemur sendiboði hlaupandi frá bæn- um og niður á engjarnar. Hann ber þau boð að nú skuli farið til selveiða í Hvalsíki. Sem flestir verkfærir menn er hlut eiga að máli eru boðaðir til þeirrar ferðar. Steingrímur er auðvit- að sjálfsagður, þaulvanur selveiði- maður. Og ég skyldi fara líka til upp- fyllinganna, mundi teljast verkfær maður eða nærri því. Steingrímur hendir umsvifalaust frá sér orfinu og hleypur í spretti heim til bæjar. Ég gef mér tíma til að strjúka brýn- inu eina stroku meðfram egginni á ljánum, til þess að skrattinn skyrpti ekki í eggina. Ég legg orfið niður eftir settum reglum og sting ljásoddinum í þúfu. Þessar reglur hafði faðir minn kennt mér 5 eða 6 ára gömlum. Ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni brotið þær. Síðan hleyp ég heim á eftir Steingrími. Þá er búist til ferðar með skyndi og tekinn til nestisbiti. Það er mikill asi á Steingrími. Hann rekur á eftir mér, sem ekki var venju- legt. Hross eru tiltæk heimavið. Um þessar mundir er á Breiðabólstað mikið úrval gæðinga svo að vart mundi á öðrum bæjum betra. Snorri læknir er afburða hestamaður og leggur mikið kapp á að eignast gæð- inga. Hann hefur haft erindi sem erf- iði. Ég er heppinn, ég fæ minn uppá- halds reiðskjóta. Það er Mósa. Þótt hún sé flugólöt er hún afar taumliðug og viðráðanleg og svo ganggóð að vart varð á betra kosið. Ég man ekki fyrir víst hvaða hesti Steingrímur reið, en tel að það hafi verið Glæsir. Nú er lagt á hestana. Það er einn selakeppur til á Breiðabólstað. Líklega eru margir núorðið, sem ekki skilja orðið. Þessi keppur er löng og sterkleg eikarkylfa, um einn og hálfur metri á lengd. Á sverari endann, en hann er ferkönt- óttur, er traustlega festur stór og sterkur járnkrókur. Með keppnum átti maður að rota selinn, krækja í hann með króknum og draga að landi. Steingrímur grípur keppinn og stekk- ur á bak hinn vígalegasti. Ég er hálf- lúpulegur, verð að fara vopnlaus til bardagans, en hugsa mér að finna eitthvert sprek í fjörunni. Það er hleypt af stað. Við eigum lengst til- dráttar og höfum fengið boðin síðast- ir, erum sennilega orðnir langt á eftir öllum. Breiðabólstaðarhrossin eru ekki vön neinni kerlingarreið, en nú finnst mér nóg um hversu hart Stein- grímur ríður. Það er farin skemmsta leið, syðri leiðin er svo var nefnd, yfir Fossálana, suður hjá Sléttabóli og áfram fjörugötuna beint til sjávar. Gatan er vel stikuð og vel troðin brautin. Á þessum árum er hér tölu- vert fjölfarin leið á vorin. Fljótshverf- ingar og Austursíðumenn fá allri þungavöru sinni skipað upp við Hvalsíki. Vörunum er staflað á sand- inn, og breitt segl yfir. Síðan verða menn að leggja nótt við dag að flytja vörur sínar til bæja. Þegar kemur sunnarlega á sandinn flýtur vatn þar yfir á víðáttumiklu svæði, mismunandi djúpt, frá því að vera í hófskegg upp í að vera á miðjan legg eða meira. Þegar hart var riðið þar, gengu gusur af vatni og sandi yfir menn og hesta. Ekki var um það fengist og lítt dregið úr ferðinni. Við náum öftustu mönnunum rétt áður en komið er á fjörukambinn. Nú láta menn hendur standa fram úr ermum. Allir fara úr skóm og sokkum og öll- um fötum nema nærbuxunum. Sumir binda snæri yfrum sig til að missa þær ekki niður. ÞeUa hefur sjálfsagt verið aldagömul hefð. Flestir eru í ökkla- síðum, prjónuðum ullamærbuxum hvítum, sumir blákembdum. Gunnar á Hraunbóli sker sig úr. Hans buxur eru dökkgráar, næstum svartar. Nú er gengið að ósnum. Hér bætist drjúgur sopi við Atlantshafið. Allar ár úr Fljótshverfi ásamt meginhluta Núpsvatna höfðu hér þá sameiginlegt útfall. Veiðimennirnir skiptast í tvo hópa. Annar hópurinn fer með nótina upp með ósnum svo langt sem hæfi- legt þótti og dregur hana þar út í. Steingrímur er í þeim hópnum. Hinir, þar á meðal ég, taka langan kaðal og vaða með hann út í, svo langt sem kaðallinn nær, rétt ofan við þar sem 86 Heima er bezl

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.